Í drögum ráðherra að nýrri reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum segir svo í 4. gr. laga um innra eftirlit:
Mælingar hjá opinberri rannsóknastofu á blóðrauða og blóðkornahlutfalli á marktæku hlutfalli hryssanna á hverju ári.
Í umsögn Ísteka ehf. í samráðsgátt stjórnvalda um nýju reglugerðina segir:
„Varðandi lið b(áður e) er lagt til að honum verði breytt þannig að hann verði með sama hætti og reglur MAST voru um árabil. Mikil fylgni er venjulega á milli hemóglóbíns annars vegar og hematókrítar hins vegar og því tilgangslítið að mæla hvoru tveggja. Skilningur er á því að gott sé að eiga nýleg gögn til staðar til að grípa til á hverjum tíma. Rétt er þó að benda á að á meðan engu er breytt við blóðtökuna er útilokað að nýr sannleikur geti orðið til með þessari aðferðafræði og mætti mæla sjaldnar. Til gamans má rifja upp orð sem eignuð hafa verið Albert Einstein: „insanity is doing the same thing over and over and expecting different results“.“
Í fyrsta lagi: Til þess að skilja hvað það er sem Ísteka leggur til er rétt að skoða hvaða reglur MAST er að vitna í. MAST setur starfsemi Ísteka skilyrði um innra eftirlit. MAST hefur frá árinu 2017 gert kröfu um að Ísteka mæli reglulega styrk hemóglóbins (blóðrauða) hjá marktæku úrtaki af blóðtökuhryssum fyrir blóðtöku og á blóðtökutímabilinu og skili stofnuninni niðurstöðum þeirra mælinga annað hvert ár.
Í öðru lagi: Ísteka og MAST hafa lengi verið hvött til að afhenda niðurstöður rannsókna sem þau hafa vitnað til um árabil um það hve vel hryssur þola blóðtökur. Engin svör bárust við þessum fyrirspurnum fyrr en snemma árs 2022. Þá lét Ísteka af hendi fremur óljós gögn um meðaltals hemóglóbíngildi og í skýrslu MAST um blóðmerahald er birt tafla með niðurstöðum mælinga á hemóglóbíni á árunum 2011, 2014, 2017, 2019 og 2021 ásamt upplýsingum um fjölda hryssa sem liggja að baki hverju meðalgildi. Úrtakið er tæplega 2% af blóðtökuhryssum hin síðari ár en um 1% á fyrri hluta tímabilsins. Úrtakið eru slembiúrtak og skiptist eftir landsvæðum. Ekki eru gefnar upplýsingar um lögun dreifingar hemóglóbíngildanna fyrir utan meðaltöl og staðalfrávik, en flestar nútímalegar rannsóknir gefa annað hvort upp allar mælingar eða a.m.k. skekkingar („skewness“) og kurtosis. (1)
Hin megin rannsóknin sem Ísteka og MAST styðjast við var gerð árið 1982 á vegum fyrirtækisins G. Ólafsson sem hóf blóðsöfnun til rannsókna. Um er að ræða óritrýnda grein sem unnin var af Eggerti Gunnarssyni dýralækni, einum af upphafsmönnum blóðmerahalds og síðar starfsmanni Ísteka. Greinin birtist í tímaritinu Frey sem gefið var út af Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Sú rannsókn er því ekki óháð og hefur engin óháð rannsókn verið gefin út sem staðfestir upphaflegu athugun Eggerts.
Engar óháðar rannsóknir virðast því hafa verið gerðar á heilsu og afdrifum þessara dýra í þau 40 ár sem blóðtaka hefur verið stunduð.
Það fyrirkomulag sem hér hefur tíðkast að hagsmunaaðilar af blóðtöku beri ábyrgð á rannsóknum varpar rýrð á áreiðanleika rannsóknanna. Nefna má tvö nýleg dæmi um hættu á hagsmunaárekstrum við slíkt fyrirkomulag sem tengjast Purdue pharma og ópíóíðafaraldrinum annars vegar og rannsóknarniðurstöðum Andrew Wakefield um tengsl MMRI bóluefnisins við einhverfu hjá börnum hins vegar.
Þess vegna ber að fagna því að í drögum reglugerðarinnar sé ákvæði um að blóðrannsóknir munu framvegis fara fram hjá opinberri rannsóknarstofu. Hins vegar getur ekki gengið að rannsóknum verði áfram stýrt af Ísteka, þar sem um augljósa hagsmunaárekstra er að ræða svo ekki sé nefnt að metnaður virðist vera mjög lítill samanber ummæli þeirra hér að ofan.
Í þriðja lagi: Þrátt fyrir að gögn Ísteka og MAST séu ekki unnin af óháðum aðila höfum við reynt að nota þau til þess að draga ályktanir um blóðbúskap hryssanna. Við þriðju viku blóðtöku er meðaltalsmagn hemóglóbíns
um 10,6 g/dl og staðalfráviki 1,3 skv. mælingum Ísteka og MAST. Við höfum sett þessar niðurstöður inn í hermilíkan til þess að sjá hve margar hryssur falla verulega í blóðmagni við blóðtökuna. Niðurstöður
okkar eru þær að af 5 þúsund blóðtökuhryssum í landinu má ætla að á blóðtökutímabilinu séu lægstu hemóglóbíngildin eftirfarandi (2):
2 hryssur fari undir 6 g/dl
22 hryssur liggi á bilinu 6-7 g/dl
133 hryssur liggi á bilinu 7-8 g/dl
475 hryssur liggi einhvern tíma á bilinu 8-9 g/dl
Ískyggilegt er að sjá hversu margar hryssur liggja hættulega lágt í hemóglóbíni með tilheyrandi heilsubrestum og kvölum.
Í fjórða lagi: Nauðsynlegt er að þeir sem bera ábyrgð á hryssunum og allir sem koma að þessum iðnaði skilji þau áhrif sem blóðtakan hefur á lífeðlisfræði hryssanna og að áhætta er tekin með heilsu þeirra í hvert sinn sem tekið úr þeim blóð. Rétt er að halda því til haga að 15-20% af blóðrúmmáli hryssanna er fjarlægt í hverri viku á meðan á blóðtöku stendur. Hryssurnar eru fylfullar og oft mjólkandi og því enn viðkvæmari en aðrar. Hætta er á blóðþurrðarlosti.
Mæling á hemóglóbíngildum úr úrtaki sem telur innan við 2% blóðtökuhryssa leiðir hvorki í ljós bein áhrif á dýrin við blóðtökuna né langtímaáhrif hennar. Sú nýbreytni er tekin upp með nýju reglugerðinni að mæla skuli hematókrít(blóðkornahlutfall)einnig sem styður við hemóglóbínrannsóknina og eykur allt öryggi þar sem frávik minnka. Þessar mælingar duga ekki einar sér. Báðar rannsóknir eru háðar vökvabúskap dýrsins eins og fjölmargar mælingar á hestum við æfingar og keppni hafa sýnt.
Við teljum tillögur ráðherra í reglugerðardrögunum mjög til bóta og að niðurstöður muni auka skilning á blóðbúskap hryssanna. Hér að neðan í fimmta lið eru tillögur að fleiri úrbótum sem við teljum mikilvægt að verði til staðar í þeirri reglugerð sem verður gildandi:
Í fimmta lagi: Til þess að geta metið áhrif blóðtökunnar þarf annars vegar að rannsaka bein áhrif blóðtökunnar þegar hún er framkvæmd og hins vegar langtímaáhrif á heilsu hryssanna. Hér að neðan leggjum við til hvernig réttast væri að hátta mælingum:
A. Varðandi bein áhrif blóðtökunnar og hins mikla blóðmissis sem hryssurnar verða fyrir þarf að mæla lífsmörk fyrir, á meðan og í nokkrar klukkustundir eftir blóðtökuna. Blóðþrýstingur, púls og öndunartíðni eru lágmarks mælingar. Við teljum að vel fari á að þessar mælingar fari fram við hverja blóðtöku og niðurstöður verði skráðar.
B. Lágmarks blóðrannsóknir á langtímaáhrifum blóðtöku eru blóðhagur, netfrumur, ferritín, járn og járnbindigeta.
Mælingar á blóðhag gagnast við greiningu á sjúkdómum í blóði og framvindu þeirra. Þar er m.a. mælt hemóglóbín (blóðrauði), hematókrít (blóðkornahlutfall), MCH (meðalhemóglóbín í rauðu blóðkorni), MCV (meðalstærð rauðra blóðkorna), MCHC (meðalhemóglóbínþéttni rauðra blóðkorna), fjöldi rauðra blóðkorna, hvítra blóðkorna, blóðflagna og rdw (mælikvarði á mismunandi stærð rauðra blóðkorna). Mæling á fjölda netfruma (reticulocyta) er einnig gagnleg þar sem fjöldi þeirra eykst í blóði við blóðskort m.a. vegna blóðtaps, hversu mikið fer eftir alvarleika blóðtapsins. Þessar rannsóknir gefa nokkuð ásættanlega heildarmynd af blóðheilsu dýranna og þarf að mæla í það minnsta árlega fyrir blóðtöku 1,4 og 6 og u.þ.b. 1-2 vikum eftir blóðtöku tímabilið.
Járn, ferritín og járnbindigetu þarf að mæla fyrir blóðtöku 1,4 og u.þ.b. 1-2 vikum eftir blóðtöku tímabilið til að meta stöðu á járnbúskap hryssanna. En þær eru í aukinni hættu á járnleysi bæði vegna blóðtökunnar og þess að þær eru fylfullar.
Fyrir hinar blóðtökurnar (2,3 og 5) er hægt að láta duga mælingu á hemoglóbíni og hematókrít nema niðurstöður hinna mælinganna gefi tilefni til annars.
Þar sem verulegur einstaklingsmunur er á hryssunum eins og öðrum spendýrum þarf að mæla þessi gildi helst hjá öllum dýrunum til þess að fá raunsanna mynd. Nauðsynlegt er að óháður aðili sjái um þessar rannsóknir og að niðurstöður verði gerðar opinberar og aðgengilegar fyrir hverja og eina hryssu sem rannsökuð er.
Höfundar eru Guðrún Sch. Thorsteinsson hestaeigandi og læknir og Jón Sch. Thorsteinsson stærðfræðingur og framkvæmdastjóri.
Heimildir:
(1) Meðaltöl Ísteka milli ára virðast vera einföld meðaltöl. Betur færi á því að vegin meðaltöl væru notuð enda sveiflast fjöldi mældra hryssa úr 1% í 2% á milli einstakra ára.
(2) Hannað var til hermilíkan sem hermdi eftir blóðtökunni. Meðaltal og staðalfrávik voru fengin frá Ísteka. Notuð var normaldreifingin. Ítrekað var milljón sinnum og niðurstöður yfirfærðar á 5000 hryssur. Einnig var gerð tilraun með að nota skekkingu (skewness) og kurtosis sem voru fengin úr erlendum rannsóknum á þýðum þar sem magn hgb var mælt. Seinna líkanið gaf til kynna að enn fleiri hryssur fengju mjög lág hgb gildi. Líkönin eru ekki fullkomin og betra færi á því að Ísteka&Mast gerðu allar mælingar sínar opinberar.