Delta-afbrigðið og mikilvægi bólusetninga gegn COVID-19

Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, skrifar um þau skref í baráttunni gegn COVID-19 sem stíga þurfi sem fyrst. Að bjóða öllum unglingum 12-15 ára bólusetningu sem allra fyrst er eitt þeirra.

Auglýsing

Delta-afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar, sem veldur COVID-19, er að minnsta kosti tvisvar sinnum meira smitandi en upphaflega veiran, veldur alvarlegri sjúkdómi og sýkir meira af yngra fólk en fyrri afbrigði. Raðgreining veirusmita á Íslandi sýnir að mörg smit af Delta hafi borist inn í landið. Samfélagssmit er mikið um allt land. Í dag eru 1.244 sýktir í einangrun, sem betur fer fáir alvarlega veikir, en 15 eru á sjúkrahúsi, þar af einn í öndunarvél. 187 sýktir einstaklingar eru börn, eða 15% allra sýktra, sem er mun meira en sást í fyrri bylgjum.

Delta-afbrigði er meira smitandi en upprunalega veiran

Ný, óbirt rannsókn frá smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna (CDC) sýnir að Delta-afbrigði veirunnar er ekki bara miklu meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar sem veldur COVID-19, Delta er jafn smitandi og hin bráðsmitandi hlaupabóluveira. Delta er meira smitandi en kórónuveirurnar SARS, sem olli faraldri 2003, og MERS sem olli faraldri 2012, Ebóla, inflúensa og inflúensan sem olli heimsfaraldri 1918, Spænsku veikinni. Delta er meira smitandi en bólusóttarveiran, sem olli 26% dauða á landsvísu, þegar hún gekk á Íslandi 1707-1709. Með samstilltu bólusetningarátaki tókst að útrýma bólusótt úr heiminum árið 1980!

Delta-afbrigðið veldur auknum alvarlegum sjúkdómi og dauða

Ný rannsókn frá Kanada sýndi að 2,5 til 3 sinnum fleiri sem sýktust af Delta-afbrigðinu lögðust inn á sjúkrahús eða gjörgæslu eða létust, en af þeim sem sýktust af upprunalegu veirunni. Rannsókn frá Skotlandi sýndi tvöföldun í sjúkrahúsinnlögn og rannsókn frá Singapúr sýndi tvöföldun á lungnabólgu af Delta miðað við upprunalegu veiruna, aukningu á innlögn á gjörgæslu og dauða.

Bólusetning skiptir sköpum fyrir afleiðingar COVID-19

Rannsókn Smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna sem var kynnt í fyrradag, bendir til að fyrir hvern einn fullbólusettan einstakling leggist 25 óbólusettir inn á spítala eða deyi úr COVID-19, 90% þeirra sem rannsóknin náði til voru sýktir af Delta-afbrigðinu. Ónæmiskerfi bólusettra virkjast innan örfáa daga og veldur því að þeir veikjast minna en óbólusettir.

Vernd bólusetninga gegn Delta-afbrigðinu

Tveir skammtar af Pfizer og AstraZeneca bóluefnunum vernda álíka vel gegn sjúkrahúsinnlögn og dauða af völdum Deltaafbrigðisins, en mun minna gegn einkennalitlum sjúkdómi og gegn því að smitast.

Í tveim stórum rannsóknum byggðum á fjöldabólusetningu var vernd af bólusetningu gegn alvarlegum sjúkdómi, sjúkrahúsinnlögn og dauða af völdum Delta afbrigðisins:

  • 2 skammtar af AstraZenca bóluefninu 67% og 91% vernd
  • 2 skammtar af Pfizer bóluefninu 88% og 96% vernd
  • Einn skammtur af AstraZenca og Pfizer bóluefnunum 30-35% vernd.

Engar upplýsingar hafa birst um vernd af einum skammti af Janssen bóluefninu gegn alvarlegum sjúkdómi af völdum Delta afbrigðisins.

Lítil rannsókn sem vísindamenn Janssen birtu um miðjan júlí sýnir að einum mánuði eftir einn eða 2 skammta af Janssen bóluefninu voru hlutleysandi mótefni (sem hindra að veiran sýki frumur mannsins) góð en þó 13 sinnum lægri gegn Delta en gegn upprunalega afbrigðinu, en þau héldu áfram að hækka í 2 mánuði. Hlutleysandi mótefni lækkuðu lítið á 8 mánuðum og voru þá þrisvar sinnum lægri gegn Delta en gegn upprunalega afbrigði veirunnar.

Auglýsing

Önnur rannsókn sem birtist fyrir rúmri viku (óritrýnd) sýnir að um 80 dögum eftir bólusetningu voru hlutleysandi mótefni gegn upprunalega afbrigðinu um þrisvar sinnum lægri eftir 1 skammt af Janssen en eftir 2 skammta af Pfizer eða Moderna bóluefnunum, og eftir 2 skammta af Pfizer eða Moderna bóluefnunum voru hlutleysandi mótefni þrisvar sinnum lægri gegn Delta afbrigðinu en því upprunalega. Þessar niðurstöður benda til að 1 skammtur af Janssen bóluefninu gæti veitt minni vernd gegn COVID-19 af völdum Delta afbrigðisins en 2 skammtar af Pfizer eða Moderna bóluefnunum.

Í mörgum löndum er stór hluti sýktra af Delta-afbrigðinu bólusettur, eins og hér, og sums staðar er stór hluti þeirra sem veikjast líka bólusettur. Þannig voru 23% fullbólusettir og 18% hálfbólusettir af 3700 inniliggjandi á sjúkrahúsi með Delta-afbrigðið í Bretlandi nýlega. Í Ísrael, þar sem Delta er ráðandi, voru um 60% þeirra sem lágu á sjúkrahúsi bólusettir, flestir voru eldri en 60 ára og flestir með undirliggjandi sjúkdóma.

Þannig eru vísbendingar um að bólusetning verndi þá sem eru gamlir og með undirliggjandi sjúkdóma ekki eins vel og þá sem eru ungir og hraustir, enda svara þessir áhættuhópar bólusetningum oft verr og eru þeir því minna verndaðir gegn smitsjúkdómum.

Bólusetning kemur ekki í veg fyrir smit nema hjá um 40-50% útsettra. Bandarísk rannsókn bendir til að bólusettir beri jafnmikið Delta erfðaefni í nefkoki og óbólusettir, en ekki ljóst hvort þeir smita jafnmikið. Sumir telja að þeir smiti líklega minna en bólusettir, þar sem sumar veirurnar séu þaktar mótefnum og geta þannig síður sýkt.

Börn og unglingar smitast síður og veikjast minna en þeir sem eldri eru, en meira er um alvarleg veikindi af völdum Delta-afbrigðisins

Nú eru 187 börn smituð og í einangrun á Íslandi, sem betur fer eru þau flest ekki alvarlega veik. Ég þekki þó til nokkurra barna sem hafa legið veik með yfir 40°C hita í 2-3 daga. Rannsókn í Bandaríkjunum sýndi að tíðni á COVID-19 lungnabólgu er um tvisvar sinnum algengari hjá börnum sem smitast af Delta en af upprunalega afbrigði veirunnar. Tvær bandarískar rannsóknir sýndu að af börnum sem leggjast inn á spítala eru 30-35% sem þurfa á gjörgæslu að halda, mörg þeirra hafa undirliggjandi sjúkdóma.

Þannig geta börn og unglingar smitast af Delta og borið smit í aðra, og þau geta veikst alvarlega, þó það sé sem betur fer ekki algengt.

Hvað er til ráða?

Það er mikilvægt að auka bólusetningar, eins fljótt og hægt er.

Bólusetning barnshafandi kvenna

Í ljósi aukins smits af Delta-afbrigðinu og að barnshafandi konur eru líklegri til að fara illa út úr COVID-19 sjúkdómi en jafnöldrur þeirra sem ekki eru barnshafandi hafa mörg lönd tekið ákvörðun um að bjóða barnshafandi konum bólusetningu. Evrópsk samtök fæðingarlækna o.fl. hafa kallað eftir því að barnshafandi konum sé boðin bólusetning. Þegar litið er til þess stóra hóps barnshafandi kvenna sem hefur verið bólusettur vegna undirliggjandi áhættuþátta eða mikillar útsetningar t.d. vegna starfa í heilbrigðisþjónustu, er ekkert sem bendir til að bóluefnin séu skaðleg fóstri eða móður. Það er frábært að búið sé að bólusetja stóran hluta barnshafandi kvenna á Íslandi, sem eru gengnar 12 vikur eða meira.

Bólusetning unglinga

Við ættum að bjóðum öllum unglingum 12-15 ára bólusetningu sem allra fyrst, þannig að þau hafi náð að mynda verndandi ónæmi áður en skólarnir byrja.

Bæði bóluefni Pfizer og Moderna bóluefnin hafa fengið leyfi Lyfjastofnana Evrópu og Bandaríkjanna fyrir 12-15 ára unglinga. Unglingarnir mynda ónæmissvar sem er jafngott eða betra en í ungum fullorðnum, og öryggi sömuleiðis. Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna ráðleggur bólusetningu allra 12-15 ára. Eftir að sérfræðinganefnd hafði yfirfarið tilkynningar um mjög sjaldgæfar aukaverkanir, gollurshúsbólgu og hjartavöðvabólgu, sem hafa einkum komið fram hjá ungum karlmönnum, ítrekaði stofnunin í fyrradag ráðleggingar sínar um að allir 12-15 ára unglingar yrðu bólusettir.

Smitsjúkdómastofnun Evrópu hefur ekki gefið út almennar ráðleggingar, en öll lönd í Evrópusambandinu hafa nú leyft bólusetningu 12-15 ára unglinga og sum þeirra hafa þegar hafið almennar bólusetningar þessa aldurshóps, þar á meðal Danmörk. Önnur Norðurlönd hafa hingað til aðeins boðið unglingum með undirliggjandi sjúkdóma bólusetningu, eins og gert var hér. En á Íslandi eiga unglingar 12-15 ára rétt á bólusetningu, þótt skipuleg boðun þeirra sé ekki hafin.

Von er á niðurstöðum rannsókna á bólusetningu 5 til 11 ára barna með Pfizer bóluefninu í lok september, og vonandi reynist bóluefnið jafn ónæmisvekjandi og öruggt í þeim aldurshópi svo hægt verði að bjóða þeim bólusetningu í haust.

Allir sem fengu einn skammt af Janssen bóluefninu fái örvunarskammt af mRNA bóluefni.

Til að styrkja verndandi ónæmissvar þeirra sem fengu einn skammt af Janssen bóluefninu hafa sóttvarnaryfirvöld ákveðið að gefa þeim öllum örvunarskammt af Pfizer bóluefninu, og byrja á kennurum og starfsfólki skólanna. Þessi skynsamlega ákvörðun byggir á niðurstöðum rannsóknar sem sýndi að þeir sem fengu Pfizer örvunarskammt eftir einn skammt af AstraZeneca bóluefninu (sem er veiruferjubóluefni eins og Janssen) sýndu sambærilegt eða betra ónæmissvar en þeir sem fengu tvo skammta af sama bóluefni, þótt algengar vægar aukaverkanir væru líka algengari. Einnig sýndu fyrri rannsóknir á samskonar bóluefni Janssen gegn Ebólaveirunni að örvunarskammtur með annarri gerð bóluefna gaf mjög gott ónæmissvar. Lyfjastofnun Evrópu og Smitsjúkdómastofnun Evrópu gáfu nýlega út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þessi kostur (veiruferja fyrst og mRNA örvunarskammtur) var sagður mjög fýsilegur, einkum í baráttunni við Delta-afbrigðið, þótt stofnanirnar hafi ekki gefið út formlegar ráðleggingar.

Bjóða fólki í áhættuhópum vegna undirliggjandi sjúkdóma og aldurs þriðja skammt af Pfizer bóluefninu

Hlutleysandi mótefni gegn Delta-afbrigðinu voru góð 2-4 vikum eftir 2 skammta af Pfizer bóluefninu, þó heldur lægri en gegn upprunalega afbrigðinu. Rannsókn á þriðja skammti Pfizer bóluefninu 6 mánuðum eftir annan skammt olli ekki auknum aukaverkunu en jók hlutleysandi mótefni gegn upphaflegu veirunni og Beta-afbrigði hennar veirunnar 5-10 falt miðað við magn þeirra eftir 2 skammta og klínískar rannsóknir á áhrifum þriðja skammts af Pfizer bóluefninu gegn Delta eru í gangi.

Ónæmisbældir, aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma svara bólusetningum of verr en ungir og hraustir og er oftast minna verndaðir gegn COVID-19 í rannsóknum á bóluefnum. Því hafa margir vísindamenn, m.a. Antony Fauci yfirmaður smitsjúkdómastofnunar Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna og ráðgjafi Bandaríkjaforseta bent á að æskilegt sé að þessir hópar fái aukaskammt af bóluefninu. Mörg lönd íhuga að gefa þessu aðaláhættuhópum þriðja skammt og Ísraelsmenn hafa nú þegar hafið bólusetningu allra 16 ára og eldri með þriðja skammti af Pfizer bóluefninu.

Bólusetning er besta og hagkvæmasta vörnin gegn smitsjúkdómum!

Höfundur er prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar