Árið 2022 er tímamótaár á húsnæðismarkaði og á vinnumarkaði. Þetta er árið sem í fyrsta sinn er látið reyna á til fulls að fá löngu tímabæra aðlögun kjarasamnings að sérstökum aðstæðum verkafólks á höfuðborgarsvæðinu.
Eins og allir vita hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað með fordæmalausum hætti á síðustu árum. Fyrir var íbúðaverð þar mun hærra en á landsbyggðinni. Mánaðarleiga á höfuðborgarsvæðinu er nú að jafnaði um 45% hærri þar en á landsbyggðinni, sem nemur um 68.000 krónum á mánuði. Það er því mun dýrara að búa og vinna á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu, bæði fyrir leigjendur og eigendur íbúða. Þessi munur nemur tugum þúsunda króna í framfærslu á hverjum mánuði.
Almennur framfærslukostnaður, án húsnæðiskostnaðar, er einnig ívið hærri að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu, fyrir allar fjölskyldugerðir, samkvæmt framfærsluviðmiðum félagsmálaráðuneytisins. Það er hins vegar húsnæðiskostnaðurinn sem er helsta meinsemdin.
Eftir tíu ára methækkun leigu hægði á hækkunum hennar á höfuðborgarsvæðinu á Kóvid-tímanum, en á þessu ári hefur leigan hækkað mun hraðar á ný, eða um nærri 10% á sl. 12 mánuðum. Leigufélögin boða nú að þau muni færa leigu að markaðsvirði íbúðarhúsnæði á næsta ári. Það verða mjög miklar hækkanir til viðbótar. Án leigubremsu og leiguþaks eru leigjendur óvarðir gegn taumlausri græðgi margra leigusala.
Óvenju örar hækkanir Seðlabankans á stýrivöxtum að undanförnu hafa lagt tugi þúsunda aukalega í hverjum mánuði á heimili þeirra sem berjast við að eignast íbúðarhúsnæði. Hér er því algjört ófremdarástand á húsnæðismarkaði, sem bitnar einstaklega illa á láglaunafólki á höfuðborgarsvæðinu.
Í Lífskjarasamningnum sem gerður var árið 2019 var samið um ágæta kaupmáttaraukningu fyrir verkafólk. Húsnæðismarkaðurinn hefur hins vegar étið þá kaupmáttaraukningu upp að stærstum hluta. Nýlega umsamdar launahækkanir SGS, LV og iðnaðarmanna ná hvergi nærri að bæta það upp. Mikið álitamál er nú hvort þær hækkanir nái að halda kaupmætti launa gagnvart almennu verðlagi áranna 2022 og 2023. Ef ekki verður eðlileg kaupmáttaraukning launafólks mun hagvöxtur þessara ára renna nær óskiptur til eigenda fyrirtækja og fjármagns. Þessi þróun hefur þegar sýnt sig í mikilli aukningu fjármagnstekna hátekjuhópanna á árinu 2021. Árin 2022 og 2023 verða hátekju- og stóreignafólki enn gjöfulli - að óbreyttu.
Ófullnægjandi húsnæðisstuðningur stjórnvalda
Húsnæðisstuðningur stjórnvalda hefur stórlega rýrnað á síðustu tíu árum. Vaxtabótakerfið sem veitti lægri tekjuhópum og þeim eignaminni stuðning sem nam að jafnaði um 27% af vaxtakostnaði þegar best var veitti einungis um 3% af vaxtakostnaði á árinu 2020 - og það hefur minnkað enn frekar síðan þá. Vaxtabótakerfið hefur því sem næst verið eyðilagt á sama tíma og íbúðaverðið hefur hækkað mun meira en áður hefur sést. Þetta hefur haft meiri áhrif á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
Nýleg tilkynning stjórnvalda um hækkun eignaviðmiða í vaxtabótakerfinu breytir litlu því önnur viðmið kerfisins og upphæð bótanna eru óbreytt. Þetta færir kerfið í besta falli örfá ár til baka en dugir hvergi nærri til að endurreisa það, eins og þörf stendur til. Nýting séreignasparnaðar til greiðslu íbúðaskulda nýtist einkum hærri tekjuhópum og kemur alls ekki í staðinn fyrir vaxtabótakerfið. Láglaunafólk er því afar illa varið gegn rányrkju húsnæðismarkaðarins og óhóflegu vaxtaokri Seðlabankans.
Ætla mætti að húsaleigubætur færu í meiri mæli til láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, því leigan þar er miklu hærri. Svo virðist þó ekki vera, samkvæmt gögnum "Tekjusögu" forsætisráðuneytisins. Láglaunafólk sem leigir á höfuðborgarsvæðinu býr því ekki aðeins við allt aðra stöðu en sambærilegur hópur á landsbyggðinni heldur tekur húsaleigubótakerfið ekki á þessum ólíku aðstæðum þannig að máli skipti.
Húsnæðismarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skapar verkafólki þar því mjög sérstakar og þungbærar aðstæður, sem ógerningur er að horfa framhjá. Hár húsnæðiskostnaður fylgir gjarnan stórborgum og höfuðborgarsvæðum. Það hefur víða áhrif á laun. Tökum dæmi frá nágrönnum okkar í Bretlandi.
Eflingarfólk þarf Lundúnar-álag á laun
Vel þekkt er í Bretlandi að framfærslukostnaður er um 20% hærri á London-svæðinu en annars staðar í landinu. Húsnæðiskostnaðurinn er helsta meinsemdin þar, eins og hér. Af þeim sökum hefur tíðkast að greiða um 20% álag ofan á laun á London-svæðinu. Þetta hefur verið þannig í áratugi. Við þurfum nú sambærilega útfærslu hér á landi.
Efling er fyrst og fremst stéttarfélag verkafólks á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt langstærsta stéttarfélag verkafólks á Íslandi. Eflingarfólk býr við lakari kjör en verkafólk annars staðar á landinu, einkum vegna þessa hærri húsnæðiskostnaðar. Þetta og ýmislegt annað gerir það að verkum að Efling þarf öðruvísi kjarasamning en Starfsgreinasambandið (SGS), til að koma til móts við sérstöðu verkafólks á höfuðborgarsvæðinu.
Samtök atvinnurekenda (SA) hafa hins vegar staðfastlega neitað að koma til móts við kröfur Eflingar þessa efnis. Þau krefjast þess að kjarasamningur á höfuðborgarsvæðinu muni ekki kosta meira en kjarasamningur SGS, þó það sé miklu dýrara fyrir verkafólk að búa og stunda vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Það er fráleit afstaða í ljósi hinnar augljósu sérstöðu sem þar er.
Efling þarf því að fá öðruvísi launatöflu og sérstaka framfærsluuppbót (Lundúnar-álag) vegna hins háa húsnæðiskostnaðar. Allt annað er óeðlilegt og óviðunandi.
Árið 2022 er tímamótaár á húsnæðismarkaði og á vinnumarkaði. Þetta er árið sem í fyrsta sinn er látið reyna á til fulls að fá löngu tímabæra aðlögun kjarasamnings að sérstökum aðstæðum verkafólks á höfuðborgarsvæðinu.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.