Þýska sjónvarpsstöðin ARD - Das Erste og Süddeutsche Zeitung munu frá og með 26. janúar fjalla um blóðmermálið og myndina, Iceland - Land of the 5,000 Blood Mares, sem vakið hefur hörð viðbrögð víða um heim. Það er högg fyrir okkur Íslendinga en auk alvarlegustu löggjafarbrotanna í íslenskri dýraverndarlöggjöf eru miklir efnahagslegir hagsmunir í húfi. Margir af tugmilljónum Þjóðverja, hafa ekki ennþá hugmynd um þá misþyrmingu á hrossum, sem hefur átt sér stað á Íslandi í áratugi tengt blóðmerahaldi og má því búast við mikilli geðshræringu og vonbrigðum þarlendis. Ekki bætir það ásýnd Íslands, ef rétt er, að verið sé að skipuleggja þolreiðar á hestum á næsta ári, sem hefur verið gagnrýnt.
Öguð munu viðbrögð Þjóðverja verða
Ekki er erfitt að geta sér til um það hvaða áhrif það hefur almennt í Þýskalandi þegar þeir verða vitni að íslenskum hrottaskap í atvinnustarfsemi tengdri hrossahaldi. Ísland nýtur mjög mikilla vinsælda í Þýskalandi af mörgum ástæðum. Mikill fjöldi Þjóðverja sótti landið t.d. heim bara vegna eldsumbrotanna í Fagradalsfjalli. Við sækjum miklar gjaldeyristekjur til þeirra. Búast má við að ferðamannaiðnaðurinn og afleidd starfsemi verði fyrir tjóni, bara vegna viðbragða Þjóðverja.
Íslenska hrossið er auk þess vinsælt í þessu leiðandi Evrópusambandslandi og viðbrögð þess munu því hafa keðjuverkandi áhrif innan sambands, spái ég. Þjóðverjar eru öguð þjóð, það þekki ég sjálfur, sem rek uppruna minn þangað. Þarlendis er máltækið „orndung muss sein" löngu orðið frægt. Þjóðverjar munu krefjast viðbragða af hálfu ákæruvalds og dómstóla auk blóðtökubanns. Þeir, sem og aðrar siðmenntaðar þjóðir, líta svo á að í lýðræðisríki sé það skylda ríkisvaldsins að stíga fram fyrir hönd andúðar almannaviljans og málleysingjanna eins og lög gera ráð fyrir. Það á reyndar við í íslenskri lögfræði líka en hefur verið lítt áberandi þegar kemur að dýraverndarmálum, eins og réttarstaða dýra skipti hér minna máli og litið sé ennþá á þau sem því sem næst tilfinningalausar skyni lausar lífverur eins og var á öldum áður. Það er miður og algerlega úr takti við þá þekkingu sem fyrir hendi er um dýr.
Óboðlegt heildarmengi þjáningar dýra er siðlaust og ei samboðið Alþingi
Með banni Alþingis, sem starfar í umboði kjósenda, og könnun sýnir að meirihluti er gegn blóðtöku, mun þingið minnka svo um munar heildarmengi þjáninga sem við völdum með blóðtökuferlinum og stuðningi við verksmiðjubúskap svínaeldis erlendis, sem við höfum enga stjórn á, en er ljótt, erum við komin langt út fyrir öll þau velsæmismörk í dýravelferð og settur íslenskur réttur boðar, tilgang hans og markmið. Ég tel það rökvillu að heimila eitthvað hérlendis sem veldur þjáningu dýra erlendis. Það gerir notkun PMSG framleitt á Íslandi og er óumdeilt. Í raun bannar settur réttur blóðmerahald sé hann lögskýrður og það strax í 1. gr. laga um velferð dýra. Þar af leiðir er engin lagastuðningur í 20. og 21. gr. laganna við reglugerðina, sem blóðtakan er felld undir.
Uppnám í Norræna háskólasamfélaginu
Í samstarfshópi norrænna fræðimanna í lögum, prófessora og lektora, hvar ég á sæti, vegna samningu samnorræns lagakennslurits til notkunar við háskóla á Norðurlöndunum við kennslu í dýravernd, dýrarétti og dýrasiðfræði hefur komið í ljós verulegt uppnám í þeim háskólasamfélögum skv. samstarfsaðilum mínum.
Ásælni neytenda í svínakjöt orðið að viðskiptaógn við Íslendinga?
Það er ekki á það fjárhagslega tjón bætandi, sem covid faraldurinn hefur valdið. Sameiginlegt með covid og blóðmeramálinu er dýraníð. Covid verður að öllum líkindum rakið til dýraníðs, á götukjötmörkuðum í Kína. Það er semsagt ásælni mannsins í kjöt sem í grunninn er sú ógn sem steðjar að íslensku efnahagslífi. Hún er orðin með öllu óþolandi meðferð okkar á dýrum í þágu kjötætunnar og ekki er laust við að manni komi til hugar sú uppreisn dýranna gegn manninum sem sagt er frá í bók George Orwell, Animal Farm (1947) eða sama ár og Bretar hófu intensive factory farming, nauðeldi búfjár til manneldis við fjarstæðukenndar og þröngar aðstæður, sem leiddi af sér ólýsanlegar þjáningar dýra. Ennþá stundað á Íslandi. 80% varphænsna í íslenskum eggjabúum með brotið brjóstbein og engum dettur í hug að gera neitt. MAST segir: þetta er bara svona!
Efasemdum þingmanna ætti nú að vera útrýmt
Auk kvikmyndarinnar um blóðmeraníðið hefur Alþingi nú fengið nýjar og ennþá ítarlegri upplýsingar um líklegar heilsufarslegar afleiðingar á fylfullar merar vegna blóðtökunnar. Nokkuð, sem þingmenn hafa kallað eftir. Í næsta mánuði og þegar félagar mínir í Þýskalandi í AWF/TSB munu sækja Ísland aftur heim vegna fréttamannafundar munu þau leggja á borðið niðurstöðu rannsókna, vísindagögn, sem sína og sanna skaðlegar afleiðingar blóðtökunnar hjá merum og jafnvel á folöldum.
Verður ráðherrastarfshópurinn til gagns?
Starfshópur um málið er í fæðingu hjá ráðherra. Fróðlegt verður að sjá mönnun hans því hún mun segja margt um trúverðugleika og getu hópsins til að takast á við það verkefni, sem honum verður falið. Skipaður innanbúðarmönnum MAST og niðurstaðan verður ei marktæk. Þá er a.m.k. einn starfsmaður innan ráðuneytisins sjálfkrafa dæmdur úr leik vegna hæfiskorts sökum tengsla við MAST. Þá verður áhugavert, að kynnast þeim fræðimönnum frá Siðfræðistofnun HÍ sem eiga að fást við þetta krefjandi verkefni, ef taka á á siðferðilegum álitaefnum blóðtökunnar.
Fari skipunin eins og best verður á kosið og hef útskýrt með hvaða hætti mætti vera áður, má hins vegar búast við gagnlegri úttekt. Það er í raun stórundarlegt að forstjórar og yfirdýralæknar hafi komist upp með þá handónýtu stjórnsýslu, sem fyrir liggur og aldrei virðist hægt að ná valdi á vegna þess að ráðherrar þessa málaflokks hafa hreinlega ekki haft þekkingu til að skipuleggja hana í þeim dúr, sem þeir, sem best þekkja til hafa stungið upp á að framkvæmd laganna væri best framkvæmd.
Flóttamaðurinn, birtir jólahugvekju og sækist eftir syndaaflausn
Arnþór Guðlaugsson framkvæmdastjóri Ísteka, sem sýnt hefur að hefur engu skeytt um velferð blóðmera, boðar nú jólapakka og kallar á syndaaflausn til verndar hluthöfum. Framlag Ísteka er smávægilegt í hinu stóra mengi efnahagslegra hagsmuna, sem nú þarf að vernda og teygir anga sína út um allt á íslenskum vinnumarkaði og erlendis.
Ég tel, að sýnt hafi verið fram á, að ekki er orð mark takandi á Arnþóri. Hann segir í jólahugvekju sinni s.l. sunnudag í miðli:
„Í upphafi er þó rétt að ítreka að Ísteka hefur aldrei liðið ósæmandi og ómannúðlega meðferð á dýrum og mun hér eftir sem hingað til taka hart á öllum slíkum tilvikum með slitum á viðskiptasamböndum, eins og fyrirtækið hefur raunar gert í nokkrum tilfellum á undanförnum árum, þar á meðal mjög nýlega.“
Af hverju er hann ómarktækur? Á svipuðum tíma og hann birti hugljómun sína til verndar þeim 2 milljörðum, sem hlutafélag hans græðir, ritaði hann til AWF/TSB og óskaði eftir tillögum frá þeim um úrbætur.
Fyrir liggur að þegar árið 2019 gagnrýndu AWF/TSB þau atriði við hann persónulega sem hann nú spyr um og mótmælti Arnþór athugasemdum þeirra umhugsunarlaust. Hann hafði semsagt 2 ár til að velta hlutunum fyrir sér, trúði því að AWF/TSB hefðu misst áhugann þangað til hann fattaði að Þjóðverjunum hafði tekist að gabba hann. Stundum er það eina leiðin til að leiða sannleikann í ljós
Þá inniheldur jólagjöf Arnþórs handrit að framkvæmd myndbandseftirlits, sem tæki allt að hálft ár fyrir einn mann að horfa á miðað við 8 klst. vinnudag miðað við að 5300 blóðtökur yrðu filmaðar.
Stagl doktorsgráðudýralæknis
Annað nýtt innlegg fræðimanns í þessu máli er viðtal við dýralæknir á Sprengisandi s.l. sunnudag. Frúin er með doktorsgráðu á sínu sérsviði. Engu að síður kom ekkert fræðilegt framlag um efnið af hennar hálfu heldur endurtekningar á því, sem áður hefur verið sagt, einkum af hálfu MAST og olli mér vonbrigðum. Ég hélt satt best að segja, í ljósi þess að Sprengisandur er mikilvægur umræðuþáttur málefna líðandi stundar, að eitthvað vitrænt innlegg með eða á móti blóðtökunni kæmi fram af hennar hálfu. Svo var ekki að það var eins og dýralæknirinn hefði hreinlega ekki fylgst með röksemdarfærslum gegn blóðtökunni s.l. vikur. Hann virtist á algerum upphafsreit og treysti sér ekki einu sinni til þess að láta blóðmerar né gyltur njóta vafans, að svo stöddu, í miklu siðferðislegu og dýraverndarlegu álitaefni. Máske einfaldlega vegna þess að hann hefur einhverra hagsmuna að gæta en sérsvið dýralæknaþjónustu hans tengist einmitt, ef svo má að orði komast, hryssum í barneignahugleiðingum og eftirfylgni með þeim. Já, það er eins og Páll Skúlason heitinn sagði eitt sinn: það vantar alla gagnrýna hugsun í íslenskt samfélag. Og ég bæti við: meira að segja á meðal margra fræðimanna.
Gleðilega hátíð og þakkir
Um leið og ég óska ég ykkur, lesendur mínir, alls hins besta nú um hátíðirnar, þakka ég góðan lestur greina minna og bið þess að Guð megi vera með öllum mönnum og dýrum, nú sem endranær. Myndbandið hér að neðan er frægt, fallegt en líka dapurt. Framleitt af Animals Australia og á alveg sérstaklega vel við um þennan pistil efnislega. Myndbandið dregur fram í hnotskurn hver endastöð dýraníðs blóðmerahalds er, dýraníð í verksmiðjuframleiðslu svínaeldis. Saga lítils gríss, sem tekst að forða sér úr ánauð verksmiðjubúskapar og upplýsa heimsbyggðina um örlög systra sinna, bræðra og mæðra.
Höfundur er dýraréttarlögfræðingur.