Við könnumst öll við umræðuna um hvort var á undan, eggið eða hænan. Það sama gildir svo sem um hugtakanotkun, spurningin er hvort við þurfum fyrst að búa til hugtak um fyrirbæri eða eitthvað verður til og svo kemur orð yfir það. Kannski er hið rétta að orð kemur einungis fram þegar þörf er á því, ef við erum ekki að tala um eitthvað eða teljum okkur ekki þurfa á því að halda, þá kemur orðið ekki eða nær aldrei flugi.
Orðið sem ég vil gefa hér vængi til að ná flugi til að verða vonandi orð ársins 2022, er rétt að yfirgefa hreiðrið núna. Orðið er inngilding.
Íslenskuprófessorinn Eiríkur Rögnvaldsson hefur fjallað um nýyrði og bendir á að orðið var upphaflega þýtt af Berglindi Rós Magnús og lýsti skóla án aðgreiningar. En lítum aðeins nánar á hugtökin sem notuð eru í umræðunni.
Í umræðu um innflytjendur hafa verið að skilgreind þrjú hugtök sem lýsa nálgun okkar og standa fyrir ákveðin viðhorf. Þau eru:
- aðlögun
- fjölmenningarstefna
- inngilding
Aðlögun
Aðlögun má skilgreina sem tilraun til að breyta því sem er öðruvísi í það sem fyrir er.
Í mínum (útlenska) málskilningi er aðlögun alltaf tengd sagnorðinu“að laga“. Við þurfum að laga þegar eitthvað er bilað eða passar ekki. Í þessu tilfelli er ég ekki Íslendingur eins og allir hinir (hvað sem það nú þýðir) og nú þarf að breyta mér og beygla þangað til ég passa inn í mótið. Ef við hugsum þetta svona, ef lokatakmarkið er að ég verði Íslendingur eins og hinir þá er ég dæmd til að misheppnast, því ég verð það aldrei. Í mínu tilfelli þá byrjaði ég ekki að tala íslensku fyrr en ég flutti hingað á fertugsaldri, ég losna aldrei við hreiminn eða málvillur hér og þar. Þekking og reynsla, ekki bara mín eigin heldur þjóðarminni fylgja mér og ef þetta er annaðhvort einskis virði eða jafnvel talið vera byrði þá er ég, og önnur sem eins er komið fyrir, dæmd út á jaðarinn.
Aðlögunin er í raun kúgunartæki meirihluta sem vill ekki samþykkja þau sem öðruvísi eru, eða halda þeim fyrir utan vegna þess að þau eru þannig. Þetta er ekki endilega meðvitað, engin illgirni, einungis ótti við að þurfa að laga sig að því sem er framandi og nýtt. Hugmyndin um aðlögun er meira að segja hugsuð sem góðverk, að gera innflytjendum kleift að taka þátt í samfélaginu á forsendum þess en ekki þeirra.
Fjölmenning
Fjölmenningarstefnan hefur verið leið sem Ísland hefur farið að undanförnu, þetta er samfélag sem heldur fjölmenningarhátíðir og telur sig vera upplýst og framsækið vegna þess en hleypir samt ekki innflytjendum í ábyrgðarstöður eða hindrar menntun erlendra ungmenna vegna þess að þau tala ekki Norðurlandamál. Það vantar alls ekki umburðarlyndi á Íslandi, það er meira að segja mjög mikið, vil ég segja, en þegar útlendingar leita sér að annarri vinnu en fyrir verkamenn rekast þeir aftur og aftur á kröfu um að tala fullkomna íslensku, ensku og Norðurlandamál. Þar með er búið að skella dyrum á velflesta innflytjendur sem kannski hafa góða þekkingu og hæfileika til að starfa á tilteknum vettvangi.
Þetta skref í þróun samfélagsins okkar var kannski bara aðeins mannlegri framlenging á aðlögun. Hér er gert ráð fyrir aðeins betri stuðningi en þetta breytir í rauninni engu um viðhorfið: þeir sem koma utan frá þurfa að breyta sjálfum sér til þess að fá aðgang að því sem yfirburðasamfélagið hefur fram að færa. Sem er á endanum einfaldlega réttlæting á útilokun á þeim sem ná ekki að breyta sjálfum sér nægilega mikið, hvort sem það er viljandi eða ef þeir einfaldlega fá ekki tækifæri til þess.
Inngilding
Inngilding er mælanlegt markmið um þátttöku allra í því sem samfélag hefur upp á að bjóða í menntun, atvinnumöguleikum, lýðheilsu, opinberri stjórnsýslu, menningu, íbúalýðræði.
Þátttaka allra í samfélaginu er andstaða við útilokun og til þess að ná því markmiði þarf að auka sýnileika þeirra mismunandi möguleika sem í boði eru og ryðja þarf úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir að fólk nýti þessi tækifæri.
Fjölbreytileiki hefur alltaf marga kosti, felur í sér betri ákvarðanatöku, fleiri hugmyndir o.s.frv. Um þetta efast fáir, en það er þó vanmetið í viðskiptalífinu að blandaðar stjórnir af konum og körlum skila betri árangri, mismunandi sjónarmið eru uppi, áhættusækni fær á sig annan blæ og þar fram eftir götunum.
Inngilding þýðir ekki að við gerum engar kröfur til dæmis varðandi íslenskukunnáttu eða mannréttindi sem gilda í okkar samfélagi hér. Inngilding er einfaldlega öðruvísi nálgun, annað viðhorf.
Inngilding gengur út frá því að hver einstaklingur fái að njóta sín til fulls og samfélagið þarf að vera þannig uppbyggt að það gerir honum það kleift. Einmitt eins og skóli án aðgreiningar sem snýst ekki um að sleppa tilteknu námsefni heldur að efla kerfið svo það útiloki engan.
Inngilding krefst þess ekki af einstaklingum að þeir þurfi að breytast í öllu til þess að fá aðgang að samfélaginu. Inngilding raðar ekki fólki eftir verðmætum út frá einni hugmynd og gildismati heldur lítur á fjölbreytileikann sem kost, jafnvel undirstöðu jákvæðrar þróunar. Inngilding krefst hins vegar af kerfinu að sé nægilega sveigjanlegt að allir hafi tækifæri til að taka þátt.
Þetta þýðir að þeir sem hafa búið hér alla ævi þeir sleppa ekki við að þurfa að læra. Heimurinn breytist og ekki bara vegna íbúasamsetningar hér á landi. Við þurfum líka að læra að umgangast loftslagsbreytingar eða tæknilega þróun, það er ekkert öðruvísi. Jú, það þarf stundum að breyta aðeins til þegar maður skilur að eitthvað er orðið úrelt eða var kannski aldrei svo sniðugt. Það var nú fyrst pínu vesen að læra að flokka í staðinn fyrir að henda bara öllu í sömu ruslafötuna. En með dálitlu framtaki þá lærist það og manni líður eiginlega miklu betur vitandi að maður leggur sitt af mörkum til að bjarga umhverfinu.
Á þennan hátt er sambúð fólks af mörgum menningarheimum aldrei nein ógn við menningu þeirra sem hafa búið hér alla ævi. Kannski er einfaldast að slá á hræðslu þeirra með að skoða matarmenningu – ég kom til Íslands í fyrsta skipti 1991 var úrval á veitingastöðum enn frekar fábrotið, það voru samt komnir einhverjar staðir sem buðu upp á ítalskan eða asískan mat. Svo bættust fleiri og fleiri inn í þennan hóp, til dæmis tapas-staðir með spænska smárétti. Á síðustu 2-3 árum hef ég tekið eftir því að fjölmargir veitingastaðir bjóða nú upp á að borða frekar 2-3 smárétti en eina stóra máltíð. En úrvalið er alls ekki bara spænskt heldur er líka heilmikið af íslenskum réttum í boði. Innblásturinn kom að utan sem viðbót en svo gerði íslenskt samfélag – eða frekar samfélagið á Íslandi – þetta að sínu og allir græða á því, enginn missir neitt. Og úrvalið er orðið það mikið að allir finna eitthvað sem þeim líður vel með án þess að láta trufla sig af einhverjum stöðum sem bjóða ekki upp á uppáhaldsmatinn þeirra.
Við þurfum sem sagt ekki fjölmenningarstefnu fyrir innflytjendur, heldur algilda hönnun fyrir allt samfélagið.
Inngilding þýðir að við sættum okkur ekki bara við fjölbreytileikann heldur skilgreinum það sem eðlilegt ástand að við erum ekki öll eins og það er ábyrgð okkar sem fara með völd að skapa rammann í kringum það svo að allir vinni.
Og hér er ég nú að einhverju leyti sammála skæðustu gagnrýnendum í athugasemdakerfunum sem benda á hvað hefur farið úrskeiðis á Norðurlöndunum í málefnum innflytjenda. Því þessi hálfkæra leið að vera góð við útlendinga en hleypa þeim samt ekki að hefur ekki gengið upp heldur skapar tvískipt samfélag til frambúðar. Mín leið út úr því er hins vegar ekki meiri útilokun heldur minni – eða frekar sagt, engin.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.