Ein uppsprettulind mennskunnar

Jón Sigurðsson tók saman kynningu á samtímaljóðum og fjallar hér um þau í aðsendri grein. „Ljóðlistin skiptir máli. Hún er sjálfstjáning mannverunnar, í senn einkamál og sammannleg. Og hún er þroskalind málsamfélags.“

Auglýsing

I

Ljóð höfða til nokkurs fjölda áhugasamra lesenda. Hér verður því haldið fram að ljóðlist sé ein af uppsprettulindum sammannlegra gilda og mennsku. Þrátt fyrir þetta kannast flestir við umsagnir um nútímaljóð: − „Þetta höfðar ekki til almennings.“ − „Skáldin einangra sig.“ − „Þetta er kimi fyrir sérvitringa og uppskafninga.“ − „Þetta er óskiljanlegt.“

Lestur ljóða, jafnt nútímaljóða sem eldri ljóðlistar, útheimtir einbeitingu, krefst athygli og endurlestrar, og þarfnast umhugsunartíma, yfirlegu og innri úrvinnslu lesandans. Þessi einkenni skýra sjálfsagt að einhverju leyti hversu fáir fylgjast með ljóðlistinni á líðandi stund.

Miklu skiptir að óvanur lesandi láti fyrstu lestrarskynjun ekki hindra sig. Hann þarf að opna hugann og skoða hvort ljóðið vekur honum forvitni. Og til þess að lesandinn haldi áfram þarf lesturinn, endurtekinn og hugleiddur, að höfða til hans. Lesturinn þarf að vekja einhvers konar samhug eða áhuga, vekja athygli á einhverju, færa nýja reynslu og skynjun, einhverja nýja hugsun, grun, hrifningu, hryggð eða gleði, samlíðun eða skilning á einhverju sem lesandann skiptir máli. Orðsnilld, lýsingagleði, fyndni og hugkvæmni styrkja viðbrögðin, og ekki síður tjáning alvöru, sorgar, mannúðar og samkenndar. Oft er í þessu samhengi vitnað um djúpa vitund eða háleita sýn.

Sjálfsagt hugleiðir skáld þetta ekki þegar ljóð verður til. Ef til vill þykir skáldi þetta óþægileg skuldbinding, enda innblástur þess og köllun úr öðrum áttum. En viðtaka ljóðsins í huga lesenda er undir þessu komin, að einhverju leyti.

*

Upplýsingar um bóksölu hérlendis og viðtökur nútímaljóða eru ekki nákvæmar. Þær benda til að upplög ljóðabóka lifandi skálda séu lítil, í mörgum atvikum færri en 300 eintök. Sala þeirra er hæg. Reyndar verður einnig að hafa útlán á bókasöfnum í huga, og að jafnaði sækir nokkur hópur upplestra ljóðskálda úr nýjum bókum.

Auglýsing

Í Lesbók Morgunblaðsins 3. júlí 1999 er yfirlitsgrein um málþing í Rotterdam um ljóðaútgáfu. Þar kemur fram að Halldór Guðmundsson forstjóri Máls og menningar hafði flutt erindi, með upplýsingum um bókaútgáfu á Íslandi. Í máli hans hafi komið fram að árlega séu um 80 ljóðabækur gefnar út á Íslandi. Árleg sala í heild sé um 20 þúsund eintök, eða meðaltalssala um 250 eintök hverrar bókar. Aðrar heimildir greina að sumar ljóðabækur seljist betur en meðaltalið, en flestar seljast minna. Sala ljóðabókar dreifist á langan tíma, og innkaup bókasafna og skóla nema verulegum hluta sölunnar.

Í Morgunblaðinu 13. ágúst 2018 kemur fram að samdráttur í bóksölu á Íslandi hafi numið um 36% á áratugnum til og með 2017. Ekki liggur fyrir hvernig þessi samdráttur snerti ljóðabækur. Varla hefur samdrátturinn látið þær ósnertar, en þó er hæpið að álykta um breytingar á sérmarkaði af framvindu á almennum markaði.

Upplýsingar frá nágrannalöndum benda til þess að staða ljóðlistarinnar, jafnt í Evrópu sem vestan hafs, sé með sambærilegum hætti. Í frásögunni af málþinginu í Lesbók kemur fram að nýjar ljóðabækur seljist í Þýskalandi í 200 - 600 eintökum. Að vísu er þar stærri markaður fyrir verk fárra vinsælla ljóðskálda. Það er nefnt í Lesbókarfregninni að margir erlendis álíta að ljóð séu aðeins lesin í lokuðum hópum.

Athyglisverðar eru þær upplýsingar að algengasta sala nýrrar íslenskrar ljóðabókar nálgist 200 eintök en ný þýsk ljóðabók nái upp undir 600 eintök. Íbúar Þýskalands eru meira en 240 sinnum fleiri en þeir sem lesa íslensku, og eru þá ekki taldir aðrir sem lesa þýsku. Athugun sem höfundur þessarar ritsmíðar gerði árið 1971 á sölu nýrra ljóðabóka lifandi skálda í Reykjavík, Stokkhólmi og New York benti til sambærilegrar ályktunar. Þessi athugun var gerð án vandaðrar gagnavinnslu og vitað að verulegur hluti ljóðaútgáfu var í tímaritum, eins og nú.

Á hverju ári koma allmargar ljóðabækur út í frumútgáfu með áður óbirtum verkum lifandi íslenskra ljóðskálda. Gildur skerfur ungs fólks og kvenna vekur athygli. Upplög bókanna eru lítil og lítið um þau fjallað í prentmiðlum. Ríkisútvarpið hefur að vísu sýnt viðleitni. Talsvert hefur verið um einkaútgáfur skáldanna sjálfra, og söludreifing er takmörkuð.

Reyndar halda nokkrar sérgerðir ljóða vinsældum. Þar er átt við dægurlagatexta og skemmti- og söngleikjakvæði, og einnig sálma og trúarsöngva. Og hefðbundin hagmælska nýtur vinsælda meðal þjóðarinnar.

II

Hér fylgja upphafserindi nokkurra frumortra ljóða sem birtust á síðustu árum til og með 2019 eftir núlifandi skáld og nýliðin. Miðað er við ljóð frumbirt á þessum árum, en ekki verður hér mat á bókmenntatímabili eða skáldakynslóðum. Og hér er engin tilraun til „gæðadóma", hvorki um þau skáld og ljóð sem valin eru né þau sem ekki eru með.

Auðvitað er umdeilanlegt, hvaða ljóð og hvaða skáld eru nefnd og hver ekki. Auk þess verður að meta hvort upphafserindið stendur eitt sér án þess sem á eftir fer. Valið þrengist þegar til þess er hugsað að nokkrar ljóðabækur geyma samfelldan ljóðabálk, eða sérstæðar stökur fremur en ljóð. Hér verður að biðja alla velvirðingar. Hverju dæmi fylgja nokkur orð til skýringar.

Dæmin sýna hvernig upphafserindi opnar sérstaka myndlýsingu eða mynd af atviki, tjáir eigin sérstakan veruleika, og hvernig lesanda er boðin innganga − formálalaust, umsvifalaust. Upp er brugðið mynd eða atviki sem „sjá má“ fyrir sér, hnitmiðað en án útskýringa. Hér er reglum rökvísinnar sjaldan fylgt og jafnvel sveimað í draumvímu. Auk myndheims er algengt að í ljóði sé spekimál, orðskviðir eða jafnvel boðskapur, eða innileg sálarútrás, og þessu ofið saman. Í ljóðinu er atviki brugðið upp í fáum knöppum orðum, og þess er þá krafist að lesandinn hverfi inn í þennan veruleika um stund. Hér er mannlegt mál gjarnan með hæstu samþjöppun og merkingarhleðslu.

Annað sem vekur athygli er endurtekningar. Vandaður upplestur birtir hljómfall sem getur verið fjölbreytilegt og er endurtekningar málhljóða, áherslu og áhersluleysis. Í sumum ljóðum má finna endurtekið sama málhljóð í upphafi orða í áherslustöðu og er þetta nefnt ljóðstafir, stuðlar í fyrri ljóðlínu og höfuðstafur í næstu ljóðlínu á eftir. Ljóðstafir voru um aldir formeinkenni ljóðagerðar Íslendinga ásamt háttbundnu hljómfalli, bragliðum. Enn beita ljóðskáldin gjarnan þessum áhrifatækjum en á frjálslegan hátt. Óháð hefðum leika skáldin víða í nútímaljóðum með orð og orðaröð og með sjálft hljómfall móðurmálsins.

En endurtekningar eru einnig í efnisinnihaldi, myndum og merkingum ljóða, gjarnan tengdar einhverri stigmögnun eða viðleitni skáldsins til að varpa nýju ljósi á viðfangsefni.

Auglýsing

Áhrifamikill þáttur endurtekninga, og ekki síður þáttur tilbrigða um endurtekningar, er skipting ljóðs í ljóðlínur og erindi. Þessi skipting er grunnur að formgerð ljóðsins. Orðasambönd, efnisinnihald og merkingar móta þessa skiptingu. Efnisáherslur, merkingar og setningar ráða miklu um ljóðlínuskipti og erindaskipti. En þessi skipting er líka leið skáldsins til að móta hljómfall, hljómblæ og hrynjandi. Við ljóðlínuskipti verður stutt hljóðdvöl í flutningi ljóðs upphátt og fremst í næstu ljóðlínu verður áhersluatkvæði, nema þar sé áherslulétt tengiorð, forliður. Lesandi dýpkar ljóðayndi sitt með því að flytja ljóð upphátt, heyra þetta og njóta þess.

*

Sigurður Pálsson orti í byrjun ljóðsins „Orð og draumar“:

...

Þetta er hreint og beint sem verið getur.„Orð og draumar“ merkja hér trúlega lífsinntak og lífsstefnu. Allar mannverur þurfa orð, til að virkja hugsun sína og móta hana, og allar mannverur þurfa drauma til að geta lifað. Hér fara þessi máttarvöld „saman“, „lengur en ég man“.

En hér er víðari skírskotun, „alltaf“ og „lengur en“ vitund hefur vakað. Hér er brugðið orðum um kjarna í tilveru mannverunnar. Er hér jafnvel víðtæk táknun mannlífsins á jörðunni yfirleitt?

Í þessu erindi er ljóðstafasetning að hætti eddukvæða.

Elísabet Jökulsdóttir yrkir ljóðaflokk. Fimmta ljóðið, „8. maí mánudagur“, hefst svo:

...

Myndin er skýr. Hljómfallið er jafnt. Ljóðlínur styttast framan af, en lengjast síðan aftur um leið og efnið breytist. Það vekur athygli að engin greinarmerki eru í 3. síðustu ljóðlínu, en þetta hlýtur að merkja að hér eigi engin hljóðdvöl við, heldur viðstöðulaust framhald.

Við skynjum þreytumerki, í því hvernig mamma „teygir hálsinn“ fram, enda hefur hún átt sófann „í hundrað ár“. En þá umbreytist myndin: „Já, hún er svanur ...“ Svanurinn er tákn hreinleika og fegurðar.

Þórarinn Eldjárn kveður í upphafserindi ljóðsins „Lang":

...

Hér er orðaleikur. Leikið er að orðunum: „hefði hún sagt“ en skjaldbakan er hér lítt „gefin fyrir klisjur“. Hér er manngerving í því að skjaldbökunni eru fengnir eiginleikar manns, til að „segja“ og til að „hlaupa“ og til að fara með „klisjur“.

Lesandinn skynjar að „skjaldbaka“ og „langhlaup“ eru ekki samstæður í ytri raunveruleika, og vafi þar að skjaldbakan „sigri alla“ á sprettinum. En ekki er allt sem sýnist. Í veruleika sem einkennist af „lang“ eru mælistikur sem skjaldbökunni henta. Þegar líður á „lang“ fer henni að vegna betur.

Þórdís Gísladóttir yrkir í upphafi ljóðsins „Erfðaskrá“:

...

Erindið hefst á langri ljóðlínu, en síðan tekur við upptalning í ljóðlínum sem lengjast hver af annarri og mynda þannig samfellt hljómfall. Erindið er röð örstuttra mynda sem bregða ljósi yfir ljóðmælandann eins og skáldkonan vill sýna eigindir hans. Á nokkrum stöðum ber fyrir aðkenningu af ljóðstöfum.

Upphafs- og lokaljóðlínurnar talast við: ,„afglöp“ og „glappaskot“. Hér er glettni sem bregður svip á ljóðið. Þannig kemur tvísæi (írónía) fram, og það er þá eins og „hvatvísi“, „mismæli“ og „glappaskot“ verði ekki eins alvarleg og ella kynni að vera. Hér er létt blanda af bersögli og hreinskilni.

Halldóra Thoroddsen orti í upphafi ljóðsins „Götumynd“:

...

Myndin er hversdagsleikinn í borginni. Það er norðanvindur, kaldur og óþægilegur. „Mávager“ á lofti og „leikskólabörn“ á gangstéttinni, tveir hópar hvor í sínum heimi, en báðir í norðanvindinum.

Allt í einu birtist lokaljóðlínan: Þau hafa „einhyrninginn í bandi“. Sjálfsagt er hér um leikfang að ræða. En þetta minnir á ýmsar ævintýra- og barnasögumyndir. Einhyrningurinn er alkunnugt tákn og hefur langa sögu að baki frá miðöldum, tákn fyllingar vonanna og líka tákn sjálfs Frelsarans. Hér fyllist ljóðið af framtíð og von.

Eyþór Árnason segir svo í upphafi ljóðsins ,„Sumarást“:

...

Hér er hreyfimynd í minningunni. „Vorsólin“ er hluti fyrir heild umhverfisins með sumar í vændum. Og „þú komst“ eins og forn-grísk goðvera með „fislétt ský“ einmitt „undir iljunum“. Og þannig brunar „þú“ um loftin óháð náttúrulögmálum, goð eða gyðja sumarástarinnar. Hreyfimyndin iðar „fislétt“, mótuð af yndi og gleði.

Vorsólin er alkunnugt tákn, ekki síst á norðurslóðum, tákn lífs, endurreisnar og vona. Vorsólin stýrir fögnuði og gleði þegar „þú komst“. Er þetta þá ljóðmynd af ástinni?

Sigmundur Ernir Rúnarsson kveður í upphafi ljóðsins „Fram“:

...

Myndin er kyrr og sýnir einfalda athöfn. „Ný birta“ morgunsins er sígilt stef og tákn. Og ljóðmælandinn „teygir fingurna út“. Líklega er það vongleði og fögnuður. Birtan virðist því áþreifanleg og eins er „dagurinn“ að það má taka „handfylli“ í greip sína. Kjarnaorðið er „ósagður“ dagur. Dagurinn er ekki aðeins í sköpun, heldur er ekkert enn af honum sagt. Hér er óvíst um framtíðina en hún er full af væntingum og tækifærum.

Hljómfall er jafnt og fellur vel að þáttum myndlýsingarinnar. Aðallega sker lokaljóðlínan sig úr og hæfir það niðurlaginu.

Kristín Eiríksdóttir yrkir í upphafserindi ljóðsins „kæri bréfritari 2“:

...

Ljóðmælandi og móttakandi eru í miðju athyglinnar. Ljóðið er kankvísleg afsökunarbeiðni, fyrir „svona kvikindi“. Orðið „kvikindi“ er kjarni máls, en samt aðeins „viðbragð“. „Þurrkuðu blómin“ eru tvíræð mynd. Annars vegar eru slík blóm notuð til minja en hins vegar eru þau ekki lifandi lengur. Hér „vöktu“ blómin „viðbragðið“ við þessum „málefnum hjartans“.

Hljómfall er nokkuð jafnt, og ljóðlínurnar styttast í síðara hlutanum, með hraðara og stökkara hljómfalli.

Þórður Helgason kveður í „Sonnettu um áramót“:

...

Þetta er upphaf á sonnettu sem er einn kunnasti bragarháttur vestrænnar ljóðlistar um margra alda skeið. Hér er allt í samræmi við hefðir, bragliðir, hrynjandi, ljóðstafir og rím.

Í fyrstu orðunum er skynding, óvæntur atburður „fyrir ári“ en síðan er viðbrögðum lýst. Ljóðmælandinn lýsir viðbrögðum kankvíslega, en meira að segja „himinninn yfir“ breytir um svip og fær „bjarta og hlýja liti“ fyrir „gráan“. Það ýtir undir áhrif þessa upphafserindis hvernig hugsun og setningar renna á milli yfir ljóðlínur og mynda samfellu. Þetta er algengt í sonnettum og mótar ljóðinu samfellda hrynjandi.

Kristbjörg F. Steingrímsdóttir yrkir í ljóðinu „Draumsýn“:

...

Hér er ort að hefðbundnum hætti, stuðlar, höfuðstafur og háttbundin hrynjandi. Ljóðmælandi stígur ekki fram, en sýn er brugðið yfir sjónsviðið frá horfnu eyðibýli. Sýnin lækkar yfir óslegna sléttu sem bylgjast í „vindsveipum“. Allt í einu verður hröð hreyfing og „blik“ fyrir augum. „Hraðfleygur vængur“ er bæði hluti fyrir heild fuglsins og tákn um hraða hreyfingu yfir sjónsviðið. Ef til vill er vængurinn og fuglinn tákn þess að allt hreyfist, kemur, fer og hverfur.

Gyrðir Elíasson kveður svo að orði í upphafi ljóðsins „Dagar koma (2)“:

...

Spretta, gróður, líf er í inntaki ljóðsins. Dagarnir eru jarðvegur og jurtir. Þetta er tjáð fyrirvaralaust. Orðin „góðu“ í 2. ljóðlínu og „gott“ í 7. ljóðlínu kallast á. Vonin verður þungamiðja og hún miðast við „eitthvað gott“. Skáldið viðurkennir að hafa sjálft „smíðað“ kassann og opnar þannig skilning á því að þetta gerist allt í hugskoti þess.

Ljóðlínurnar eru stuttar, en þær mynda samfelldan hljóm og nokkuð hraða hrynjandi. Ljóðlínuskipti sýna hvernig setningu og merkingu er haldið með yfirstigi áfram yfir í næstu ljóðlínu. Og á nokkrum stöðum er áherslulétt orð í línulok og þá er jafnframt dregið fram áhersluorð í upphafi næstu ljóðlínu, eftir hljóðdvöl í framsögn, og mynda þannig líðandi spennu.

Eyrún Ósk Jónsdóttir tekur til máls í upphafi ljóðsins „Tjaldið frá“:

...

Framan af er hljómfallið líðandi en verður stökkara um miðbik erindisins og ítrekar það sem þar segir. Í síðara hluta verður hljómfallið jafnt og fellur vel að merkingu og setningarhlutum.

Það er hæðni í lýsingunni: „geti gengið aftur“, og að „sortinn“ öðlist „fagurfræðilegt gildi“. Hér geta lykilorðin verið „andi“, „sorti“ og loks „gildi“. Leiðin að markinu er „leikhús“ og það ætti að standa í „kirkjugarðinum“. Þar getur þá orðið „endursköpun“ til að „gefa“ „fagurfræðilegt gildi“. Hér notar skáldkonan fræðileg orð í tvísæilegum („írónískum“) háðslegum tilgangi. Eða ef til vill leitast hún við að ýta sjálfri sér frá ljóðmyndinni og láta hana standa a eigin forsendum.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson yrkir í upphafi ljóðsins „Sumarsveifla“:

...

Myndin minnir á stillu á kaldri vetrarnótt. Líklegast er hér vikið að norðurljósum, vegna þess að „næturský“ eru nefnd en ekki kvöldský. Himinhvelið er dregið til mannsins því að skýin eru „sængurvoðir“. Þannig sameinast ómælisgeimur himna og nærheimur mannverunnar. Og ljóðmælandinn horfir til „norðurhimins“, en þannig fær ljóðmyndin á sig enn skýrari frostrósarblæ, kristöllun í kaldri stillu.

Hljómfallið er alveg samkvæmt efninu, og ljóðstafir eru í tveimur síðari ljóðlínunum.

*

Þessi dæmi eru aðeins upphöf og birta engan veginn allt ljóðið, það andríki sem skáldið hefur lagt í ljóðið í heild. Hér er myndum víðast brugðið upp, og bent skal á hve afmarkaðar þessar atviksmyndir eru og hve einstök orð bæta við eða auka inn í hverja mynd. Athugull lesandi sér að hvert einasta orð og tengsl orða hafa merkingargildi. Hér er móðurmálið litaspjald, pensilskúfur og fjaðurpenni. Og skipting í braglínur vekur athygli á örstuttu hiki, hljóðdvöl, og áherslu fremst eða næstfremst í næstu braglínu. Hljómliðir málsins verka greinilega. Þannig myndast sérstæður seimur í hljómi málsins þegar ljóð er sagt fram upphátt.

Það skiptir máli hve fyrirvaralaust sum skáldin slá skynþáttum og sjónbrotum saman sem eru óvænt eða óskyld, jafnvel andstæð venjulegri lífsreynslu. Þannig leika hugmyndir, skynmyndir og lýsimyndir saman. Með þessu er athygli lesandans vakin á nýstárlegri skynjun og hann leiddur að óvæntri reynslu.

Auglýsing

III

Ljóð eru móðurmál sem miðlað er með sérstökum hætti og greinilega öðruvísi en við aðrar aðstæður eða tilefni. Í öndverðu var ljóðlistin seiður, ekki aðgreind frá sönglistinni eða frá trú, töfrum og galdri. Hún var talin opinberun og innblástur af guðlegum toga. Bókmennta- og hugmyndasaga þjóðanna ítrekar gildi ljóðlistar. Vitnað er til ljóða og fundnir orðskviðir, heilræði, lífsskoðun, spámannsorð og spekimál. Farið er með ljóð á gleðistundum, sorgarstundum, hátíðarstundum, baráttustundum. Á örlagastund grípa menn til ljóða, og tilfinningar sínar vilja menn klæða í ljóðmál eða hafa yfir ljóð annarra til að tjá hug sinn þegar mikið liggur við. Og þeir sem hafa gengið ljóðlistinni á hönd eiga hljóðar yndisstundir með kvæðakver í hendi.

Ljóðlistin á staðfasta hópa áhugafólks. Þetta fólk greinist eftir smekk, aldri, lífsreynslu og lífsskoðun en er á einu máli um nauðsyn ljóðlistar til þroskunar og göfgunar, til þess að móta mannúð og mennsku. Hér eru orðin „mannúð“, „mennska“ og „göfgun“ ekki notuð af léttúð. Og ljóðagerð höfðar þannig til sumra kvenna og karla að þau fara sjálf að tjá sig með ljóðmáli.

Það hlýtur að skipta máli að reynt verði að kynna ljóðlistina fólki og þar á meðal ungu fólki. Og ljóðlistin verður ekki kynnt án þess að eitthvað fljóti með af þeim ljóðum sem eru ný og tilheyra líðandi stund. Því má halda fram að mestu varði um kynningu á nýrri ljóðagerð lifandi skálda, því að hér brennur eldur líðandi stundar.

*

Lesandi spyr annars vegar: Um hvað er skáldið að tala, hvert er umræðuefnið? Hins vegar spyr hann: Við hvern eða hverja er skáldið að tala? Eftir fyrstu skoðun svara leita nýjar spurnir á lesandann: Hver er ætlun skáldsins með ljóðinu? Eru í ljóðinu einhver stef sem vísa út lengra og kveikja einhverjar hugrenningar innra með mér?

Kunn meginstef ljóða eru: − Hugblær á andartaki, − Skynjun og hughrif, − Eintal og íhugun, − Ástin, − Óskir og draumar, − Sorg og gleði, − Yndi og sársauki, − Lífið og dauðinn, − Guð, − Mannveran á jörðunni, − Stormar í mannlífi, − Sýnir og hugsjónir, − Ávarp og boðskapur... Og einn algengasti tjáningarháttur ljóðsins er að upp er brugðið mynd sem sýnir afmarkað atvik og aðstöðu, óskir eða reynslu. Endurlestur og umhugsun leiða lesandann til þeirrar skynjunar að hér er eitthvað meira undir. Ýmist er hér kyrrmynd eða færimynd yfir vítt svið eða hreyfimynd með breytingum eða atburðarás. Þegar vel tekst finnur lesandinn að hér er skírskotað miklu víðara og slegnir hljómar sem eiga enduróm í eigin vitund og undirvitund hans sjálfs.

Sumt í þessu er vitrænt og skiljanlegt, jafnvel opinskátt. Annað er margrætt eða órætt, þreifandi, dularfullt, jafnvel með óskiljanlegum hætti og hnekkir sérhverri tilraun til skilgreiningar. Í ljóðmálinu finnast grunkveikjur sem örva ímyndunarafl lesandans eins og undiralda, kveikja upp í meðvitund og undirvitund hans. Í ljóðlistinni finnur mannveran útrás og tjáningarleið sem umfram aðrar leiðir afhjúpar skáldið sjálft, innilegari og einkalegari, nærgöngulli, heitari og einlægari en önnur tjáning mannverunnar. Og með þessari afhjúpun kveikir ljóðið enduróm í lesandanum og nær inn í sálardjúp lesandans. Mannveran mætir sjálfri sér í ljóðinu og tendrar mennsku sína upp í heitan blakandi kyndil.

*

Mörg ljóð eru tilraunir sem ekki hafa tekist. En umsvifamikil ljóðagerð margra og almennur áhugi er nauðsynlegur jarðvegur og gróðurumhverfi árangurs, jafnvel þótt aðeins fá skáld nái „mestu hæðum“. Hér verður ekki rætt um „gæðakröfur“, en hér er fjallað um ljóð sem geta fullnægt kröfu lesandans um áhugaverða lestrarreynslu.

Líklega er ekki til nein almenn skilgreining ljóðs, − nema þá svo almenn að hún er útvötnuð. Ljóðið er lifandi veruleiki mennskunnar, og mennskan er iða og lætur aldrei loka sig í skilgreiningu. Reyndar þekkist sú tilgáta að ljóðið sé lífvera, viðkvæm lífvera. Sum ljóð eru opinská og útleitin og birta skírskotanir til mannlífs og baráttu, menningar, umhverfis og samfélags. Önnur eru leyndarfull og inn í sig. Sum ljóð eru fegurðarnautn og yndistjáning. Mörg ljóð eru eigin fullmótaður veruleiki, fullnægur sjálfum sér, og þaðan sér jafnvel til margra átta. Sum ljóð eru almenns efnis og önnur eru einkaleg. Sum eru brýning og boðskapur eða hæglátar hugleiðingar eða hvíslandi leit. Þau tjá ólgandi kenndir og lygna ró. Þau tjá sársauka, þunga alvöru, eða glettni og fögnuð. Þau tjá hughrif og skynjanir í þögulli einveru. Þau draga víða skírskotun í eina greip og magna andartakið meitlaðri merkingu og lífgæfum hughrifum.

Sum ljóð verka líkt dulúðugum launhelgum en önnur hrífa lesanda heitri sannfæringu í brýnum boðskap. Í sumum ljóðum birtist hneigð til að kveikja spurn, grun eða tilgátu án þess að veita vísbendingar að vitrænu svari. Þá miða þau frekar að því að vekja hughrif eða miðla hugblæ. Endurtekinn nær-lestur, nákvæmnislestur, leiðir hug lesandans inn í nýstárlega kima og víðerni ljóðanna.

Auglýsing

Alkunnugt einkenni margra nútímaljóða er að skáldið virðist vilja koma lesandanum að óvörum og ögra honum með nýstárlegri tjáningu. Af þessum sökum virðast mörg nútímaljóð óaðgengileg og illskiljanleg við fyrsta lestur. Reynsla ljóðavina er sú að ný og dýpri skynjun og skilningur koma í ljós við endurlestur og nær-lestur. Ýmis dæmi eru um tvísæi („íróníu“), gjarnan á óvæntum stað og með þeim hætti að lesandi getur líka meðtekið ljóðmálið án þeirrar fjarlægðar sem háð eða tvísæi veitir. Mörg nútímaskáld leggja sig fram um að koma lesanda á óvart, ögra venjubundinni skynjun og viðhorfum, setja fram vogaðar samsetningar og þversagnir, stundum í hálfgerðum hálfkæringi en oftar í alvöru sem virðist fyrst öfgar eða jafnvel sundurlaus fáránleiki. Ljóðavinum ber saman um að það veitir mikið lestraryndi að takast á við þessar ögranir, lesa sig inn í sér-heim ljóðsins og meðtaka hughrifin, grunkveikjurnar og ljóðmyndirnar úr brotunum og því sem oft virðist í fyrstu töfraðar afkáralýsingar.

Á löngum tímaskeiðum var það metnaðarmál, viðurkenndur smekkur og „gæðatrygging“ að skáldin fetuðu nákvæmlega í spor fyrri skáldakynslóða, í orðaforða, efnisvali, bragarháttum og allri framsetningu. Önnur tímaskeið hafa metið önnur viðhorf, og sumar kynslóðir hafa lagt áherslu á nýmæli og óvænta tjáningu. Á umbrotatímum hefur það gerst að ljóðlistin öðlist alþýðuhylli, og baráttusöngvar, hugsjónakvæði og ættjarðarljóð hafa hljómað um samfélögin. Á öðrum tímum hefur ljóðlistin þokast til hliðar og úr alfaraleið. Nú á dögum þykir nokkru varða að skáldið komi lesanda á óvart, viðhafi tilraunir í framsetningu og efnismeðferð og gjarnan að skáldið ögri lesandanum og hristi upp í honum. Og ólíkt því sem löngum tíðkaðist forðum nýta ljóðskáld nútímans ekki sérstakt skáldamál, heldur mjög gjarnan hversdagslegt orðfæri.

Jafnframt þykir ágætt í ljóðum að vísanir séu til sögulegrar og menningarlegrar þekkingar á merkingarumtaki orða, orðasambanda og ljóðmynda. Merkingarumtak er það merkingarsvið og þau hugrenningatengsl sem orð eða orðasamband hefur öðlast í málsamfélaginu og sögu þess. Í merkingarumtaki eru iðulega ljós eða óljós tengsl við atburði og menn, lífs og liðna, og við kunn ritverk eða ummæli, lífsskoðanir, sagnaþræði, siðaboðskap eða trúarkenningar. Sumt í þessu er aðgengilegt langflestum um hæl, en annað er sjaldþekkt og jafnvel skyggt vísvitandi.

Myndmál í víðum skilningi er ráðandi tjáning í ljóðum. Fyrirbrigði eru borin saman með viðlíkingu eða myndhverfingu. Í myndhverfingu eru aðgreind merkingarsvið færð saman með myndrænum hætti. Endurtekningar og merkingarbær tilbrigði þeirra sjást víða. Mjög víða í ljóðum er dauðum hlutum fengið líf, kenndir og vilji, með lífgervingu eða manngervingu. Landslag og veður lifna við, bera mannnlegan svip, og jurtir og dýr hugsa, tala og finna til sem mannverur. Og endurtekinn nærlestur leiðir grunkveikjur fram. Í mörgum ljóðum er vísað, stundum dulið eða óvænt, til almennra tákna sem vekja hugrenningatengsl í vitund lesanda.

Í nútímaljóðum er víða viðleitni til að lýsa fyrirbærum líkt sem hlutlægt væri, stilla þeim upp sem mynd, ýmist hreyfðri eða ekki, með ytra yfirbragði raunæis. Þá er skáldið að greina skynjun sína, hugleiða hana, fága og tjá hana í ljóðinu, jafnvel með grunkveikju eða vísun til víðtækari hugrenninga og veruleika. Og í nútímaljóðum birtast víða hikandi merkingarleitir, gjarnan margræðar eða óræðar. Allmörg dæmi eru þess að hughrif af skynjun birtast í ljóði beint og án skýringar, frekar en lýsandi orð um skynjunina. Í þessu verða þá gjarnan óvænt skynsvið í tjáningu sem ætlað er að verða milliliðalaus: skynjunin sjálf og tjáning hennar en ekki með umsögn eða ytri lýsingu. Endurtekinn nærlestur opnar lesandanum smáum skrefum sýn yfir mikil víðerni.

Ein lífseigasta skýring á skáldskap, runnin einkum frá forn-gríska spekingnum Aristótelesi, er að skáldskapur sé eftirlíking veruleika. En í skáldskap er einhver viðauki sem ekki er aðeins viðtaka skáldhugarins af umhverfi sínu. Þessi viðauki er hvorki fyrirsjáanlegur né alltaf skýranlegur, og þegar vel tekst til er hér óvæntur skyndilegur gneisti, sköpun. Endurtekinn nærlestur þjálfaðs ljóðalesanda er ekki síst leitin að þessum gneista í ljóðinu, leitin að þessari sköpun, að því sem skáldhugurinn hefur bætt við af sjálfum sér, skapað og lagt inn í ljóðið.

IV

Hér verða sýnd nokkur dæmi um nútímaljóð. Eins og framar er val takmarkað við nokkur síðustu ár til og með 2019 og við mjög stutt ljóð. Fyrirvarar sem framar eru nefndir eiga einnig við áfram. Valið er háð smekk og aðstæðum, jafnvel svolítið handahófskennt, og verður lesandi enn að taka viljann fyrir verkið.

*

Steinunn Sigurðardóttir kveður í ljóðinu „Í duftið“:

...

Hér er ort um „Hinn Hvíta og Bláhvíta“, „Tilhlökkunarjökulinn, hátíðarjökulinn“. Jökullinn er hreinleiki og heiði. Orðið „bláhvítur“ hefur líka skirskotun til þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. Jökullinn er fegurðin, hreinleikinn, ósnortin víðerni. En núna eru „augun í mér“ ekki þreytt heldur „þreytuþrungin“ að fylgjast með „dimmunni“ sigra og að sjá „kolaða hauga vonbrigðanna“. Þegar jökullinn hopar standa þessir haugar kol-litaðir eftir. „Haugar vonbrigða“ er myndhverfing, kenning, og röð myndlýsinga hér minnir á það sem forðum var nefnt nýgervingar í ljóðum. Hér var tilhlökkun og hátíð undir „fjalli snjóhvítra rósa“ en nú eru hér vonbrigði í haugum þegar „ísgljáinn fellur í duftið“.

Þessari mynd er brugðið upp með sterkum dráttum. En í lokin er annarri birtu brugðið yfir sviðið: „Æskumyndin“ var „undrið“ „uppmálað“ og þá var það „eilíft“. Þá trúðum við á varanleika í „fjalli snjóhvítra rósa“. Þá var lífið tilhlökkun og hátíð, en nú ráða vonbrigðin.

Myndin hefst á „augunum í mér“ og þannig er vitund ljóðmælandans þegar í forgrunni. Ljóðið lýsir vonbrigðum og ósigri, en ljóðmælandinn samsamar sig ósigri jökulsins. Hljómfallið er jafnt, en hraðast nokkuð er á líður, með styttri ljóðlínum. Athygli vekur að skáldið notar aukin línubil, en það bendir til þess að miðað sé við greinilegar hljóðdvalir og þungar áherslur í flutningi.

Ljóðið lýsir ekki bjartsýni, jafnvel þótt endurminningin bregði björtu skini yfir það andstætt vonbrigðunum. Og ljóðið fjallar um umhverfismál og landvernd og á greinilegt erindi við samtíðina.

Bergþóra Snæbjörnsdóttir segir svo í erindi sem bæði má telja til ljóðaflokks en einnig sem sérstakt ljóð:

ljod_15.png

Upphafsljóðlína og lokalína mynda ramma, eru lengri en hinar og hafa báðar sambærilegt hljómfall aðgreint frá hinum. Hinar eru upptalning þess sem veldur ótta: mannýg rándýr og ofurefli vöðvamáttar, en síðan skyndilega á hinn bóginn: „mjúkir lófar“. Þessir lófar kunna að vera tálsýn eða blekking. Ekki liggur fyrir hvort Flórída óttast dauða sinn í lokaljóðlínunni eða að týnast ósjálfbjarga „svo dögum skiptir“ og finnast þá ekki fyrr en eftir langar leitir.

Skil milli fyrstu og annarrar ljóðlínu eru væntanlega ákvörðuð til að leggja sérstaka áherslu á orðið „hvæsandi“.

Sjón kveður í ljóðinu „Gráspörvatal“:

...

Hér vefur skáldið nokkrar myndir saman. Ein sýnir smáfuglana við alkunna höll á Spáni. Önnur sýnir ljóðmælandann að skriftum. Í þriðju myndinni finnur ljóðmælandinn fyrir „vofu“ spænska skáldsins. Í lokin ber síðan tvær leifturmyndir fyrir, eins og staðfestingu eða áherðingu meginboðunar ljóðsins. Hrynjandin er létt og jöfn, en upphafsljóðlínurnar eru nokkru lengri en hinar og veita þeim afmarkað upphaf.

Fyrst er myndin kyrr í hlýju næði. Skordýrin þyrpast að ljósinu sem nær þá valdi á smáfuglunum. Þetta er kyrralífsmynd af umhverfi ljóðmælandans í húsi eins frægasta ljóðskálds Spánar. Í annarri myndinni verður sjónsviðið nærgengara og beinist að ljóðmælandanum. Fuglarnir, ljónabrunnurinn, vofan, mánaskinið, dauðastundin og næturljóðin kalla fram vísanir í ljóðheim spænska ljóðskáldsins. Vofa spænska skáldsins umlykur ljóðmælandann. Hún verður „líkt og mánaskin“ og hrífur hjarta ljóðmælandans.

Hér kemur tilfinning og hjartsláttur inn í ljóðið. Ljóðmælandinn, mannveran, dregur athyglina að sér. En myndinni er skyndilega beint að dauðastund spörvanna, smáfuglanna frá upphafi ljóðsins. Hér eru myndirnar áfram ofnar saman. Eftir hljóðdvöl verða „næturljóð“ „heitust“ sem ályktun eða niðurstaða ljóðsins, og þannig eru mannlegar kenndir, mannveran, kjarni málsins. Og hér er líka ómur frá spænska ljóðskáldinu. Mánaskinið frá spænska skáldinu tengist „brennandi“ ljósinu og „hraðari“ hjartslætti, og í lokin verður séð að ljóðið er næturljóð hlaðið heitum kenndum og skynjun.

Guðrún Hannesdóttir yrkir í ljóðinu „Vetrarsöngur“:

...

Hér er söngurinn „silfurskær“ og tekur það yfirbragð af „botnfrosnum smátjörnum“. Hér er þannig blandað saman skynjun auga og eyra og mynduð ný og óvænt heild. Tvær fyrri ljóðlínur upphafserindisins mynda saman hljómfall, en lokaljóðlínan slær lokin undir með þungri áherslu, kjarnaorði myndlýsingarinnar. „S“ í upphafi orða mynda ljóðstafi.

En hér er ekki aðeins blandað saman skilningarvitum, heldur er hér líka manngerving. Hér hafa „smátjarnir“ þá mannlegu eiginleika að syngja. Náttúran lifnar og líf mannverunnar samsamast henni.

Í miðerindinu er áfram unnið að sömu mynd, hnitmiðað. Enn er skilningarvitum blandað: „bergmál myrkursins“. Getur þetta orðalag talist kenning, að hefðbundnu mati? En myrkrið nær ekki alla leið til að hindra sönginn. Og í lokaerindinu er myndinni lokað með andstæðu. Á sumrin „hljómar þar þögnin“. Enn syngur í tjörnunum, með hljómi þagnarinnar.

Lokaljóðlínan er stutt, eins og lokaljóðlínur fyrri erindanna, og ber bjarta og fagnandi niðurstöðu sem vísar í senn til varma og sýnar.

Einar Már Guðmundsson kveður í nafnlausu ljóði:

...

Hér gætir háðs eða gremju. Er ljóðmælandinn að kvarta við lesanda, eða er þetta einmitt kímileg úrlausn viðfangsefnisins? Ljóðið stígur áfram í léttri hrynjandi og samantekin úrlausn birtist í lokaljóðlínunni. „Fugl" er vísun til allrar ljóðlistar að fornu og nýju, því að einatt er talað um flug ímyndunaraflsins, hugarflug, skáldlegt flug, og fleira í þeim anda, og í fornum hugmyndum norræna manna var flug arnarins þáttur í fyrstu myndun skáldskaparins.

Ljóðmyndin er skýr og liggur að verulegu leyti milli orðanna, fyrirvaralaus. En lesandi skynjar hana á stundinni. „Yrkja“ eða „fljúga“, eða er í samræmi við hefðina unnt að tala um að yrkja og fljúga í senn, í sömu andrá? En ljóðið fjallar ekki síst um móttökuskilyrði lesandans. Gerir hann þá kröfu að „skáldið“ sé „fugl“? Eða er lesandi reiðubúinn að víkja slíku frá sér og taka ljóðinu eins og það er, á forsendum þess?

Þorsteinn frá Hamri kvað svo í ljóðinu „Þessi orð og þú“:

...

Er þetta ljóð ef til vill það sem „lengst“ verður komist með „minnst“, fæst orð? Hér er lágmæltur hvíslandi hljómur eins og forðast sé að rjúfa innilega þögn, hvíslað á mörkum þagnarinnar. Er þetta samþjöppun, hleðsla, nútímaljóðlistar við hátind?

Hrynjandin er skýr, létt, hröð, og ljóðlínur afar stuttar. Tungutakið er beint úr töluðu máli. Það er íþrótt í fornri merkingu orðsins að ná áhrifum með slíku tungutaki. Og í ljóðinu er létt inngróin stuðlasetning, ef hugsað er að orðið „svo“ í 2. ljóðlínu og orðið „þau“ í lokaljóðlínunni beri áherslu eða meðáherslu.

Atviksmyndin er skýr: Ljóðmælandinn og skyndilega í lokaerindinu birtist „þú“. Þriðji þátttakandi í þessari ljóðstund er „þessi orð“. Og þau eru meðal þess sem er „svo margt fallegt“. Hér virðist vera vísun til lífsins, tilverunnar. En það eru þá „þessi orð“ sem lyfta fegurð lífsins upp til skynjunar.

Það sem mestu skiptir er að „þú“ segir þessi orð. En lengra út skírskotar ljóðið til tilvistar mannverunnar almennt og til þeirrar undirstöðu sem mannlegt mál er í lífi okkar allra. Hér fer ekki á milli mála að það eru orðin sem bera ástina á milli.

Linda Vilhjálmsdóttir yrkir í nafnlausu upphafserindi ljóðabókar:

ljod_20.png

Það er gremju- eða hæðnibroddur í ljóðinu. Hér eru ýmis orð sem veita myndinni óvænta miðun: „misvænar“, „snjóköggla á kviðnum“ vísa til sauðfjár. Þannig umhverfist myndin og fær nýja vídd. Myndin verður myndhverfing, öðlast nýstárlegt aðdráttarafl og kveikir umhugsun. Er þetta niðurlæging? Eða er hér einfaldlega lífræn samsvörun? En „stilla okkur upp“ og „köllum saman“ bendir til þess að einhver stjórnun sé yfir þessu. Eru hér máttlaus fórnarlömb? Og „snjókögglarnir“ vekja hugsun um liðinn vetur, jafnvel erfiðan og snjóþungan.

Auglýsing

„Fjallkona“ er sögulegt íslenskt tákn og á virðulega sögu með háleitum hugrenningatengslum. Er hér staðfesting á þessu eða afnám þess og læging? Ljóðið vísar greinilega til jafnréttismála kynjanna.

Guðmundur Andri Thorsson yrkir í nafnlausu ljóði:

...

Hér er ort í knöppu hnitmiðuðu ljóðformi. Ljóðið er hæka, „haiku“, sem er forn japanskur bragarháttur, hlaut nafn sitt fyrir rúmri öld og hefur orðið vinsæll á Vesturlöndum. Bragarhátturinn miðast við að atkvæði í ljóðlínum séu í þessari röð: 5 + 7 + 5. Í hverri hæku á líka að vera sérstakt skiptiorð, „kireji“ sem markar einhvers konar skiptingu í vísunni (minnir á „caesura“ í vestrænni ljóðlist). Hér má vera að skiptin séu við orðið „hljómar“. Japanska hefð hækunnar gerir ráð fyrir að jafnan sé vísað til umhverfis, árstíðar, veðurfars eða landslags með einhverjum hætti sem birtir veru mannsins í þeirri heild. Vísan er sjálfstætt ljóðverk, en um leið hluti af perlufesti sem hækurnar mynda í bókinni.

Ljóðmyndin vaggar mjúklega á bárum hafsins „án strits“, án eigin fyrirhafnar því að „alvaldið“ veldur hreyfingunni. Hafið er oft og víða áhrifamikið tákn, meðal annars einmitt um „alvaldið“ en hér er „ymur“ þess samhljóða „alvaldinu“. Í stökunni eru ljóðstafir: „hafi“ og „hljómar“ og í lokaljóðlínunni: „starfar“, „strits“.

Gerður Kristný kveður svo í ljóðinu „Iktsuarpok“:

...

Hér er dimm og sorgleg mynd. Vísað er til sagna um dysjar og óvirðulega meðferð látinna umkomuleysingja á liðnum öldum. Upphafsorðin gefa tón: löng dvöl. Myndin er kyrr og vísar til dauða: „Dys“, „heygð“. Er „hundur“ hér virðingarorð eða niðurlægingarorð? Og hver er „eigandi“? Hér er „ég“ eins og „hundur“ hjá „eiganda“. Athygli vekur að „heygð“ er ekki í almennu opnu málfræði-karlkyni heldur í kvenkyni. Er það vísbending um veruleika sem skáldið vill einmitt birta, ófrelsi eða kúgun kvenna?

Hljómfall er fremur hratt, í mjög stuttum ljóðlínum. Í báðum erindum er stuðlasetning, í 2. og 3. línu fyrra erindis og 1. og 2. línu síðara erindis.

Fríða Ísberg kveður í ljóðinu „Grótta“:

...

Hér er komið að Gróttu, eyjunni með gargandi „kríuvarp“ og „háflóð“ sem hylur grandann og bannar för um stund. Konan í ljóðmyndinni er full trega. Hún reynir að varpa minningum sínum út á hafið, fleyta þeim burt. En þær fljúga ekki eins og steinvölur, og „hún“ kastar þeim „af trega“ eins og „kertum“. „Kerti“ verða hér tákn fortíðarinnar, saknaðar og trega og jafnvel með trúarlegu ívafi.

Kári Tulinius yrkir í ljóðinu „Útþrá“:

...

Í fyrstu er hér jörðin sjálf kölluð til vitnis, í mynd sem vísar til hnattarins alls. Hér magnast myndin, og áttirnar tíu verða „endalaust margar“ og vísað er til hreyfinga jarðskorpunnar. Hljómfallið er jafnt og létt, en styttist í slögunum í síðara erindinu og lýkur með einu sterku ályktarorði. Hér hverfur fjöldinn og margbreytileikinn og öll tækifærin sem í þessu felast. Þegar áttirnar eru ótölulegar á eyjunum verður „áttin“ aðeins „ein“: „burt“. Hugur ljóðmælandans hefur eina meginstefnu, útþrána sem er heiti ljóðsins.

Bubbi Morthens kveður í stuttu ljóði, „Gagnsær“:

...

Í þessu stutta ljóði bendir söngvaskáldið á „næfurþunnan pappír“. Gefið er í skyn að þetta sé allt viðkvæmt og uppleysanlegt. Hér er viðlíking „líkt og“, og „pappírinn“ er „skurn“. Vísun í Nýja Testamentið gefur ljóðinu skyndilega alltaðra og víða skírskotun. Hljómfall er hratt og samfellt, í mjög stuttum ljóðlínum.

V

Eysteinn Þorvaldsson prófessor fjallaði um atómskáldin, en þau voru skáldahópur eða skáldakynslóð sem stóð fyrir byltingum efnis og forms í íslenskri ljóðlist um miðbik síðustu aldar. Hann telur megineinkenni þeirra „vandasamt og þaulhugsað líkingamál, knappt orðfæri og stundum torræðni.“ Og Eysteinn bætir við: „nýting nýrra krafta og túlkunarhæfileika málsins og stórefling myndmálsins“ (1980, 286, 288). Þessi einkenni hafa orðið varanleg og einkenna íslenska ljóðlist enn á nýrri öld.

Skoskur fræðimaður og skáld, Don Paterson, segir um ljóðlistina: „Poetry is just speech placed under a spatiotemporal constraint, behind which act lies an emotional impulse: to say something which will maximise language´s power and density“: Ljóðlistin er einfaldlega mannlegt mál hneppt skorðum rýmis og tíma og knúið mætti tilfinninga, til tjáningar sem hámarkar áhrif, hleðslu og hnitmiðun málsins (2018, 351).

Ljóðið er eigin veruleiki en ekki aðeins tilvísun til efnis utan þess sjálfs, til hugarástands skáldsins eða ytri atvika. Við leitum skýringa og upplýsinga um ævi og þroskaferil skáldsins og samtíma þess, um myndlýsingar, orðalag, málhljóð og hljómfall, um merkingu og merkingarumtak, vísanir og skírskotanir. En ljóðið sjálft, eins og það birtist, verður jafnan viðfangsefnið. Ljóðið stendur sjálft fyrir sínu − og verður að standast slíka kröfu. Jafnt ljóðaunnendur sem fræðimenn leggja áherslu á þetta.

Ljóðaunnendur njóta ljóðs á nokkrum stigum í senn, eftir þvi sem hvert ljóð gefur tilefni til. Þeir nema merkingu ljóðmyndanna, tengja hana umhugsunarefnum eða málefnum ef um slíkar vísanir er að ræða, og rekja skírskotanir ljóðsins ennþá lengra, til sístæðrar táknunar mannlegra eiginda, hugsjóna, vandamála, örlaga, langana, eða þrár. Jafnframt greina þeir hverja mynd ljóðsins eins og hún birtist út af fyrir sig. Þá tileinka þeir sér ljóðið, virða það fyrir sér líkt iðandi myndrænum listgrip gerðum af lifandi mannlegu máli. Og þeir njóta orðanna og orðasambandanna, málhljóðanna og hljómfallsins, hrynjandinnar í ljóðinu.

Bandaríska ljóðskáldið Ezra Pound birti þau ummæli að ljóð er „language charged with meaning to the utmost possible degree“: tungutak hlaðið merkingu, þrungið innihaldi, til ystu kleifra endimarka (1960, 36). Hér var framar vikið að myndrænni tjáningu í ljóðum. Þessir þættir fylgja ekki hver á eftir öðrum, heldur eru þeir ein órofa lífræn heild, fágun, merking og mynd, en myndin er merking í ljóðmálinu. Og hvert orð og hvert orðasamband gegnir hér ómissandi hlutverki. Þýskur fræðimaður, Hans-Dieter Gelfert, orðar það svo að ljóðið er „ein sprachlicher Text in kristalliner Form“: kristallað tungutak, móðurmálið sem frostrós, kristall (2016, 11).

Alkunnur leikur í nútímaljóðum er að skáldið mótar hlaðið kristallað ljóðmál sitt með ásýnd tilviljunar, eins og um sé að ræða skyndilega tilraun til tjáningar eða beinlínis tilviljunarkennda útrás þótt í mestu hnitmiðun sé.

En ljóðin hafa fleiri einkenni. Þau hafa hljómfall, fjölbreytilegt eins og áður er nefnt. Hljómliðir málsins vaka og móta ljóðið. Vandaður flutningur ljóðs upphátt staðfestir þetta. Áður fylgdu ljóð fastmótuðum endurtekningum bragliðanna, með hákveðum og lágkveðum, með ljóðstöfum og rími. Enn er þetta tíðkað, en langflest nútímaljóð fylgja ekki gömlum forskriftum. En þau fylgja hljómliðum málsins með mótuðum hætti sem myndar hljómfall hvers ljóðs. Og í þessu er ýmislegt sem er ekki síður flókið og áhrifaríkt en gamla bragfræðin.

Þessu til viðbótar er að nefna ljóð í lausu máli, en í þeim leggur skáldið áherslu á aðra þætti en þá sem tengjast sérstöku hljómfalli eða ljóðlínuskiptum eða leikur sérstaklega á hljómfallið í lausu máli.

Auglýsing

VI

Hér verða enn nokkur dæmi tekin úr nýbirtum ljóðum, frá sömu árum sem fyrri dæmi og með sömu fyrirvörum. Enn er hér ekki um neitt „gæðaval“ að ræða. Enn takmarkast valið við stutt ljóð og því ekki yfirlitsmynd um íslenska ljóðagerð um þessar mundir.

*

Valdimar Tómasson kveður í ljóðinu „Hrunin vetrarvirki“:

...

Hrynjandi er jöfn og létt. Í því er áhersla að næstsíðasta ljóðlínan er nokkru lengri en hinar næstu, og um leið fær lokaljóðlínan áleitna áherslu. Ljóðstafasetning er hefðbundin, og henni til áherslu er orðaröðin í næstsíðustu ljóðlínunni. Þar fær orðið „lífsins“ sterka áherslustöðu.

Ljóðið fjallar um „vetrarvirki“ í bókinni „Vetrarland“. En „von“ er ráðandi afl í ljóðinu, og „lífsins augu glitra“. „Lífsins augu“ eru lindarvatnið sem enginn vetur sigrar. „Glitrandi von“ er lokaáhrifin. Og hér er „ilmur af grasi“ og gróðurinn vekur vonina. Og hér er ekki hvaða „brún“ sem er, heldur „lindarbrún“.

Ljóðið er mjúklega og liðuglega kveðið, og inntak og ljóðform fallast í faðma sem órofa heild.

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir mælir í ljóðinu „... í mánaskini“:

...

Hér er markverður boðskapur um „litla leyniklúbbinn“, móðurmálið. Á þessu hefst ljóðið og því lýkur á hvöt, boðun: „slíttu ekki grunntaugina“. Í lokin birtist hér allt í einu 2. persóna en að öðru leyti er ljóðið myndasýning og dæmi. Hljómfallið er létt og það eru ljóðstafir í því á nokkrum stöðum.

Orðalagið „að heyra litla leyniklúbbnum til“ er góðlátlegur úrdráttur, minnkandi orð sem í raun eykur þunga og áherslu og færir „klúbbinn“ nær og ofar, ekki laus við hlýtt tvísæi (íróníu). Hér er íslenskan sett í öndvegi, og í lokin er hún „grunntaugin“. Skáldið og ljóðið fá ljóma af móðurmálinu, en um slíkt eru mörg dæmi.

En ljóðmælandinn verður að kafa nokkuð „djúpt“. Þar er „blámi“, og hann sér „holdtekjur“, en „allt skilur eftir far“. Og hér er nokkuð í húfi: „grunntaugina“ ber að verja og halda henni óslitinni. Ljóðmælandinn virðist staddur erlendis, enda ljóðabókin kennd við Parísarborg, og hann hugsar um „leyniklúbbinn“, tungumálið sem aðeins frónbúar geta notað og skilið.

Matthías Johannessen yrkir ljóðið „Fjallið dregur undir sig“:

...

Hér er fylgt hefðbundnum bragreglum um hrynjandi, bragliði, ljóðstafi og rím. Ljóðið er afbrigði af sonnettu, einum frægasta bragarhætti vestrænnar ljóðlistar, og ort af mælsku. Í þessu ljóði er myndaröð og lífgervingar móta myndirnar: landslag „lifnar“ og verður eins og „minning“, og „þræðir tímans slitna“. Frá fyrstu ljóðlínu eru landslagið, jökultindar, gjóska og aska, tengd lífi ljóðmælandans, samsömuð honum og hann þeim. Það sem í fyrstu var „lengst í fjarska“ verður „gamlar slóðir“. Hér er ævitíminn tekinn saman í örstutta lýsingu og tengdur umhverfinu, gjóskunni og öskunni. Sólin öðlast vilja og athafnagetu og „skiptir litum“ í fyrirvaralausri manngervingu. Viðlíkingar tengja liði: „eins og“ tvisvar.

Myndaraðirnar eru hreyfðar og lifandi. Varúð, jafnvel efa, er brugðið upp með orðunum „hindurvitni“ og „tengslin endist illa“. Og andrúmsloftið virðist blandað trega og ævinni líkt við ösku. Þrátt fyrir allt „sprettur þessi gróður“ upp af öskunni og leitar „skjóls í henni“. En „minningin“ er „mosató“ og hún mildar þá för sem er tregablandin og verður „svaðilför“.

Sigurbjörg Þrastardóttir kveður í ljóðinu „Dýrilækur“:

...

Hér renna myndirnar hratt og fyrirvaralaust, skarpar í örfáum dráttum. Hvað merkir að „fá mér barn“? Er það getnaður og fæðing? Hvað verður um „manninn“ hér, eða er hann viljalaus? Hvað merkið húsið hér? Allt í einu breytir ljóðið um hljóm, yfirbragð og ákomu þegar húsið er sagt „anga af stálull“.

Barnið „festir sig í fánalínum“. Fánalína vísar til hátíðleika öðrum þræði. Skemmtilegt er að hér virðist vísað í söguna um „Emil í Kattholti“ eftir Astrid Lindgren. Og spurningin vaknar hvort lokaorðið eigi að slá köldu stálbliki yfir ljóðið. Orðalagið „angar af stálull“ er óvænt samstilling.

Ljóðlínuskiptin eru athyglisverð. Fyrstu og annarri ljóðlínu lýkur hvorri um sig á áhersluléttu orði: „í“ og „sem“ en næsta ljóðlína hefst þá eftir stutta hljóðdvöl á mótandi áherslu: „fánalínum“ og „angar“. En sú tilhögun sem skáldkonan velur sýnir að ætlunin er að ítreka vægi fyrstu orðanna í annarri og þriðju ljóðlínu. Þetta mótar hljómfallið.

Þóra Jónsdóttir bregður upp mynd í örsögunni „Landslag“:

...

Skáldkonan kallar verkið „örsögu“ en það hefur öll einkenni ljóðs í lausu máli. Hér er skýr ljóðmynd, stutt atvikssaga, um tengsl mannveru og jarðar og loks himins. Ljóðið er hugsað norðan lands, svo sem vísun til heimskautsbaugsins sýnir.

Ljóðmælandinn finnur að „krafturinn frá jörðinni“ tekur að „seytla um hverja taug“. Hér eru manngervingar: „umhverfið brosti“, og „fjöllin kinkuðu kolli“. För ljóðmælandans á vit jarðarinnar verður samsömun í lokin þegar fjöllin taka ljóðmælandann í vináttu sína.

Hannes Pétursson bregður upp mynd í ljóðinu „Í fossgili“:

...

Hér bregður skáldið upp mynd sem verður skýrari í nokkrum skrefum og bætir nýjum þáttum við heildina.

Hrynjandi einkennist af því að til viðbótar við hljóðdvölina á mörkum ljóðlína skiptast nokkrar ljóðlínur sérstaklega við miðjuna. Hér velur skáldið þann kost, fimm sinnum, að halda ljóðlínunni áfram yfir þessi skipti. Hér verður því ekki sú hljóðdvöl sem verður í upplestri á mótum ljóðlína, en þó áhersluskil og hljóðdvöl inni í ljóðlínunni. Við þetta myndast spenna, hrynjandi sem ítrekar vægi hljómliða málsins. Upplestur ljóðsins gefur því áhrifamikinn seim við þessa spennu. Í ljóðinu er ljóðstafasetningu beitt með mjög liprum og virkum hætti, með svip af eddukvæðahefð.

Það er lífgæf hleðsla í hljómliðum ljóðsins, ekki síst þar sem ljóðlínur eru skornar við skyndileg setningaskil, og í næstu andrá flýtur hugsunin áfram yfir til næstu ljóðlínu. Slíkt mætti nefna yfirstig milli ljóðlína („enjambement“ á erlendu máli). En hér eru kröfur þannig gerðar til móttökuskilyrða lesanda.

Það var „sjálfumgleði“ okkar að ímynda okkur sigur. „Enginn kemst“ þá leið sem ljóðið nefnir í upphafi. Í stað þess „stöndum“ við „í dyninum miðjum“. Hér verður fallhljóð fossins meginskynjunin: „umhverfður í dyn“. Hreyfingin verður að hljóði. Loks er ferð ljóðsins lokið og við erum „hlekkjuð vatninu“. Hvernig verðum við „hlekkjuð vatninu“? „Við“ erum sigruð. Vatnið sigrar „okkur“. Vatn er alþekkt megin-tákn í ljóðlist og hugsun allra þjóða. Er hér lýst örlögum mannsins? Er hér lýst lífsmetnaði mannsins sem hlýtur að ljúka með því að hann hlekkjast og vatnið sigrar, magnmesta grunnefni lífsins og skilyrði alls lífs?

Kristín Ómarsdóttir kveður í ljóðinu „minnisflís“:

...

Hér er manngerving: „moldin geymir orð“, orðin „þekkja vitjunartímann“, og orðin “stinga sér upp úr jörðinni“, en jörðin er „í þessari bók“, og þau „sofa í öðrum“ bókum. Hljómfall ljóðsins mótast framan af við skipti langra og skammra ljóðlína, en í síðari hluta þess snýst þetta við að nokkru. Þessi umskipti ítreka framhald efnisins.

Lokaljóðlínan tekur upp 2. ljóðlínuna um ólíkar árstíðir. Þær móta líf sem er gert úr moldinni, og „tíminn er naumur“. Allt í einu í miðju ljóðsins gengur ljóðmælandi fram og hér kemur þá allt í einu, í „naumum tíma“, siðferðileg yrðing: „mér ber ...“. Og moldin er upphafið, sköpunarefnið. Ég er mold, og sagt er: Af moldu ertu komin(n). En „mold“ er alkunnugt tákn og hefur víðfeðmar skírskotanir.

Ljóðið hefur víða skírskotun, til umhverfismála og landverndar: „þekkja vitjunartímann“, „Tíminn er naumur“, „mér ber ...“ skylda „að huga að moldinni“, „bregðast við ...“

Anton Helgi Jónsson kveður í „Ljóði“:

...

Ljóðmælandinn sættist hér á takmarkanir sínar og það örlar á glettni. Hljómfall er jafnt og létt, en víkur frá í næstsíðustu ljóðlínu og gefur henni aukinn þunga. „Tilfinningar mínar“ eru „farkosturinn“. Hér er ort um „umferðarreglur“ tilfinninganna og ljóðmælandinn viðurkennir að hafa „oft“ farið „yfir á rauðu“. Og þetta er hið eina í ljóðinu sem er „víst“. Er þetta þá lýsing á tilfinningalífi mannanna? Er þetta lýsing á sjálfu manneðlinu?

VII

Löng saga tilrauna og nýjunga liggur að baki ljóðlistinni eins og hún birtist á öndverðri 21. öld. Íslenskur kveðskapur var forðum bundinn hefðum, og átök þurfti til að nýmóta ljóðmál Íslendinga á síðustu öld. Gamla ljóðmálið lifir áfram við hlið annarra ljóðforma. En byltingar í ljóðlistinni birta ný viðhorf: Áhersla á nýmæli í stað arfleifðar, leit og tilraunir í stað hefða, nýsköpun í stað fastheldni.

Þessi saga er alþjóðleg og verður ekki rakin hér enda yfirlitsrit fyrir hendi. Sumt í þessum umbrotum í ljóðlist Vesturlandamanna má rekja til 19. aldar, en menningarbyltingar og stórslys 20. aldarinnar urðu upptök, mótunarumhverfi og vaxtargrunnur nýrra viðhorfa, aðferða, skynjunar, ljóðtjáningar og ljóðforma. Nafngreind ljóðskáld í fjölmennustu málsamfélögum koma við þessa sögu. Skáldin leituðu nýrrar útrásar við hæfi nýrra menningar- og samfélagsaðstæðna, nýrra vonbrigða og nýrra óskadrauma. Nýrrar tjáningar var leitað með því að brjóta gegn viðteknum strangleika um háttsemi í skáldskap, með því að blanda saman aðgreindum skilningarvitum og með því að velja óljósa eða óræða tjáningu í stað vitsmunalegrar framsetningar. Og áhersla var lögð á nýstárlegt myndmál, samþjöppun og hnitmiðun, og á frjálslega hrynjandi, bylgjurnar sem hljómliðir tungumálsins („kadensur“ þess) mynda.

Auglýsing
<-- Skyn cleanup -->

Hér verður þessi saga ekki rakin og ekki vísað til ljóðskálda, erlendra eða íslenskra, sem brutu ófarnar leiðir á nýliðinni öld. Á 21. öldinni má telja álitamál hvort eða hvernig íslensk ljóðskáld skynja sjálf sig nú sem íslensk skáld, eða sem norræn eða norð-vestur-evrópsk skáld eða allt í senn. Þá er ekki vísað til skorts á þjóðerniskennd, heldur til aðstæðna í veröld sem markast af sameiginlegri framvindu í menningu og listsköpun margra þjóða. Áhrifastraumarnir á líðandi stund eru opnir til og frá öllum nágrannaþjóðum bæði austan hafs og vestan. Norðurlandaþjóðirnar eru að miklu leyti orðnar að sameiginlegum hugarheimi í bókmenntum og skáldskap, og einnig málsvæði enskrar, þýskrar og franskrar tungu og jafnvel spænskrar og ítalskrar líka. Málsamfélögin eru blómabeð mennskunnar. Og ómetanleg gullaskrín og fjársjóðir eru í gagnkvæmum tengslum, tjáskiptum, námi og áhrifastraumum á milli þeirra.

*

Breski bókmenntafræðingurinn Maurice Bowra ritaði um ljóðskáld sem mótuðu vestræna ljóðlist á fyrra hluta síðustu aldar og sagði meðal annars: „They have delved into the increased and complex consciousness of civilised man and found in it mysteries whose real nature can never be conveyed through the abstract methods of science, whose worth for human life can only be expressed through symbol and suggestion. They have proved that in the modern world there is still a place for poetry because it does something that nothing else can do“: Skáldin hafa kafað inn í vaxandi vitund og flókið vitundarlíf siðmenntaðra manna og fundið þar undur sem aldrei verður skýrt með óhlutbundnum aðferðum vísinda, en gildi þessa undurs verður aðeins tjáð með tákni og grunkveikju. Skáldin hafa sannað að ljóðlistin á enn erindi í nútímanum vegna þess að hún fær einhverju áorkað sem engin önnur öfl megna (1967, 230).

Tengsl eða sameðli hugsunar, skynjunar, vitundar og mannlegs máls eru sístæð viðfangsefni. Hér skulu nokkur sígild og viðurhlutamikil umhugsunarefni nefnd: → Ljóðið og móðurmálið ↔ Málið og hugsunin ↔ Hugsunin og skynjun mannverunnar ↔ Hugsun, skynjun og vitund ↔ Vitundin og afkimar mannssálarinnar. Um þessi efni hafa spekingar og fræðimenn fjallað að fornu og nýju. Og endalaust ræða menn um: → Fagurt ↔ Gott ↔ Satt ↔ Rétt − og um andstæðurnar og mótsetningarnar. Hér verður ekkert þessa rakið, en athygli vakin umbúðalaust á nokkrum yrðingum.

Allur skáldskapur er listsköpun í mennsku máli. Tegundir skáldskapar eru margvíslegar. Tegundirnar mótast af sams konar hvötum og þörfum mannverunnar. Og þær svara þessum hvötum og þörfum hver á sinn hátt en stefna að sambærilegu marki. Ljóðlistin birtir mesta samþjöppun, hnitmiðun, og mesta hleðslu merkingar og mynda, vísanir, hughrif og grunkveikjur, og ljóðlistin flytur innilegustu beina tjáningu og útrás.

Ljóðið er hlaðið tungutak, mennskt mál kristallað. Ljóðlistin er ein af virkum uppsprettulindum móðurmálsins, nærist af brunnum málsins og endurnærir það aftur. Málið er raunbirting hugsunarinnar, hugrenninga, kennda og vitundar. Öll skynjun er vituð í mannlegu máli. Og málið er ekki ambátt hugsunar og hugar, eða áhald eða húsgagn. Tungumálið er valdmyndug húsfreyja og bústýra hugarins, stundum þóttafull og ber búrlykil hugsunarinnar. Hugsun mannverunnar á sér stað á mennsku máli. Hugsunin fylgir málinu, orðaforða, merkingarinntaki og merkingarumtaki orða og orðasambanda. Hugsunin er háð orðaforðanum, valdi yfir málinu og þroska tungumálsins á hverri tíð. Hugsunin fer svo langt sem málið nær.

Margt er í eðli og lífi mannverunnar sem vitræn hugsun nær ekki tökum á: Grunur, hugboð, smekkur, hughrif og kenndir, ástir og hatur, hrifning og lotning, trú. Í mörgum ljóðum er grafist fyrir um óljósan hugarsveim þrár, langana og vona. Þá sveima óræð boð í og milli orðanna. Kenndir og tilfinningar eru meginefni ljóða. Oftast þarf mannveran að fara einhvern veginn kringum slíka reynslu ef hún reynir að orða hana, til dæmis með því að bregða myndum upp í orðum og með því að fá stoð í hljómi málsins. En slík reynsla er mikilvægur efniviður ljóða, í ljóðmyndum og táknum, í grunkveikjum og vísunum, í og milli orðanna. Og með umfjöllun ljóðsins nær mannveran áttum um þessi efni þegar best lætur, og tungumálið bætir við sig og þroskast um leið. Ljóðið er þá uppspretta og þroskalind. Þroski mannsins, blómi móðurmálsins og málsamfélagsins dafna af þessu.

Vísanir og skírskotanir í ljóðum eru misjafnlega víðtækar, og þær eru misjafnlega augljósar. Ljóðayndi er ekki veitt fyrirhafnarlaust. Taka má dæmi af lesanda sem skortir orðaforða eða hefur ekki þjálfun í að „sjá“ myndir í máli. Þá skynjar hann gárur á yfirborði en finnur varla fyrir undiröldu eða djúpstraumum. Og vissulega er tilfinning fyrir merkingarumtaki orða og orðasambanda forsenda þess að lesandi skynji skírskotanir, tákn eða lærðar vísanir. Margt af þessu er menningarlega og sögulega skilyrt í samfélagi skáldsins, jafnvel löng menningarsaga sem mótar merkingarumtakið. Viðkynningu við allt þetta þarf til þess að lesandi njóti ljóðsins að fullu.

Móttökuskilyrði þurfa að vera fyrir hendi í hugskoti lesanda. Næmleiki lesanda, ljóðlæsi, myndast af ljóðalestri sem varanlegri þjálfun, af miklum orðaforða, valdi á tungumálinu og dreifðum vísunum þess í málsamfélagi skáldsins og ljóðalesandans.

Við ljóðalestur fær lesandinn sýn um mannheima og hugarheima, finnur enduróma, bergmál og samhljóm djúpt innra með sér, kynnist sjálfum sér betur en áður og mennska hans eflist og þroskast.

VIII

Taka má saman að lokum:

 • Ljóðið er, beint eða óbeint, einlæg og innileg tjáning eða útrás, hnitmiðuð, samþjöppuð og oft fáguð, og hlaðin merkingu og hugboðum.
 • Ljóðið birtir mynd eða atvik, kyrrð eða hreyfingu í orðum eða sjónræna tjáningu, einhvern myndgerðan sér-heim í ljóðmálinu.
 • Ljóðið ber hljóm, hljómfall og seiðmagn í flutningi.
 • Ljóðið vekur hughrif, samhug, kveikir grun og hugrenningatengsl, jafnvel margræð, torræð eða óræð.
 • Ljóðið opnar leiðir til skynjunar tákna og djúpvitundar og endurómar sístæða mennsku.
 • Ljóðið leiðir til djúprar skynjunar og vitundar um mennsku skálds og lesanda.
 • Ljóðið getur, með þessum eigindum, opnað djúpa sjálfsskoðun lesandans.
 • Ljóðið getur, með þessum eigindum, opnað rýni á mannlíf, samtíð og tíðaranda.
 • Ljóðið er, eins og allur skáldskapur, uppsprettulind í hugsun og tungutaki lesanda og í málsamfélagi.
 • Ljóðið birtir, eins og allur skáldskapur, manninum sjálfan hann og leiðir til dýpri skynjunar og skilnings.
 • Ljóðið er, eins og öll list og listsköpun, uppspretta, næring og endurfæðing mennsku.
 • Ljóðlistin skiptir máli. Hún er sjálfstjáning mannverunnar, í senn einkamál og sammannleg. Og hún er þroskalind málsamfélags. Ljóðlistin er mikilvægt menningar- og samfélagsmál, ein uppspretta sammannlegra gilda og mennsku.

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.

- - -

Nokkrar heimildir

- Ljóðabækur sem dæmi eru tekin úr eru nefndar í lesmálinu. -

Lesbók Morgunblaðsins, 3.7. 1999. „Málþing í Rotterdam“ - (Skafti Þ. Halldórsson).

Morgunblaðið, 13.8.2018. „Bóksala dregst enn saman“.

Aristóteles. 1970. Um skáldskaparlistina. HÍB.

Arnór Hannibalsson. 1987. Fagurfræði. Fjölrst.Dan.Halld.

Ástráður Eysteinsson, o.fl. 2005. Heimur ljóðsins. Bókmenntafræðistofnun H.Í.

Baldur Ragnarsson. 1983. Ljóðlist. Iðunn.

Bergljót S. Kristjánsdóttir. 2020. Fræðaskjóða. H.Í./Sæmundur.

Bowra, C.M. 1967. The Heritage of Symbolism.. Macmillan. - tilv. 230.bls.

Brooks, C., Warren, R.P. 1960. Understanding Poetry. Holt, Rinehart and Winston.

Eysteinn Þorvaldsson. 1980. Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma. H.Í. - tilv. 286, 288.bls.

Eysteinn Þorvaldsson. 1983. Nýgræðingar í ljóðagerð 1970-1981. Iðunn.

Eysteinn Þorvaldsson. 2002. Ljóðaþing um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Ormstunga.

Gelfert, H-D. 2016. Was ist ein gutes Gedicht? C.H.Beck. - tilv. 11.bls.

Helgi Hálfdanarson. 1998. Molduxi. Rabb um kveðskap og fleira. MM.

v.Matt, P. 1998. Was ist ein Gedicht? Reclam.

Óskar Halldórsson. 1972. Bragur og ljóðstíll. HÍB.

Paterson, D. 2018. The Poem. Lyric, Sign, Metre. Faber & Faber. - tilv. 351.bls.

Pound, E. 1960. ABC of Reading. Faber and Faber. - (inng.T.S.Eliot). - tilv. 36.bls.

Sigfús Daðason. 2000. Ritgerðir og pistlar. Forlagið - (M.a.: Til varnar skáldskapnum).

Sveinn Skorri Höskuldsson. 1970. Að yrkja á atómöld. Helgafell.

Völker, L. (útg.) 2011. Lyriktheorie. Texte vom Barock bis zum Gegenwart. Reclam.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar