Nýlega birtist grein í Tímariti lögfræðinga (3. hefti 2021, bls. 360 um stjórnarskrárferlið eftir bankahrunið 2008 sem vakið hefur athygli út fyrir raðir lögfræðinga. Höfundur greinarinnar, sem ber yfirskriftina „Landfesti lýðræðis. Þýðing breytingarreglu stjórnarskrárinnar“ er Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur (hér eftir oft nefnd höfundurinn). Hún hefur fylgt greininni eftir með viðtölum við fjölmiðla svo eftir hefur verið tekið.
Sýna þessi viðbrögð þann áhuga sem landsmenn hafa á endurskoðun stjórnarskrárinnar og hversu mikilvæg ný stjórnarskrá er í hugum manna. Tímaritsgreinin er sögð ritrýnd og þar með talin hafa staðist fræðilegar kröfur tímaritsins og gefur það greininni aukna fræðilega vigt. Af þessum ástæðum er fullt tilefni til að bregðast við greininni í heild og niðurstöðum hennar með gagnrýnum hætti. Það verður þó ekki gert í tiltölulega stuttri blaðagrein eins og þessari og verður því umfjöllunin hér takmörkuð við nokkur atriði hennar og hugleiðingar sem þau vekja.
Frjálslynt lýðræði
Forsendur þeirrar gagnrýni sem birtist í grein höfundarins eru m.a. að hér á landi ríki óumdeilanlega frjálslynt lýðræði án þess að það hugtak sé sérstaklega skilgreint. Er það skilningur minn að höfundur telji að það lýðræðisástand leiði af gildandi stjórnarskrá og því sé ekki nein ástæða til breytinga á henni, enda kunni þær að valda röskun á núverandi æskilegu ástandi. Af þessu tilefni skal minnt á að á fárra mánaða tímabili hafa bankastjóri Seðlabanka Íslands, (Kjarninn 23. Apríl 2021, „Seðlabankastjóri segir að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum“) og forstjóri Samkeppniseftirlitsins (Stundin 10. Júlí 2021, „Hagsmunir fárra sterkra ráði of miklu“) varað landsmenn við því valdaójafnvægi sem við búum þegar við og felst í síauknu valdi þeirra tiltölulega fáu sem fara með forræði þjóðarauðsins og eiga stórfyrirtækin.
Án yfirvaldshefðar og sérfræðinga
Höfundur segir í upphafi greinar sinnar að gerð hafi verið tilraun um „Nýju stjórnarskrána“ sem rituð skyldi án yfirvalds lagahefðar eða sérfræðinga og sækti óskorað lögmæti sitt með beinu lýðræði til fólksins í landinu. Þarna virðist á því viðhorfi byggt, sem birtist oftar í greininni, að það sé fyrst og fremst yfirvaldsins og sérfræðinga að véla um stjórnarskrána, en ekki landsmanna á grundvelli fullveldis síns, en fullveldi landsmanna er snar þáttur í lýðræðinu. Með fullveldi landsmanna er átt við að hið æðsta vald í öllum málum landsins sé hjá fólkinu í landinu og það framselji takmarkaðan hluta þess valds til lýðkjörinna þingmanna til skamms tíma hverju sinni.
Á þeim tíma starfa þingmenn í umboði landsmanna. Af því réttarsambandi og grundvallarreglum lýðræðisins leiðir að fulltrúum landsmanna á Alþingi ber að taka tillit til vilja þeirra í störfum sínum. Það er ekki sama og að kjósendur í einstökum kjördæmum setji þingmönnum sínum reglur eins og það er orðað í 48. gr. stjórnarskrárinnar. Í drengskaparheiti því sem þingmönnum ber að vinna að stjórnarskránni skv. 47. grein hennar felst að þingmenn skulu í störfum sínum gæta almannahags og virða grundvallarreglur lýðræðisins. Innan þeirra marka eru þingmenn ekki bundnir af öðru en samvisku sinni og lögum. Sennilega er sú andstaða höfundar við beina þátttöku almennings í gerð stjórnarskrár það sem mesta athygli vekur og ástæða er til að fjalla um og andæfa meðal annars í samhengi við fullveldi almennings og lýðræðishugsjónina.
Söguleg upprifjun
Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp eftirfarandi atburði frá árunum 2010 til 2012 úr sögu nýju stjórnarskrárinnar, en það nafn hafa tillögur stjórnlagaráðs fengið í munni almennings:
- Alþingi stofnar með lögum til stjórnarskrárnefndar, þjóðfundar og stjórnlagaþings, sem skyldi gera tillögur að endurskoðaðri stjórnarskrá.
- Kjósendur kjósa 25 fulltrúa á þingið í frjálsum og heiðarlegum kosningum.
- Stjórnsýslunefnd sex hæstaréttardómara leysir úr kærum um gildi kosninganna þannig, að ógildar töldust vegna formannmarka, sem þó höfðu ekki áhrif á úrslit kosninganna.
- Alþingi virðir ógildinguna og samþykkir með þingsályktun að þeir fulltrúar sem kosnir voru á stjórnlagaþingið skuli taka sæti í stjórnlagaráði, sem hefði sambærilegt hlutverk og stjórnlagaþinginu var ætlað.
- Stjórnlagaráð lýkur störfum og afhendir Alþingi afrakstur vinnu sinnar í formi frumvarps til stjórnskipunarlaga með greinargerð, sem allir ráðsmenn stóðu að án fyrirvara. Þessi drög eru tillögur stjórnalagaráðs, enda kom ráðið ekki að stjórnarskrármálinu eftir það nema með einni lítilvægri undantekningu.
- Alþingi leitar álits landsmanna á því í þjóðaratkvæði hvort þeir vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verulegur meirihluti kjósenda svaraði þessari spurningu játandi. Eins var spurt um einstök ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs eins og t.d. um náttúruauðlindir í þjóðareign og vildi yfirgnæfandi meirihluti kjósenda fallast á að það ákvæði yrði tekið upp í stjórnarskrá.
Í grein Kristrúnar eru gerðar athugasemdir við þessa málsmeðferð Alþingis og hún sögð vera sniðganga stjórnarskrár og lögleysa (útdráttur TL, bls. 408). Höfundur gengur enn lengra og segir að ferlið hafi endað í skýru broti á stjórnarskránni (abstract TL, bls. 408 („…proceeded in a clear breach of the constitution.“)). Er einna helst á höfundi að skilja að Alþingi hafi verið óheimilt að taka þá ákvörðun með þingsályktun að fela þeim sem voru kjörnir á stjórnlagþing að setjast í stjórnlagaráð og vinna þar að tillögu um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stjórnlagaráðinu var ekki falið neitt vald, hvorki löggjafarvald né framkvæmdavald, heldur einungis tillögugerð. Nánar tiltekið segir í ályktuninni: „Alþingi ályktar að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944“. Síðan er verkefninu lýst og bætt við: „Stjórnlagaráð getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er að framan“. Ráðinu var því í sjálfsvald sett hvort það gerði tillögur um aðra þætti en beinlínis voru taldir upp í ályktuninni. Tillögunum skyldi ráðið skila Alþingi í formi frumvarps til stjórnlaga. Við skil tillögunnar lauk ráðið störfum sínum utan þess að það var kallað einu sinni saman til að svara álitaefni frá Alþingi sem skiptir ekki máli hér.
Höfundur greinarinnar heldur að með þingsályktuninni hafi Alþingi framselt vald sitt skv. 79. gr. stjórnarskrárinnar til að gera á henni breytingar. Höfundur færir engin rök fyrir því hvaða vald Alþingi framseldi ráðinu né hvar það framsal sé að finna enda ekki unnt að finna staðhæfingunni stoð í þingsályktuninni eða öðrum gögnum sem stafa frá Alþingi. En með fullyrðingunni um að Alþingi hafi framselt umrætt vald til ráðsins hefur höfundur fundið sér verðugan andstæðing. Á grundvelli þessarar óheimilu og staðlausu staðhæfingar ályktar höfundur að málsmeðferð Alþingis hafi verið löglaus og skýrt brot á stjórnarskránni.
Í framhaldi kaflans er kafli sem er merkingarlaus vegna þess að hann er byggður á því að ráðinu hafi verið framselt vald, sem því var ekki framselt. Enginn ágreiningur ríkti um það hvort Alþingi var heimilt að framselja stjórnarskrárvald sitt eða ekki. Hvergi í gögnum Alþingis er ýjað að heimild Alþingis til slíks framsals. Höfundur missir því marks, en augljóst er af greininni og ummælum höfundar í viðtölum við fjölmiðla að eitt meginmarkmið boðskapar höfundar er að færa á því sönnur að sá gerningur Alþingis að efna til stjórnlagráðs með þingsályktun hafi verið lögleysa og skýrt brot á stjórnarskránni og að sama eigi við um allt stjórnarskrárferlið eftir það. Höfundur segir að ferlið hafi eftir þetta verið utan réttar, en með því orðalagi á höfundur líklega við að ályktunin og ferlið eftir það hafi verið heimildarlaust, þ.e. hafi skort lagastoð. Síðar segir höfundur að farið hafi verið á snið við ógildinguna á kosningunum til stjórnlagaþings og breytingarreglu 79. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessu felst enn og aftur sá grundvallarmisskilningur að Alþingi hafi falið ráðinu að semja breytta stjórnarskrá og að verk ráðsins skyldi vera bindandi fyrir Alþingi!
Ekki verður ráðið af stjórnarskránni eða almennum lögum að Alþingi hafi ekki haft heimild til að koma á fót með þingsályktun ráði sem hefði það verkefni, að gera tillögu að breytingum á stjórnarskránni sem Alþingi gæti rætt og tekið afstöðu til óbundið af tillögunum.
Um hvaða tillögu var kosið í þjóðaratkvæðinu?
Höfundur gerir mikið veður út af því að ekki hafi legið ljóst fyrir kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána um hvaða tillögu var verið að kjósa. Var þó tekið fram á atkvæðaseðlinum að atkvæðagreiðslan snerist um tillögu stjórnlagaráðs. Í ráðgefandi bæklingi frá Lagastofnun HÍ var einnig tekið fram að með þjóðaratkvæðinu væri leitað afstöðu til þess hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar verði lagt fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá á Alþingi. Gott ef tillaga stjórnlagaráðs var ekki tekin upp í bæklinginn. Höfundur lætur sem hún skilji ekki merkingu orðanna „tillaga stjórnlagaráðs“ og lætur eins og orðin geti verið tilvísun í tillögur að stjórnarskrá sem aðrir en stjórnlagaráðið sömdu eða í tillögu stjórnalagaráðs, sem aðrir höfðu endurskoðað og breytt. Enda þótt þetta valdi höfundinum heilabrotum og margvíslegum vanda þá velktist það ekki fyrir kjósendum hverja tillögu að stjórnarskrá þeir voru að taka afstöðu til enda augljóst.
Upp í hugann kann að koma að höfundur greinarinnar sé ekki eins skilningsvana og hún lætur, heldur geri hún sér skilningsleysi upp til að geta teflt fram sem fjölskrúðugastri gagnrýni á stjórnarskrárferlið, en markmið greinarinnar er sem fyrr segir að sannfæra lesendur með góðu eða illu um að ferlið hafi verið lögleysa ein frá og með samþykkt þingsályktunarinnar um stjórnlagaráð. Því sé ekkert mark takandi á niðurstöðum þjóðaratkvæðisins. Þá segir höfundur að þjóðaratkvæðagreiðslan kunni að vera „sýndargjörningur um framsal ákvörðunarvalds stjórnarskrárgjafans til ótilgreinds aðila sem semja myndi stjórnskipunarlagafrumvarp með ótilgreindu efni og tilgangi“. Telur höfundur að þetta sé sú „lögfræðilega skilgreining“ á þjóðaratkvæðinu sem virðist réttust. Því miður uppfylla tilgreind orð um sýndargjörning ekki skilyrði þess að teljast lögfræðileg skilgreining eins og höfundur ætlar þeim. Það veldur höfundi enn og aftur vanda að hún leitast við að koma því í huga lesenda sinna að til hafi staðið að afsala Alþingi rétti sínum samkvæmt breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, enda þótt hún geti ekki sýnt fram á slíkan vilja Alþingis eða annarra í orði eða gerð. Þannig brestur ísinn undan höfundi enn og aftur.
Þá teflir höfundur fram afstöðu sex hæstaréttardómara þess efnis að kosningin til stjórnlagþings hafi verið ógild og lætur eins og um dóm Hæstaréttar hafi verið að ræða, enda þótt henni sé kunnugt að meðferð málsins laut ekki þeim réttarfarsreglum sem gilda um málsmeðferð fyrir dómi og ætlað er að tryggja sem réttasta niðurstöðu. Afstaða þessara sex manna styrkir ekki málstað höfundarins þar sem hún telur meðferð stjórnarskrármálsins frá og með þingsályktuninni um stjórnlagráð vera þá ákvörðun sem slíkum annmörkum er háð að lögleysa teljist. Afstaða sexmenninganna ræður engu um gildi þingsályktunarinnar um að stofna til stjórnlagaráðs, sem hefði það hlutverk að gera tillögur til Alþingis um breytingar og viðauka við stjórnarskrána.
Höfundur heldur því ítrekað fram að Alþingi og hugsanlega stjórnlagaráð hafi brotið stjórnarskrána og ýjar að því að þeir sem krefjast þess að Alþingi hagi störfum sínum í samræmi við skýra niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2012 vilji halda þessari brotastarfsemi áfram. Eins og útskýrt hefur verið hér að framan er höfundur á villigötum. Allt ferlið var í fullu samræmi við núgildandi stjórnarskrá. Ekkert vald var framselt. Krafan um að þingmenn virði skýra niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu byggist á siðferðilegum og lýðræðislegum rökum en þarf ekki að fela í sér að vikið sé frá viðteknum sjónarmiðum um hvernig núgildandi stjórnarskrá verði breytt. Höfundur berst í öllum megindráttum gegn málstað sem enginn hefur haldið fram.
Breytingarregla stjórnarskrár
Flestir vita hvað segir efnislega í 79. gr. stjórnarskrárinnar um að samþykki einfalds meiri hluta á þingi þurfi til stjórnarskrárbreytingar með eftirfarandi þingrofi og alþingiskosningum og samþykki sama texta á nýkjörnu þingi. Enginn ágreiningur er um merkingu ákvæðisins. Það heimilar einföldum meiri hluta Alþingis að samþykkja á bindandi hátt breytingu eða viðauka við stjórnarskrána. Umdeilanlegra er hins vegar hvort stjórnarskráin heimilar Alþingi að setja landinu nýja stjórnarskrá frá grunni og má færa rök fyrir því að það sé hlutverk handhafa innra fullveldisins, landsmanna, en ekki Alþingis.
Landsmenn gætu falið stjórnalagaþingi sem til væri kosið með almennum kosningum að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá, sem lögð yrði undir þjóðaratkvæði. Kosturinn við slíkt þing er að það hefur ekki annað hlutverk en að semja stjórnarskrá og að því loknu er því slitið.
Til að ekki valdi misskilningi skal tekið fram að í tillögum stjórnlagaráðs – nýju stjórnarskránni – felst ekki grundvallarbreyting á stjórnskipun landsins. Öll megineinkenni lýðveldisins eru óbreytt, en gerðar eru tillögur um ýmsar óhjákvæmilegar breytingar, sem breytt samfélag og afnám konungdæmis 1944 kallar á, en aðstæður leyfðu ekki nauðsynlegar breytingar við stofnun lýðveldis.
Það er vissulega mikilvægt að ræða um breytingarákvæði stjórnarskrár og vega og meta hversu torvelt skuli vera að gera á henni breytingar með hefðbundnum og lögmæltum hætti. Kristrún getur þess réttilega, að stjórnarskrár breytist ekki einungis með formlegum breytingum á stjórnarskrám heldur einnig með t.d. stjórnskipunarvenju og túlkun dómstóla, einkum Hæstaréttar. Því strangari sem breytingarákvæði stjórnarskrár eru því líklegra er að aðrir en handhafi breytingarvaldsins stjórni þróun stjórnskipunar landsins, t.d. dómstólar. Þekkt dæmi er að breytingar á stjórnskipun Bandaríkjanna verða oftast til hjá Hæstarétti Bandaríkjanna, en ekki hjá þjóðþinginu með samþykki ríkisþinganna. Dómararnir eru að sjálfssögðu ekki lýðræðislega kjörnir samkvæmt því. Vandinn er sá að finna hið ásættanlega jafnvægi.
Kristrún leggur áherslu á mikilvægi breytingarákvæðis í stjórnarskrám og segir það vera „akkeri hverrar stjórnarskrár“. Í mörgum stjórnarskrám er að finna reglur um mismunandi og misstrangar aðferðir við að breyta tilteknum flokkum ákvæða í stjórnarskrá. Tilgreindum ákvæðum verður ekki breytt vegna þess að það er annað hvort bannað eða skilyrði breytinga eru svo ströng að útilokað er talið að breyta þeim. Neðar í stigveldinu koma flokkar ákvæða sem auðveldara er að breyta en þó misauðvelt. Oftast tekur flokkun ákvæða sem þessi mið af því hvaða gildi eru í mestum hávegum höfð í viðeigandi stjórnarskrá. Þessu er öðruvísi háttað í íslensku stjórnarskránni þar sem breytingarákvæðið felst einungis í málsmeðferðarreglu, reglu um aðferð við að breyta ákvæðum í stjórnarskrá sem gildir jafnt um öll ákvæði stjórnarskrárinnar. Þeim er ekki gert mishátt undir höfði í ákvæðinu sjálfu.
Hvernig varð stjórnarskráin til?
Árið 1851 var að boði hins einvalda konungs stofnað til stjórnlagaþings á Íslandi undir nafninu þjóðfundur (Tíðindi frá þjóðfundi Íslendinga árið 1851, Reykjavík 1851) . Ætlunin var að setja landinu stjórnarskrá, en júnístjórnarskráin danska frá 1849 gilti ekki á Íslandi. Um kosningu fulltrúa til fundarins voru sett sérstök lög og var kosningarétturinn rýmri en til Alþingis. Á fundinum var á vegum konungs lagt fram „Frumvarp til laga um stöðu Íslands í fyrirkomulagi ríkisins og um ríkisþingskosningar á Íslandi“. Við frumvarpið voru tengd Grundvallarlög Danmerkurríkis frá 1849 og kveðið á um að þau skyldu vera gild á Íslandi. Breytingarákvæðið tók mið af samþykki ríkisþingsins, þingrofi og nýjum almenum þingkosningum. Færi svo að hið síðara ríkisþing samþykkti tillöguna yrði hún að grundvallarlögum en þó því aðeins að konungur staðfesti hana. Íslensku fulltrúarnir höfnuðu tillögum Dana en tefldu fram frumvarpi að stjórnlögum, sem fundurinn bað konung annað hvort að samþykkja „eða þá láta semja nýtt frumvarp að stjórnlögun landsins með hliðsjón af þessum uppástungum“. Þarna er að finna upphaf þess að Alþingi fór þess á leit við konung 1873 að hann „gæfi“ landinu stjórnarskrá. Í tillögum íslensku fulltrúanna á þjóðfundinum er ekki að finna breytingarákvæði, þannig að þeir tóku ekki upp breytingarákvæðið í dönsku stjórnarskránni 1849 sem rakið hefur verið, hver svo sem ástæðan fyrir því hefur verið.
Stjórnarskrá þessi var að verulegu leyti eins og frumvörp þau að stjórnarskrá, sem danska stjórnin hafði sent Alþingi 1867, 1869 og 1871 og í raun að mestu þýðing á dönsku stjórnarskránni 1849 og 1866. Íslendingar fengu ekki eigin ráðgjafa og sex af 12 þingmönnum í efri deild voru konungskjörnir og gátu því stöðvað þingmál að vild. Konungur hafði lokaorðið um afdrif lagafrumvarpa þar sem þau voru háð staðfestingu hans. Ekki fagnaði Jón Sigurðsson stjórnarskrá þessari í Andvaragrein sinni 1874 um stjórnarskrána Andvari 1874).
Tilefni þess að hér er fjallað um það hvernig stjórnarskráin 1874 varð til er að varpa ljósi á ólíkan uppruna stjórnarskráa skyldþjóða okkar, t.d. Dana og Norðmanna. Danska stjórnarskráin 1849 var samþykkt á stjórnlagaþingi 52 kjörinna fulltrúa og staðfest af konungi 5. júní 1849 og er haldið upp á þann dag sem þjóðhátíðardag Dana. Norðmenn staðfestu stjórnarskrá sína á lýðkjörnu stjórnlagaþingi að Eiðsvöllum hinn 17. maí 1814 og er sá dagur þjóðhátíðardagur Norðmanna. Uppruni stjórnarskráa beggja þessara skyldþjóða er hjá þjóðkjörnum þingum, sem kölluð voru saman til að setja löndunum stjórnarskrá og ekki til annars. Svipað má segja um stjórnarskrársamkomu Bandaríkjamanna í Fíladelfíu 1787. Til þess fundar var stofnað til að endurskoða samkomulag nýlendnanna áratug fyrr (Articles of Federation) en hinir kjörnu fulltrúar á samkomunni gengu lengra og sömdu stjórnarskrá Bandaríkjanna. Aðdraganda samkomunnar má að nokkru rekja til sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna frá 4. júlí 1776. Enda þótt yfirlýsingin hafi ekki stöðu sem stjórnskipunarlög, þá eru tengslin við stjórnarskrána veruleg og hún gegnir hlutverki við túlkun hennar. Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna er einmitt 4. júlí. Af þessum sögulegu ástæðum eru tengsl íbúa þessara þriggja landa við stjórnarskrá sína lifandi og þeim ofar í huga en stjórnarskrá okkar er landsmönnum, enda upplifa þeir hana ekki sem hluta þjóðararfsins heldur sem utanaðkomandi gerning. Áhrif hennar á samfélagið eru minni en ætla mætti og það mun ekki breytast fyrr en landið hefur fengið stjórnarskrá sem stendur á innlendri rót.
Er nýja stjórnarskráin góð eða vond stjórnarskrá?
Kristrún Heimisdóttir fjallar ekki með beinum hætti um hvernig henni lítist á nýju stjórnarskrána efnislega en með hliðsjón af umræðu hennar um popúlisma, pólitískt einræði og fall réttarríkisins verður þó ekki annað ályktað en að hún telji nýju stjórnarskrána varhugaverða svo ekki sé meira sagt. Tillögur stjórnlagaráðs telur hún ófullburða. Gallinn við þessar ályktanir höfundarins er að þær eru lítt eða ekkert rökstuddar og því erfitt að eiga málefnalegar samræður um þær. Ég verð þó að viðurkenna að ég tek meira mark á umsögnum óháðra fræðimanna um gæði nýju stjórnarskrárinnar en umsögn Kristrúnar. Ég gæti nefnt marga slíka til sögunnar, en læt nægja að vísa til umagnar Jon Elster, sem er meðal virtustu fræðimanna á sviði stjórnarskrágerðar og samanburðar á stjórnarskrám. Hann sagði í Silfri Egils á sínum tíma (13.maí 2012), að nýja stjórnarskráin væri góð og ekki haldin neinum sýnilegum ágöllum, en þeir gætu þó komið í ljós síðar, ef á reyndi.
Lokaorð
Í grein sinni leitast Kristrún við að tvinna saman viðhorfum sínum til breytingarákvæða í stjórnarskrám og meðferð stjórnarskrármálsins innan og utan þings. Svo virðist sem hún sé afar mótfallin nýju stjórnarskránni og hafi valið gagnrýni sinni þann búning að fjalla um breytingarákvæði stjórnarskrár og tengja þá umfjöllun við meðferð stjórnarskrármálsins. Kenning hennar virðist vera sú að takist henni að sýna fram á sem mesta vankanta á meðferðinni þá sé afleiðingin sú að tillögur stjórnlagaráðs séu að engu hafandi og stofni lýðveldinu í hættu. Sá þáttur sem hún einkum leggur áherslu á máli sínu til framdráttar er að Alþingi hafi framselt stjórnlagaráði rétt sinn til að gera breytingar á stjórnarskránni og þannig gerst sekt um lögleysu og brot á stjórnarskrá. Gallinn við þessa leið harðrar árásar á Alþingi er sá að þetta á sér enga stoð eins og þegar hefur verið rakið hér að framan. Höfundi tekst ekki að leiða líkum að því að Alþingi hafi reynt að fara þessa leið, þ.e. að færa valdið til að breyta stjórnarskránni frá Alþingi og fela það utanþingsaðila. Þess vegna verður greinin sundurlaus og ómarkviss. Ályktanir höfundar eru iðulega órökstuddar og rétt hefði verið að leitast við að rökstyðja þær a.m.k. að nokkru marki.
Áhugavert hefði verið að höfundur hefði skrifað tvær greinar í stað þessarar. Þá hefði hún annars vegar getað fjallað með ítarlegum og fróðlegum hætti um breytingarákvæði í stjórnarskrám og gert nokkurn samanburð milli landa, sem hefði verið afar gagnlegt. Hins vegar hefði hún getað fjallað um stjórnarskrárferlið út af fyrir sig og tekist á við alla þá erlendu fræðimenn á sviði stjórnskipunarréttar og stjórnmálaheimspeki sem hafa hrósað ferlinu og hafið upp til skýjanna. Jafnframt hefði hún getað lýst ágöllum tillagna stjórnlagaráðs og leitast við að rökstyðja á hvern hátt þær eru varasamar landinu og stofna því í hættu.
Höfundur er lögmaður.