Við búum í samfélagi sem lítur niður á fátækt fólk vegna þess að því hefur verið troðið inn í hausinn okkar að fátækt fólk sé það vegna persónulegs misbrests. Það hljóti að vera eitthvað að þeim sem eiga ekki nægan pening til að kaupa mat, þau hljóti að geta keypt ódýrari vörur og skipulagt innkaupin betur. Þessi hugsunarháttur er afleiðing nýfrjálshyggjunnar sem hampar einstaklingshyggjunni, vill ekki að hið opinbera skipti sér af okkur og hamrar á því að við berum ábyrgð á okkar eigin lífi. Þau sem eiga fulla skápa af matvörum, húsnæði og tíma til að sinna félagslífinu hafa verið dugleg og unnið sér inn fyrir sínu. Hin eigi greinilega eftir að læra á lífið.
Rót vandans er ekki til umræðu, ójöfnuðurinn er ekki ávarpaður. Ríkustu fjölskyldurnar sópa til sín eignum og fjármunum á meðan að þriðjungur heimila á ekkert eftir í lok mánaðar. Stór hluti þarf að safna skuldum til að láta dæmið ganga upp og er þannig í mínus um hver mánaðarmót. Misskipting er ekki tekin til greina og manneskjum er gert að bera ábyrgð á sér og lífsafkomunni einum og óstuddum. Skilaboðin eru þau að það sé okkar að grípa tækifærin sem lífið hefur upp á að bjóða.
Þau sem missa af tækifæralestinni og eru komin í hyldýpi vonleysis, er veitt örlítil viðurkenning á sinni stöðu. Þannig er leigjendum veitt leyfi til að sækja um húsnæðisbætur svo greiða megi niður okurleigu fégráðugra leigusala. Slíkt viðheldur þó misskiptingunni þar sem það fer í að fita efnahagsreikning leigufélaganna. Þau sem ráða ekki við hinn „frjálsa“ leigumarkað fá að sækja um félagslegt leiguhúsnæði gegn því að bera sál sína á borð yfirvalda sem eiga að meta hvort þú eigir skilið að fá stuðning í lífinu.
Ef þér er sýnd miskunn og þú ert metinn í þörf fyrir félagslegt húsnæði hjá borginni, þá máttu gjöra svo vel að bíða á listanum með hinum 864 manneskjunum sem eru daglega í streitukasti og er gert að bíða við óviðráðanlegar aðstæður. Þú átt samt að vera þakklát fyrir það að „aldrei hafi áður verið byggt jafn mikið húsnæði“ og að biðlistar hafi styst um helming á nokkrum árum. Ef það væri hægt að búa í biðlistum væri ef til vill hægt að gleðjast yfir því að stjórn borgarinnar hafi ákveðið að fjölga félagslegum íbúðum um 348 til næstu fimm ára, á meðan að 864 manneskjur bíða nú á ört stækkandi biðlista. Borgarstjórn hafnar félagshyggjunni og leyfir hugmyndafræði markaðsins að ráða för.
Nær allar hliðar mannlegs samfélags hafa verið gerðar að vöru sem á að selja fyrir ákveðið verð. Þau sem stjórna skútunni trúa því að ef ríku fólki er gefið fullt af fjármagni og sérreglur skapaðar í kringum þau, muni allir græða. Þannig megi leysa sköpunarkraft þeirra öflugustu úr læðingi. Ríka fólkið muni þannig skapa verðmæti fyrir okkur öll.
Slíkt er fjarri lagi þar sem allir hinir eru látnir bera byrðina af skattaafsláttum til hinna ríku. Og auðurinn trítlar aldrei niður. Hann safnast saman á toppnum og honum er haldið þar. Ef eitthvað þor væri í borgarstjórn, þá hefði hún samþykkt kröfu Sósíalista um að senda áskorun á ríkið sem var þess efnis að fjármagnseigendur eigi líka að greiða hluta af sínum tekjum til samfélagsins í formi útsvars. Sjóður borgarinnar hefði stækkað um 9 milljarða á síðasta ári ef fjármagnseigendur hefðu verið krafðir um greiðslu útsvars til jafns á við launafólk. Það er greinilega of stór bón að leggja slíkt fram og gæti styggt ríka fólkið, áfram skal haldið á þeirri braut að leggja byrðarnar á þau sem ekki geta borið þær og ef það er ekki nóg, þá eru börn rukkuð fyrir nauðsynlega grunnþjónustu.
Frír skólamatur til barna er afskrifað sem peningaeyðsla þar sem fullt af foreldrum geti greitt fyrir mat barna sinna. Ef samfélagið færi að bera ábyrgð á næringu allra barna, þá værum við að borga fyrir þau sem hafa efni á reikningnum, það gengur ekki. Þarna er nýfrjálshyggjan enn og aftur búin að heilaþvo okkur og sannfæra okkur um að við eigum einungis að hjálpa þeim allra fátækustu að greiða fyrir skólamat barna sinna en alls ekki að fara borga undir millistéttarbörnin og ríkustu börnin.
Stöldrum við hér. Ef við næðum í fjármagn til þeirra ríkustu sem hafa verið undanþegnir því að greiða til jafns á við aðra í samneysluna, þá gætum við skapað nógu öfluga sjóði til að afnema gjaldtöku í grunnstoðum samfélagsins, líkt og fyrir máltíðir grunnskólabarna.
Sjálfsásökunarsvipan sem fátækir þekkja of vel þarf að hverfa úr okkar samfélagi, þar sem það er ekkert að fátæku fólki en gríðarlega mikið að stjórnvöldum sem skapa og viðhalda ójöfnuði og misskiptingu.
Höfundur er borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.