Nú eru einungis fjórir og hálfur mánuður til borgarstjórnarkosninga. Það er stuttur tími á dagatali en langur tími í pólitík. Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík en nú hefur sá tími styst verulega. Fimm einstaklingar voru þingmenn í hálfan sólarhring og síðan ekki söguna meir nú í upphafi vetrar. Aðrir sem vissu ekki að þeir væru þingmenn urðu þingmenn eftir hálfan sólarhring frá kosningum. Svo er það allt hitt í stjórnmálum – fólk segir sig af listum eða gengur til liðs við aðra flokka.
Allt í kringum kosningaklúðrið í NV-kjördæmi er sorglegt svo ekki sé meira sagt. Við búum í lýðræðisríki og verðum að geta treyst kosningum þegar landsmenn velja fulltrúa sína til að fara með umboð sitt næstu fjögur ár. Kosningar eru dauðans alvara. Því miður var ekki kosningaeftirlit frá ÖSE í alþingiskosningunum en eftir bankahrunið var eftirlitið hér í nokkrum kosningum. Þess vegna er rétt að rifja upp frétt frá 26. ágúst sl. en þar segir: „Í skýrslu sem stofnunin hefur skilað segir að allir viðmælendur hafi lýst yfir fullu trausti á kosningaferlinu og getu kjörstjórna til að skipuleggja kosningar með faglegum og gagnsæjum hætti.“ Sjá alla fréttina hér.
Það kæmi mér ekki á óvart að Mannréttindadómstóll Evrópu komi til með að úrskurða alþingskosningarnar ólöglegar – þ.e.a.s verði málinu vísað þangað. Alþingiskosningar eru „einn fyrir alla – allir fyrir einn“ því kjördæmin mynda landsstjórn/ríkisstjórn byggða á kosningaúrslitum fyrir landið allt sem heild. Lægsti samnefnari um úrslit alþingiskosninga sem flestir í nýkjörnum þingheimi sættir sig við getur aldrei verið löglegur eftir slíka lagaágalla í talningu. Lög eru aldrei brotin mikið eða lítið. Annað hvort eru lög brotin eða ekki.
Við erum líka að tala um sjálfan löggjafann – Alþingi Íslendinga. Léttilega má rökstyðja að á meðan óvissa ríki um alþingiskosningarnar þá framleiði þingið lagaleysu. Hef ég bent á máli mínu til stuðnings skipun dómara við Landsrétt sem er ein stoð réttarríkisins. Var sú aðferð talin ólögleg þrátt fyrir að forseti Alþingis hefði lagt til málsmeðferð á Alþingi um að kjósa þá alla í einu í stað þess að bera upp hvert nafn fyrir sig og að lokum undirritaði forseti Íslands skipunarbréf þessara 15 dómara við Landsrétt. Framhaldið vitum við.
Öðru máli gegnir um sveitarfélög. Þau eru sjálfstæð hvert og eitt og eru ekki háð hvert öðru eins og kjördæmin. Enda eru dæmi um að kosið hafi verið aftur í sveitarfélagi hér á landi vegna ágalla í kosningum sbr. kosningar sem fram fóru í Borgarbyggð þann 25. maí 2002, sjá hér.
Í síðastliðnum borgarstjórnarkosningum var haft rangt við án afleiðinga samkvæmt úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2018/831. Í málinu tók Persónuvernd ákvörðun um frumkvæðisathugunarmál á notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands í því skyni að senda ungum kjósendum, konum 80 ára og eldri og erlendum ríkisborgurum bréf og smáskilaboð fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2018.
Í málinu kom fram að Þjóðskrá afhenti Reykjavíkurborg þrjá lista samkvæmt beiðni borgarinnar, yfir unga kjósendur í Reykjavík sem höfðu þá í fyrsta sinn kosningarrétt í borgarstjórnarkosningum, konum 80 ára og eldri búsettum í Reykjavík og erlenda ríkisborgara sem þá höfðu kosningarrétt. Reykjavíkurborg og rannsakendur við Háskóla Íslands notuðu þessar persónuupplýsingar um unga kjósendur til þess að senda þeim bréf í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Bréfin voru með mismunandi hvatningarskilaboðum sem voru gildishlaðin og í einu tilviki röng og voru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum.
Helmingur ungra kjósenda fékk jafnframt smáskilaboð, m.a. með upplýsingum um kjörstaði. Þá notaði Reykjavíkurborg framangreindar persónuupplýsingar frá Þjóðskrá einnig til að senda konum 80 ára og eldri og erlendum ríkisborgurum bréf með gildishlöðnum skilaboðum, sem voru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum. Úrskurður Persónuverndar var að vinnsla Reykjavíkurborgar á þessum persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslandssamrýmdist ekki lögum.
Úrskurðurinn var kveðinn upp þann 7. febrúar 2019 eða rúmum sjö mánuðum eftir borgarstjórnarkosningar. Sú sem þetta skrifar lét reyna á alla þætti kosningakæru samkvæmt lögum og var það gert í fyrsta sinn hér á landi. Allt frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, til þriggja manna nefndar sýslumanns og að lokum til dómsmálaráðuneytisins.
Hvergi í ferlinu var tekin efnisákvörðun heldur var málinu vísað frá á öllum stigum á grunni þess að kærufrestur frá sveitastjórnarkosningum eru einungis sjö dagar. Þarna slapp Reykjavíkurborg með skrekkinn. Slapp betur en NV-kjördæmi nú enda kærufrestur lengri í alþingiskosningum.
Að öllu þessu sögðu skal það upplýst að ég hef þegar flutt tillögu um að kosningaeftirlit ÖSE verði fengið hingað til lands til að fylgjast með borgarstjórnarkosningunum í vor. Þá tillögu felldi meirihlutinn í borgarstjórn.
Því spyr ég á ný – getum við treyst kosningum og kosningaúrslitum?
Nú þegar sól tekur að hækka á lofti á ný þá óska ég landsmönnum öllum gleðilegs og gæfuríks árs.
Höfundur er oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.