Í stuttri grein á Kjarnanum á sumardaginn fyrsta sagði Pawel Bartoszek borgarfulltrúi að land eigi að nýta á hagkvæman hátt og með því að byggja þétt eins og markaðurinn vill gera. Jafnframt opinberar Pawel, sem eftir því sem ég best veit er formaður skipulagsráðs borgarinnar, þá sýn að leysa eigi húsnæðisþörf Reykvíkinga með þéttri byggð og beitir þar áþreifanlegum rökum um hagkvæmni stærðarinnar og landnýtingar.
Ef það væri eina viðmiðið í skipulaginu væri reyndar auðveldlega hægt að ná enn meiri nýtingu með háhýsabyggð í ætt við SA-Asíu. Ég neita því ekki að ég varð hálf hvumsa við að sjá þetta beinskeytta viðhorf koma úr skipulagsráði Reykjavíkur. Gæði byggðar snýst nefnilega um svo marga aðra þætti.
Hér á landi er sól lágt á lofti yfir vetrarhelming ársins, dagurinn stuttur og birtan eftirsóknarverð. Sunnar s.s. við Miðjarðarhafið, þykir eðlilegt og þægilegt að hafa skugga og skipulagið leitast við að draga úr birtu og þar með brækjuhita að sumrinu. Dagsbirtan er okkur mikilvæg og nærandi. Fremur háar byggingar sem standa þétt takmarka þá birtu sem berst inn. Íbúðirnar verða bæði dimmar og sólarlausar. Sama er með útsýni og telst það til hátt verðlagðra híbýlagæða. Í þéttri og hárri byggð er útsýni margra íbúðanna hins vegar næsti húsveggur. Við sjáum þetta vel í nýja Hlíðahverfinu í Vatnsmýri þar sem þéttleiki og nýtingarhlutfall eru aðalsmerki skipulagsins.
Í næðingssömu landi þrengja vindar sér um þröng sundin á milli bygginga. Því styttri vegalengd á milli þeirra og því hærri sem þær eru, þeim mun meiri verða trektaráhrif vindsins. Jafnvel á logndögum skapa byggingarnar napran súg sem fólk forðast frekar en hitt. Skuggahverfið með sínum turnum er mjög gott dæmi, enda fáir þar á ferli jafnvel á bestu sólardögum. Sleppum hér að nefna til sögunnar sviptivindana skeinuhættu samfara stormum.
En kannski er það versta við hugmyndir skipulags um hátt nýtingarhlutfall, einkennandi skortur á grænum svæðum. Nú eða björtum og skjólsælum torgum sem geta af sér mannlíf á milli húsa. Það er einmitt heiti á lítilli bók eftir hinn fræga danska arkitekt Jan Gehl. Upphaflega frá 1971, en margendurútgefin og klassík í skipulagsfræðum. Jan Gehl er umhugað um manneskjuna í hinu manngerða umhverfi, líðan hennar, samskipti og samneyti við annað fólk. Ekki síst í borgum.
Undir merkjum fúnksjónalismans um 1930, þróuðust hugmyndir um skilvirkt og heilsusamlegt húsnæði. „Tryggja átti birtu, hreint loft, sól og möguleika á að lofta út úr íbúðunum, auk aðgengis íbúa á grænum svæðum“ (bls. 45). Hver man ekki eftir fasteignaauglýsingunum hér áður, þar sem íbúðin var sögð björt! Dimmar kjallaraholur voru andstæðan sem allir vildu flytjast úr.
Þétt fjölbýlishúsabyggð kann að vera álitlegur fjárfestingarkostur á okkar dögum. Hagkvæmni heildarinnar þar sem hægt er að koma mörgum íbúum fyrir á litlu svæði og á skömmum tíma. En er þessi nýja sýn í byggingarstíl jákvæð fyrir heilsu og sálarlíf þeirra sem þangað flytjast? Með þéttri byggð er vissulega hægt að sýna fram á góða stöðu nokkurra mikilvægra umhverfisvísa. En aðrir og óáþreifanlegri munu e.t.v. sýna versnandi lýðheilsu og vanlíðan íbúanna? Spá mín er sú að þegar fram í sækir muni fólk hverfa úr slíkum íbúðahverfum og leita aftur í birtu, skjól og manngert umhverfi með grænum og nærandi svæðum. Og ekki síst mannlífi á milli húsanna. Slík byggð getur verið þétt, en um leið lágreistari og bjartari með gróðri sem veitir skjól. Ótal slík vel heppnuð íbúðahverfi er að finna á hinum Norðurlöndunum.
Höfundur er veðurfræðingur og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður.