Samtökin Landsbyggðin lifi (LBL) voru stofnuð árið 2001 sem regnhlífarsamtök framfarafélaga.
Fyrstu árin var mikil áhersla lögð á að stofna framfarafélög um land allt og tókst það víða mjög vel. Í byrjun voru félögin öflug og komu á fót mörgum verkefnum sem orðið hafa til framfara í sínum samfélögum. Hugsunin á bak við félögin var að efla og styrkja mannlíf og auka áhuga almennings á samfélagi sínu og virka þátttöku í því. Í seinni tíð hafa félögin oft lagst í dvala eða verið lögð niður þar sem ekki hefur tekist að manna stjórnir. Landsbyggðin lifi brást við þessu með því að bjóða upp á einstaklingsaðild að samtökunum og hefur það skilað góðum árangri. Til að fjármagna samtökin hefur Landsbyggðin lifi tekið þátt í verkefnum í samstarfi um margvísleg málefni víðs vegar um Evrópu. Það hefur víkkað sjóndeildarhring stjórnarmanna og gert það að verkum að í stað þess að stofna framfarafélög út um allt land leitar Landsbyggðin lifi eftir samstarfi við starfandi öflug félög á landinu öllu.
LBL er einfalt í sniðum og ekki með skrifstofu né launaða starfsmenn en starfið er unnið í sjálfboðavinnu. Haldið er úti heimasíðu: landlif.is og fésbókarsíðu: Landsbyggðin lifi – Farsæld til framtíðar.
Sem dæmi um erlenda samstarfsaðila eru norrænu samtökin, Hela Norden ska leva (HNSL). Þetta var óformlegur hópur regnhlífarsamtaka á Álandseyjum og Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð þar til árið 2008 þegar samtökin voru formlega stofnuð. Færeyjar komu svo inn í samtökin um fjórum árum síðar.
Einnig hefur LBL tekið þátt í víðtækum evrópskum samtökum, ERCA (European Rural Community Alliance) sem héldu fyrsta Evrópska dreifbýlisþingið (European Rural Parliament, ERP) í Brussel árið 2013. Næst þing var haldið í Austurríki árið 2015 og síðan í Hollandi árið 2017, á Norður-Spáni 2019 og loks nú 2022 í Póllandi. LBL hefur átt fulltrúa á öllum þessum þingum en ekki aðrir frá Íslandi. Á ERP-þingunum hittist fólk frá fjölmörgum Evrópulöndum bæði frá margvíslegum áhugamannasamtökum um byggðamál og fulltrúar stofnana sem vinna að byggðamálum. Áhugaverða ályktun dreifbýlisþingsins í Póllandi má sjá á heimasíðu LBL.
Margvísleg áhugaverð kynni og sambönd hafa myndast í þessu erlenda samstarfi auk þess fróðleiks sem aflað hefur verið. Íslensku þátttakendurnir hafa líka komið sínum áhersluatriðum á framfæri þegar unnið hefur verið að ályktunum ERP-þinganna t.d. um mikilvægi strand- og hafsvæða.
Út frá erlendu tengslunum hafa sprottið allmörg samstarfsverkefni sem LBL hefur tekið þátt í með tveimur eða fleiri löndum í hverju verkefni. Þessi verkefni hafi almennt notið styrks úr evrópskum sjóðum (svo sem Erasmus+) sem greiða m.a. ferðakostnað.
Áhugaverð verkefni hafa verið unnin í félagi við samtök og stofnanir, m.a. í Svíþjóð, Bretlandi, Rúmeníu, Búlgaríu, Danmörku, Hollandi, Ítalíu, Spáni, Lettlandi, Slóvakíu, Frakklandi, Póllandi og Írlandi.
Mörg tengjast verkefnin áherslu á að auka samfélagslega virkni og ábyrgð fólks og þar með að styrkja samfélögin og efla grunnstoðir lýðræðisins. Þetta brennur ekki síst á fólki í austanverðri Evrópu þar sem lýðræði er fremur nýlega tilkomið.
Að sjálfsögðu er reynt að vanrækja ekki innlend verkefni þó að leitað sé til LBL með þátttöku í erlendum verkefnum og þau séu fjárhagslega mikilvæg.
Fulltrúar LBL taka þátt í ráðstefnum og fundum þar sem byggðamál eru á dagskrá. Samtökin hafa einnig staðið fyrir málþingum um slík málefni og reynt að auka samstarf á þessu sviði.
Innlendur samstarfsaðili um þessar mundir er Norræna félagið en með því er unnið að verkefninu Af stað, aftur og aftur. Það verkefni er hvatning til að huga að heilsunni og mun verða kynnt um allt land.
Samstarf hefur einnig verið við aðila innanlands í gegnum verkefni með upphaflegri þátttöku LBL í erlendum verkefnum. Þar má m.a. nefna:
- Fjölmenningarkórinn
- Hamarinn, ungmennahús Hafnarfjarðar
- Hæglætisþorpið á Djúpavogi
- Nýheima á Höfn
- Rauða krossinn og
- Reykjavíkurborg
Nú er verið að skoða mögulegt samstarf við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi um að nýta animation (kvikun) við fræðslu tengda Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Við vinnum að því að fá fleira ungt fólk til samstarfs en við höfum m.a. gert kannanir um hvað samfélag þarf að hafa að bjóða þeim (Opposing Force og Rannsóknarst. Háskólans á Akureyri).
Okkur vantar fleira ungt fólk til samstarfs en það sama brennur á mörgum erlendum samstarfsaðilum.
Nú stendur t.d. yfir viðamikið verkefni sem kallast:
OUR CVIC HERITAGE (Samfélagsleg arfleifð okkar) og er með áherslu á þátttöku íbúa í samfélagsmálum og sjálfboðavinnu tengdri þeim. Verið er að vinna skýrslu um stöðu sjálfboðavinnu í 7 löndum, síðan að gera svo kallaða verkfærakistu með leiðum til að vekja áhuga fólks á virkari þátttöku í samfélaginu. Allt er þetta þýtt á tungumál samstarfslandanna.
Einnig eru í gangi viðaminni verkefni. Annars vegar með fólki í Lettlandi, Póllandi og Slóveníu en hins vega frá Norður-Spáni og Frakklandi.