Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík.
Árið 1961 kom út í Bandaríkjunum bókin The Death and Life of Great American Cities, eftir konu sem hét Jane Jacobs. Þar gagnrýndi hún þá hugmyndafræði sem var ríkjandi í skipulagsmálum á þeim tíma og setti í stað hennar fram heildstæða sýn á hvað henni sjálfri þótti skipta máli upp á að borgir og íbúar þeirra næðu að dafna.
Þrátt fyrir að Jane hafi ekki verið menntuð á sviðinu heldur pistlahöfundur og grasrótarbaráttukona í skipulagsmálum hafði bókin mikil áhrif á hvernig fólk hugsaði um og nálgaðist skipulagsmál. Sagt hefur verið að þetta sé jafnvel mögulega áhrifamesta staka bókin sem nokkurn tímann hefur verið skrifuð um þessi mál.
Eitt það skemmtilegasta við bókina er að í henni eru tekin fyrir alls kyns atriði sem við fyrstu sýn virðast ómerkileg en reynast samkvæmt rökum Jane vera ómissandi. Fyrstu þrír kaflarnir eru til dæmis helgaðir gangstéttum og notkunargildum þeirra. Fyrsta notkunargildi gangstétta sem hún tekur fyrir er öryggi. Hún rekur hvernig gangstéttar sem margir nota á sem flestum tímum dags og sem margir horfa reglulega á út um glugga í nærliggjandi húsum stuðla að öryggi og félagslegri samheldni íbúa. Hún útskýrir jafnframt í þaula hvernig hanna má gangstéttir og umhverfi þeirra til að ná þessu tvennu fram; notkun og áhorfi. Sumsé, lítil atriði sem skipta samt miklu máli. Ekki síst þegar þau fléttast saman eftir því sem á bókina líður og undir lokin er maður alveg sannfærður um hvað borgarhönnun skiptir miklu máli, meðal annars og ekki síst upp á öryggi fólks og líðan.
Sjónarhorn Jane Jacobs var sjónarhorn hins almenna borgarbúa sem rýnir í umhverfi sitt af jörðu niðri og í návígi, frekar en utan frá út frá stífum fræðilegum forsendum. Það er miðað beint út frá íbúunum og þörfum þeirra eins og þeir upplifa þær sjálfir. Án þess að hægt sé að fullyrða eða alhæfa má teljast líklegt að kyn hennar hafi haft eitthvað með þetta að gera; að hún hafi sem kona verið í aðstöðu til að koma með ferskt sjónarhorn inn í grein sem nokkuð einokuð var af körlum. Hún horfði hreinlega á aðra þætti en þeir höfðu tamið sér að horfa á.
Það skiptir máli upp á góða hönnun og skipulag að reynsluheimur sem flestra fái þar að njóta sín. Ekki aðeins vegna þess að betur sjá augu en auga heldur líka vegna þess að þannig er best tryggt að tillit sé tekið til ólíkra hópa og þarfa þeirra.
Það skiptir máli upp á góða hönnun og skipulag að reynsluheimur sem flestra fái þar að njóta sín. Ekki aðeins vegna þess að betur sjá augu en auga heldur líka vegna þess að þannig er best tryggt að tillit sé tekið til ólíkra hópa og þarfa þeirra.
Á fundi borgarráðs þann 4. september lagði borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, fram svar UN Women við bréfi sem forveri hans í starfi, Jón Gnarr, hafði ritað samtökunum fyrir hönd Reykjavíkurborgar til að óska eftir þátttöku í verkefninu Safe Cities Global Initiative (Alþjóðlegt átak um öruggar borgir). UN Women tekur vel á móti borginni og skrifað verður undir formlegt samkomulag um þátttöku hennar í Öruggum borgum þann 25. nóvember, en það er einmitt lokadagur alþjóðlegs átaks sem stendur nú yfir í tengslum við verkefnið.
Öruggar borgir snúast eins og nafnið gefur til kynna um að auka öryggi í borgum, með séráherslu á öryggi kvenna gagnvart kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Einn liður af fjölmörgum í því að ná markmiðum verkefnisins fram er að skoða hvernig smáatriði í skipulagi borga geta stuðlað að auknu öryggi borgarbúa og hverjar þarfir mismunandi hópa eru í því samhengi. Þar getur oft verið raunverulegur dauði eða líf í húfi – ekki borga heldur borgarbúa sjálfra.
Aðild Reykjavíkurborgar að þessu þarfa og góða verkefni er ekki nærri því jafn stórt skref fyrir mannkynið og bók Jane Jacobs en það er samt sæmilega stórt stökk fyrir borgina. Litlu hlutirnir skipta sínu máli.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.