Byrjum á að fara aðeins aftur. Um miðjan dag þann 15. desember 2020 var lýst yfir óvissustigi. Mikið hafði rignt á Seyðisfirði dagana á undan, til viðbótar við mikla leysingu þar sem í byrjun mánaðarins hafði fallið mikill snjór. Seinni part þann dags féllu fyrstu skriðurnar. Með öðrum orðum: skriðurnar byrjuðu rétt eftir að óvissustigi var lýst yfir og engin hús voru rýmd fyrr en hlíðin var mætt. Þetta er mikilvægt, því síðar vöknuðu spurningar um hvort verklag hefði verið óskýrt um hver tæki ákvörðun um rýmingu, blæbrigðamunur er á ferlinu við aurskriður og snjóflóð. Eftir á ríkti tilfinningin um að viðbrögðin hefðu alltaf verið skrefi á eftir.
Áfram rigndi næstu tvo daga, þótt ekki kæmu fleiri stórar skriður. Að morgni föstudagsins 18. desember féll skriða sem hreif með sér mannlaus hús. Allan þann dag, í grenjandi rigningu, voru verktakar og fleiri að störfum við að hreinsa til í bænum og reyna að tryggja öryggi fólks. Laust fyrir klukkan þrjú heyrðust þrumur, nema þetta voru ekkert þrumur, heldur hlíðin að koma niður af ákafa og á svæði sem ekki var búist við. Strax í kjölfarið var bærinn rýmdur. Í miðju Covid-ástandi var öllum, sem staddir voru á Seyðisfirði, smalað í Herðubreið, skrásettir og beðnir að drífa sig strax upp í Hérað.
Næstu daga á eftir hættu að rigna og smám saman fengu Seyðfirðingar að fara aftur heim. Flestir náðu því fyrir jól, en alls ekki allir. Rýmingu af síðustu húsunum var ekki aflétt fyrr en í febrúar á þessu ári. Það er að segja af þeim sem enn má búa í.
Togstreita um tryggingar
Strax eftir skriðurnar var farið að vinna í tryggingamálum. Strax í byrjun árs breytti sveitarfélagið skipulagi þannig að enduruppbygging væri ekki heimil á skriðusvæðinu. Þar með var tryggt að eigendur þeirra húsa sem eyðilögðust fengu greiddar bætur frá Náttúruhamfaratryggingu út frá brunabótamati, sem á Seyðisfirði er umtalsvert hærra en fasteignamatið.
Á sama tíma var unnið í nýju hættumati fyrir staðinn. Bráðabirgðaútreikningar sýndu að ákveðin hús taldist ekki vera hægt, eða svara kostnaði, að verja. Íbúum var þannig bannað að flytja aftur í þau. Þeir fá húsin bætt úr Ofanflóðasjóði, í gegnum sveitarfélagið, á grundvelli mats sem meðal annars byggir á fasteignaverði í bænum. Sem fyrr segir er það oftast lægra en brunabótamatið. Það þýðir að þeim sem bannað er að búa í húsum sínum fá lægri bætur en þeir sem misstu þau algjörlega.
Síðan er það fólkið sem má búa í húsum sínum en eru stórskemmd, svo að segja fokheld eftir skriðurnar. Það hefur ekki hátt heldur hvíslar þegar segir frá stappi sínum við að fá tryggingar sem dugi fyrir endurbótunum sem það þurfi að fara í.
Loks er það atvinnuhúsnæðið. Nýleg úttekt sýnir að ríflega 75% flatarmáls atvinnuhúsnæðis á Seyðisfirði er á hættusvæði C, mestri hættu. Hætta getur þurfti starfsemi, jafnvel dögum saman, vegna yfirvofandi hættu. Tryggingafélög bæta ekki slíkar stöðvanir. En stærra mál er að engar bætur virðast vera að fá til að verja atvinnuhúsnæði eða byggja upp utan hættusvæðis, þótt greitt sé af því í Ofanflóðasjóðs eins og öðrum fasteignum. Hve lengi þola stór atvinnureksturinn slíka rekstraróvissu?
Varnir og hreinsun
Hreinsunarstarfið á Seyðisfirði hófst strax milli jóla og nýárs 2020. Það gekk furðuvel, þann sjöunda janúar var búið að moka í gegnum skriðuna. Það blasti við mikil eyðilegging á skriðusvæðinu, brak út um allt, byggingar í henglum. Hreinsunin gekk samt furðu hratt, í mars var svæðið orðið tiltölulega snyrtilegt, í apríl byrjað að sá grasfræjum, snemma í júní eiginlegri hreinsun lokið og stráin farin að koma upp. Í lok mánaðarins var skriðan orðin tiltölulega græn. Þá var merkilegt að sjá hversu mjög svæðið hafði skipt um svip.
Samhliða hreinsuninni voru reistar bráðabirgðavarnir. Efni úr skriðunni var mokað upp í garða til að verja byggðina næst Búðará og við Nautaklauf. Á reglulegum íbúafundum var farið yfir gang mála við hreinsun og mögulegar varnir. Þegar aftur þurfti að grípa til rýmingar í október varð ljóst, að minnsta kosti út frá tölvulíkönunum, að þær varnir sem komnar voru teldust tiltölulega traustar.
En það er langt frá því að byggðin sé enn fyllilega varin. Eftir er að leysa málin ofan Botnahlíðar, þar sem byggðin er hvað þéttust. Ráðherrar, sem komu austur vikurnar eftir hamfarirnar, hétu því að styðja við nauðsynlega uppbyggingu. Íbúar treysta því að ekki verði bið á efndum.
Loforð og efndir
Þeir hafa nefnilega ástæðu til að efast. Í byrjun febrúar var skrifað undir samninga um byggingu sex íbúða á vegum ríkisins til að bregðast við skorti á íbúðahúsnæði í kjölfar hamfaranna. Fyrstu fyrirheit voru að þær gætu verið tilbúnar í byrjun sumars. Nú, ári síðar, hefur ekki einu sinni verið sótt um byggingarleyfi. Ábyrgðaraðilar benda flestir hver á annan og ljóst er að orsakirnar eru samverkandi. Kannski hefði þó verið betra að lofa minni en vinna hraðar.
Hverjar eru helstu orsakirnar? Í fyrsta lagi þegar óvissa er um hættu á stóru landsvæði verður minna eftir til að byggja á. Á Seyðisfirði þurfti þess vegna að taka upp skipulag og finna örugg svæði. Úr varð að fótboltavellinum var fórnað. Vonast var til að hægt væri að veita skipulagsferlinu flýtimeðferð, en það reyndist ekki hægt. Síðan þurfti að ganga frá lóðunum. Sveitarfélagið hefur sagt að ekki hafi staðið á því, utan seinkunar á skipulaginu, sem í stóra samhenginu var óveruleg.
Framkvæmdaaðilarnir hafa lent í vandræðum. Verðhækkanir á byggingaefni, vegna skorts og flutningavandræða í Covid-faraldrinum, hafa gert það að verkum að endurskoða þurfti áætlanir. Þá hefur framkvæmdagleði á Austurlandi þýtt að ekki er hlaupið að því að fá smiði í verk á svæðinu.
Þess utan er umræðan, sem stöðugt hefur verið í gangi, um hvernig húsamyndin og tilheyrandi menningarsaga, sem glataðist í hamförunum verði byggð upp aftur.
Ný hætta
Við Íslendingar höfum eftir árið 1995 brugðist skipulega við snjóflóðahættu. Við þekkjum hana orðið nokkuð vel. Atburðirnir á Seyðisfirði sýna að við eigum margt eftir ólært hvað varðar skriðuföll. Þegar hefur verið bent á veikleika og misræmi í löggjöfinni, fyrir báðar hamfaragerðir, varðandi bætur á húsnæði.
En við, eins og aðrir, erum að læra um hvað olli hamförunum. Í byrjun mánaðar birti Time Magazine grein um rannsókn kanadískra og bandarískra vísindamanna sem bendir til þess að snjókoma við norðurskautið muni á næstu áratugum umbreytast í rigningu. Línuritið sem fylgir er sláandi, því það sýnir svo miklar sveiflur í aukningu rigningar á haustin, á kostnað snjóa. Þótt í umfjöllun Time sé miðað við Grænland, lýsir hún því sem gerðist á Seyðisfirði. Fyrir einhverjum árum hefði moksnjóað þar, jafnvel myndast snjóflóðahætt, en í desember 2020 gerði hamfara rigningu. Það var eiginlega ekki fyrr en eftir á sem ljóst varð hversu mikil hún var. Úrkoman í bænum, þar sem veðurstöðin er, var nefnilega minni en í fjallinu.
En þessi rannsókn segir okkur að við þurfum að auka vöktun og rannsóknir á skriðuhættu hérlendis. Tryggja þarf fjármagn og fólk með þekkingu í þær rannsóknir. Það vill nefnilega oft gleymast að sama kvöld og skriðurnar féllu á Seyðisfirði var gripið til umfangsmikillar rýmingar á Eskifirði. Athugunarmenn lýstu því síðar að þeir hefðu hreinlega horft á sprungurnar í veginum upp í Oddsskarð stækka.
Loftslagsbreytingar þýða að við þurfum að bregðast við vá, sem við höfum áður lítið þekkt til, á svæðum sem við höfum ekki reiknað með þeim áður. Hluti hættunnar á Seyðisfirði liggur í þiðnun sífrera lengst uppi í Strandartindi, sem gnæfir yfir athafnasvæði Síldarvinnslunnar. Áhyggjur eru af þiðnun sífrera víða á norðurslóðum en staðreyndin virðist að við vitum voðalega lítið um sífrerasvæði hérlendis.
Ári eftir hamfarirnar standa Seyðfirðingar merkilega keikir. Þar hefur fasteignaverð verið á uppleið og fjölskyldufólk flutti í bæinn í sumar. Rekstur, sem stöðvaðist í kjölfar hamfaranna, er kominn aftur af stað. Margir munu samt berjast lengi við eftirköstin, fjárhagsleg sem andleg. Þótt fyrstu áhrif atburðanna hafi verið staðbundin standa samt eftir ærin verkefni sem við þurfum að takast á við sem þjóð. Mestu skiptir þó að enginn meiddist alvarlega, þótt kraftaverk sé að allir hafi sloppið lifandi. Fjöldi fólks á ótrúlegar sögur sem áfram þarf að skrásetja og varðveita.
Annað að austan
Hlýindin:
Sumarið, einkum júlímánuður, var eins heitt og nokkur man. Ferðatakmarkanir erlendis út af faraldrinum þýddu líka að Íslendingar flykktust austur. Þetta varð reyndar kómískt á köflum, tjaldsvæðin voru svo smekkfull og stækkuð þar sem kostur var. Gestir þorðu ekki að hreyfa sig af fleti sínu, því þeir vissu að þeir ættu ekkert auðvelt með að komast að annars staðar. Margir gestanna hafa síðan haft orð á hvað það hafi verið gaman að koma austur, hvað það hafi verið margt að skoða og gera, þeirra stutti frítími hafi alls ekki verið nægur og vilji koma aftur. Vonandi verður sumarið 2021 sumarið sem kynnti Austurland, landshluta sem oft er svo fjarlægur, fyrir Íslendingum.
En þetta var reyndar ekki eintóm sæla. Umferðin á Fagradalsbrautinni var orðin á við Miklubrautina og hlýindin ollu því að vatnsból þornuðu upp.
Loðnan:
Eftir tveggja ára loðnuleysi veiddist loðna á ný í byrjun árs. Stóri vinningurinn kom svo í haust þegar tilkynnt var um stærsta loðnukvóta í áratug. Ærið verk verður að veiða hann og selja því vinnslan hefur breyst frá síðustu stórvertíð. Efnahagur Íslendinga byggir enn verulega á fiskveiðum og þegar þær ganga vel skilar það sínu í þjóðarbúið. Vegna loðnukvótans, sem að langmestu er landað á Austfjörðum, er vænst aukins hagvaxtar á næsta ári. Við þreytumst aldrei á að minna á hvað við leggjum til þjóðarbúsins – um leið og við spyrjum hvað við fáum til baka.
Orkuuppbygging:
Um mitt sumar var skrifað undir viljayfirlýsingu milli Fjarðabyggðar, Copenhagen Investment Partners og Landsvirkjunar um uppbyggingu græns orkugarðs á Reyðarfirði. Orkugarðurinn byggir á að framleiða rafeldsneyti, vetni, með að greina vatn í frumefni sýn með rafmagni. Fleiri stór fyrirtæki hafa síðan bæst í hópinn, enda ýmsir möguleikar á hliðarframleiðslu.
Orkugarðurinn er afurð þróunar í orkuskiptum sem virðist vera kominn á meiri ferð en við mörg gerum okkur grein fyrir. Það er ekki bara umhverfisvænt, heldur hagkvæmt, fyrir flutningafyrirtæki að skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í vetni, sem virðist ætla að verða orkugjafi þungaflutninga, til dæmis fraktskipa.
En samhliða þessu steðjar líka að okkur nauðsynleg umræða sem verður að enda með ákvörðun um orkuöflun og flutning. Þurfum við að virkja meira á ákveðnum svæðum? Hvernig komum við orkunni þangað sem hún er notuð? Hvernig tryggjum við að nóg sé til staðar þegar á þarf að halda til að orkuskiptin séu raunhæf? Sú staðreynd að fiskimjölsverksmiðjurnar þurfi að keyra á olíu á nýhafinni loðnuvertíð er sorgleg.
Síðan má minna á að breskt-bandarískt fyrirtæki kynnti í nóvember fyrirætlanir sínar um risavaxinn vindmyllugarð úti fyrir Austfjörðum. Þá orku á að selja beint um sæstreng til Bretlands. Engar reglur eru hins vegar enn hérlendis um orkuöflun á hafi úti. Hvað finnst okkur um þetta? Hvað ætlum við að gera í málunum?
Höfundur er ritstjóri Austurgluggans og Austurfréttar.