Fyrsti hluti þessara greinaskrifa, Herragarðurinn – og vér orkuaðallinn, birtist í Kjarnanum 14. nóvember 2020, og annar hlutinn, Herragarðurinn – orkan og almúginn, á sama vettvangi þann 3. apríl 2021. Hér verður áfram fjallað um margslungið samband orku og afkomu, orku og hagnaðar, skatta og velferðar – og um hina algjöru frumforsendu allrar skattlagningar, að af einhverju sé að taka.
Frá upphafi siðmenningar hafa menn þráttað um velferð, hvernig bæri að skipta jarðargróðanum, hinum ýmsu aðgengilegum auðlindum á hverjum tíma. Þeim mun ríkulegri sem afraksturinn hefur verið þá hefur verið meira til skiptanna – og um meira að þrátta, hverjum umframafraksturinn skyldi falla í skaut og þar með velferðin, svo lengi sem af einhverju væri sem sagt að taka.
Höfuðstóllinn hefur ávallt verið sjálf jörðin, í þrengstu jafnt sem víðtækustu merkingu, og vextirnir þá allt það er jörðin hefur gefið af sér, sem löngum voru afurðir jurta og dýra fyrst og fremst. Öll umframtekja, allt umfram vextina, hefur óhjákvæmilega leitt til rýrnunar, á sinn hátt líkt og ævagamalt steinaríkið hefur jafnframt orðið að láta undan fyrir margháttaðri og sífellt vaxandi hráefnavinnslu, sem og ekki síst á allra seinustu áratugum og öldum, að gengið hefur hratt á öllu yngri forða jurta- og dýraleifa, sem hófu þó að safnast upp fyrir tugum og hundruðum milljóna ára, löngu fyrir tíð mannskepnunnar.
Menningarskeið hafa risið og hnigið og skilið eftir sig arfleifðir ofbeitar og ofnýtingar, eyðingu skóga, dýrategunda, jarðvegs og jarðefna. Fyrir eðlislæga skammsýni manneskjunnar fékk hún heldur vart sögulega sýn á umhverfi sitt fyrr en á allra seinustu tímum, fyrir skipulegar rannsóknir á auðlindum jarðar og náttúrufari, sem hafa leitt í ljós hraðari umhverfisbreytingar af mannavöldum á undanförnum öldum en nokkurn hefði grunað fyrr á tíð. Hvað þá að nokkurn hefði órað fyrir breytingunum sem orðið hafa nú á allra seinustu tíð.
Borgríkin
Hin fyrsta eiginlega siðmenning, sem sögur fara af, fól í sér myndun bæja og borga og slíka velferð hinna best settu íbúa að þeir gátu hæglega lifað af landsins gæðum án þess að þeir snertu sjálfir svo mikið sem arð, plóg, öxi, hamar eða sigð.
Borgríkin, hvert og eitt, helguðu sér svo mikið flæmi lands, sem vald þeirra náði til, allt eftir hæfni aðals hvers og eins ríkis, stjórnenda þeirra og mektarmanna, til að etja kappi hver við annan, í krafti mannafla og verkmenningar hvers og eins ríkis. Þeim mun fleiri munna sem arðurinn af landinu, arðurinn af vinnu bændanna, fékk mett, þá var fleiri á að skipa til að skipta með verkum í sjálfum borgunum – prestum, skrifurum, hermönnum, kaupmönnum, verkmeisturum og handverksmönnum af öllu tagi.
Borgríkið helgaðist því ekki einungs af allrahanda verkum borgar- og bæjarbúa, heldur ekki síst af landbúnaðinum og þeirri verkmenningu sem lá ríkinu til grundvallar í sveitunum allt um kring – andstætt við frumstæðan sjálfsþurftarbúskap, slíka akuryrkju og hjarðmennsku sem er einungis sjálfri sér næg og þeim sem hana stunda. Ríkin áttu því allt sitt komið undir framleiðni bændanna, landbúnaðartækninni sem var lögð vinnu þeirra til grundvallar, og þeirri flutningatækni sem menn höfðu þróað til að afla borgunum aðfanga, jafnt landbúnaðarafurða sem timburs til smíða og til eldiviðar, grjóts til bygginga og málmvinnslu, sem og leirs, kalks, salts, tjöru, hörs og allrahanda annarra nauðsynja.
Plógurinn, öxin, hamarinn og sigðin ... og hlýindin
Siðmenningin var leidd fram fyrir gríðarlega hlýnun á jörðinni um þúsaldaskeið og fyrir tækniframfarir er áttu sér þó margfalt lengri sögu. Eggjaðar steinflögur höfðu fyrir löngu orðið mönnum tæki til að létta sér lífsbaráttuna, hvað þá sú undraverða uppfinning að gera mætti eld fyrir mannanna sjálfra tilverknað, fyrir einhverjum hundruðum þúsunda ára. Þróunin hafði þó verið svo hæg, að ljósið, sem lagði af stað frá stjörnum Andrómedaþokunnar um það leyti sem ættkvísl mannskepnunnar leit dagsins ljós fyrir góðum tveimur milljónum ára, náði ekki til okkar fyrr en einmitt í árdaga siðmenningarinnar. Svo örstutt er umliðið síðan þá, að blikið frá þokunni fjarlægu, þessum eilífa litla glugga okkar til elda alheims utan Vetrarbrautarinnar okkar, er nánast hið sama nú og þegar jöklarnir miklu runnu sitt skeið í kjölfar hlýnunarinnar sem leiddi til svo bættrar afkomu manna, a.m.k. sumra þeirra, að borgríkin litu dagsins ljós.
Fyrir jökulbráðina og eðlislæga þenslu sjávarins af völdum hlýnunarinnar hækkaði hafið um á annað hundrað metra á einungis um tíu þúsöldum, svo að nam til jafnaðar vel á annan metra á öld drýgsta hluta skeiðsins; á hinum mestu jökulslóðum reis landið þó að nokkru til mótvægis er jökulfarginu létti. Á þessu tímabili var fólksfjöldi vart nema um þúsundasti hluti þess sem verið hefur á jörðinni frá upphafi iðnbyltingar og hefur fjölgunin verið nokkuð hliðstæð, um tíföld á hvoru tímaskeiði, gróft á litið.
Allt þar til tók að hlýna höfðu menn lifað á veiðum og söfnun jurta og flutt búferlum, kynslóð eftir kynslóð, allt eftir því hvar mest væri von um veiði og jurtaríkið minnst snortið. Þá þegar er kólnað hafði fyrir góðum 100 þúsundum ára, í kjölfar hlýindaskeiðsins þar á undan, var Afríka orðin svo þéttsetin að menn tóku að leggja undir sig Evrópu og Asíu og loks Eyjaálfu, allt eftir því hvar grösin voru gróskumeiri og veiðin ábatasamari. Á hinu síðasta jökulskeiði var mannkyn því komið út um allar álfur og þá jafnframt til norðvestustu hluta Ameríku, þar sem það nam land löngu áður en Beringssund varð til fyrir um 11 þúsundum ára og lokaði leiðum austur um Síberíu í kjölfar sjávarborðshækkunarinar. Suður um þá álfu höfðu menn þó ekki komist fyrr en jökullinn hafði hopað svo um miðbik vesturhluta Kanada fyrir um 15 þúsundum ára að auðgengið skarð opnaðist og þar með alveg ný paradís.
Hafi mannkyn talið um 1 milljón manns á fyrsta skeiði hlýnunarinnar, fyrir um 15 til 20 þúsundum ára, kann fjöldinn að hafa verið orðinn um 10 milljónir í árdaga siðmenningarinnar fyrir um 7 til 8 þúsundum ára þegar hlýnað hafði til jafnaðar um 4 °C – gróft á litið. Hlýindin höfðu þá varað í nokkrar þúsaldir og var loftslag þá þegar komið í nokkuð líkt jafnvægi og það hefur verið lengst af síðan. Svo mjög hafði þá jafnframt hægt á sjávarborðshækkuninni að nam vart lengur nema fáeinum sentimetrum á öld – svo sem hefur verið lengst af allt siðmenningarskeiðið, allt þar til nú í kjölfar iðnbyltingarinnar, að fyrir hlýnun af mannavöldum svarar hækkunin á undanförnum áratugum til tuga sentimetra á öld, farandi svo vaxandi að kann að verða sem næst 1 sentimetri á ári áður en langt um líður, ekki fjarri því sem var á hinu náttúrulega hlýnunarskeiði, haldi áfram að hlýna sem horfir.
Frá einhæfri sjálfsþurft til fjölþættrar framleiðni
Svo frumstæðir voru búskaparhættirnir á þessu útþensluskeiði mannkyns að hvert samfélag reis vart undir meiri íbúafjölda á hverju svæði til jafnaðar en sem svarar til þúsundasta hluta þess sem jörðin hefur borið undanfarnar aldir. Fjölgun íbúa og ofnýting lands, þar á meðal veiði umfram sjálfbæra stofnstærð veiðidýra, leiddi því ávallt til brottflutnings hluta íbúa yfir á vannýtt eða ónumin svæði, allt þar til að jörðin var sem næst fullnumin. Þá var svo komið í rótgrónustu byggðum manna að flestum hinna stærri tegunda landdýra hafði ýmist verið útrýmt eða svo verið að búsvæðum þeirra þrengt að vart var lengur mikið á þeim skepnum að græða. Fæðuvalið hlaut því þeim mun frekar að beinast að jurtaríkinu – og að tamningu þeirra dýrategunda sem auðveldastar voru viðureignar og gáfu jafnframt mest af sér.
Svo aðþrengdir sem menn voru þá orðnir hver af öðrum og vart neitt eftir ónumið land þá voru þeir knúnir til að leita uppi bestu yrkin í jurtaríkinu og þróa þau með þeim hætti að þau gæfu af sér sem árangursríkasta uppskeru, meðfram því að búfé var komið upp að því marki sem landgæði á hverju svæði leyfðu – og hlýindin.
Þróunin leiddi til fastrar búsetu á hinum þéttbýlustu og gróskumestu svæðum, ekki síst meðfram fljótum og fallvötnum sem báru með sér frjómagn og næringu langar leiðir að. Og meðfram því að hlýnað hafði um 3 til 5 gráður víðast hvar, jafnhliða þróun búskaparháttanna og ræktunartækninnar, varð til uppskera umfram brýnustu þarfir bænda og búaliðs. Af því leiddi að hluti samfélaga tók sér bólfestu í þorpum sem urðu síðar að bæjum og loks að margmennum borgum. Umframuppskeran úr sveitunum í kring var því sá gjaldmiðill og þá jafnframt sú orka sem knúði fram menningu borganna, og þá ekki síst slíka alhliða verkmenningu og tækni sem í senn stuðlaði að bættri uppskeru, öflugri hráefnavinnslu og að framförum í flutningum og mannvirkjagerð – að öllu því sem borgríki kröfðust sér til vaxtar og viðgangs.
Baráttan snerist því ávallt um frjósamasta landið – og umframuppskeruna. Þeim mun meiri afurðir sem féllu bæjum og borgum í skaut þá var fleirum á að skipa til að sinna handverki, mannvirkjagerð og hernaði, sem og hinum ýmsu fræðum – m.a. til grundvallar tímatalsreikningi sem var ein af mikilvægum forsendum stjórnskipulags og arðvænlegrar uppskeru – að öðrum kostu lutu ríkin í lægra haldi fyrir þeim sem sterkari voru. Menningarskeið risu og hnigu, allt eftir því sem frjómagn jarðarinnar og þar með landbúnaðurinn orkaði, og þá ekki síst landbúnaðartæknin, sem framleiðni bændanna á hverjum tíma grundvallaðist á.
Hinn verktæknilegi maður og arður framleiðninnar – skattarnir
Með æ meiri sérhæfingu borga og bæja við úrvinnslu hráefna, sem lögð voru til grundvallar hinu borgaralega handverki, allt eftir því hver efnin voru nærtækust á hverjum stað, á hverjum tíma, efldust jafnframt viðskipti til muna menningarsvæða á milli. Smíðisgripir, vefnaður og vopn fengu merkingu í nafni byggðanna, borganna og bæjanna, og þeirrar hráefnaúrvinnslu sem var einkennandi fyrir hvert og eitt ríki, hvert og eitt samfélag, sem og þá fræði og stjórnskipulag, allt eftir löndum og landgæðum og tæknilegri sérhæfingu. Baráttan snerist þá ekki lengur um frjósamasta landið eitt heldur ekki síður um frjósamasta handverkið og valdið yfir viðskiptum með hverskyns sérhæfð verk menningarheima á milli.
Homo faber, hinn verktæknilegi maður, var kominn fram – sá sem gat ekki einungis staðið í lappirnar og handleikið hamar og sigð, öxi eða plóg, heldur gat einnig beitt hinum ýmsu verkfærum og ekki síst eldi til að búa til enn sérhæfðari verkfæri, tæki og tól, sem enn aðrir gátu hagnýtt við handverk og framleiðslu af svo margvíslegu tagi.
Miðstýrður landbúnaður var þá ekki lengur það reginafl eitt sem siðmenningin byggði á, heldur ekki síður margslungin viðskiptin menningarheima á milli. Í stað baráttu einstakra landbúnaðarvelda – borgríkja í sinni frumstæðustu mynd – um lönd, gæði og vinnuafl, kom slíkt ofurvald yfir öllum viðskiptum að leiddi til myndunar stórvelda, imperiums, er lögðu undir sig bæi, borgir og ríki, leggjandi grunn að æ margþættari samfélögum; landbúnaðurinn og allrahanda hráefnavinnsla voru þó ávallt meginstoðirnar, og hafa verið á öllum tímum, ásamt flutningum og öllu því öðru sem hvert og eitt miðstýrt veldi stórborgara er reist á – og hvort vinnuaflið fylgir þá ekki ávallt með í kaupunum.
Gilti einu þótt einstök, smá borgríki, héldu að nafninu til sjálfstæði sínu, sama hve þau skorti alhliða sérhæfingu á fjölmörgum sviðum, líkt og í nútíma, t.d Lúxemborg, Ísland, Bahamaeyjar og Singapúr, sem hafa átt allt sitt undir náð og miskunn viðskiptaveldanna, svo lengi sem þau væru þeim þæg og öruggt skálkaskjól í sínum viðskiptum og viðskiptastríðum.
Framleiðni jókst fyrir framfararir í akuryrkju og búfjárrækt, fyrir sífellt hagfelldari verkfæra- og áhaldasmíð, þá ekki síst fyrir framfarir í smíði axa, pála, hjóla, sigða og plóga, sem og ekki síður fyrir kynbætur jurta og búfjár, þar á meðal vinnudýra, og loks fyrir iðnbyltingu og æ stafrænni hugsun.
Framleiðni mótar forsendur allrar skattlagningar, enda verður ekkert á neinn lagt sem ekki hefur af neinu að láta. Skattar leggjast ávallt á þann arð sem er umfram sjálfbærni, að öðrum kosti visnar skattstofninn og ber ekki ávöxt. Þeim mun meiri framleiðni – umfram sjálfsþurft – því meira kann þá að mega deila á meðal þeirra sem hirða skattinn, vextina og leigurnar, sér til velmegunar, líkt og löngum átti við fyrir tíma velferðarþjóðfélaga, eða á hinn bóginn, líkt og gjarnan er miðað að í nútíma, á meðal þegna allra í heild, þeim til velfarnaðar – til menntamála, heilbrigðismála, almannatrygginga og almennra samgangna, sem og þá jafnframt til dómsmála og almennrar stjórnsýslu.
Frá orkusóun til orkunýtni – frá rányrkju til umhverfisverndar
Allt að helmingur þjóðartekna tæknivæddra nútímasamfélaga rennur til opinberra málefna – í formi opinberra álaga. Tæknivæddasti hlutinn, sá er veldur þó mestu um þá framleiðni sem öll skattlagning er beint og óbeint reist á, ber engu að síður lægsta skatta og lægstu gjöld. Þeim mun hlutfallslega færri hendur sem koma að tæknivæddri framleiðslu og þjónustu, þar sem framleiðni eðlilega mest nýtur, því lægri eru álögurnar, slík er almennt ofuráherslan á einstaklingsbundna tekjuskatta og launatengd tryggingagjöld af ýmsu tagi. Rekstrartekjuskattar koma svo þeim mun síður til álita sem ágóða af mjög tæknivæddum rekstri er varið til enn öflugri og framleiðnivæddari rekstrar – og hvort þá ekki dregur enn frekar úr vægi hinna einstaklingsbundnu tekjuskatta og tryggingagjalda af tæknirekstrinum.
Þeim mun framleiðnivæddari sem þjóðfélög eru, þá leggjast skattar af meiri ofurþunga á einstaklinga. Hinn opinberi hluti – með allt að helmings vægi þjóðartekna samkvæmt hefðbundnum þjóðhagsreikningi – ber þá þar af leiðandi því meiri þunga skattlagningarinnar sem tæknivæðing og hagvöxtur er meiri, svo lítil tök sem hið opinbera hefur á að koma við mikilli framleiðni, hvað þá á borð við allan hinn tæknivæddasta, framleiðnivæddasta og síst mannaflsfreka rekstur.
Svo mikið sem skattar og gjöld vega á meðal tæknivæddra ríkja, eða sem nemur til jafnaðar um helmingi þjóðartekna, má raunar segja að hinar tæknivæddustu greinar búi við slíkt skattfrelsi að jafna megi við stórfelldar niðurgreiðslur. Má því nokkuð ljóst vera, annars vegar í ljósi ofurvægi skattanna sem hið opinbera leggur á sjálft sig, á sitt eigið skinn, og raunar á þorra launaþega – og þar með á allar mannaflsfrekar greinar – og hins vegar í ljósi niðurgreiðslna og skattalegra undanþága mjög tæknivæddrar framleiðslu og þjónustu, að raunverulegur hlutur hins opinbera liggur mun nær því að vera um þriðjungur landsframleiðslu frekar en um helmingur hennar, sem annars mætti ætla samkvæmt hefðbundum þjóðhagsreikningi hinna tæknivæddustu ríkja, velferðarríkjanna.
Stórfelld sóun orku og náttúrugæða, hvað þá stjórnlaus spilling lofthjúps jarðar og hömlulaus mengun andrúmsloftsins, verður ekki stöðvuð nema með álögum á þá sem hvetja til og viðhalda sóuninni, spillingunni, menguninni. Þá má nokkuð ljóst vera, að hinir háu tekjuskattar orka sem algjör dragbítur á viðhald alls þess sem fyrir er, með þeim afleiðingum að flest það sem mannskepnan framleiðir endist langtum skemur fyrir vikið, er langtum verr nýtt en ella, sem leiðir einfaldlega til mun skemmri afskriftartíma, mun hærri afskriftarkostnaðar, en ella væri. Lélegt viðhald, léleg nýting, leiðir því eðli máls samkvæmt til framleiðslu og orkusóunar langt umfram raunverulegar þarfir, hvað þá hinna neyslufrekustu jarðarbúa. Svo niðurgreidd er flest hin tæknilega neysla, svo illa er tækninni haldið við, svo mjög er velferðinni sóað öllu jöfnu.
Á meðal virkustu velferðarríkja rennur um helmingur vergrar landsframleiðslu (VLF) til hins opinbera – samkvæmt hefðbundnum þjóðhagsreikningi. Afnám þess tekjudrifna skattkerfis sem viðheldur flestum velferðarkerfum, sbr. skýringarmynd hér að ofan, samfara upptöku orkudrifins skattkerfis, sbr. skýringarmynd hér að neðan, myndi leiða til mun skilvirkari nýtni landsframleiðslu og þar með til hærra raunvirðis hennar og lægi raunafskrifta. Raunveruleg, hrein landsframleiðsla myndi batna sem nemur lægri afskriftakostnaði, sem nemur mun betri nýtni allrar framleiðslu og þar af leiðandi minni þarfar fyrir nýja – einfaldlega fyrir ábata af mun minni skattbyrði allrar viðhaldsþjónustu.
Reikningslegur ábati í heild – fyrir mun skilvirkari orkunýtni og fyrir mun betri endingu hlutanna, auk þess sem nemur mun lægri kostnaði við flesta almenna þjónustu, þá ekki síst velferðarþjónustu – kynni að nema um fjórðungi eða allt að þriðjungi þeirra tekna velferðarríkjanna sem hefðin býður annars hagfræðingum að reikna. Slíkt er hið hagvísindalega viðmið sem í hávegum hefur verið haft, slík er hin reikningslega kreppa sem leitt hefur af hinum tekjudrifnu skattkerfum. Svo ranglega hefur gengi velferðargjaldmiðlanna verið skráð – en gengi gjaldmiðla þróunarríkja að sama skapi verið vanskráð.
Skattkerfi, sem miðar að orkunýtni og náttúruvernd, er hamlar gegn mengun láðs og lagar og losun koltvíildis og ígilda þess út í andrúmsloftið, leiðir á hinn bóginn til slíkrar sparneytni að til verður arður langt umfram það sem ella væri. Hreinna loft og óspillt náttúra fellur fjöldanum öllum í skaut, orkulindir nýtast því betur sem orkan er meira metin, sem og þá ekki síst þjónar orkufrek framleiðsla til þeim mun lengri afskriftartíma, sem menn eiga þess frekar kost að halda hlutum við og nýta þá til hins ýtrasta, einmitt fyrir lága skatta viðhaldsþjónustunnar. Náttúran er þá ekki lengur sjálfgefin auðsuppspretta í krafti harðvítugs eignarréttar, heldur eru afnotin háð mati á umhverfisáhrifum og þá ekki síst fjárhagslegu – skattalegu – mati á möglegri skaðsemi.
Orkudrifið skattkerfi felur í sér gjörbreytt kostnaðarhlutföll útselds mannafls og útselds tækniafls frá því sem tekjudrifið skattkerfi felur í sér. Þjónusta og handverk sem nýtur lítil stuðnings af orkufrekri tækni lækkar til muna í verði en kostnaður við tækni sem nýtur lítils stuðnings af vinnuafli stendur ýmist í stað eða hækkar í verði, sér í lagi hækkar kostnaður við orkufreka vinnslutækni.
Framleiðsla orku og mjög orkufrek framleiðsla, þar sem mannhandarinnar nýtur minnst við, myndi eðli máls samkvæmt hækka einna mest í verði, og þá sér í lagi framleiðsla sem er háð jarðefnaeldsneyti. Orkufrek fjöldaframleiðsla myndi hækka þeim mun frekar í verði sem sjálfvirkni gætir meira en annars því síður sem framleiðslan og ekki síst markaðssetning hennar er háð mannafli. Margvísleg raðsmíði, t.d. flugvéla, sem byggir að verulegu leyti á vinnuafli, myndi heldur lækka í verði, en á hinn bóginn myndi orkan til að knýja fullbúnar vélarnar hækka í verði – og þó fremur lækka með tímanum, einmitt fyrir hvatann er kerfið felur í sér til orkusparnaðar og þar með til arðbærra tæknilausna, þá lítt sem ekkert háðum hamlandi kolefnisgjöldum.
Þeim mun frekar sem viðhaldskostnaður lækkar – vegna lægri skatta af viðhaldsþjónustu – lengist fyrningartími fjármunaeigna, m.ö.o þá kostar minna að halda eignum við og þær endast þar af leiðandi lengur. Afskrift fjármunavirðis tekur því til lægra hlutfalls af vergri landframleiðslu undir orkudrifnu skattkerfi en undir tekjudrifnu kerfi. Hlutfallsleg lækkun fyrningar fastafjármuna, frá því að vera um 16% af VLF í um 13%, myndi ein og sér svara til um 3% árlegs þjóðhagslegs sparnaðar – þá ekki síst fyrir bætt iðn- og handverk – auk þess ekki síður sem næmi viðhaldi og þar með bættri endingu allrahanda lausafjármuna þjóðfélagsþegnanna, fatnaðar, húsmuna og heimilistækja, sem þjóðhagfræðingar líta annars ávallt framhjá í reikningum sínum. Hvað þá hvort öll meðferð matvæla myndi ekki batna þegar ódýrara væri orðið að nýta þau frekar en að henda þeim fyrir ný...
Svo dæmi sé tekið af vergri landsframleiðslu (VLF) á Íslandi þá nemur hún nær 3.000 milljörðum króna á ári. Þar af nema bein opinber umsvif, að meðtaldri allri aðkeyptri þjónustu einkaaðila, um 42% af VLF, og umsvif samtryggingarhluta hins hálfopinbera lífeyriskerfis (lögboðin iðgjöld án séreignarsparnaðar) um 8% af VLF. Lögboðnir skattar og lögboðin gjöld nema því um 50% af heild, sbr. súluritið yfir TEKJUDRIFIÐ SKATTKERFI hér ofar (hið efra), er sýnir hlutföll vergrar landsframleiðslu dæmigerðs velferðarríkis nú á dögum í allra grófustu mynd.
Þó að lögboðin lífeyrisiðgjöld nemi um 15% af launum þá er hlutfallið engu að síður um 8% af VLF, enda vega laun og launatengd gjöld vart meira en rétt rúmlega helmingi VLF (auk þess sem margvíslegar almannatryggingar hins opinbera telja). Að frádregnum sköttum nemur hreint hlutfall samtryggingarlífeyris þó einungis um 6% af VLF til jafnaðar – gróft á litið – sem væri þá jafnframt það hlutfall af VLF sem lífeyrisiðgjöld myndu nema í ORKUDRIFNU SKATTKERFI, að tekjusköttum niðurfelldum, sbr. súluritið hér að ofan, til samsvarandi ráðstöfunar lífeyris.
Samkvæmt grófum dráttum súluritsins myndi verg landsframleiðsla lækka um 25% að bókfærðu virði – að aflögðu tekjudrifnu skattkerfi, að upprættum drýgsta hluta gervifjár – frá því að vera um 3.000 ma. kr. í um 2.250 ma. kr. (ma = milljarðar). Opinber umsvif – umsvif ríkis og sveitarfélaga og hálfopinber umsvif lífeyrissjóða – myndu lækka frá því að vera um 50% af 3.000 ma. kr. VLF í um 42% af 2.250 ma. kr. VLF, engu að síður að alls óbreyttu raunvirði.
13% virðisaukaskattur (= 11,5% af VLF í heild) væri stærsti skattstofninn en annars væri megnið af tekjum hins opinbera fólgið í umhverfis- og orkugjöldum, auk hins hálfopinbera hlutar lífeyrissjóðanna. Miðað við að umsvifin lægju nær því að vera um 45% af 2.250 ma. kr. VLF, um 1.000 milljarðar króna, frekar en 42%, um 950 ma. kr. – í ljósi grófra útreikninga og vikmarka – þá gætu tekjurnar skipst þannig að loknum nokkurra ára aðlögunartíma, eftir hálfan til einn áratug:
Fyrst framan af, meðan eldri orkusölusamningar væru að renna sitt skeið, væru almenn orkugjöld, er alls næmu um 120 ma. kr, tiltölulega lág gagnvart stórkaupendum (e.t.v. um 1 til 2 kr. pr. KWst x 15 ma. KWst = 20 ma. kr.), en þeim mun hærri af smásöluorku – heitu vatni, rafmagni og eldsneyti – (e.t.v. um 2 til 6 kr. pr. KWst x 25 ma. KWst = 100 ma. kr.) Að lítt breyttum dreifingarkostnaði myndi endanlegt smásöluverð til almennings og almenns atvinnurekstrar e.t.v. hækka um 30 til 70%, allt eftir nýtingu og flokkun á markaði.
Íslenskur orkumarkaður í hnotskurn – heildarvelta nú um stundir, í allra grófustu dráttum, um 250 ma. kr. – með miklum vikmörkum: Raforka til stóriðju, stórkaupenda: um 50 ma. kr. Heitt vatn og rafmagn til almennings og almenns rekstrar: um 80 ma. kr. Eldsneyti til almennings og almenns rekstrar: um 120 ma. kr.
Þeim mun frekar sem kolefnisgjöld (alls um 60 ma. kr.) leiddu til samdráttar í losun myndu einingaverð fara hækkandi, að óröskuðum gjaldstofni í heild. Þegar kolefnislosun væri að miklu leyti yfirunnin myndu gjöldin verða samlöguð almennum orkugjöldum.
Ný hreinorkuver fengju tímabundinn afslátt af almennum orkugjöldum á aðlögunartímanum, en ekki af umhverfisgjöldum (alls um 30 ma. kr.) – ekki frekar en aðrir umhverfisfrekir kostir – svo mishá eða lág sem gjöldin jafnframt væru, allt eftir áhrifum einstakra kosta á umhverfi og náttúru.
Að afnumdum öllum tekjusköttum, að tryggingagjaldi meðtöldu, myndi skólahald, heilbrigðisþjónusta, löggæsla, stjórnun og yfir höfuð flest almannaþjónusta lækka verulega í verði sem og flest vinna við viðgerðir og viðhald – bygginga, bifreiða, skipa, flugvéla og annarra hluta og tækja, og þá einnig fatnaðar, húsbúnaðar og margvíslegs manngerðs umhverfis. Ending myndi því batna til muna á flestum sviðum og afskriftartími þar af leiðandi lengjast – sama hvort róluvöllur ætti í hlut eða álver, þvottavél eða sími. Líkt myndi eiga við um margvíslega nýsmíði, framleiðslu og þjónustu sem ekki væri háð miklum orkukaupum eða slíkum hráefnum sem væru leidd af mjög orkufrekri vinnslu – að kostnaður myndi lækka, þar á meðal vegna vinnu við nýbyggingar af flestu tagi, við margvíslega vélsmíði, við framleiðslu matvæla og við allrahanda afgreiðslu, sölu og þjónustu, þ.á.m. við allflesta sérfræðiþjónustu, við fjölmiðlun, kvikmyndagerð, bókaútgáfu, íþróttastarf og listir.
Afkoma flestra þessara greina myndi batna til muna, á sumum sviðum verulega, og þá jafnframt kaupmáttur gagnvart þeim, en á hinn bóginn myndi m.a. heitt vatn, olía og rafmagn hækka í verði og hin ýmsu hráefni og verk sem leidd eru af mjög orkufrekri vinnslu og náttúrunotum.
Í stað tekjuskatts kæmu hin ýmsu gjöld fyrir not af náttúrunni. Þeim mun háðari sem atvinnurekstur væri jarðargróðanum og hinum ýmsu takmörkuðu náttúruhlunnindum og gæðum, þá bæri reksturinn hærri gjöld – kolefnisgjald, orkugjald, umhverfisgjald, veiðiréttargjald, veggjald, fasteignagjöld – allt eftir eðli og áherslum rekstrar. Samsvarandi gilti í raun um neytendur, einstaklingana, að því háðari sem þeir væru vöru og þjónustu sem beint og óbeint er leidd af orkufrekri eða mengandi náttúrunýtingu, allt eftir þeim lífsmáta sem hver og einn kysi sér, þá bæri hver og einn meiri álögur – beint og óbeint með kaupum sínum og viðskiptum. Eða á hinn bóginn, því fremur sem lífsmáti og neysla miðaði að orkunýtni og notum af lággjaldavöru og lítt skattlagðri þjónustu, þeim mun lægri væru álögurnar, þeim mun betri væri afkoman.
Með öðrum hluta þessa greinaflokks, Herragarðurinn – orkan og almúginn, gaf höfundur til kynna að með þessari grein, Herragarðurinn – óðal aðals eða orkúbú jarðarbúa?, mætti vænta lokahluta greinaflokksins. Umfangs efnisins vegna kýs höfundur þó að deila þeim hluta í tvennt og birta fremur lokin í sérstakri grein, Herragarðurinn – orkubú jarðarbúa, áður en mjög langt um líður.
Ítarefni:
- ÁBH: Orkupakki handa unglingum. Brautir, 2019 – með síðari tíma breytingum.