Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hefur verið pólitískur samstarfsvettvangur sveitarfélaganna sem starfað hafa innan samtakanna. Eftirtalin sveitarfélög standa að SSH: Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Kjósahreppur og Reykjavíkurborg. Í upphafi vega var stóra loforðið til Kjalnesinga, þá stofnaðilar SSH og sjálfstætt sveitarfélag, að af Sundabraut yrði. Það loforð hefur ekki verið efnt.
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 46 ára
Nú eru um 46 ár liðin frá stofnun þessara samtaka í Hlégarði hér í Mosfellsbæ, þá Mosfellshrepp. Í kjölfar stofnunar SSH var sett á laggirnar Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins undir stjórn Gests Ólafssonar arkitekts og skipulagsfræðings. Var Gestur einnig framkvæmdastjóri SSH á fyrstu árum samtakanna, þ.e. frá 1980 til 1988, er Skipulagsstofan var lögð niður. Árið 1985, 37 árum síðan, var m.a. lagt fram og kynnt metnaðarfullt átak í trjárækt á höfuðborgarsvæðinu og í forsvari var framangreindur forstöðumaður Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins og framkvæmdastjóri SSH. Verkefnið gekk undir heitinu Græna byltingin. Í frétt NT á bls. 3 þann 28. ágúst 1985 segir:
„Hugsið ykkur, eftir 25-30 ár á höfuðborgarsvæðið að vera orðið skógi vaxið og iðjagrænt og vonandi mun höfugur gróðurilmur fylla vit höfuðborgarbúa í stað bílabrælu og verksmiðjureyks. Er græna bylting Spilverksins loksins að verða að veruleika?“
Í dag, þ.e. um 37 árum síðar, er fólki tíðrætt um að stærsti skógur landsins sé einmitt á höfuðborgarsvæðinu, þökk sé þessu frábæra verkefni Gests og félaga.
100 ár frá setningu fyrstu laga um skipulagsmál á Íslandi
Í pistli sínum í Kjarnanum, nú 4. janúar 2022, fer Ásdís Hlökk Theódórsdóttir (ÁHT), forstjóri Skipulagsstofnunar, ágætlega yfir 100 ára sögu skipulagsmála á Íslandi, þ.e. frá samþykki fyrstu löggjafar hér á landi um þau mál. Óhætt er að segja að vegir skipulagsmála hér á landi hafa verið þyrnum stráðir á köflum. Má þar m.a. nefna getuleysi til að leggja Sundabraut, óábyrga viðleitni Skipulagsstofnunar, gegn ábendingum Minjastofnunar og í miðju friðunarferli á Álfsnesi svo byggja megi þar iðnaðarhöfn og ekki síst hina þungu, áhættusömu og illa ígrunduðu þungu Borgarlínu.
Í pistli sínum vitnar ÁHT í Andra Snæ rithöfund: „Þar spyr Andri Snær hvort skýr hugmyndafræði sé horfin úr borgarskipulagi okkar tíma.“. Þarna er vísað til pistils rithöfundarins sem ber yfirskriftina „Hver er hugmyndin?“ og birtist í Kjarnanum 16. nóvember sl. Er hugmyndin að þétta byggð, hækka húsnæðiskostnað, ganga fram hjá friðun menningarminja og þrengja götur?
Rithöfundur fer í geitarhús að leita ullar
Í pistlinum „Hver er hugmyndin?“ leitar rithöfundurinn, Andri Snær, svara og lítur ein 50 ár fram í tímann. Rithöfundurinn leitar á sömu mið og HÁP sem reyndar fann framtíðinni flest til foráttu, að óbreyttu, enda nútímamaður á miðjum aldri sem vill útdeila fjármunum annarra til framtíðar án allrar fyrirhyggju. Engin rekstrarleg áætlun liggur fyrir varðandi þungu Borgarlínuna, vafasöm grunngögn og engar forsendur útreikninga birtast almenningi eða kjörnum fulltrúum. Engu að síður hafa stjórnmálamenn verið að taka ákvarðanir um framkvæmdir án þessara upplýsinga. Hversu galið kann það að vera? Sjálfsagt er að kaupa skáldverk þar sem í upphafi vill lesandinn ekkert um endinn vita. Hér er ekki um slíkt að ræða heldur fjöregg íbúa til framtíðar og lífsviðurværi þeirra.
Leit rithöfundarins, þ.e. ein 50 ár fram í tímann, er meira eða minna í því augnamiði að finna lausn á samgöngumálum fyrir daginn í dag og næstu daga. Þar vísar hann m.a. til U-laga fjöleignarhúsa í Árbænum þar sem rithöfundurinn segist hafa alist upp áður en fjölskyldan hörfaði þaðan í sérbýli í Seláshverfinu. Hann leitast við í að gagnrýna „þessar U-blokkir“ en gleymir því að framsýnin þar var þó sú að raflagnir voru lagðar út að hverju bílastæði í þá tíð sem væntanlega nýtist nú húsfélaginu og íbúum vel í nútíð bæði og framtíð.
Stíflumannvirkið við virkjunarlónið Elliðavatn gaf sig í flóði aðfaranótt 28. febrúar árið 1968 eins og lesa má á forsíðu Alþýðublaðsins daginn þar á eftir. Fregnir herma að umhverfisverndarsinnar þess tíma hafi heimtað að stíflan yrði endurgerð, náttúran hamin og að lónið Elliðavatn yrði þarna til frambúðar. Þannig geta mannvirki einmitt verið vel ígrunduð og komið til góða rétt eins og gott skáldverk sem markar gæfurík spor í sandinn. En þú þrengir ekki að fólki sem vill frelsi og reynir ekki að virkja það gegn vilja sínum þó það kunni að vera skynsamlegt að þrengja að þegar virkjun orkulinda er annars vegar. Þetta mega menn ekki misskilja.
Í því ljósi að verslunin hefur horfið víða úr hverfum er rétt að bæta því við að R-listi vinstri manna í Reykjavík samdi við fjárfesta um einkarekstrarrétt matvöruverslana í Spönginni innan Grafarvogs fyrir eigendur Bónusverslana og Hagkaups þess tíma. Þá er spurningin hver borgar. Hvaðan kom þá þrýstingurinn?
Hver veldur um „framfarir“, „skort á heildarhugsun“, „skammtímaþörf“,„þrýstingi“ um að „hefja framkvæmdir“ eins og rithöfundurinn réttilega bendir á í pistli sínum í Kjarnanum 16. nóvember 2021 og notar framangreint tilvitnað orðalag? Ef menn sjá þetta ekki er tæpast hægt að treysta mönnum fyrir sjónauka sem nær ein 50 ár fram í tímann þegar þeir snúa blinda auganu að eigin fortíð.
Umboðsvandinn og þrýstingur á sérhæfða aðila og embættismenn
Í þessu efni og samhengi vil ég vinsamlegast benda framangreindum pistlahöfundum á það að sé gengið meðfram áætlaðri leið hinnar þungu Borgarlínu, 1. áfanga, má einmitt sjá skortinn á „heildarhugsun“ sem og „skammtímaþörfina“ og „þrýstinginn“ svo orðalagi rithöfundarins sé beitt. Hverjir eiga lóðirnar í farvegi línunnar? Er fyrirséð að þunga Borgarlínan komi þessum aðilum vel fari það verkefni allt úr böndunum? Létta Borgarlínan (BRT-Lite) er umtalsvert áhættuminni fyrir alla aðila.
Innan vébanda Samtaka um samgöngur fyrir alla (SFA) eru m.a. einstaklingar á eftirlaunum sem eru engum háðir, hafa loksins það frelsi sem fræðimönnum er oft tamt að flíka. Fjölmargt ungt fólk tekur undir áherslur SFA vegna skynseminnar sem í þeim er fólgin. En freistingin er til staðar og raungerist ef enginn embættismaðurinn eða ráðgjafinn bindur sig vel við siglutréð eins og Ódysseifur til að forðast freistingarnar og fyrirhyggjuleysið.
Hverjir verða fyrir þrýstingi? Það eru m.a. embættismenn sem verða fyrir þrýstingi og eru að gefa of margir of oft eftir hvað alla skynsemi varðar enda fær skynsemin sjaldan áheyrn, hvorki innan Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, SSH né Skipulagsstofnunar. Starfsfólki er gert að fylgja pólitískri rétthugsun þess tíma og oft gegn betri vitund. Í slíkum tilvikum erum við í raun að ræða um háþrýsting.
Til að benda á tilkomu „Austantjaldsblokkanna“, eins og rithöfundurinn Andri Snær kallar heimili fjölda íbúa á höfuðborgarsvæðinu, er það einmitt ein afleiðingin af ákvörðun R-listans að hefja uppboð á lóðum í stað úthlutana með öðrum hætti. Sveitarfélög hafa með þessu fyrirkomulagi getað „gírað sig“ með skuldum og núvirt áætlað greiðsluflæði sem er undirstaða þess að einhver vilji lána. Svo má ekki gleyma dýrum kosningaloforðum trekk í trekk á fjögurra ára fresti. Þetta er öll stýring skipulagsmálanna. Það er einnig dregið bæði úr gæðum og eftirliti í senn. Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins er að engu orðin rétt eins og Fjármálaeftirlitið rétt fyrir hrun.
Hið opinbera sýgur til sín of mikið af fjármunum, er orðið of frekt til fjárins. Fjármunir fara því hvorki í aukin gæði né aukið birtustig sökum þéttingar. Áður var það grundvallarstefna að lóðir ættu að vera aðgengilegar og ódýrar til að styðja við bakið á ungu fólki og skattborgurum framtíðar. Með því yrði fólki gert auðveldara fyrir að byggja sjálft eða láta byggja fyrir sig og þróa samfélag með sterkari fjárhagslegan grunn, þ.e. öflugri og traustari skattgreiðendur sem hefðu burði til að borga hóflega skatta. Þessu hafa vinstri menn snúið við. Og þessir vinstri menn eru ekki endilega bundnir vinstri flokkum heldur hefur þetta „vinstra afbrigði“ skotið sér víða niður í bæði menn og málefni.
SSH hefur ekki náð árangri hvað þetta varðar heldur hefur mörgu þar verið misbeitt í þágu pólitískra sjónarmiða. Því hef ég orðið vitni að m.a. í gegnum setu mína í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins á þessu kjörtímabili og í bæjarstjórn. Mitt bæjarfélag hefur m.a. verið knúið í mikinn sóðaskap þar sem er SORPA og skipulag þungaiðnaðar á Esjumelum er þar í næsta nágrenni og við bæjarmörkin. Þetta er þó reyndar bæði í boði Reykjavíkurborgar og illa áttaðra fulltrúa Mosfellsbæjar innan SSH frá síðasta kjörtímabili sveitastjórnarstigsins.
Um umboðsvanda hef ég m.a. fjallað í grein þar sem bent var á slíkan vanda sem fyrrverandi formaður svæðisskipulagsnefndar SSH var seldur undir varðandi legu Borgarlínunnar. Þar var fjallað um verðlaunaverk formannsins á Heklureitnum þar sem þunga Borgarlínan er sögð frumforsenda verkefnisins. Eru þetta ekki umboðssvik innherja við kjósendur?
Gjá á milli grænna lausna
Gjá virðist hafa myndast á milli aðila sem hafa annars vegar unnið að skipulagi sl. 50 ár og þeirra sem hafa tekið við og horfa nú ein 25 til 50 ár fram í tímann eins og ofangreindur rithöfundurinn og andlegur fylgihnöttur hans, forstjóri Skipulagsstofnunar. En hvað með það sem gerst hefur sl. 44 ár? Það var þá þegar stefnt var að grænni byltingu með útgáfu Spilverks þjóðanna á hljómplötunni Ísland árið 1978 en hún gekk undir nafninu „græna platan“. Þessi hugmyndafræði rataði síðar í skipulags- og gróðursetningaátak árið 1985, þ.e. fyrir um 37 árum eins og að framan er getið. Síðan var Sundabrautinni lofað, ekki staðið við gefin fyrirheit og íbúar höfuðborgarsvæðisins tafðir ítrekað á leið sinni í og úr vinnu.
Hvað vill skipulagsfræðingurinn HÁP? Hann kallar eftir lagabálki um almenningssamgöngur þar sem ætlunin á væntanlega að vera að forðast sem heitan eldinn að „einkaaðilar geti hirt feitustu bita almenningssamgangna.“. Hann vill því að ríkið taki að sér að þvinga sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í meiri skuldir og allra helst að lán þeirra séu með ríkisábyrgð. Hvers vegna að ríkisþvinga fólk í samgöngumáta sem hið opinbera mun reka sem ríkisstyrkta samgönguútgerð í engu samhengi við jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á frjálsum markaði? Með tilkomu þungu Borgarlínunnar á að láta fyrirtækin og almenning bera áhættuna alla bæði beint og óbeint í formi tafagjalda. Það er greinilega stefna a.m.k. sumra stjórnmálamanna á Íslandi í dag.
Er lýðræðisleg umræða skilgreind sem „hávaði“ hjá Vegagerðinni?
HÁP vill alls ekki „eyða of miklum tíma í hávaðann“. Hann ræðir um „orrustur“ og „menningarstríð“ en getur hvergi um „grænu byltinguna“ sem varð að veruleika með skipulagi SSH á sínum tíma sem er grænni og göfugri en það sem SSH hefur komið með hingað til utan Græna trefilsins sem reyndar var hugmynd Skógræktarfélags Íslands. HÁP talar einnig niður til þeirra skipulags- og samgönguverkfræðinga sem ruddu brautina á höfuðborgarsvæðinu í átt að grænni byggð, umhverfisvænni og fegurri. Tilraunaverkefnið með Strætó til frá 2012 til 2022 hefur mistekist og allt í boði sömu sveitarfélaganna sem vilja gera aðra en vonlausari „tilraun“ með fjármuni almennings í boð ríkis, bæja og borgar. Á meðan á samgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu að halda áfram að drabbast niður og tafir venjulegs fjölskyldufólks að halda áfram að aukast. Þetta er það eina áþreifanlega sem telja má til arfleifðar HÁP, ekki satt?
Þéttinga- og þrengingastefna SSH er gjaldþrota og vörn HÁP fellur um sjálfa sig. Hann vegur að starfsheiðri samgönguverkfræðinga og skipulagsfræðinga sem benda á mikilvægi þess að fara hægar í sakirnar varðandi þrengingar og þunga Borgarlínu. Þessir aðilar og félagar í SFA vilja standa vörð um gömlu Reykjavík og láta ekki kostnaðarsama „fílahjörð“ hægfara „hraðvagna“ tefja þar för og skyggja á fagran miðbæ. SFA vill létta Borgarlínu (BRT-Lite) sem sinna mun vel sama hlutverki og til er ætlast í gildandi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Létta Borgarlínan mun vera umhverfisvænni, ódýrari og hraðvirkari heildarlausna auk þess sem SFA hefur samhliða kynnt tillögur til að minnka tafir bílaumferðar.
Það eru m.a. þessir aðilar innan SFA sem gerðu höfuðborgarsvæðið grænna og vilja gera það mannvænna þar sem fólk hefur frelsi hvað samgöngumáta varðar. „Framtíðin leit hræðilega út að óbreyttu“, segir HÁP en hvað stendur nú eftir annað en skematískar myndir, myndbönd og málglaðir menn á villigötum með þunga Borgarlínu og áhættusama í farteskinu? Það sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu vita og það sem þeim þykir skelfilegt eru þær umferðatafir sem ekki má leysa heldur aðeins auka. Markmiðið er augljóst, það á að skapa skort á valkostum og gæðum til að þrengja fólki í miðstýrðan, óhentugan og fokdýran samgöngumáta, þ.e. hina svokölluðu þungu Borgarlínu.
Skáldið í skipulaginu
HÁP er fremur skáld en nokkuð annað. Hann fer á hugarflug eins og sönnum dagdraumamönnum sæmir. Það vottar jafnvel fyrir fegurð ef ekki ást í hugarfluginu og roðinn í austri rammar allt inn þegar ræðan slær roða á kinnar í kulda og trekk hinnar lýðræðislegu umræðu sem hann kallar „hávaða“. HÁP vill e.t.v. vel en viljinn og draumarnir eru ekki í sóknarfæri þar sem „sjúklingurinn“ er bráðhress og telur sig hvorki þurfa bólusetningu fyrir borgarlínum né aflimun akreina svo koma megi þessari þungu Borgarlínu að endastöð. Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa að komast sem fyrst úr umferðarteppunni og á áfangastað.
Það ber að gagnrýna þetta óábyrga „kommúnistaávarp“ HÁP. Þrátt fyrir slíka gagnrýni er ekki verið hafna bættum almenningssamgöngum, síður en svo. SFA er að mæla með skynsamri lausn varðandi samgöngur fyrir alla. Vilji er til þess að efla almenningssamgöngur en láta jafnframt þekkt og viðurkennd lögmál ráða þar ferð. Hvað er til af fjármunum, hvernig á að leysa umferðarflækjuna og hvernig má tryggja valfrelsið? SFA hefur svör við þessum spurningum.
SFA er hópur áhugasamra einstaklinga, fjölda íbúa á höfuðborgarsvæðinu og sérfræðinga, sem er annt um bættar samgöngur almennt og hafa lagt fram skilmerkileg rök sem HÁP og nokkrir aðrir líta fram hjá. Svo virðist sem HÁP sjái ekki skýran mun á „hávaða“ og „öfgum“ fylgjenda sinna og þeirri „lýðræðislegu umræðu“ sem félagar í SFA leggja áherslu á, gagnsæi og opið upplýsingaflæði.
HÁP telur léttu Borgarlínuna (BRT-Lite) vera þá einu sönnu borgarlínu sem hann mælir með. Því ber að fagna en lýsir þetta ekki þeim glundroða sem virðist vera innan vébanda Vegagerðarinnar í samstarfi við Betri samgöngur ohf, SSH og sveitarfélögin sem að þeim samtökum standa? Viðtalið lýsir því vel að „stóra málamiðlunin“ er komin í algjört uppnám.
Yfirlæti og hræsni er ekki gott veganesti
Það sem fram kemur í viðtalinu við HÁP lýsir vel hræsni viðmælandans og þess er viðtalið tók í eftirfarandi texta og orðum AÞI:
„Hann [innskot: HÁP] segist bera virðingu fyrir þeim verkfræðingum og skipulagsfræðingum sem hafa beitt sér innan raða ÁS í opinberri umræðu á síðustu mánuðum, en að einhverju leyti séu þeir þó „fastir í þeim skóla sem var á mótunarárunum“, þeim árum er Stór-Reykjavík var skipulögð og byggð upp sem bílaborg og mikið pláss á milli húsa helgað umferð einkabíla.“
Í ljósi sögunnar telur HÁP að boðskapur hans sé ávallt sá eini rétti, draumarnir og trúin öll. Það er til mikils að vinna að vinda ofan af þessu ávarpi HÁP. En hroki hans er sem endurómur af orðum Halldórs Kiljan Laxness í Alþýðubókinni eftir að Hollywood hafnaði honum:
„Ein skoðun er ríkari í kvikmyndaheiminum ameríska en nokkur önnur, sem ég hef orðið þar áskynja við tveggja missera kynni allnáin. Hún er sú að það sé als ekki tilvinnandi að semja kvikmyndir við hæfi mentaðra manna og því síður í þeim tilgángi að menta menn. Kvikmyndin snýr sér því einkum til hinna menntunarsnauðu í þeim tilgángi að gera þá enn mentunarsnauðari. Hún leitast við að ala hinar grófustu og andstyggilegustu hvatir þess þjóðarhluta sem stendur á lægstu þroskastigi.“
Skáldinu var hafnað í Hollywood og ergelsið og pirringurinn lýsir sér vel í þessu innslagi til íslenskrar alþýðu. Skáldið stóðst ekki samkeppnina, varð undir vegna þess að það taldi sig of gáfað fyrir almúgann a.m.k. í henni Ameríku. Hér á Íslandi og með þungri Borgarlínu erum við að hampa þessu hugarfari. Samhliða er verið að skapa umtalsverða áhættu fyrir almenning og atvinnulíf í landinu, byggingariðnað til framtíðar ásamt hagkerfi sem má ekki við frekari áföllum, töfum, tilsvarandi mengun, þrengingum og þröngsýni. En nóbelskáldið sagði þjóð sinni til syndanna í þessu ágæta riti og má þar m.a. nefna áherslur varðandi tannhirðu og þrifnað almennt. Því getur í hverju verki leynst göfugur tónn og í því samhengi vill SFA létta Borgarlínu (BRT-Lite) en ekki þessa þungu, áhættusömu og fjárfreku. Svo virðist sem HÁP geti enn náð áttum. Betra er seint en aldrei.
Samgöngunet fyrir alla
Við sem veljum frelsið umfram allt annað gerum okkur vel grein fyrir að öll skilvirk hagkerfi grundvallast á öflugu samgönguneti fyrir alla þar sem staðið er vörð um heilsusamlegt umhverfi. Við viljum geta átt valkosti, við viljum að ríkið þröngvi okkur ekki í eitt stirt og afmarkað samgöngumót. Önnur samfélög og önnur hagkerfi, þar sem valfrelsið er ekki í heiðri haft, dragast aftur úr og kostnaður fer út í verðlagið eða endar í tapi samfélagsins, þ.e. endar sem svokallað allratap.
Sagan kennir að það borgar sig ekki að hætta sér í sönglistakeppni með Sírenur Hómers á sviði, þ.e. hafi maður ekki þann viljastyrk sem þarf til að velja bestu lausn. Freistingar villa mörgum sýn þar sem hvorki skynsemin né sannleikurinn fá hljómgrunn. Það er löngu liðin tíð að sjálfsagt þyki að þvinga fólki upp í vagna eða lestir. Mikilvægt er að fólk fái að vita hver áfangastaðurinn er, hvað farmiðinn kostar, hvaða valkostir aðrir eru í boði og hvenær skal áfanga náð innan hóflegra tímamarka. Þetta liggur ekki ljóst fyrir en ramminn er að hér á að ríkja frelsi fremur en helsi.
Byggjum upp samgöngur fyrir alla og stöndum vörð um valfrelsi einstaklingsins.
Höfundur er BA í heimspeki og hagfræði, viðskiptafræðingur, MSc í fjármálum fyrirtækja, félagi í SFA – www.samgongurfyriralla.com, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ og situr í svæðisskipulagsnefnd samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).