Íslendingar rífast um flest milli himins og jarðar. Við erum þrætugjörn þjóð og sameinumst sjaldnast nær öll um nokkurn hlut annan en góðan árangur landsliða í hópíþróttum eða viðbrögð við náttúruhamförum. En við höfum haft sameiginlegt og algjört traust á því að niðurstöður þingkosninga, hvernig sem þær fara, séu raunverulegar og endanlegar.
Því trausti megum við alls ekki glata. Og heilt yfir hefur framkvæmd kosninga hérlendis verið til fyrirmyndar. Aðfinnslur alþjóðlegra eftirlitsaðila hafa helst snúið að þeim lýðræðishalla sem er í kjördæmaskipan, og veldur því að atkvæði greitt í á Vestfjörðum telur miklu meira en atkvæði greitt í Kópavogi.
Nú er hins vegar komin upp staða sem verður að taka mjög alvarlega. Landskjörstjórn greindi frá því á þriðjudag að ekki hefði borist staðfesting á því frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi. Það er í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem slík yfirlýsing er gefin eftir þingkosningar.
Á mannamáli þýðir það að ekki liggur fyrir staðfesting um hvort átt hafi verið við atkvæðaseðla milli þess sem þeir voru taldir, og þess þegar þeir voru endurtaldir daginn eftir kosningarnar, með þeim afleiðingum að fimm þingmenn misstu sæti sitt á Alþingi og aðrir fimm fengu þar sæti.
Staðan er því sú að við vitum ekki hvort fimm þingmenn séu réttkjörnir eða ekki.
Einn með óinnsigluðum kjörgögnum í 29 mínútur
Talningu í Norðvesturkjördæmi lauk milli sjö og hálf átta á sunnudagsmorgun og í kjölfarið voru kynntar lokatölur snemma á sunnudagsmorgun. Á grundvelli þeirra var greint frá því opinberlega að Karl Gauti Hjaltason, fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi, Hólmfríður Árnadóttir, fyrir Vinstri græn í Suðurkjördæmi, Lenya Rún Taha Karim, fyrir Pírata í Reykjavík norður, Guðmundur Gunnarsson, fyrir Viðreisn í Norðvesturkjördæmi, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi suður, hefðu hlotið jöfnunarþingsæti. Væru réttkjörnir þingmenn.
Samkvæmt fundargerð yfirkjörstjórnar mætti Ingi hins vegar aftur á talningarstað rétt fyrir hádegi, eða klukkan 11:46. Næsti meðlimur yfirkjörstjórnar sem mætti á eftir Inga kom á staðinn klukkan 12:15. Því var hann einn með óinnsigluðum kjörgögnum í 29 mínútur.
Ekki eining um endurtalningu
Í greinargerð yfirkjörstjórnar, dagsettri 28. september 2021, segir Ingi að um það leyti þegar hann var á leið aftur á talningarstað hafi hann fengið „símtal frá formanni landskjörstjórnar og athygli okkar var vakin á því að það munaði litlu varðandi uppbótarsæti í Norðvestur og Suðurkjördæmi og hvort það gæfi okkur tilefni til að skoða málið nánar.“
Vegna ábendingarinnar var farið yfir atkvæði greidd lista Viðreisnar. Í fyrsta bunka sem Ingi tók upp reyndust vera átta atkvæði sem talin höfðu Viðreisn en tilheyrðu Sjálfstæðisflokki og eitt sem tilheyrði lista Framsóknar.
Í framhaldi af því fór yfirkjörstjórn yfir öll atkvæði Viðreisnar lista til að kanna hvort öll önnur en fyrrgreind atkvæði tilheyrðu ekki örugglega Viðreisn. „Svo reyndist vera en þá lá fyrir að mannleg mistök höfðu átt sér stað við talningu atkvæða undir morgun og níu atkvæði höfðu ranglega lent í atkvæðabunka C lista [Viðreisn] sem tilheyrðu öðrum framboðslistum. Með hliðsjón af þessu taldi yfirkjörstjórn ekki annað fært en að endurtelja öll atkvæði.“
Athygli vekur að það bað enginn um þessa endurtalningu. Og fjölmiðlar hafa greint frá því að ekki hafi verið eining á meðal þeirra sem sitja í yfirkjörstjórn að ráðast í hana. Það var samt sem áður gert.
Fjöldi atkvæða allra breyttist
DV greindi frá því á fimmtudagskvöld að meðhöndlun atkvæða hafi hafist áður en allir meðlimir kjörstjórnar voru mættir á staðinn og áður en umboðsmenn listanna mættu til að vera viðstaddir endurtalninguna. Hluti kjörstjórnar neitaði vegna þessa að undirrita fundargerðina vegna talningarinnar.
Endurtalningin skilaði því að töldum atkvæðum fjölgaði um tvö. Auðum seðlum fækkaði um tólf og ógildum fjölgaði um ellefu. Atkvæði allra flokka breyttust, mest hjá Sjálfstæðisflokknum sem græddi tíu atkvæði, en Viðreisn tapaði flestum, eða níu. Vegna þessa fór af stað jöfnunarsætahringekja sem gerði það að verkum að þeir fimm sem greint var frá hér að ofan voru skyndilega ekki lengur væntanlegir þingmenn, heldur fimm aðrir frambjóðendur sömu flokka en úr öðrum kjördæmum.
Guðmundur Gunnarsson féll út sem jöfnunarmaður Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi og í stað hans kom Bergþór Ólason inn fyrir Miðflokkinn. Karl Gauti Hjaltason úr Miðflokki féll út í Suðvesturkjördæmi og í hans stað kom Gísli Rafn Ólafsson frá Pírötum. Í Reykjavík norður féll Lenya Rún Taha Karim út sem jöfnunarmaður Pírata og í hennar stað kom Jóhann Páll Jóhannsson fyrir Samfylkinguna. Þá datt Rósa Björk Brynjólfsdóttir út sem jöfnunarmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík Suður. Í hennar stað kom Orri Páll Jóhannsson sem jöfnunarþingmaður Vinstri grænna. Í Suðurkjördæmi datt Hólmfríður Árnadóttir út sem jöfnunarþingmaður Vinstri grænna og Guðbrandur Einarsson kom inn í hennar stað sem jöfnunarþingmaður Viðreisnar.
Er í lagi að vita ekki hvort fimm þingmenn séu réttkjörnir?
Drögum þetta nú saman. Tölur voru tilkynntar að morgni sunnudags og á grundvelli þeirra lá fyrir að fimm einstaklingar væru jöfnunarþingmenn í fimm kjördæmum. Kjörgögn í Norðvesturkjördæmi eru svo geymd við fullkomlega ótryggar aðstæður, og í andstöðu við lög þar sem þau voru ekki innsigluð. Kjörgögn voru innsigluð í öllum öðrum kjördæmum.
Fyrir liggur að starfsmaður á hótelinu tók mynd af gögnum í því ástandi snemma morguns þar sem enginn annar sést vera inni í salnum þar sem gögnin voru geymd. Fleiri en einn inngangur er inn í salinn.
Er einhver sem ætlar að halda því fram, að teknu tilliti til ofangreinds, að hann viti hvort fyrri eða seinni talningin sé rétt, eða hvort þær séu jafnvel báðar rangar? Er einhver sem getur sagt með fullri vissu hver niðurstaða kosninganna í Norðvesturkjördæmi var?
Klúður sem hefur víðtæk áhrif
Ljóst er að þetta klúður í Norðvesturkjördæmi getur haft víðtæk áhrif. Sýnilegast er að fimm einstaklingar gætu sest á þing sem þjóðin kaus ekki þangað, samkvæmt gildandi lögum, og fimm einstaklingar sem þjóðin kaus gætu orðið af þingmennsku.
Ef kosið yrði aftur í Norðvesturkjördæmi gætu t.d. kjósendur Sósíalistaflokks Íslands, sem náði ekki inn manni á landsvísu, ákveðið að setja atkvæði sín á annan flokk. Það gæti gert það að verkum að sá flokkur næði inn kjördæmakjörnum þingmanni, sem myndi hafa bein áhrif á útdeilingu jöfnunarþingsæta á landinu öllu og á heildarniðurstöðu kosninga. Auk þess myndi það hafa áhrif á fjárútlát úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka, sem ákvarðast af magni atkvæða sem þeir fá hverju sinni.
Því er óvíst að endurtekning á kosningu í Norðvesturkjördæmi sé nægjanleg.
Ekki tími pólitískra tækifærissinna
Samkvæmt stjórnarskrá eru það þingmenn sjálfir sem skera úr um lögmæti kjörbréfa þingmanna, eins sérkennilega og það hljómar. Ferlið er þannig að Landskjörstjórn gefur út kjörbréf til hinna nýkjörnu þingmanna, sem hún gerði í gær á grundvelli síðari talningar. Þeir skipa kjörbréfanefnd sem fer yfir vafaatriði sem komu upp í kosningum og gerir svo tillögur um hvernig eigi að fara með niðurstöðuna. Alþingi úrskurðar loks endanlega um lögmæti kjörbréfanna og hvort kosningarnar hafi verið gildar. Þar sitja þeir fimm þingmenn sem ekki liggur fyrir með vissu hvort séu réttkjörnir.
Þetta er ekki mál sem á að falla í pólitískar skotgrafir. Taparar í kosningum eiga ekki að líta á það sem annað tækifæri til að rétta hlut sinn. Lukkuriddarar eiga ekki að líta á það sem annað tækifæri til að koma sínum manni í kjördæminu inn á þing. Sigurvegarar eiga ekki að nálgast málið út frá því sjónarmiði að verja sinn árangur og láta sem að þetta breyti ekki niðurstöðum kosninga eða sé bara óheppilegt.
Tækifærismennska á ekkert heimili í þeim aðstæðum sem hafa skapast. Þeir sem grípa til hennar gera lítið annað en að staðfesta hversu smáir, þröngsýnir og sérhagsmunamiðaðir einstaklingar þeir eru.
Hér er trúverðugleiki kosninga undir. Hann hefur beðið hnekki en það er hægt að bæta þann skaða að einhverju leyti með því að bregðast rétt við með það eitt að leiðarljósi að endurheimta það traust sem er horfið. Að benda á það hefur ekkert með samsæriskenningar eða álhatta að gera, heldur virðingu fyrir lýðræðinu og framgangi þess.
Það er einfaldlega ekki hægt að sætta sig við að slumpa á niðurstöðu þegar fyrir liggur að engin veit hvort fimm þingmenn séu réttkjörnir. Skiptir þar engu þótt afglöp formanns kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi breyti ekki fjölda þingmanna sem hver flokkur fær.