Með nýjum Dettifossvegi vestan við Jökulsárgljúfur má gera ráð fyrir að umferð gesta um helstu perlur gljúfranna muni margfaldast á næstu árum. Aukin umferð skapar ýmis tækifæri og sóknarfæri fyrir nærsamfélagið en áskoranir eru líka fjölmargar.
Jökulsárgljúfur eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og þjóðgarðsins býður því það krefjandi verkefni að finna leiðir til að taka á móti auknum fjölda gesta með sómasamlegum hætti og án þess að náttúran bíði skaða af. Slíkt kallar bæði á uppbyggingu innviða og ákveðna stýringu á flæði gesta.
Þær framkvæmdir sem nú standa yfir, bæði vegagerð í Vesturdal og stígagerð á svæðinu, hafa verið gagnrýndar opinberlega af fyrrverandi þjóðgarðsverði á svæðinu sem og SUNN, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi. Samtökin sendu kæru til Úrskurðarnefndarnefndar umhverfis- og auðlindamála sumarið 2020 vegna framkvæmda við vegagerð í Vesturdal og í síðustu viku sendu sömu samtök kæru til lögreglu þar sem farið er fram á opinbera rannsókn á háttsemi þjóðgarðsvarðar og verktaka vegna meintra brota á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og náttúruverndarlögum í tengslum við stígagerð á svæðinu.
Sá hluti kærunnar til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem sneri að kröfu um að afturkalla leyfi til framkvæmda var hafnað af nefndinni en aðrir hlutar hennar bíða enn afgreiðslu innan stjórnsýslunnar. Þó Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki gert kröfu um stöðvun framkvæmda hefur þjóðgarðurinn átt afar gott samstarf við Vegagerðina um að bregðast við ábendingum sem fram komu í kærunni og voru vegaframkvæmdar í Vesturdal t.d. stöðvaðar tímabundið til að endurhanna veginn. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið tekin afstaða til kærunnar sem snýr að stígagerð hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
Vatnajökulsþjóðgarður hefur frá stofnun átt í margvíslegu samstarfi við umhverfis- og náttúruverndarsamtök. Slík samtök gegna mikilvægu hlutverki við að veita aðhald og koma með gagnlegar ábendingar varðandi stjórnun verndaðra svæða. Fulltrúar umhverfis- og náttúruverndarsamtaka sitja í stjórn þjóðgarðsins og í öllum fjórum svæðisráðum.
Núverandi stjórnendur þjóðgarðsins hafa lagt sig fram við að skapa andrúmsloft þar sem hvatt er til samráðs og samtals bæði innan þjóðgarðsins og við sem flesta hagaðila. Sú harkalega leið sem SUNN hefur valið við að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi framkvæmdir í Jökulsárgljúfrum kemur því á óvart. Sérstaklega vekur það undrun að ákveðið sé að kæra einstaklinga sem eru að vinna fyrir þjóðgarðinn til lögreglu með ásökunum um lögbrot vegna frágangs í tengslum við framkvæmdir sem enn er ekki lokið.
Náttúruvernd og aðgengi
Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð kemur m.a. fram að markmið þjóðgarðsins sé bæði að vernda náttúru sem og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins. Almennt gildir að eftir því sem aðgengi er auðveldara fjölgar gestunum. Þá þarf að huga að innviðum til að tryggja að viðkvæm svæði geti tekið við meiri fjölda.
Verkefni Vatnajökulsþjóðgarðs eru margslungin og oft er togstreita milli markmiðanna um aðgengi og vernd náttúrunnar. Síðustu misseri hefur mikil vinna átt sér stað innan þjóðgarðsins við að búa til skýrari vinnuferla og skerpa á ýmsum viðmiðum til að tryggja að starfsemin gangi sem best fyrir sig. Markmiðið er að vanda til verka, helst að koma í veg fyrir mistök en einnig að læra og bæta okkur í þeim tilvikum sem að gera má betur. Við reynum því að vera auðmjúk gagnvart því stóra og flókna verkefni sem okkur er trúað fyrir, hlusta á ábendingar og sjónarmið sem flestra með opnum huga og máta allar ákvarðanir við stefnu þjóðgarðsins og það hlutverk sem þjóðgarðinum er ætlað að sinna samkvæmt lögum og reglugerð.
Vegagerð í Vesturdal
Nærri tveir áratugir eru liðnir frá því að ákvörðun var tekin um að byggja upp nýjan veg vestan Jökulsár á Fjöllum og rúmur áratugur síðan framkvæmdir við hann hófust. Það er fyrst núna, á seinni hluta árs 2021, sem sér fyrir endann á þessu verki. Áhrif nýja vegarins hafa samt þegar birst að hluta til með auknum fjölda ferðamanna við Dettifoss vestanverðan sem var áður tiltölulega fásóttur staður en er nú einn aðaláfangastaður ferðamanna á Íslandi. Með uppbyggðum og klæddum vegi vestan Jökulsárgljúfra er einsýnt að hlutfall ferðamanna sem fer þar um mun aukast á kostnað þeirra sem fara að austanverðu. Eins er víst að fjöldi þeirra sem heimsækir Vesturdal og Hljóðakletta mun margfaldast, enda hvor staður um sig nú í alfaraleið, ólíkt því sem var þegar þangað var aðeins bílfært um niðurgrafna vegslóða.
Ákvörðun um uppbyggðan veg vestan Jökulsár á Fjöllum var ekki tekin af Vatnajökulsþjóðgarði. Þjóðgarðurinn hefur hins vegar fengið í fangið það verkefni að takast á við þær áskoranir sem honum fylgja.
Vesturdalur er náttúruperla og þeim sem standa að Vatnajökulsþjóðgarði er í mun um að standa vörð um þá perlu. Sú vernd getur þó tæpast falist í að halda fast í frumstæðan malarveg sem náttúrulega hindrun þegar klæðning er kominn á Dettifossveg og aðgengi að Vesturdal jafn auðvelt og raun ber vitni. Önnur stjórntæki þarf til að tryggja kyrrðarupplifun gesta í Vesturdal og hyggst Vatnajökulsþjóðgarður beita slíkum stjórntækjum í framtíðinni. Til marks um það er lagt til í breytingartillögu á núgildandi stjórnunar- og verndaráætlun að stjórn þjóðgarðsins, í samvinnu við svæðisráð og þjóðgarðsvörð, sé heimilt að takmarka umferð um dalinn til að tryggja verndarmarkmið. Við slíkar ákvarðanir getur stjórn þjóðgarðsins átt samráð við náttúruverndarsamtök og leitað ráða hjá sérfræðingum á því sviði t.d. innan háskólaumhverfisins.
Stígagerð
Samkvæmt frétt Kjarnans um kæru SUNN til lögreglu byggir sú kæra á að stígagerðin gangi gegn gildandi stjórnunar- og verndaráætlun og deiliskipulagi svæðisins. Jafnframt eru þjóðgarðsvörður og verktaki ásakaðir um að brjóta lög um Vatnajökulsþjóðgarð og náttúruverndarlög við frágang stíganna.
Deiliskipulag er á forræði sveitarfélaga en stjórnunar- og verndaráætlun er á ábyrgð stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Í gildandi stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs frá 2013 er kveðið á um að viðhalda eigi góðu aðgengi í Ásbyrgi á völdum leiðum innan skógarins. Þá er sérstaklega tekið fram að í tengslum við vegaframkvæmdir í Vesturdal eigi að gera nýjan útsýnis- og áningarstað með gönguleiðartenginum. Þeir göngustígar sem nú er unnið við í Jökulsárgljúfrum eru annarsvegur breikkun og endurbætur á tveimur eldri stígum og hins vegar nýr stígur til að tengja áningarstað á Langavatnshöfða við núverandi gönguleiðir í Hljóðaklettum. Þær framkvæmdir sem hér um ræðir hafa fengið styrk úr landáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og í styrkumsóknum verið færð rök fyrir nauðsyn þeirra og tilgangi.
Sú staðhæfing að núverandi stígagerð gangi gegn núgildandi stjórnunar- og verndaráætlun á því tæplega við rök að styðjast. Ábendingar sem snúa að verklagi og frágangi eru hins vegar eitthvað sem við tökum alvarlega og var þegar hafin skoðun á því hvernig hægt væri að huga betur að þeim málum eins og m.a. kemur fram í bókun svæðisráðs norðursvæðis frá fundi ráðsins í lok júní síðastliðins. Það er vilji stjórnenda þjóðgarðsins að vandað verði til verka við frágang á stígunum og leitað leiða til að bæta fyrir hugsanleg mistök sem hafi átt sér stað á framkvæmdatíma.
Í því samhengi er þó rétt halda til haga að verk sem þessi eru oftast nær áfangaskipt og vinnu við þá þrjá stíga sem hér um ræðir er hvergi nærri lokið. Þannig á enn eftir að keyra efni í stíga, fjarlægja grjót og slétta úr efnishaugum, svo eitthvað sé nefnt.
Að lokum…
Við erum stöðugt að læra og þurfum að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum að því marki sem það rúmast innan stjórnunar- og verndaráætlunar og skaðar ekki náttúru þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður vill styðja við heilsárferðaþjónustu á norðausturhorninu. Liður í því er að bæta stíga þannig að þeir geti tekið við umferð stærri hluta ársins en áður þekktist. Jafnframt geta bættir göngustígar orðið valkostur fyrir þá sem annars færu um þjóðgarðinn á einkabifreið, t.a.m. inn að Botnstjörn í Ásbyrgi. Síðast en ekki síst vill þjóðgarðurinn aðlaga sig að breyttum áherslum í útivist og vinna markvisst að því að ólíkir útivistarhópar fái þrifist í þjóðgarðinum án þess að til árekstra komi á milli þeirra.
Boð þjóðgarðsins um samtal og samráð stendur enn og fagnar þjóðgarðinum öllum athugasemdum og ábendingum um það sem betur má fara í starfseminni. Til að slíkar athugasemdir leiði til betri framkvæmda þurfa þær hins vegar að berast þjóðgarðinum eftir réttum leiðum og samtalið þarf að eiga sér stað. Lögregluákærur sem beinast að einstaklingum sem vinna fyrir þjóðgarðinn eru ekki góður grunnur fyrir slíkt samtal. Við vonum því einlæglega að í framtíðinni sé hægt að beina samskiptum í uppbyggilegri farveg en raunin er með þau dæmi sem hér er fjallað um.
Höfundar eru formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum.