Fyrir skömmu birtust nýjustu mælingar á Velsældarvísitölu mannkyns (Human Development Index) og sýndu fyrstu niðursveiflu síðan mælingar hófust fyrir síðustu aldamót. Velsældarvísitalan var fyrst hugsuð sem mótvægi við þá „velsæld“ sem vaxandi hagvöxtur og landsframleiðsla ríkja átti að sýna – því þar sagði fátt af raunverulegum lífskjörum alls fólksins. Þau eru nú á niðurleið. Svona fréttir eru daglegar. Nú er sýnt fram á að ríki Evrópusambandsins sói meiri mat en þau flytja inn, meira en 150 milljónum tonna á ári. Í samhengi við þá hræðilegu hungursneyð sem blasir við á Horni Afríku eftir fimm ár í röð án uppskeru er matarsóun Evrópusambandsins árlega fimm sinnum meiri en nemur matarþörfinni í neyðaraðstoð í þessum heimshluta.
Nú í mánuðinum kom fram ákall leiðtoga heimsins um neyðarástand í fæðuöryggismálum. Bætum aðeins í: Í vikunni var enn hnykkt á því að ef mannkyn vinnur kol, olíu og gas úr þeim lindum og námum sem nú þegar eru þekktar muni öll markmið um að halda hlýnun innan marka verða marklaus. Reyndar ættum við að takmarka okkur við vinnslu á innan við helmingi þess sem þegar er vitað um. Samt verja ríki heimsins meira fé í leit að olíu og gasi en í leit að vistvænum lausnum.
Svona fréttir eru niðurdrepandi og óskiljanlegar einar og sér og þess vegna leitast ég við í nýrri bók minni, Heimurinn eins og hann er, að ræða samhengi hlutanna. Að skoða heimsmyndina minnir mig stundum á myndverk frá Feneyjatvíæringnum 2019 þar sem listamaðurinn hafði klippt saman ræmur úr 48 hörmungakvikmyndum og ruglað saman hljóðrásum frá þeim öllum svo yfir mann dundi sjónræn og hljóðræn upplifun um magnaða klikkun þar sem hver lífsreynsla var fyrir sig en allt í heild samt.
Því eins og Leónardó da Vinci sagði: Allt tengist.
Ekki upplífgandi
Því miður er samhengið ekki beint upplífgandi. Stærsti einstaki valdur gróðurhúsalofttegunda og þar með hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum er landbúnaður. Fæðuöflun mannkyns. Hrunið í vistkerfum heimsins tengist þessu tvennu beint. Við höfum eytt 70 prósentum af plöntum og dýrum síðustu 50 ár til að kynda undir ofnum iðnríkjanna og breyta villtum lendum í ræktarlönd fyrir einsleitar plöntur sem fóðra okkur. Milljarðar manna eru á leið inn á sviðið næstu þrjá áratugi og hvaðan kemur fæða handa þeim?
Samhengið
Ef vandamál dagsins í dag tengjast innbyrðis skulum við tengja þær lausnir sem bent hefur verið á og hversu líklegt er að þeim verði náð.
1) Að draga úr losun og miða við að hlýnun fari ekki upp fyrir 1,5 gráður miðað við hitastig á jörðu fyrir iðnbyltingu. Þetta er Parísarsamkomulagið frá 2015 og það mun ekki nást. Nei, það mun ekki nást því að líkurnar eru engar ef miðað er við frammistöðu til þessa dags. Við stefnum líklega langt yfir 2 gráður og kannski í þrjár sem verður ákaflega erfitt.
2) Samtímis því að draga stórlega úr losun á næstu árum ætluðum við að ná Heimsmarkmiðunum, til dæmis um að útrýma fátækt og hungri fyrir 2030. Þau munu heldur ekki nást. Útilokað. Þetta var ljóst fyrir Kóvid og fyrir Úkraínustríð – þessi áföll tvö gera bara dökka mynd ennþá dekkri. Heimsmarkmiðin eru alls 17 með 170 undirmarkmið og líklegt er að fæstum verði náð á þeim átta uppskerutímabilum sem eftir eru fram til 2030.
Ástæðan er ekki að þau séu slæm eða óraunhæf, þau eru góð en óraunhæf - miðað við það fjármagn og kraft sem settur er í að ná þeim.
3) Árið 2020 lýstu 90 þjóðarleiðtogar yfir neyðarástandi í vistkerfum heimsins og settu það mark að árið 2030 verði komið á náttúruvænt ástand. Engin raunverulega ummerki eru um skref í þá átt sem munar um. Brenna regnskóga, bræða jökla, hita höfin, drepa dýr og plöntur? Allt heldur áfram af fítonskrafti. Svokölluð „sjötta útrýming“ í jarðsögulegum skilningi er á fullri ferð.
Þetta er samhengið: Við ætlum að draga stórlega úr útblæstri á næstu átta árum, eyða fátækt og hungri, stöðva eyðingu vistkerfanna og taka upp náttúruvæna lífshætti. Allt í einu. Á næsta augnabliki.
Þetta óviðráðanlega verkefni skýrir að Velsældarvístitala mannkyns tekur nú dýfu því við erum komin langt út fyrir þolmörk jarðar. Það er á þessari ögurstundu sem við uppgötvum að tvær sameiginlegar auðlindir alls sem lifir á jörðu eru ekki óþrjótandi: Andrúmsloftið, og tíminn sem við höfum til að takast á við vandann.
Í bókinni minni, Heimurinn eins og hann er, leyfi ég innsæinu stundum að ráða framvindu frásagnarinnar eins og sést af þessum leiðarstefnum: Allt tengist – og – tíminn vinnur ekki með okkur.
Um höfundinn: Stefán Jón Hafstein hefur um árabil starfað í utanríkisþjónustunni, m.a. í Afríku og verið fastafulltrúi Íslands hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
Greinin er byggð á úttekt höfundar í nýkútkominni bók: Heimurinn eins og hann er. Myndirnar eru einnig úr bókinni.