Fram er komin þingsályktunartillaga þar sem skorað er á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að jörðin Grímsstaðir á Fjöllum verði keypt af ríkinu og hún verði þannig þjóðareign. Þingmennirnir Ögmundur Jónasson og Svandís Svavarsdóttir, bæði frá Vinstri grænum, eru flutningsmenn tillögunnar. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga var síðast flutt sem 55. mál á 144. löggjafarþingi af núverandi flutningsmanni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem málið kemur fram á þingi, en mikil umræða skapaðist um jörðina eftir að kínverski fjárfestirinn Huang Nubo sýndi því áhuga að kaupa stóran hluta hennar, og byggja upp ævintýraheim fyrir ferðamenn. Málið var afar umdeilt á Alþingi þegar það kom upp, og skók ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem deildar meiningar voru um málið meðal ráðherra.
Áhugi Nubos á svæðinu virðist ekki vera fyrir hendi lengur. Líklega hefur þar vegið þyngst að málið sætti andstöðu og þá voru áætlanir hans ekki metnar trúverðugar af öllum sem þær skoðuðu. Þá komu einnig fram þau sjónarmið að ekki væri æskilegt að fjárfestir frá útlöndum eignaðist svo stóran hluta af Íslandi.
Stór hluti Grímsstaða hefur árum saman verið til sölu, og er enn. Jörðin, sem er ein sú stærsta á Íslandi, er 306 ferkílómetrar en sá hluti hennar sem er til sölu er 228 ferkílómetrar. Ásett verð á þeim hluta er 980 milljónir króna. Ljóst er að íslenska ríkið þyrfti að greiða eigendum Grímsstaða háar fjárhæðir fyrir því að eignast hana, en sé mið tekið af þessu ásetta verði, fyrir alla jörðina, þá er verðmiðinn nálægt 1,25 milljörðum króna.
Spurningin er hvernig ríkisstjórnarflokkarnir munu taka á málinu, því síðast þegar var til umræðu í þinginu mynduðu þingmenn sér skoðanir á því þvert á flokkslínur.