Fréttaannálar um áramót sýna okkur skelfilegan heim, fullan af átökum, náttúruhamförum og öðrum hörmungum.
Á ári eins og þessu þar sem heimsfaraldur riðlar enn daglegu lífi víðast hvar er kannski ekki furða að þessar samantektir leiti í neikvætt far. En annálar nýliðins árs eru ekki mjög frábrugðnir annálum fyrri ára. Satt best að segja væri líklega erfitt að gera upp á milli ára með samanburði fréttaannála í árslok.
Þegar tekið er saman allt það skelfilegasta sem gerst hefur á heimskringlunni á heilu ári verður alltaf af nógu að taka. Að ekki sé talað um þegar því eru gerð skil þannig að sem mest sé gert úr hörmungunum. Dramatíska stefið úr Carmina Burana er vinsælt á þessum vettvangi.
En gefa þessir annálar - eða daglegar fréttasamantektir símiðlanna - okkur raunsanna mynd af heiminum?
Horfum fyrst á nýliðið ár. Ímyndum okkur að geimverur hefðu sent hingað sendinefnd til vísindastarfa. Þær sem hefðu rannsakað mannkynið síðastliðið ár hefðu séð að flest lifðum við frekar rólegu og tilbreytingarlitlu lífi þar sem þörfum okkar var að langmestu leyti fullnægt og lítið gerðist markvert.
Flest erum við jú friðelskandi, heiðarlegar og vel meinandi manneskjur sem erum að reyna að gera okkar besta fyrir okkur sjálf og fólkið í kringum okkur. Og flestum gengur okkur þetta bara bærilega og gerum heiminn örlítið betri á hverjum degi.
Ein helsta fyrirmynd mín - Hans Rosling - hafði einstakt lag á því að koma einmitt þessum boðskap á framfæri. Setja í samhengi raunverulegt ástand málanna og beina athyglinni að þeim hlutum sem raunverulega krefjast hennar. Ég læt fylgja nokkrar myndir úr bókinni hans - Raunvitund (e. Factfulness) - til áminningar um brot af því sem hefur áunnist:
Fréttir sem afþreying
Fæst af því sem við sjáum í fréttum eru upplýsingar sem við getum nýtt okkur í daglega lífinu. Það er því erfitt að verjast þeirri hugsun að fréttir séu fyrst og fremst afþreying. Hvers vegna við kjósum svo afþreyingu sem veltir sér upp úr ljótleika heimsins og brenglar þar með mynd okkar af honum er rannsóknarefni í sjálfu sér.
Einhverjar fréttir af nærumhverfi okkar geta sannarlega verið gagnlegar, en þegar kemur að heimsfréttunum væri líklega gagnlegara gerast áskrifandi að vikulegum skýrslum geimveranna en þeirri fréttamiðlun sem við búum við.
Munum þetta þegar við hlustum á fréttaannála og „uppgjör ársins", en gerum samt ekki lítið úr þeim sjálfsprottnu vandræðum sem mannkynið hefur komið sér í með ýmsum hætti - helst þeim að ganga um of á umhverfi okkar. Þvert á móti: Tökum fegurð heimsins og árangrinum sem náðst hefur sem áminningu um að það er svo ótalmargt gott þarna úti sem er þess virði að berjast fyrir og það er hægt að takast á við áskoranirnar til að sem flestir geti notið sem lengst og sem best.
Lífspeki hagamúsarinnar Pílu pínu sem Kristján frá Djúpalæk gaf líf í sígildri barnabók er nefnilega ekki svo fjarri lagi:
„Heimurinn er betri en við höldum, hitt er flest af okkar sjálfra völdum.”
Höfundur er framkvæmdastjóri GRID. Hann er hluthafi í Kjarnanum og situr í stjórn rekstrarfélags miðilsins.