Sífellt færri fá þann draum uppfylltan að verða blaðamenn og starfa á fjölmiðli. Það að segja fréttir, skýra út málefni sem brenna á fólki, kafa djúpt í orð og gjörðir valdhafa og setja í samhengi er á herðum færri og færri einstaklinga. Blaða- og fréttamönnum fækkar og fáar lausnir eru í sjónmáli til að sporna við þróuninni.
Þessi afleita þróun á sér ekki aðeins stað hér á landi, en meira en helmingi færri eru starfandi á fjölmiðlum nú en voru fyrir um áratug samkvæmt Menningarvísum Hagstofunnar, heldur er staðan svipuð víða um heim. Fréttamiðlar sem taka hlutverk sitt alvarlega og leitast við að rækja hlutverk sitt um að veita valdhöfum aðhald, eiga sérlega erfitt uppdráttar. Fréttir, fréttaskýringar og hvers kyns dýpri greiningar fjölmiðla og rannsóknarvinna kostar verulega fjármuni, hver svo sem miðillinn er, en gjarnan hriktir í tekjustoðum, sem setur ákveðið strik í reikninginn.
Fagmennska kostar
Fagleg og vönduð blaðamennska kostar tíma og þekkingu. Fjárfesting í menntun og uppbyggingu blaðamanna sem þroskast yfir í að skila af sér mikilvægum greinum, fréttum, viðtölum, fréttaskýringum, þáttum eða öðru sem hjálpar okkur að skilja veröldina kemur margfalt til baka til samfélagsins.
Innlendir miðlar fá ekki hluta af auknu auglýsingafé
Auglýsingar eru ein af þeim tekjustoðum sem flestir fjölmiðlar reiða sig á upp að vissu marki. Enginn vill þó vera alveg háður auglýsingum, það hafa til að mynda fríblöð rekið sig á. Tekjur af auglýsingum sveiflast gjarnan hressilega eftir árstíðum og mánuðum þannig að erfitt getur reynst að sjá fram í tímann.
Eins og fram kom í nýlegri samantekt Hagstofunnar um skiptingu auglýsingafjár sem greint var frá í frétt Kjarnans þá hafa erlendir miðlar aldrei tekið til sín stærri hluta af íslensku auglýsingakökunni. Í sömu tölum kem fram að kakan hefur aldrei verið stærri, en innlendir fjölmiðlar njóta þess ekki heldur tæknifyrirtæki á borð við Facebook og Google.
Fyrir framkvæmdastjóra á fjölmiðli er þetta graf afskaplega sorgleg sjón. Við vitum vel að það er ekki hægt að keppa um dekkun og birtingar við Mark Zuckerberg eða Google, það verður aldrei hægt. En það er hægt að gera ýmislegt til að tryggja að innlendir fjölmiðlar geti keppt á sanngjarnan hátt við tæknirisana. Til dæmis mætti hlusta á tillögur sem Blaðamannafélag Íslands hefur lagt fram, en félagið hefur ítrekað skorað á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að styðja við einkarekna fjölmiðla.
Það telur félagið meðal annars hægt að gera með því að skattleggja þessi erlendu fyrirtæki. Þannig myndi samkeppnisstaðan skána en lagt er til að gengið sé enn lengra til stuðnings íslenskum fjölmiðlum og láta það fjármagn sem skattlagning erlendu tæknirisanna skilar renna í sérstakan sjóð sem væri úthlutað óskert til íslenskra einkarekinna miðla, líkt og segir í tillögunum.
Engin stefna hjá hinu opinbera um auglýsingakaup
Önnur tillaga snýr að því að hið opinbera setji sér stefnu um auglýsingakaup. Ríki, stofnanir og sveitarfélög myndu fara fram með góðu fordæmi og taka ákvörðun um að beina sínu auglýsingafé, sem er umtalsvert, til innlendra miðla í stað þess að styrkja í rauknum mæli erlenda tæknirisa sem ekkert leggja til samfélagsins. Í raun er furðulegt að þessi stefna hafi enn ekki litið dagsins ljós, ekki síst í ljósi aukinnar vitundar um mikilvægi þess að sýna samfélagslega ábyrgð.
Fjölmiðlar skipta sköpum fyrir samfélagið, þeir hafa hlutverk í lýðræðisríki og það skiptir máli að þeir séu til. Og fjölmiðlar lifa ekki án peninga, ekki frekar en önnur fyrirtæki. Blaðamönnum fjölgar heldur ekki án þess að fjölmiðlar styrkist.
Varðandi aðra auglýsendur en hið opinbera, venjuleg fyrirtæki sem eru að reyna að ná athygli á sínar vörur og þjónustu, þá er auðvitað skiljanlegt að þau nýti sér öflugar auglýsingavélar Facebook og Google. En innlendir miðlar þurfa kannski, auk þess að sýna fram á tölfræði um birtingar, að höfða til þess í auknum mæli að auglýsendur sýni samfélagslega ábyrgð og beini auglýsingafé sínu til innlendra fjölmiðla.
Lesendur sýna samfélagslega ábyrgð
Áskriftir eða styrkir eru önnur leið til að afla fjár fyrir fjölmiðla. Þá eru það lesendur, áhorfendur, neytendur sem greiða fyrir efnið. Þeir sem hafa áhuga greiða fyrir lesturinn, áhorfið eða hlustunina. Þetta er góð leið að því leyti að um er að ræða fjölda smærri upphæða, og sveiflurnar því gjarnan mun minni milli mánaða heldur en í auglýsingum. Þótt nokkrir detti út milli mánaða hefur það ekki eins mikil áhrif á tekjur eins og ef auglýsingasamningur dettur út.
Hjá Kjarnanum eru styrkir frá lesendum um helmingur tekna, fólkið tekur þannig virkan þátt í að halda miðlinum úti og má segja að lesendur sýni þannig samfélagslega ábyrgð í verki.
Samkeppnin í heimi fjölmiðla snýst þó ekki endilega bara um að keppa um auglýsingafé og áskrifendur eða styrkjendur. Hún snýst um tíma fólks.
Keppnin sem við á Kjarnanum tökum þátt í á hverjum degi gengur út á að fá fólk til að setja tíma sinn í að lesa okkar fréttir, að lesa okkar fréttaskýringar. Hún snýst um að fá fólk til að setja tíma sinn (og helst peninga líka) í Kjarnann frekar en að horfa á Netflix, frekar en að ryksuga stofuna, frekar en að lesa dagblað, frekar en að skrolla á TikTok eða Facebook.
Stjórnmálamenn hafa gengið of skammt
En þarna leynist einmitt kjarni málsins - það er svo margt sem er hægt að verja tíma sínum í, annað en að lesa fréttir. Margt annað hægt að gera en að lesa fréttir um vaxtaákvarðanir, vindvirkjanir eða verðbólguþrýsting. Af hverju ekki að fara bara til Tene? Það er hægt að safna fyrir því með því að leggja fyrir andvirði þess sem annars væri varið í styrk til Kjarnans eða áskrift að einhverjum fjölmiðli mánaðarlega. Og það er hægt að nota tímann sem færi í að lesa Kjarnann í að vinna fyrir peningum sem geta gengið upp í ferðina til Tene.
Það er mikið lagt á almenning að eiga að halda uppi fjölmiðlum, en stjórnmálamenn hafa hingað til viljað ganga mjög skammt í að styðja við einkarekna fjölmiðla. Miðað við nýjustu fréttir sýnist okkur að enn eigi að skipa nefnd til að ræða um hvernig megi styðja við fjölmiðla. Lesendur okkar eru sú nefnd sem skiptir mestu og við erum ákaflega þakklát þeirri nefnd fyrir að kjósa Kjarnann. Draumurinn væri þó auðvitað að stækka, eflast, ráða fleiri blaðamenn og geta stundað enn meira af faglegri og vandaðri blaðamennsku, því við trúum því að það skipti sköpum fyrir samfélagið.
Fækkun blaðamanna, veikar tekjustoðir og ósanngjörn samkeppni við erlenda miðla eru ekki ný sannindi fyrir okkur sem stýrum fjölmiðlum heldur óheillaþróun sem stjórnmálamenn hafa verið minntir á margoft síðustu ár að þurfi að snúa við. Almenningur getur gert sitt með því að styrkja eða gerast áskrifendur af þeim fjölmiðlum sem þeim líkar við og auglýsendur geta sýnt samfélagslega ábyrgð, en það eru þó fyrst og fremst ráðamenn sem þurfa að taka við sér.
Það er ekkert að því að fara til Tene, en við þurfum líka fréttir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Kjarnans miðla ehf.