Árið 2013 tók ég þátt í bráðskemmtilegu verkefni um mögulegar úrbætur á íslensku samfélagi. Verkefnið var unnið fyrir samráðsvetvang um aukna hagsæld. Afurðina má sjá hér. Tillögurnar snéru að öllum geirum samfélagsins. Að öðrum ólöstuðum fundust mér tillögur hópsins hvað varðar nýsköpun áhugaverðastar. Þar var fjallað um hvernig íslenskt samfélag gæti stutt við nýsköpun og skapað nýja stoð fyrir efnahagslífið. Stoð sem skapaði vel launuð störf fyrir Íslendinga framtíðarinnar og sem byggði á útflutningi á innlendu hugviti. Sumar af tillögunum komst til framkvæmda, aðrar ekki eins og gengur.
Nú nýverið var ég að undirbúa mig fyrir viðtal við erlendan blaðamann. Ég leit því á tölur um þróun útflutnings. Þarna trónuðu turnarnir þrír, sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaþjónusta, eins og búast mátti við. Yfirlit um þróun útflutnings má sjá á mynd 1.
Athyglisvert er að skoða liðinn „annað“, lið sem ekki ratar í fréttir. Þessi saklausi liður „annað“ er nefnilega, í fyrsta skipti, stærsta útflutningsatvinnugrein Íslands á undangengnum ársfjórðungum. Hvað er þetta annað?
Framsetning hagtalna byggir á sögulegum ákvörðunum. Þannig heldur Hagstofa Íslands afar nákvæmar skýrslur um útflutning á sjávarfangi, frá blautverkuðum saltfiski til saltaðra hrogna (alls rúmlega 300 liðir). Sundurliðun annarra nýlegri atvinnugreina er ekki eins ýtarleg, en þó til staðar. Svo ég settist niður og fór að rýna.
Íslendingar hafa flutt út allskonar aðra hluti en fisk, ál og upplifanir fyrir ferðamenn. Til er annar iðnaður en áliðnaður. Fluttar eru út landbúnaðarafurðir og möl, sælgæti og brotajárn. Þessir liðir eru þó aðeins brot af liðnum annað, og ekki það sem hefur verið að lyfta honum upp í efsta sæti. Fiskeldi hefur lagt til aukningarinnar en hluti þess í heildarvextinum er þó ekki nema um 25% frá árinu 2013 til 2020.
Stærslu vaxtarliðirnir eru nefnilega á sviði útflutnings á sérfræðiþjónustu, tækni, hugviti og hugverkum. Samanlagt hafa þessir liðir vaxið um 78% frá 2013 til 2020 meðan t.d. sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaþjónusta (sem þó er ekki alveg að marka vegna COVID) hafa allir dregist saman. Fjórða stoðin er mætt á svæðið. Hún hefur vaxið á undanförnum árum um að meðaltali 9% á ári. Mestur hefur vöxturinn verið undanfarin þrjú ár.
Fjórða stoðin er afar eftirsóknarverð fyrir samfélagið. Hún eykur við stöðugleika fábreyttra útflutningsatvinnuvega. Í henni eru allskonar fyrirtæki í allskonar starfsemi sem selja allskonar vöru og þjónustu. Fjórða stoðin er því líklegri til að leiða til stöðugleika en t.d. ferðaþjónusta. Hún skapar fjölbreytt vel launuð störf fyrir allskonar sérfræðinga og hæfileikafólk. Hún hvetur til enn frekari nýsköpunar og vaxtar með því að dýpka vinnumarkað og skapa hvata sem draga hingað hæfileika. Að þessum vexti þarf að hlúa.
Þessi geiri á þó við ákveðinn vanda að etja. Hann er minna sýnilegur en einsleitar atvinnugreinar. Hagsmunir og þarfir þeirra sem innan hans vinna eru misjafnir. Þess vegna er enn mikilvægara að stjórnmálamenn taki frumkvæði í að styðja þessa þróun. Ýmislegt hefur verið gert. Aukið hefur verið við framlög í sjóði sem styrkja nýsköpun. Íslenskir háskólar standa sterkt. Og ekki skortir heldur á hugmydaauðgina.
Vandamálið er að komast frá hugmynd að þátttöku á alþjóðamarkaði. Það skref er gríðarstórt og kostnaðarsamt og því fylgir að jafnaði mikil áhætta. Áhættuna má minnka með því að stjórnvöld leggi áherslu á stöðug rekstrarskilyrði. Svo þarf fjármagn. Opinberir sjóðir eru ágætir í að styðja við þróun hugmyndar að vöru. Allt annars konar og meira fjármagn þarf til að komast frá vöru að veltu, skala upp umfang þannig að það eigi möguleika á alþjóðamarkaði. Þar þarf áhættufjármagn. Það hefur hingað til verið takmarkað á Íslandi.
Nú er ekki eins og það skorti fjármagn hér á landi. Íslenskir lífeyrissjóðir eru orðnir mjög stórir og öflugir. Þeir eru hins vegar illa í stakk búnir til að taka þátt í áhættufjárfestingunum. Til þess þarf sérhæfða aðila. Leita þarf leiða til þess að gera lífeyrissjóðunum kleift að taka þátt í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Reynsla af slíkum fjárfestingum, bæði hér á landi og erlendis, er að þær skili mikilli ávöxtun, sé áhættunni vel stýrt og henni dreift nægilega, þ.e. fjárfest í nægilega mörgum verkefnum og með nægilegu aðhaldi. Hér er því til mikils að vinna fyrir sjóðina, bæði hvað varðar ávöxtun eigna en einnig stuðning við hagsæld og stöðugleika. Lausn á þessu er því verðugt verkefni.
„Þetta reddast“ mætti kalla þjóðarmottó Íslendinga. Það lýsir æðruleysi sem kemur af búsetu í harðbýlu landi. Bankarnir hrynja og ferðaþjónustan reddar. Í núverandi kreppu hefur „annað“ komið til bjargar. Styðja þarf þennan geira þannig að hlutur hans geti vaxið enn frekar. Mikilvægt er að stjórnvöld leggi áherslu á stöðug rekstrarskilyrði og að leitað verði leiða til að þessi fyrirtæki hafi aðgang að áhættufjármagni. Þannig virkjum við kraftinn sem býr í þessum geira og auðveldum honum að vaxa enn frekar.
Kannski hagstofan fari núna að sundurliða „annað“.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar og prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.