Heiti þessa pistils kann ef til vill að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir; að árið sem er að líða hafi verið frábært fyrir íþróttirnar. Fyrir það fyrsta þá setti Covid-ástandið íþróttastarfinu talsverðar skorður á árinu, og eins þótti árangur okkur Íslendinga á stærstu sviðum íþróttanna ekki merkilegur. Sem dæmi má nefna þótti mörgum árangur okkar fólks á Ólympíuleikunum vera óviðunandi og karlalandsliðið í knattspyrnu átti í vök að verjast innan sem utan vallar. Stærsta mál íþróttanna reyndist vera KSÍ-málið svokallaða, þar sem þó nokkrar ásakanir komu fram um kynferðislega áreitni eða ofbeldi gullkynslóðar landsliðsmanna karlalandsliðsins okkar í knattspyrnu gagnvart konum, og um þöggun knattspyrnusambandsins á málunum. Það mál hefur haft mikla eftirmála, sem ekki eru enn til lykta leiddir, en hafa þó haft í för með sér að landsliðsmenn voru teknir úr liðinu, formaður og stjórn knattspyrnusambandsins sögðu af sér, og samfélagsumræðan var mikil og tilfinningaþrungin.
Einnig opinberaði það mál að íþróttahreyfingin í heild sinni var ekki í stakk búin til að takast á við slík mál, þar sem ferlar virðast víða hafa verið óljósir og ýmis mál voru óuppgerð, og enn fremur að eitthvað væri hugsanlega í ólagi í kúltúr íþróttanna. En þó atburðarás KSÍ-málsins síðustu mánaða hafi verið sársaukafull fyrir mikið af því fólki sem að málunum kom, og óþægileg fyrir marga aðra – og það skal ekki gert lítið úr því – þá má halda því fram að atburðir ársins hafi allt í senn verið mikilvægir, tímabærir og nauðsynlegir, í stóra samhengi hlutanna.
Íþróttir og félagsleg vandamál
Það er margt gott um íþróttirnar að segja. Íþróttahreyfingin myndar stærstu frjálsu félagasamtök landsins og tengist meirihluti landsmanna íþróttahreyfingunni með einum eða öðrum hætti. Íþróttahreyfingin hefur skilað mikilvægu samfélagslegu hlutverki til að mynda í formi jákvæðrar félagsmótunar barna og ungmenna sem og til alls kyns forvarna og lýðheilsu. Eins hafa íþróttirnar glatt landann og skapað fjölbreytt störf og afleiður fyrir íslenskt efnahagslíf. Íþróttir hafa þannig mótað og virkjað fjölbreyttan félags-, menningar- og mannauð um langa hríð hér á landi, einstaklingum og samfélaginu til heilla. Þar hefur fjöldi fólks í gegnum tíðina unnið ómetanlegt starf.
Þáttaskil í íþróttunum?
Á árinu opinberuðust hin duldu mein íþróttanna þegar ásakanir um kynferðislega áreitni, misnotkun og þöggun litu dagsins ljós, og gerðu jafnframt kröfu á íþróttasamfélagið um að taka á þeim meinum í því markmiði að gera íþróttirnar heilbrigðari og uppbyggilegri. Og íþróttahreyfingin hefur reynt að bregðast við og er hún, í þessum skrifuðu orðum, að vinna hörðum höndum við að takast á við vandann og uppræta hann. Regnhlífarsamtök íþróttanna, ÍSÍ og UMFÍ, eru búin að taka málin föstum tökum og gangast við því forystuhlutverki sem þau eiga að sinna í íþróttahreyfingunni. Íþróttasamböndin og íþróttafélögin mörg hver eru búin að fara í gagngera naflaskoðun í þessum efnum þar sem þau hafa skerpt á jákvæðum og heilbrigðum gildum íþróttanna, og endurskoðað viðbrögð, vinnubrögð og ferla þegar eitthvað kemur uppá í starfinu. Skilaboðin til stjórnarfólks, þjálfara og iðkenda eru orðin skýr; fordómar, og alls kyns áreitni og ofbeldi eiga ekki að líðast í íþróttum.
Og skilaboðin eru byrjuð að ná í gegn. Ég veit dæmi þess að meistaraflokkslið í knattspyrnu karla hafi bætt inn ákvæði í sektarsjóð leikmanna þess efnis að ef leikmenn liðsins eru staðnir að því að beita neikvæðri orðræðu gegn konum, samkynhneigðum eða öðrum, þá þurfi þeir að greiða sekt í sektarsjóðinn. Þegar leikmenn eru farnir að taka það upp að berjast gegn fordómum og misrétti innan íþróttaliðanna sinna, þá eru það merki um að skilaboðin séu að ná í gegn. Í því felst stóri sigurinn. Ég vil hér með nota tækifærið og skora á önnur lið að fylgja þessu fordæmi. Því þegar að breytingarnar fara að raungerast innan íþróttanna með þessum hætti, þá vaknar raunveruleg von um að það sé hægt að laga það sem aflaga er í kúltúrnum, og að íþróttirnar verði heilbrigðari og manneskjulegri fyrir alla.
Mennskan í íþróttunum
Merki þess að íþróttirnar séu að komast á rétta braut hvað varðar mennskuna í íþróttunum sáust líka úti í heimi. Á árinu neitaði japanska tenniskonan Naomi Osaka til dæmis að koma fram á blaðamannafundum í tengslum við stórmót þar sem hún treysti sér ekki til þess vegna andlegs álags. Svipaða sögu má segja af bandarísku fimleikastjörnunni Simone Biles sem dró sig úr keppni á Ólympíuleikunum, einnig vegna andlegs og líkamlegs álags. Stóru fréttirnar í þessum sögum eru annars vegar að stórstjörnur í íþróttum fóru að koma fram og viðurkenna veikleika sína á árinu, í stað þess að fela þá eins og til hefur verið ætlast hingað til, og hins vegar að heimurinn tók afstöðu þeirra fagnandi. Í stað þess að fordæma þessar íþróttakonur fyrir að sýna veikleika, þá voru þær hylltar fyrir það hugrekki að stíga fram, viðurkenna vanmátt sinn og sýna heiminum að þær væru mannlegar og heilbrigðar, en jafnframt að það væri íþróttaumhverfið sem væri óheilbrigt. Simone Biles var í kjölfarið víða valin ein af manneskjum ársins, þrátt fyrir að hafa ekki unnið nein gullverðlaun á Ólympíuleikunum fyrr á árinu, eins og til var ætlast fyrir leikana. Og mennskuna mátti líka sjá þegar danski fótboltamaðurinn Christian Eriksen féll niður eftir hjartastopp í fyrsta leik liðsins í Evrópukeppninni í knattspyrnu í sumar, þar sem viðbrögð leikmanna á vellinum, sem og knattspyrnuheimsins alls, einkenndust af mannlegri samkennd og stuðningi. Við þetta má bæta þeim tíðindum – sem ættu ekki að heyra til tíðinda ef allt væri eðlilegt – að samkynhneigðir karlar opinberuðu loks kynhneigð sína í íþróttum eins og knattspyrnu og í Ameríska fótboltanum, og fengu mikinn stuðning frá íþróttasamfélaginu í kjölfarið.
Skilaboðin eru skýr
Samkvæmt fornri kínverskri speki þá er fyrsta skref hvers ferðalags jafnframt það mikilvægasta. Árið 2021 var í því samhengi frábært ár fyrir íþróttirnar því á árinu voru stigin mikilvæg skref í átt til meiri mannúðar í íþróttunum. Í mínum huga eru skilaboð ársins skýr; mennskan var sigurvegari ársins í íþróttunum, á meðan firringin um harða og sterka íþróttamanninn sem nær árangri, hvað sem árangurinn kann að kosta, tapaði.
Að lokum
Eins erfitt og átakanlegt KSÍ-málið hefur reynst okkur, þá hefur það gert okkur kleift að rýna undir yfirborð íþróttanna og koma auga á djúpstæðari og almennari vanda en við vildum almennt viðurkenna; að það er eitthvað í kúltúrnum sem er í ólagi – og á það auðvitað ekki einungis við í íþróttunum, heldur einnig á öðrum sviðum samfélagsins. En nú er lag að viðurkenna vandann og takast á við hann og getur íþróttahreyfingin verið í fararbroddi í þeim efnum. Það er því við hæfi að enda þennan pistil á að rifja upp ríflega aldargömlum hvatningarorð Dr. Björns Bjarnasonar frá Viðfirði þar sem hann, í árdaga skipulags íþróttastarfs hér á landi, reyndist sannspár um bjarta framtíð íþróttanna á öldinni sem leið. Í dag, 113 árum síðar, leyfi ég mér að halda því fram að atburðir ársins geti markað þáttaskil í að endurheimta mannúð íþróttanna og segi, eins og Dr. Björn sagði þá: „Er þetta ekki dagroði nýrrar íþróttaaldar, fyrirboði kjarkmikillar kynslóðar.”
Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.