Undanfarin ár hafa verið undarleg. Yfir heiminn hefur dunið óáran sem á sér ekki margar hliðstæður í mannkynssögunni, en hafa hvatt til samstöðu velflestra jarðarbúa til að bregðast við. Fyrirtæki og einstaklingar hafa eftir bestu getu lagt sig fram um að sinna þeim samfélagslegu skyldum sem eftir hefur verið kallað. Covid og loftlagsváin hafa sýnt okkur að þrátt fyrir þróun allskonar tækni erum við ekki hafin yfir náttúrulögmálin og getum ekki hagað okkur hvernig sem við viljum, eða villt á okkur sýn. Reynt að sýnast aðrir en erum. Og þó.
Sumir virðast telja sér allt leyfilegt í krafti auðs og valds. Vonin um aukin gróða virðist blinda mönnum sýn um hvað er rétt og hvað sé skynsamlegt eða siðsamlegt . Nýlegar fréttir um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum vegna stækkunar kísilvers í Helguvík valda örugglega fleirum en íbúum á Suðunesjum vonbrigðum. Arion banki sem auglýsir sig að því er virðist sem „grænasta“ banka landsmanna er bara hreint ekki eins grænn og vill vera láta.
Stjórnendur Arion banka hafa nú í nokkurn tíma valið að láta svo líta út að kísilverksmiðjan væri verðlaus í þeirra bókum. Að vilji þeirra stæði til að sinna sínu „græna“ hlutverki. Nú virðist breyting hafa orðið og glýjan komin í augu þeirra. Kísilverð hefur farið hækkandi og nú skal allt reynt til að koma kísilverinu í gott verð.
Því miður virðist afstaða bæjarbúa í Reykjanesbæ eða bæjaryfirvalda litlu skipta. Fyrir utanaðkomandi virðist nú eiga að nýta sér hverja þá lagaflækju sem mögulega finnst til þess að endurstarta verksmiðju sem enginn vill hafa í sínum bakgarði. Heyrst hefur í annars hljóðlátu upplýsingakerfis valda og fjármálamannanna að tilgangur Arion banka með umhverfiskýrslunni sé fyrst og fremst að finna leið til að starta verksmiðjunni án þess að þurfa að eiga nokkur samskipti við skipulags eða bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ. Þeir vita að andstaðan þar við áformin er algjör.
Vonin er um að í þeim bakgarði fjármálakerfisins þar sem völd og græðgi er höfuðmálið finnist þó enn einhver sá sem sér ástæðu til þessa að stíga út úr þeim aðstæðum sem Arion banki virðist vera að koma sér í. Að láta ekki gleðina yfir skammtímagróða þó mikill sé, ráða för. Að horfa til hagsmuna samfélagsins sem ætlað er að búa í námunda við kísilverið og þeirra áhrifa sem það kemur til með að hafa á loftslagið til langs tíma. Að bankinn verði sá „græni banki“ sem þeir auglýsa og hægt sé að treysta því að þeir axli sína samfélagslegu ábyrgð sem þeir hafa undirgengist í markaðssetningu sinni.
Höfundur er íbúi í Reykjanesbæ.