Heimurinn versnandi fer! Orðin enduróma gamla heimsádeilu og koma fyrst fyrir í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar og eiga að einhverju leyti við árið 2022 en hins vegar er alltaf ljós við enda ganganna.
Árið 2022 verður eftirminnilegt fyrir margar sakir enda ár nokkurra stórra áskorana sem legið hafa eins og rauðir þræðir í gegnum allt árið með snertingu við flest horn heimsins. Stríð í Evrópu er staðreynd eftir innrás Rússlands í Úkraínu, verðbólga hefur ekki verið hærri í fjóra áratugi á heimsvísu, lífskjarakreppa er skollin á og niðursveifla er óumflýjanleg víða. Vextir hafa hækkað verulega, viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína stigmagnast og að lokum olli loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP27 vonbrigðum. Hins vegar þá hafa viðbrögð við þessum áskorunum fyllt okkur vonarglætu. Vesturlönd með Atlantshafsbandalagið að vopni hafa sameinast gegn árás Rússlands, seðlabankar heimsins átta sig á efnahagshættunni sem verðbólgan veldur og hafa sýnt sjálfstæði sitt og hækkað vexti og alþjóðaviðskipti halda áfram að aukast, hægar þó en fyrr, þrátt fyrir erfið samskipti Bandaríkjanna og Kína. Fyrrum forseti Bandaríkjanna, Trump, virðist hafa misst flugið og rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem skoðaði árásina á þinghúsið í Washington DC 6. janúar 2021 er afgerandi í niðurstöðu sinni að meginorsökin fyrir 6. janúar er einn maður, Donald Trump, fyrrverandi forseti, sem margir fylgdu. Engin árás hefði átt sér stað án hans. Að lokum, þá hefur heimsbyggðin aldrei séð jafnmikinn kraft settan í að flýta fyrir grænum orkuskiptum og fyrir örfáum dögum birtust jákvæðar fréttir af kjarnasamruna.
Lok Kalda stríðsins virtust vera friðsöm í fyrstu
Síðustu þrír áratugir eftir að járntjaldið féll hafa verið friðsamir og einkennst af aukinni velsæld á heimsvísu. Feikilegar tækniframfarir hafa lagt grunninn að aukinni nýsköpun og samvinnu. Aukin alþjóðaviðskipti og verðmætasköpun hafa lyft um milljarði fólks úr fátækt um heiminn allan. Mikil samvinna þjóðríkja hefur verið einkennandi fyrir þennan tíma. Viðskipti við Asíu hafa stóraukist og segja má að Kína hafa virkað sem alheimsverksmiðja. Vegna þess að kostnaður við framleiðslu hefur verið mun lægri í Kína en á Vesturlöndum, þá má skýra út verðhjöðnun á Vesturlöndum í tengslum við þessa þróun. Evrópusamruninn var á fullu í byrjun 9. áratugarins og vallarsýnin sú að Evrópa yrði öll sameinuð innan skamms. Sameiginlegi gjaldmiðilinn var kynntur til sögunnar. Svíþjóð og Finnland gengu í Evrópusambandið ásamt mörgum Austur-Evrópuríkjum. Fyrrum Varsjárríkin sóttu ýmis um aðild að Atlantshafsbandalaginu og það ríkti mikil bjartsýni um að fram undan væri tími mikils uppgangs og samvinnu. Sovétríkin liðast í sundur eitt af öðru. Atburðarásin var mun hraðari en flestir sérfræðingar gerðu grein fyrir. Á tímabili leit jafnvel út fyrir að Rússland hefði áhuga á því að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu!
Vesturlönd ítrekað vöruð við Rússlandi Pútíns ...
Hinn 24. febrúar síðastliðinn breyttist veruleikinn eins og við höfum þekkt hann um áratugaskeið í Evrópu er Rússar hófu grimmilega innrás inn Úkraínu. Rússar höfðu áður tekið Krímskaga yfir árið 2014 og það hefði átt að vera ljóst þá að þeir ætluðu sér meira. Því miður töldu Vesturlönd að efnahagsrefsiaðgerðirnar myndu duga til að koma í veg fyrir frekari átök. Vesturlönd voru margítrekað vöruð við að Rússland Pútíns einkenndist af ofbeldi og grimmd. Bók blaðakonunnar Önnu Politkovskayu um Rússland Pútíns og gefin var út árið 2004, fjallar mjög ítarlega um einræðisstjórnhætti Pútíns. Bókin Önnu fékk verðskuldaða athygli og í kjölfarið var hún myrt 7. október, 2006 á afmælisdegi Pútíns. Hann fékk tilkynninguna um morðið þegar þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, funduðu í Kreml. Haft hefur verið eftir Merkel að Pútin hafi viljandi látið hvísla þessu að sér í þeim tilgangi að ögra henni! Fleira má nefna í þessu samhengi eins og barátta fjárfestisins Bill Browder fyrir réttlæti vegna Sergei Magnitsky, en sá síðarnefndi var samstarfsaðili Browder og lést í fangelsi í Rússlandi. Í framhaldinu voru Magnitsky-lögin samþykkt af bandaríska þinginu, en þau fela í sér fjárhagslegar refsiaðgerðir gagnvart rússneskum viðskiptajöfrum. Mörg fleiri dæmi má nefna, þar sem Vesturlönd voru ítrekað vöruð við þeirri þróun sem átti sér stað í Rússlandi Pútíns.
... og Rússar fara í stríð í Evrópu og áfram ræðst framvindan af Bandaríkjunum
Stríð var hafið af fullum þunga í Evrópu. Á svipstundu blasti nýr veruleiki fyrir þjóðum álfunnar í öryggis- og varnarmálum. Málaflokkurinn hafði fengið lítið vægi í opinberri umræðu, samdráttur í framlögum marga Evrópuríkja til varnarmála hafði verið talsverður og Evrópa orðin of háð Rússlandi um orku. Allir helstu sérfræðingar töldu að Rússar yrðu komnir inn í Kænugarð á þremur dögum. Það varð hins vegar ekki raunin og segja má að Rússar hafi misreiknað sig hrapallega miðað við fyrstu áform þeirra. Kröftug mótspyrna Úkraínumanna neyddi Rússa á endanum til að hörfa frá stórum landsvæðum en stríðið geisar nú í suður- og suðausturhluta landsins. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa verið afgerandi með fordæmalausum viðskiptaþvingunum á Rússland og umfangsmiklum hernaðarstuðningi við Úkraínu. Velvild og dyggur stuðningur bandarískra stjórnvalda skipta höfuð máli í gangi stríðsins. Evrópa er enn og aftur algjörlega háð stefnu Bandaríkjanna.
... og Þýskaland finnur til ábyrgðar
Kanslari Þýskalands Olaf Scholz skrifaði grein í byrjun desember og bar heitið „The Global Zeitenwende“ og þar boðar hann nýja tíma í utanríkismálum Þýskalands. Meginskilaboðin í greininni er að alþjóðasamfélagið geti aldrei látið Pútin ráða för og að tími sé kominn að Þjóðverjar gegni lykilhlutverki í öryggis- og varnarmálum í Evrópu. Í því felst að fjárfesta þurfi í herafla, styrkja sameiginlegar varnir Evrópu og efla þrótt Atlantshafsbandalagsins ásamt því að styðja dyggilega við Úkraínu. Nýtt hlutverk Þýskalands kallar á nýja þjóðaröryggisstefnu. Þessi stefnubreyting þýðir að búið er að leyfa útflutning á vopnum í fyrsta sinn í eftirstríðssögu Þýskalands og það er til Úkraínu. Þýskaland hefur heitið því að styðja Úkraínu eins lengi og þörf krefur. Jafnframt kemur fram í grein Olaf Scholz að aðgerðir Atlantshafsbandalagsins megi ekki verða til beinna hernaðarátaka við Rússland en koma verður í veg fyrir stigmögnun stríðsins. Í því skyni hefur Þýskaland aukið verulega viðveru sína á austurvígstöðvum og eflt alla viðveru sína í Austur-Evrópu. Þessi skýru skilaboð frá kanslara Þýskaland marka nýja tíma í Evrópu. Segja má að þessi sögulegu umskipti í utanríkisstefnu Þýskalands minni á þegar Willy Brandt, kanslari, hóf „Östpolitik“ stefnuna, sem gekk út á að opna Austur-Þýskaland en að tryggja gott samband við Bandaríkin. Afar brýnt er að Ísland fylgist vel með framvindu mála í Þýskalandi.
Þjóðaröryggisstefna Ísland öflug og byggir á traustum stoðum
Ísland hefur tekið þátt af fullum þunga í aðgerðum bandalagsríkjanna og stutt myndarlega við Úkraínu með ýmsum móti, meðal annars með móttöku flóttafólks sem hingað hefur leitað í öruggt skjól. Í amstri hversdagsins vill það kannski gleymast að sú samfélagsgerð sem við búum við, byggð á frelsi, lýðræði og mannréttindum, er ekki sjálfsögð. Innrás Rússa er grimmileg áminning um það. Framsýn skref íslenskra stjórnmálamanna um að taka stöðu með lýðræðisríkjum og að gera Ísland að stofnaðila að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og undirritun tvíhliða varnarsamnings við Bandaríkin 1951 voru heilladrjúg skref fyrir íslenska hagsmuni sem enn mynda hryggjarstykkið í utanríkisstefnu okkar. Ísland á áfram að taka virkan þátt í varnar- og öryggissamstarfi með bandalagsþjóðum sínum og standa vörð um þau gildi sem við reisum samfélag okkar á. Þjóðaröryggisstefna Íslands frá árinu 2016 hefur þjónað okkur vel. Megináherslan er sem fyrr á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, tvíhliðavarnarsamningur við Bandaríkin ásamt aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum og miklu samstarfi Norðurlandanna. Landfræðileg staða Íslands heldur áfram að skipta sköpum í Norður-Atlantshafinu og við eigum að halda áfram að styrkja þjóðaröryggisstefnuna.
Stríðsknúin orkukreppa kveikir verðbólgubál
Vonir um að alþjóðahagkerfið og aðfangakeðjur þess myndu taka fljótt við sér samhliða afléttingu sóttvarnaráðstafana dvínuðu hratt við fyrrnefnda innrás Rússa. Í stað þess spruttu upp nýjar áskoranir fyrir alþjóðahagkerfið sem enn sér ekki fyrir endann á. Miklar hækkanir á hrávöru og orku hafa leikið fólk og fyrirtæki grátt og hefur hugtakið Lífskjarakreppan verið notað til að lýsa ástandinu. Skömmtun á raforku og kostnaðarsöm sturtustund á heimilum fólks í Evrópu hljómaði fjarstæðukennt fyrir nokkrum mánuðum en er nú veruleikinn. Stjórnvöld hafa víða stigið inn í ástandið með stuðningsaðgerðum til handa samfélögum sínum í glímunni við verðbólguna. Stýrivextir hafa hækkað um allan heim til þess að reyna að slá á verðbólguna en sum staðar hafa ekki sést viðlíka verðbólgutölur í áratugi. Allt þetta ástand hefur varpað ljósi á kerfislega veikleika Evrópu sem mikilvægt er að horfast í augu við og takast á við; heimshlutinn verður meðal annars að vera betur í stakk búinn til þess að sjá sjálfum sér fyrir orku og tryggja þannig efnahags- og þjóðaröryggi ríkja sinna. Það verður jafnframt upplýsandi á næstu misserum að skoða með gagnrýnum augum á þá peninga- og fjármálastefnu sem rekin hefur verið beggja vegna Atlantsála og leita svara við því hvaða áhrif slaki í þeim efnum um árabil hefur mögulega haft á verðbólguskotið.
Í mínum huga er það tvennt sem stendur upp úr á árinu. Annars vegar er það stríðið í Úkraínu og hins vegar orkukreppan sem fylgdi í kjölfarið ásamt hárri verðbólgu. Ísland hefur verið í nokkuð góðri stöðu, þar sem staða okkar í öryggis- og varnarmálum er traust og að auki erum við ekki háð þriðja aðila um lykilorku. Þrátt fyrir að árið 2022 hafi verið krefjandi á margan hátt og fái okkur til að rifja upp Passíusálma Hallgríms Péturssonar, þá er ég sannfærð um að vonarneistinn er samstaða Vesturlandanna, sem muni á endanum skila okkur betri stöðu í Evrópu. Allar þjóðir skipa máli þar og hefur ríkisstjórn Íslands stutt dyggilega við Úkraínu og þétt enn frekar raðirnar innan Atlantshafsbandalagsins. Framganga utanríkisráðherra hefur verið til fyrirmyndar og vel studd af ríkisstjórninni. Framundan er tími ljóss og friðar. Njótum þess að vera með fólkinu okkar og huga vel að því.
Gleðileg jól.
Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.