Lekamálið er mannlegur harmleikur. Það er harmleikur fyrir fólkið sem hið lekna minnisblað fjallaði um og það er harmleikur fyrir allt fólkið sem flæktist inn í lygi gerenda í málinu. Það er líka harmleikur fyrir Gísla Frey Valdórsson sem þarf nú að rísa upp úr mjög erfiðu sjálfskaparvíti.
En þeir atburðir sem nú eru að verða eru líka mikilvæg tímamót. Það eru nefnilega flestir að átta sig á að málið snérist ekki bara um lekann, glæpinn sjálfan, heldur líka um yfirhylminguna sem ráðist var í til að fela hann og verja pólitíska stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.
Í yfirhylmingunni hafa ákveðnir stjórnmálamenn, og helstu samstarfs- og fylgismenn þeirra, beitt ævintýralegum þrýstingi á ýmsar mikilvægustu stofnanir samfélagsins í þeim tilgangi að beygja þær undir vald sitt. Láta þær hætta ætlaðri óæskilegri hegðun og lúta þeirri niðurstöðu sem valdafólkið vildi hanna á atburðarrásina. Þessu fólki mistókst. Og það er mikilvægt þroskaskref fyrir íslenskt samfélag.
Gísli Freyr Valdórsson játaði í gær að hafa lekið minnisblaðinu fræga. Hann var í dag dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Reynt að fá blaðamenn rekna
Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon, blaðamenn á DV, hafa þurft að þola ótrúlegar árásir vegna skrifa sinna um lekamálið. Þeim hefur verið hótað, ráðherra hefur viljað fá þá rekna, þeir hafa verið ásakaðir um að ganga pólitískra erinda og mjög hefur verið vegið að þeirra trúverðugleika og persónum. Þessi þrýstingur hefur verið frá valdamesta fólki samfélagsins. Og þeir stóðust hann, þótt þeir hafi vissulega gert mistök á leið sinni. En niðurstaðan er sú að upprunalegu fréttirnar þeirra voru alltaf hárréttar og eftirleikurinn opinberaði dæmalausa valdníðslu.
Þrýstingurinn sem vart var við opinberlega er einungis toppurinn af ísjakanum. Baksviðs áttu sér stað stanslausar tilraunir til að hafa áhrif á umfjöllun um lekamálið þar sem öllum brögðum var beitt til að sverta mannorð fjölmiðlamanna, selja svæsnar pólitískar samsæriskenningar um hvað raunverulega lægi að baki hinum „ljóta pólitíska leik“ eða að búa til samúð á stöðum sem hún átti sannarlega ekki heima.
Hann var svo opinberaður í gær þegar Gísli Freyr Valdórsson játaði glæpinn. Nú þarf Hanna Birna Kristjánsdóttir einfaldlega að axla ábyrgð á yfirhylmingunni.
Á síðari stigum tóku aðrir fjölmiðlar landsins við sér og með gagnrýnni umfjöllun um glæpinn og yfirhylminguna, þvermóðsku gagnvart bersýnilegum lygum og staðfestu tókst að ýta málinu í átt að sannleikanum. Hann var svo opinberaður í gær þegar Gísli Freyr Valdórsson játaði glæpinn. Nú þarf Hanna Birna Kristjánsdóttir einfaldlega að axla ábyrgð á yfirhylmingunni.
Gagnrýndir fyrir að vera of gagnrýnir
Frammistaða fjölmiðla fyrir bankahrun hefur réttilega verið gagnrýnd. Þeir voru ógagnrýnir á samfélagið og spiluðu allt of auðveldlega með auðvaldinu og stjórnmálaflokkunum. Í sögulegu samhengi hefur tíminn eftir hrun verið ákveðið gullaldartímabil íslenskrar fjölmiðlunnar, þótt nánast allir miðlarnir hafi meira og minna barist fjárhagslega í bökkum. Þeir hafa nefnilega lært sína lexíu og þora að vera gagnrýnir á samfélagið sem þeir eiga að fjalla um.
Í dag eru fjölmiðlar enda gangrýndir fyrir að vera of gagnrýnir, ekki fyrir að sýna linkind.
Í dag eru fjölmiðlar enda gangrýndir fyrir að vera of gagnrýnir, ekki fyrir að sýna linkind. Meðlimir misskildustu ríkisstjórnar allra tíma, og launaðir spunameistarar á þeirra vegum, eyða ómældum tíma í að draga fjölmiðla í dilka og setja þá niður í pólitísk hólf með andstæðingum sínum. Sögulega lin og innihaldsrýr stjórnarandstaðan er í raun ekkert skárri, þegar á er bent hversu lin og innihaldsrýr hún er.
Vildi rannsaka lögreglu og ríkissaksóknara
Fleiri mikilvægar stofnanir hafa staðist dæmalausar valdníðslutilraunir. Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, þurfti ítrekað að bregðast við óeðlilegum aðfinnslum Hönnu Birnu um rannsókn lekamálsins. Hann var á þeim tíma undirmaður hennar. Stefán var meira að segja kallaður á teppið á laugardegi, utan hefðbundins vinnutíma, til að taka við gagnrýni Hönnu Birnu á rannsóknina.
þá væri það alveg ljóst í hennar huga að það þyrfti að rannsaka rannsókn lögreglu og ríkissaksóknara
Stefán sagði í samtali við Umboðsmann Alþingis vegna athugunar hans á málinu að hann hefði fengið „símtöl frá ráðherra þar sem hún var að gera athugasemdir við ýmsa þætti í rannsókninni og spyrja margvíslegra spurninga og teldi að rannsóknin væri of ítarleg og óskaði eftir upplýsingum um meðferð trúnaðargagna og annað í þeim dúr og líka það, og ég kom því á framfæri við ríkissaksóknara, að hún hefði sagt í þessu samtali við mig að þegar þessu máli yrði lokið þá væri það alveg ljóst í hennar huga að það þyrfti að rannsaka rannsókn lögreglu og ríkissaksóknara“.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur beitt fordæmalausum þrýstingi á ýmsar stofnanir vegna lekamálsins.
„Hvað er það?“
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari var heldur ekkert að skafa undan því í samtali við Kjarnann í dag þegar hann var spurður hvort Hanna Birna hefði gengið of hart fram í málinu.
Orðrétt sagði Helgi Magnús: „Ég held ég láti það bara vera að vera með einhver komment á það. En þið þekkið umræðuna, hún er víðar og er í öðrum málum. [...] Og það hefur komið fram í öðrum málum, að það er verið að álykta á flokksráðsfundum eða eitthvað slíkt, um að það eigi að fella niður ákærur í einhverjum málum. Hvað er það? Afskipti af ákæruvaldi eru jafn alvarleg og afskipti af dómsvaldi. [...] Það verða aldrei nein sakamál nema ákæruvaldið ákæri, og þær ákvarðanir sem ákæruvaldið tekur um ákærur eru afdrifaríkar vissulega, en þær eru líka grundvöllur þess að einhver maður verði nokkurn tímann dæmdur fyrir refsiverða háttsemi. Dómstólar taka ekkert slíkt upp hjá sjálfum sér“.
Stofnanirnar að brjóta á henni
Og þá stendur eftir Umboðsmaður Alþingis, sem ákvað að eigin frumkvæði að athuga hvort afskipti innanríkisráðherrans að rannsókn á sjálfri sér og nánasta samstarfsfólki hennar hefðu verið óeðlileg.
Eftir að hann birti bréf sem hann hafði sent til hennar opinberlega sendi Hanna Birna frá sér yfirlýsingu. Þar sagði meðal annars: „Ég undrast þessi vinnubrögð umboðsmanns, ætla ekki að reyna að útskýra þau eða hafa á þeim aðra opinbera skoðun en þá að vera bæði hugsi og sorgmædd yfir því á hvaða stað ýmsar stofnanir landsins eru og hvernig þær geta ólíkt lýðræðislega kjörnum fulltrúum eða dómstólum sett fram eigin dylgjur og dóma án rökstuðnings eða réttarhalda. Ég tel einnig að öll atburðarásin í kringum þetta mál, sem manna á meðal er kallað lekamálið, hefði miklu frekar átt að gefa umboðsmanni tilefni til vangaveltna um stöðu og sjálfstæði lýðræðislega kjörinna einstaklinga gegn einstaka stofnunum í stjórnkerfinu – heldur en því að gera samskipti sem báðir aðilar hafa sagt fullkomlega eðlileg tortryggileg með einhliða skoðun".
Valdníðslu hrint
Mikilvægar stofnanir í samfélaginu stóðust prófið. Þær stóðu í lappirnar gegn ótrúlegum valdníðslutilburðum freks stjórnmálamanns og fylgismanna hennar með þeim afleiðingum að glæpurinn var opinberaður og yfirhylmingunni var hrint.
Nú þarf hin augljósa refsing, afsögn ráðherrans, að eiga sér stað. Og eftir sitjum við mikilvægu hænuskrefi fjær samfélagi sem umber ömurlega valdníðslu þeirra sem vilja að allir dansi í þeirra takt.
Nú þarf hin augljósa refsing, afsögn ráðherrans, að eiga sér stað. Og eftir sitjum við mikilvægu hænuskrefi fjær samfélagi sem umber ömurlega valdníðslu þeirra sem vilja að allir dansi í þeirra takt.
Með aukinni tækni hefur stjórn þeirra á umræðunni horfið. Nú heyrast allar skoðanir sem vilja heyrast og internetið gleymir aldrei syndum fortíðar. Nú eru fjölmiðlarnir gagnrýnni en áður og tilbúnir að standa uppi í hárinu á hópi sem finnst hann eiga rétt á því að ráða öllu. Nú beygja forstöðumenn mikilvægra stofnanna sig ekki lengur undan hótunum pólitískra yfirmanna sinna.
Nú erum við aðeins nær aðeins betra samfélagi.