Sem sérlegir hraunnördar, áhugafólk um eldvirkni og eigendur og stofnendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal þá er ýmislegt sem við höfum lært um eðli hrauns.
Í ljósi eldgossins við Fagradalsfjall sem hófst 19. mars sl., þar sem fólki gefst einstakt tækifæri á að sjá og upplifa hina mögnuðu krafta móður náttúru, er vert að fólk fái áhugaverðar og mikilvægar upplýsingar um eldvirkni, hraun og hvað ber að varast í formi hraunmola vikunnar.
Svart og saklaust útlit hrauns blekkir
Hraun er einstaklega einangrandi efni sem byrjar fljótt að storkna þegar það rennur upp úr iðrum jarðar og kemst í tæri við andrúmsloftið og önnur kaldari efni á yfirborði jarðar. Hins vegar er það aðeins ysta lag hraunsins sem storknar á meðan hraunið getur áfram verið rauðglóandi og fljótandi skammt fyrir neðan svart og sakleysislega útlítandi yfirborðið.
Og að vissu leyti er það rétt. Hins vegar getur svart og að því er virðist kalt hraunið verið mun heitara en það lítur út fyrir að vera. Það sem meira er, storknað yfirborðshraunið getur hæglega falið brennheitt fljótandi hraun skammt innan við storknaða skorpuna sem heldur því í skefjum.
Hraunpollar og hraunhellar
Vegna einangrandi eðlis hrauns og þess hve fljótt ysta lag þess storknar, getur fljótandi hraun oft flætt langar vegalengdir undir svörtu storknuðu yfirborðinu. Það er einmitt þannig sem hraunhellar verða til. Þegar eldgos heldur áfram, flæðir kvikan stöðugt upp á yfirborðið og heldur hraunrennslinu til streitu. Þannig heldur hraunið áfram að þrýsta á storknað yfirborðshraunið þar til þrýstingurinn brestur, skyndilega og fyrirvaralaust. Slíkt kallast undanhlaup.
Þetta getur gerst þar sem hraun safnast saman í hrauntjörnum þar sem yfirborðið brestur skyndilega og skærappelsínugulir hraunpollar myndast, stundum með dansandi hrauni sem hoppar og skoppar eins og í æsilegum leik. En þetta getur líka gerst við hraunjaðarinn, skyndilega og án fyrirvara, og hraunið gusast fram, hugsanlega með meiri hraða en svo að fólk, sem stendur of nærri, hafi ráðrúm til að taka til fóta sinna. og það getur verið varasamt svo ekki sé dýpra í árina tekið.
The lava is creeping closer. When this video is starting, it’s about 15 meters away and it is oh so hot
Posted by Ragnhildur Ágústsdóttir on Monday, March 29, 2021
Berum virðingu fyrir máttugri móður náttúru
Í ljósi framangreinds ráðleggjum við fólki að sýna heilbrigða skynsemi í návígi við nýstorknað hraun og að bera viðeigandi virðingu fyrir móður náttúru. Útlit getur verið blekkjandi og ef fólk gætir ekki að sér getur það bókstaflega misst meira en fótanna.
Höfundar eru stofnendur og eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal.