Ég hef lýst því í skrifum mínum áður í hversu miklum ógöngum ég tel íslenskt grunnskólakerfi vera. Þó er vert að horfa til þess að afar margt er líka vel gert. Mikil þekking og reynsla býr í hópi grunnskólakennara, gömul jafnt og ný, enda hef ég líka oft bent á að grunnskólakennarinn þurfi að vera fjölhæfur og vel vopnum búinn ef kennslan á að ganga vel.
Í þeim skólum þar sem margbreytileiki er lítill eða húsnæði býður upp á góðar starfsaðstæður sjáum við oft afburðar gott skólastarf. Reyndar sjáum við líka afburðar gott starf hjá mörgum kennurum til mikilla muna víðar. Margar nýlegar skólastefnur eru nýttar svo sem Uppeldi til ábyrgðar, Byrjendalæsi, Vinaliðaverkefni og góður stuðningur af upplýsingatækninni. Þetta eru verkefni til mikillar fyrirmyndar.
Ekki skal gleyma því að grunnskólakennarar hafa sýnt verulegan styrk og úthald á tíma Covid síðastliðin tvö ár og með þeim hætti að börnin hafa yfirleitt sloppið við seinkun á að fylgja námsskrá eða önnur óþægindi frá skólunum sínum. Það eitt og sér sýnir þvílík þrekvirki sem kennarar eru færir um að vinna.
En hverjir eru þessir grunnskólakennarar? Er það vel menntuð fagstétt með skýrt viðráðanlegt verksvið, góðar starfsaðstæður, verndað starfsheiti og laun í samræmi við það? Því miður er svarið nei. Að miklu leyti er það sem betur fer svo að grunnskólakennarar eru vel menntaðir fyrir sitt starf og óþreytandi í að bæta við sig endurmenntun. Í skólunum kenna líka mikið til – og standa sig eftir bestu getu – ófaglærðir leiðbeinendur, framahaldsskólakennarar með ekkert eða afar lítið nám í grunnskólafræðum og leikskólakennarar sem aldrei hafa kennt einstaka námsgreinar. Hinir reyndu og vel menntuðu grunnskólakennarar reyna síðan eftir bestu getu að leiðsegja hinum, mjög oft án þess að fá aukagreiðslu fyrir það.
Hvers vegna skyldi vera svona erfitt að manna stéttina með rétta fólkinu? Samt eru börn yndislega gefandi og gott að vera nálægt þeim. Svari hver fyrir sig.
Skipulagt kaós
Það er oft erfitt fyrir utanaðkomandi og jafnvel starfsmenn skólanna sjálfra að átta sig á því hvernig grunnskólarnir eru skipulagðir og reknir. Því má t.d. sjá merki í því að margir skólar auglýsa eftir sérkennara eða þroskaþjálfa þótt um tvær ólíkar fagstéttir sé að ræða. Samsetning sérfæðinga, annarra en kennara, við hvern skóla er líka mismunandi s.s. eftir því hvernig nemendahópurinn er, en ekki síður eftir framboði á sérfræðingum sem sækjast eftir starfi í grunnskóla. Fáeinir skólar hlutfallslega hafa starfandi iðjuþjálfa og mun færri en þyrftu þess. Hvergi eru starfandi talmeinafræðingar. Víðast er þörf á kennara eða kennurum sem kennir tví- og stundum margtyngdum börnum íslensku sérstaklega, en tímamagnið sem ætlað er í það er þó skammarlega lítið. Að auki er það alveg ógagnsætt hvort eða hversu mikinn rétt sérhver nemandi hefur á slíkri kennslu. Algengt er að tilfallandi kennarar sinni þessum ofangreindu verkefnum því sérfræðingarnir fást ekki til starfsins.
Nú starfa sem betur fer náms- og starfsráðgjafar við grunnskólana sem eru mjög dýrmætir starfskraftar fyrir börnin að geta leitað til, eða kennara að vísa þeim til. Hverju og einu stöðugildi er ætlað að sinna 300 börnum, en þau eru oftast mun fleiri á eina stöðu. Auk þess er vandinn oft það mikill og aðkallandi meðal barnanna að ráðgjafarnir komast illa í að sinna þeim forvörnum og samskiptaverkefnum sem þeim er ætlað, en eru mikilvæg og ráðgjafarnir vilja helst sinna.
Mikilvægustu fyrirtæki landsins gera sér ekki fjárhagsáætlun
Sveitarfélög gera ekki þá kröfu til grunnskólanna að gera sér fjárhagsáætlun og er því alveg undir hælinn lagt hvort hún er gerð. Það er því ekki að furða að kerfið virðist ógagnsætt og ruglingslegt, því það einfaldlega er nákvæmlega það. Að minnsta kosti er skólum í Reykjavík þó gert að senda inn upplýsingar um börn með mikla eða litla þörf fyrir sérstaka námsaðstoð og í fyrsta skipti nú í ár, að telja saman hversu mörg börn tala annað mál en íslensku heima hjá sér. Skilgreining er á því hvað er mikil eða lítil þörf barns fyrir námsaðstoð (nemandi með þörf A eða þörf B), en aðeins þeir sem eru með mikla þörf samkvæmt fáeinum viðurkenndum greiningarstofnunum fá með sér fé. Það er að segja aðeins toppurinn á ísjakanum, s.s. ekki börn með „litlar raskanir“ eða börn með töluverðar raskanir semeru enn á tveggja ára bið eftir greiningu.
Í Svíþjóð, svo dæmi sé tekið, er algengast að ef mörg tvítyngd börn séu í bekk þá kenni þar tveir kennarar. Mikið sem ég vildi vera þar með mín 12 indælu tvítyngdu börn í 22 barna hópi, sem ég sinni að lang mestu leyti ein. Fáein eru tekin úr tíma einstöku sinnum og fáeina tíma fæ ég aðstoð við að láta þau lesa upphátt eða leysa erfiðustu stærðfræðidæmin. Til að láta daginn ganga upp er skipulagið nánast upp á mínútu og athyglin á hverju og einu barni eins nálægt 100% og hægt er. – Fyrir þetta starf (og eftir 5 ára háskólanám) fæ ég um 17% lægri laun en lægst launuðustu sérfræðingar í öðrum störfum á Íslandi.
Bragð er af þá barnið finnur
Margt hefur breyst í íslensku skólakerfi í áratuganna rás. Bæði hafa sveitarfélögin tekið við rekstri grunnskólanna án nokkurra krafna um sýnilegt skýrt skipulag og fjárhagsáætlanir, nýfrjálshyggja hefur sett mark sitt á vel flest svið þjóðfélagsins og almennum aga barna í skólum hefur farið aftur. Ég skil börnin vel. Ef fullorðna fólkið, stjórnendur, kennarar og foreldrar vita ekki alveg hvernig skólinn þeirra virkar, hvernig eiga þau þá að geta fundið til öryggis þegar eitthvað bjátar á? Hvernig eiga foreldrar að geta borið virðingu fyrir skóla sem getur ekki gefið skýr svör um réttindi barna þeirra? Þegar skipulag í skólanum er upp og ofan, hvers vegna mega börnin þá ekki hegða sér samkvæmt fyrstu tilfinningu hverju sinni?
Fjármögnun
Íslenskt grunnskólakerfi þykir dýrt, en ekki má gleyma því að byggð í landinu er dreifð og margir skólar afar fámennir. Það eru þó ekki einu innviðirnir sem reynast fámennri þjóð í stóru landi kostnaðarsamir. Dreifð byggð í landinu er líka dýrmæt og eflaust það sem enn á eftir að styrkjast í framtíðinni, af ýmsum ástæðum sem ekki verða taldar hér.
Um leið og vel flestir skólar væru stokkaðir upp með ráðningum fleiri sérfræðinga og kennara en færri stuðningsliðum, væri athyglisvert að sjá breytingarnar. Kennarar þyrftu að vera tveir í mörgum bekkjum. Þá er komið að því að auka verulega íslenskunám tví- og þrítyngdra barna, en rannsóknir sýna að þau heltast mjög gjarnan úr lestinni þegar komið er í framhaldsskóla. Fjármálastjórar væru jafnframt við skólana, en jafnvel færri millistjórnendur. Bæta þyrfti aðstöðu við eldra húsnæði fyrir þau börn sem þola illa hávaða eða klið.
Grunnlaun kennara þyrftu að hækka um að lágmarki 150 þúsund kr. á mánuði til að standast samkeppni og stéttin væri þar á svipuðu róli og sambærilegar stéttir.
Hvernig á þá að bæta fjárhaginn? Sveitarfélögin sinna einnig mörgum öðrum verkefnum sem eru fjársvelt, s.s. leikskólum, aðbúnaði fólks með fatlanir, veitingu fjárhagslegrar aðstoðar til þeirra sem hafa engar aðrar tekjur og rekstri félagslegs húsnæðis.
Fjármagnstekjuskatt mætti hækka (hérlendis er hann aðeins 22% en t.d. 35% í Bandaríkjunum) og láta renna að hluta til sveitarfélaganna. Hluti af veltu fyrirtækja færu til sveitarfélaganna sem landsútsvar. Aðstöðugjöld eru eðlileg á fyrirtæki, en þar þyrfti ríkið að leggja línurnar og setja lög svo sveitarfélögin geti ekki boðið í fyrirtækin. Einnig mætti finna leið til að stærri verslunarkeðjur sem eru víða á landinu myndu einnig greiða aðstöðugjöld. Hækka mætti skatt á þá sem eiga fleiri en eina fasteign. Sveitarfélögin þyrftu líka að hafa leyfi til opinnar tekjuöflunar. Sums staðar gæti hún verið í formi skattlagningar á fiskveiðikvóta og annars staðar gistináttagjald.
Það þarf margt að gerast og breytast til þess að íslenskt grunnskólakerfi geti talist gott. Það magnaðasta við það er þó að við höfum alla burði og getu til að gera það. Ekki hvað síst höfum við öfluga stétt vel menntaðra og reyndra grunnskólakennara sem elska starfið sitt. Við þurfum aðeins að gera skýrar körfur á sveitarfélagið okkar að sinna og sýna með gagnsæjum hætti hvernig þau ætla að standa við lagalegar skuldbindingar sínar um að grunnskólar séu reknir sem Skóli án aðgreiningar, eins og landslög kveða á um.
Höfundur er grunnskólakennari og frambjóðandi til formanns í Kennarafélagi Reykjavíkur.