Í lok síðasta árs vonuðum við mörg að lok þessa heimsfaraldurs, sem við helst viljum ekki nefna á nafn lengur, væri á næsta leyti. Bólusetningar stóðu fyrir dyrum og vonir okkar margra stóðu til þess að við gætum á ný notið samvista, ferðast, unnið og hvað það er sem við söknuðum mest. Það reyndist ekki alveg raunin en ný afbrigði virðast nú leysa hin sigruðu eldri af hólmi og lífið eins og við þekktum það verður fjarlægara í minningunni. Það er margt sem þessi heimsfaraldur hefur kennt okkur og umfram annað kannski að stórar breytingar eru mögulegar. Við getum breytt venjum okkar og reglum á tiltölulega stuttum tíma þegar við þurfum þess.
Nýtum reynsluna
Þetta hefur verið erfitt, sérstaklega auðvitað fyrir þau sem hafa veikst, misst nákomna, glatað lífsviðurværi sínu eða heilsu. En getum við nýtt þessa reynslu heimsins á umpólun við úrlausnir á fleiri vandamálum sem við svo sannarlega stöndum frammi fyrir?
Mér er þar efst í huga hlýnun jarðar með öllum þeim grafalvarlegu afleiðingum sem við sem mannkyn munum á endanum ekki lifa af, ef ekkert verður að gert. Sú staðreynd að á jörðinni ríkir gríðarlegur ójöfnuður sem aukist hefur í kjölfar heimsfaraldurs, sama hvort horft er til misskiptingu fjármagns, aðgengis að matvælum og svo framvegis. Átök og stríð með hryllilegum afleiðingum, ofbeldi og mannréttindabrot sem við vissulega fordæmum almennt en með samhentu átaki alþjóðasamfélagsins mætti koma í veg fyrir. Kynbundið ofbeldi er þar á meðal, ein helsta ógnin við heilsu kvenna og hún hefur því miður bara aukist í faraldrinum.
Áratugur aðgerða
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn vandi rétt eins og kórónuveirufaraldurinn og við getum og eigum að bregðast við honum sem slíkum. Hérlendis hefur Reykjavík haft forystu um að leggja til metnaðarfullaar aðgerðaáætlanir og stefnur en ríkisstjórnin þarf að gera betur. Setja fram skýr metnaðarfull markmið og mælikvarða sem og kalla eftir að við bregðumst við því neyðarástandi sem ríkir í loftslagsmálum. Þær aðgerðir sem farið verður í þurfa að stuðla að réttlátum umskiptum, byggja á jafnræði þar sem allir taka þátt í því að draga úr losun, fyrirtæki og neytendur, en um leið er byrðum og tækifærum sem felast í aðgerðunum dreift með jöfnum og sanngjörnum hætti. Nauðsynlegt er að framkvæmdar verði kostnaðar- og ábatagreiningar sem nái til samfélagslegra áhrifa auk þessara efnahagslegu og að gripið sé til mótvægisaðgerða til að tryggja að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum auki ekki ójöfnuð. Einhver störf munu hverfa á næstu árum og önnur breytast og ný verða til. Nauðsynlegt er að breytingar á vinnumarkaði leiði til fjölgunar á góðum grænum störfum sem standa undir góðum lífskjörum og auka velferð og jafnrétti.
Jöfnum stöðu okkar við endurreisnina
Síðustu tvö ár höfum við öll fundið hve gríðarlega mikilvæg samneyslan er, velferðarkerfið okkar sem hélt samfélaginu gangandi þegar allt fór í lás. Þar er ég ekki bara að tala um heilbrigðisstarfsfólk sem sannarlega vann þrekvirki heldur líka fólk í Velferðarþjónustu sveitarfélaga sem sinnti börnum, fjölskyldum, fötuðu fólki, öldruðum og öllum þeim sem þurftu að aðlaga sig að nýjum veruleika eftir hverjar nýjar sóttvarnarreglur. Fólk sem vinnur í menntakerfinu sem aðlagaði sig að alveg nýjum veruleika sem og fólk í framlínustörfum sem mætti á sínar vaktir. Norræna velferðarsamfélagið sýndi sína styrkleika og ég held við höfum velflest fundið að þetta rótgróna samfélag samhjálpar og samstöðu, var það sem mestu máli skipti þegar áföllin dundu yfir.
Frelsi, jafnrétti, samstaða
Við jafnaðarfólk höfum reyndar haldið þessum gildum á lofti alla tíð, að jöfnuður, réttlæti, sterkir innviðir, samneysla og samstaða fólks geri okkur öllum gott og að allir eigi að vera með. Við viljum ekki bara skapa öllum jöfn tækifæri til að taka þátt í okkar samfélagi heldur jafna stöðu fólks til að nýta þau tækifæri með raunverulegum aðgerðum. Árið 2021 var að mörgu leyti upphaf nýrra tíma fyrir jafnaðarstefnuna, þó alþingiskosningar á Íslandi hafi ekki farið eins og í löndunum í kringum okkur þá gleðjumst við yfir góðum sigrum þeirra og styðjum öll góð mál sem byggja á okkar grunnhugsjónum og stuðla að því að okkar framtíðarsýn nái fram að ganga.
Mótum framtíðina saman
Samfylkingin er í meirihluta við stjórn sveitarfélaga þar sem flestir Íslendingar búa og við höfum sannarlega lagt okkur fram um að standa vörð um þá gríðarlega mikilvægu þjónustu sem sveitarfélög veita, því miður oft við lítinn skilning ríkisstjórnarinnar á mikilvægi sveitarstjórnarstigsins og áhrif samdráttar þar á mannréttindi, heilbrigði, ofbeldi, menntun og atvinnustig um landið. Framundan er nýtt ár og ný tækifæri fyrir öfluga forystusveit jafnaðarfólks í öllum sveitarfélögum að sækja umboð til kjósenda til þess að gera samfélag okkar enn betra og réttlátara.
Ég er bjartsýn á að við fáum umboð til þess og um leið og ég horfi til baka með þakklæti og kannski smá trega á liðið ár, get ég ekki beðið eftir því næsta því það mun vonandi færa okkur mörg ný tækifæri til samstöðu um framfarir og jafnrétti öllum til handa.
Höfundur er varaformaður Samfylkingarinnar.