Eftirfarandi grein er sú þriðja í röðinni frá höfundum, um umsögn Ísteka í samráðsgátt stjórnvalda um nýja reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum. Eins og kunnugt er, er Ísteka ehf einn helsti hagsmunaaðili blóðmerahalds.
Í umsögn Ísteka í samráðsgátt stjórnvalda um nýja reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum segir m.a:
„Rannsóknir Ísteka á blóðhag hryssanna sýna allar að enginn munur er á blóðmynd hryssa sem gefa oftar eða sjaldnar blóð og því óskiljanlegt hví ætti að teikna upp manngerða línu við 6 skipti núna, þegar gögnin sýna fram á að ekkert mæli á móti allt að 8 skiptum. Þessar rannsóknir hafa ekki verið véfengdar af ráðuneytinu eða stofnunum sem undir það heyra. Þær hafa verið gerðar með endurteknum hætti í fleiri ár og rannsóknarstofa Ísteka séð um utanumhald þeirra, en hún starfar skv. góðum starfsháttum í lyfjagerð (GMP vottuð af Lyfjastofnun). Gagnrýni sem af og til hefur heyrst um að Ísteka sé ekki óháður aðili byggja á vanþekkingu á því hvernig rannsóknir eru gerðar og af hverjum en það er fulleðlilegt að fyrirtæki sinni rannsóknum á sínum greinum”
„Nýleg BS rannsókn á vegum Landbúnaðarháskólans um áhrif blóðtöku hryssna á mjólkurgildi kaplamjólkur og vöxt folalda (3) sýnir að blóðsöfnunin hefur engin áhrif á gæði kaplamjólkurinnar og á vöxt folaldanna, ólíkt því sem haldið hefur verið fram af ýmsum sem aldrei hafa komið nálægt henni.”
Af yfirlýsingunni að ofan má ráða að Ísteka hafi mælt blóðhag hryssa og að fyrirtækið hafi nákvæmar upplýsingar um blóðmynd þeirra. Ísteka og Mast birtu nýverið opinberlega grófa samantekt mælinga Ísteka á hemoglóbíngildum (hér eftir “hgb-mælingar”) hryssa sem sæta blóðtöku. Mælingar þessar virðast hafa farið fram annað hvert ár frá 2017, en þriðja hvert ár frá 2011 að telja. Svo virðist sem fyrstu árin hafi um 1% hryssa verið mældar, en tæplega 2% hin síðari ár.
Hgb-mælingar einar og sér segja lítið til um blóðmynd og blóðheilsu hryssanna eins og fram kom í grein okkar um það efni í Kjarnanum.
Hafi Ísteka raunverulega kannað blóðhag eins og fullyrt er í umsögn fyrirtækisins hér að ofan, en ekki einungis staðið fyrir hgb-mælingum, sætir það furðu að þær niðurstöður hafi ekki verið birtar opinberlega.
Ekkert er óeðlilegt við að fyrirtæki sinni eigin rannsóknum. Gagnrýni sem Ísteka hefur orðið fyrir beinist fyrst og fremst að því að Ísteka er ekki óháður aðili. Enginn er dómari í eigin sök. Þess vegna er mikilvægt að ytri aðilar og óháðir hafi aðgang að öllum rannsóknargögnum eða geri einfaldlega eigin rannsóknir eins og reglugerð ráðherra leggur til.
Árið 1973 kynnti tölfræðingurinn Frances Anscombe kvartett sinn:
Á öllum myndunum að ofan eru sömu meðaltöl, hallatölur (skv. línulegri aðhvarfsgreiningu) og staðalfrávik. Niðurstöðurnar eru samt sem áður gjörólíkar. Þetta sýnir að nauðsynlegt er að sjá allar niðurstöður til þess að geta dregið ályktanir um dreifingu þeirra (heimild: Graphs in Statistical Analysis F. J. Anscombe The American Statistician, Vol. 27, No. 1. (Feb., 1973), pp. 17-21.)
Ísteka og Mast hafa eins og áður segir birt eina töflu með grófri samantekt úr mælingum. Þar koma fram meðaltöl og staðalfrávik, tvö gildi vikulega á meðan á blóðtöku stendur í 1-2% af hryssum, annað eða þriðja hvert ár í alls 5 skipti
Þegar kemur að rannsóknum á inngripum á heilbrigðissviði eru meðaltöl og staðalfrávik vissulega áhugaverð. Upplýsingarnar eru hins vegar fullkomlega ófullnægjandi samanber kvartett Anscombe hér að ofan.
Mest um vert að sjá útlagana („outliers”) því að inngripin eru hættulegust í þeim tilvikum. Þessar upplýsingar hafa ekki verið birtar frekar en önnur gögn um mælingar Ísteka og Mast.
BS-lokaverkefni um kaplamjólk sem Ísteka vitnar til í umsögn sinni er athugun á alls 18 folöldum og 10 hryssum af sama búinu. Verkefnið virðist unnið í nánu samstarfi við Ísteka og eru flestar heimildir fengnar frá Ísteka og framkvæmdastjóra þess fyrirtækis.
Í viðmiðunarhópi voru 4 hryssur, mjólk þeirra var efnagreind og folöld þeirra vigtuð. Mjólk úr 6 blóðtökuhryssum var efnagreind. Folöld frá 14 blóðtökuhryssum voru vigtuð. Viðmiðunarhópurinn virðist ekki vera valinn af handahófi heldur tengjast fyljun hryssanna. Niðurstöður viðmiðunarhóps og hinna hópanna voru svo bornar saman.
A. Niðurstöður um mjólk sýna einungis meðaltöl og staðalfrávik og því er erfitt að gera sér grein fyrir niðurstöðum eins og áður hefur verið skýrt. Erfitt er að draga ályktanir um marktækan mun á þýðum þegar þýðin eru af mismunandi uppruna og innihalda svo fáar hryssur sem raun ber vitni. Í einhverjum tilvikum er mjög mikill munur á efnainnihaldi hjá viðmiðunarhóp fyrir og eftir blóðtöku úr öðrum hryssum, þrátt fyrir að ekki hafi verið tekið blóð úr viðmiðunarhóp sem bendir til þess að aðrir þættir hafi mikil áhrif á samsetningu mjólkur.
B. Þyngdarmælingar folalda benda til þess að fjöldi folalda sem hver hryssa hafi átt áður hafi mun meiri áhrif á þyngd og þyngdaraukningu folalda en blóðtaka. Til þess að kanna áhrif blóðtöku þyrfti alvöru rannsókn sem innihéldi fleiri hryssur þar sem gerður væri greinarmunur á hryssum eftir fjölda folalda sem þær hafa átt auk annarra þátta.
C. Fóðrun hryssanna virðist einnig hafa verið mismunandi. Yfir veturinn fengu sumar heygjöf fyrr en aðrar, holdafar stýrði því hvenær sú gjöf hófst. Auk þess var folaldsmerum skipt í tvo aðskilda hópa í lok maí sem settir voru á ólík beitilönd og ekki kemur fram hversu lengi það var svo.
Eins og fram kemur hér að ofan voru mjög fá dýr á einu búi tekin til skoðunar. Viðmiðunarhópurinn virðist ekki vera valinn af handahófi og ekki liggur fyrir hvernig folöldin voru valin eða hvernig hryssurnar í mjólkurmælingar voru valdar. Ekki er gerð grein fyrir öllum dýrunum úr þeim rúmlega 20 blóðtökuhryssuhópi sem var skilgreindur í upphafi. Fóðrun virðist hafa verið ólík eftir hryssum og tímabilum. Allir þessir þættir og fleiri til gera það að verkum að það er í afar hæpið að draga nokkrar ályktanir af lokaverkefninu þótt það sé að mörgu leyti vel unnið.