Hér er fram haldið frá fyrri grein, Herragarðurinn – og vér orkuaðallinn, er birtist í Kjarnanum 14. nóvember síðastliðinn. Fjallað hefur verið um megindrætti hins tekjudrifna skattkerfis, það er velferðarríkið hefur löngum átt allt sitt undir, og hins vegar um afleiðingar þess að fótunum væri bókstaflega kippt undan kerfinu. Skattinum væri þá þeim mun fremur miðað að orku og auðlindum jarðar, að sjálfum rótum velferðarinnar, en að ávöxtum velferðarinnar.
Fljótt á litið mætti ætla að í sama stað kæmi niður hvor skattstofninn væri. Svo er þó alls ekki, enda myndi velferðarríkið þá eigi lengur skattleggja svo mjög sjálft sig – sem sagt nærast á eigin skinni, á eigin velferð sinni – að tekjudrifnu skattkerfinu aflögðu, heldur fyrst og fremst hafa tekjur af gjöldum fyrir margvísleg orku- og náttúrunot, og þá einmitt ekkert síður þróunarríkið eða nýmarkaðsríkið, skattlendan eða gamla hjálendan eða nýlendan – í sínum margvíslegu nútímamyndum.
Hver er annars eiginlegur skattstofn velferðarríkisins, er nærist ekki bara á eigin skinni (svo skammgóður vermir sem það nú er) heldur byggir tilveru sína ekki síður á vöru- og þjónustuskiptum við almúga út um allan heim, er yfirleitt má láta afurðir sínar af hendi á lægsta mögulega verði í skiptum fyrir ofurskattlagðar afurðir velferðarþegnanna? Einmitt ekki svo ólíkt – á sinn þó gerólíka tæknimáta – og til að mynda einkenndi milliríkjaviðskipti á tímum Rómaveldis og jafnvel hins enn fornara heimsveldis Alexanders mikla.
Ræturnar svo á hinn bóginn að finna í gagnkvæmum vöru- og þjónustuviðskiptum velferðarþegnanna sjálfra, þar sem tekjuskattur myndar yfirleitt drýgstan hluta afurðaverðs alls þess sem mannshöndin kemur nálægt, jafnt til heimabrúks sem og þá að sjálfsögðu einnig til útflutnings– þá einmitt í skiptum fyrir fjöldaframleiddan lágverðsinnflutninginn, vart með hinum minnsta skatteyri af launum eða rekstri fólgnum í útflutningsvirði láglaunaríkisins, hvað þá heldur af nýttri orku eða af hráefnum – nema reyndar af olíu. Hvað þá að kolefnisgjöld á hinum ýmsu framleiðslustigum telji í skásta falli nema lítið brotabrot heildarvirðisins.
Þeim mun ríkulegri er þá tekjuskatturinn af öllum virðisaukanum – af launa- og rekstrartekjum sem eru leiddar af margvíslegri umsýslu með innflutningsafurðirnar í velferðarríkinu, auk sjálfs virðisaukaskattsins, að sjálfsögðu, auk þess sem drýgsti hluti hönnunar og markaðssetningar lágverðsafurða láglaunaríkisins er gjarnan á hendi velferðarríkisins fyrst og fremst og því skattlagður þar.
Orku- og auðlindadrifið skattkerfi hamlar hins vegar gagngert gegn sólundun orku og annars náttúruauðs, gegn umhverfisspjöllum og ómældum koltvíildisauðgandi fríðindunum er löngum hafa verið leidd af náttúrugæðum út um allar jarðir undir hinu viðtekna, tekjudrifna skattkerfi. Enda væru tekjur hins opinbera þá einmitt ekki síst leiddar af allrahanda sóun orkunnar og náttúruauðsins, af allri ofgnótt fríðindanna, en þeim mun miklu síður af erfiði alls almúgans, þess hluta jarðarbúa er upp til hópa aflar sér lífsviðurværis í sveita síns andlits, sumir jafnvel baki brotnu.
Það er að vonum að António Guterres hafi ekki fengið nema 4 Likes, nú þegar hartnær fjórir mánuðir eru liðnir síðan hann birti grein sína um Brýnasta erindi heimsins í Stundinni þann 10. desember s.l. Enda hlýtur flest annað að vera brýnna að áliti oss orkuaðalsins en að vér látum oss líka við slíka framtíðarsýn sem er þungamiðjan í boðskap aðalritarans: "Það er kominn tími til að verðleggja kolefni," segir hann. "Binda verður enda á niðurgreiðslur jarðefnaeldsneytis. Stöðva verður byggingu nýrra kolaorkuvera. Færa verður skattbyrðina frá tekjum yfir á kolefni, frá skattgreiðendum til þeirra sem menga."
Vægi hug- og handverks – á vogarskálum auðlindagróðans
Tekjuskattar leggjast sannarlega af mestum þunga á þær greinar sem eru í senn mannaflsfrekar og lítt orkukrefjandi. Þeim mun minni eru hins vegar skattgjöld hinna orkufrekari greina og vinnuaflsfátækari – og hin samfélagslega ábyrgð þeirra greina þá að sama skapi miklum mun naumari. Enda er skattbyrðin fyrst og fremst borin af fjöldanum öllum sem starfar við uppfræðslu og menntun, við heilbrigðisþjónustu, við stjórnsýslu og alls kyns sérfræði, við forritun, við gagnaöflun og gagnamiðlun, við fjarskipti og fjölmiðlun, við hönnun og listir, við verslun og þjónustu, við alls kyns sérsmíði og raðsmíði, við hug- og handverk af öllu tagi – í stuttu máli sagt, við allrahanda þjónustu og verk til viðhalds samfélögum í bráð og lengd...
Tekjuskattar launþega og rekstrartekjuskattar lögaðila (að meðtöldum tryggingagjöldum) mynda til samans langmestan hluta opinberra gjalda af heildartekjum rekstrar. Því tæknivæddari og orkufrekari sem rekstur er, þá er vægi vinnuafls og opinberra gjalda í heild miklum mun lægra. Auðlindagróðinn er þá þeim mun meiri og skattfríðindin af nýrri fjármunamyndun, hinni skattafrádráttarbæru ávöxtun gróðans. Tekjuafgangur hinna vinnuaflsfrekari greina er þá á hinn bóginn minni sem nemur vægi mannauðsins og skattarnir eftir því þungbærari og þar af leiðandi fjármunaskorturinn, njóti þær ekki beinlínis náðarsamlegra styrkja – persónuafsláttar í drjúgum mæli, núllskatts eða lægstu skattþrepa virðisauka eða annarra niðurgreiðslna þaðan af meiri eða minni, bítandist og um sérúthlutaða styrki á forsendum menningarlegs gildis eða göfgi starfsgreina. Líkt og hundurinn Tobíasar Mindernickels mátti ýmist þola höggin húsbónda síns eða gælur. Hinar ýmsu drottins útvaldar sérgreinar þó ávallt aðnjótandi góðs atlætis auðlindagróðagreinanna.
Sannarlega fleytir skattlaus orkuaðall rjómann. Hráefni og auðlindir jarðar mynda höfuðstól gróðans enda leitar fjármunamyndunin þangað þar sem skattfríðindin eru mest – eðlilega eigi líkt og klárinn þangað sem hann er kvaldastur. Móðir Jörð er mjólkuð til þrautar, með því hugarfari að sælla sé að þiggja en gefa til baka, enda njóta vissulega ófáir orkunnar, nær takmarkalausra orkufríðindanna. Eru þeir þó miklum mun fleiri sem hafa afskaplega fátt af auðgi og orkunytjum jarðar að segja, stritandi í sveita síns andlits við misjafnt atlæti og undanrennu, nema að svo vilji þó til að þeir framleiði hinar orkuríkustu afurðir og neysluvarning úr hráefnum hennar og auðlindum, orkufrekri hirð aðalsins til nytja og afnota, auðgandi þó alltént koltvíildishjúp jarðar.
Það er meginregla um allan heim að kostnaður rekstraraðila kemur til frádráttar heildartekjum áður en álagning rekstrartekjuskatts kemur til álita. Ekki er þá einungis kostnaður við vinnuafl og orku frádráttarbær heldur nánast allt, einungis svo lengi sem skattheimtumaður gerir ekki athugasemdir – sem gerist afar sjaldan og þarf þá mikið að koma til. Fátt er því arðvænlegra og vænlegra til sigurs í samkeppni en að nota afgang (hagnaðinn) af reglulegum rekstri, gjarnan með tilstyrk hæfilegra eða þeim mun meiri lántaka, til eflingar slíkri tækni sem minnstan kostnað ber, sem minnsta skatta af vinnuafli og rekstri, til framtíðar litið.
Á flestum sviðum er rekstur því dæmdur til vaxtar með sem allrar minnstrar byrði skatta, ella fer hann halloka í samkeppninni og hlýtur að lokum að verða undir. Forsendur samkeppninnar eru því fólgnar í fjárfestingum er miða að sem minnstri samfélagslegri ábyrgð, enda er það fyrst og fremst skattlaus orkuaðallinn sem keppir um gróðann.
Augljóslega hlýtur nýliðun að eiga undir högg að sækja í slíku umhverfi, enda nýgræðingar nánast dæmdir til skattaáþjánar og vonlausrar keppni við risaeðlurnar sem hreiðrað hafa um sig í skattaparadísum jarðar, hikandi ekki við að neyta aflsmunar ofureflisins er hið skattalega ríkisvald út um allar jarðir hefur ljáð þeim, svo gróflega mismunandi þegnum sínum. Áskotnast reyndar sífellt fleirum ofureflið í vöggugjöf, lítandi freklega á það sem guðsgjöf er eigi verði því frá þeim tekin, ekki frekar en hver önnur silfurskeið meðfædd í munni til að rappa með.
Sama þótt smáatvinnurekandi skrifi klósettið heima hjá sér og handlaugina á reksturinn, flest heimilistækin, sófasettið og 90% útgerðar einkabílsins, auk drýgsta hluta ferðalaga, fæðis og klæðis, þá má hann sín einskis gagnvart ríkustu bræðrum sínum og systrum í syndinni sem hika ekki við að reka einkaþotur sínar, Manhattanhæðir og lystisnekkjur undir alls kyns höttum fyrirtækja og dótturdótturfyrirtækja og komast upp með það, ekki síst með endalausum millifærslum úr einum stað í annan, með endalausum millilendingum heimsálfanna á milli og aflandseyjanna, en við stjórnvöl bókhaldsvélanna sitja löggiltir endurskoðendur og skattalagasérfræðingar makandi krókinn, kjamsandi á nýgræðingum í bónus.
Þotunum er flogið undir yfirskini viðskiptaferða, sama hve skemmtunin er mikil, þotuliðsins um borð, út um allar jarðir. Sem og rekstur snekkja og glæsibýla færður sem hreint tap undir yfirskini skorts á leigutekjum, enda leigan yfirleitt reiknuð við fátækramörk, og allt tapið að lokum fært til frádráttar opinberum gjöldum í bókum móðurfélags, alls burtséð frá raunverulegu ríkidæmi félags – ríkidæmi eigendanna. Sem og rekstur einkabifreiða, laun einkabílstjóra, þjórfé, hóteldvalir, málsverðir, endalausar ráðstefnur til yfirdreps, gleðskapur og veislur. Skrattanum ávallt skemmt á bókhaldslegan kostnað skattsins – samfélagsins sem má blæða fyrir fríðindin.
Samfélagsleg samábyrgð
Með orkudrifnu skattkerfi og afnámi tekjuskatta missa gróðamyllur aðalsins mátt sinn og megin. Forréttindi orkugreifa eru þá að sjálfgefnu afnumin, jafnt sem greifynjanna, enda mynda þá sjálf orkunotin – öll hagræn nýting náttúrunnar, nýting auðlinda jarðar – meginskattstofninn. Gildir þá raunar einu hvað á í hlut, málmbræðsla eða ræktun jarðarinnar, ráðstefnuhald eða rafmagnaðir tónleikar, auðlindakvótabrall, kaup á þotu, báti eða bíl, kaup á heitu vatni, raforku, olíu eða vetni eða bara kaup á salti í grautinn – öll orku- og náttúrunot á öllum stigum rekstrar jafnt sem á öllum stigum neyslu færast til opinberra gjalda, allt eftir vægi hagnýtingar, notkunar og neyslu – og vægi mengunar, þó nú væri – allt frá rótum.
Skipting heildartekna rekstrar, framleiðslu- og þjónustuvirðis í heild sinni, er þá aftur á móti alfarið og eingöngu háð tvíhliða samkomulagi launagreiðenda og launþegahreyfingar, án skattalegrar íhlutunar hins opinbera. Væru enda allir ársreikningar uppi á borðum og kauphallarviðskipti öllum opinber, sem og skattskil og ofurorkureikningar. Undanskot skatta af tekjum heyra þá eðlilega sögunni til, enda hlýtur slíkur verknaður að vera merkingarlaus í tekjuskattsfríu hagkerfi. Opinbert skattaeftirlit snýr þá fyrst og fremst að eftirliti með afnotagjöldum vegna orkunota og annarra hagrænna nota af náttúrunni, þ.á.m. vegna fasteigna, mannvirkja af öllu tagi og samgangna, auk hefðbundins eftirlits með greiðslu vörugjalda, virðisaukaskatts, lífeyrisgjalda o.fl. En skattaskjólin væru þá að sjálfgefnu jafn berstrípuð og skjólstæðingar þeirra.
Heildarrekstrarreikningur allra greina lækkar sem nemur afnámi tekjuskatta en orku- og náttúrugjöld leiða aftur á móti til hækkunar. Álögur í heild lækka mest á meðal hugverks- og handverksgreina en hækka hins vegar þeim mun fremur sem greinar eru háðar ofurorku, ofurtækni og miklum náttúrunotum – og þá ekki síst mengun. Virk samkeppni leiðir þá til verðlækkunar á útseldri vinnu og útseldum verkum hug- og handverksháðustu greinanna, jafnt einkarekinna sem af hinu opinbera, en almennt til hækkunar á afurðaverði hinna orkuháðustu greina – hvað þá mengun háðustum. Afurðaverð greina sem eru miðlungi háðar hug- og handverki og miðlungi háðar orku og náttúrunotum mun hins vegar haldast nokkuð svipað, enda mun afnám tekjuskatta þá nokkurn veginn vega á móti hækkandi orku- og náttúrugjöldum.
Opinber rekstur er almennt lítt háður orku og miklum náttúrunotum en er þeim mun háðari margvíslegu mannafli – hugverki og handverki. Útgjöld hins opinbera lækka því verulega undir orkudrifnu skattkerfi, svo mjög sem þá dregur úr sköttum er hið opinbera leggur á sjálft sig, á sitt eigið skinn, enda starfsmenn og verktakar þess á hinum ýmsu stigum, jafnt sem hverjir aðrir, þá lausir undan tekjusköttum. Þar af leiðandi minnkar til muna reikningsleg hlutdeild hins opinbera í heildarvirði lands- og heimsframleiðslu.
Skyldi þó ekki síður til þess líta, hve orku- og náttúrugjöld hvetja til þeim mun meiri sparnaðar sem framleiðslu- og þjónustusvið eru orkufrekari, og þá einmitt yfirleitt mannaflsfátækari.
Reikningsleg mælistika landsframleiðslu í heild mun því skreppa þeim mun frekar saman undir orkudrifnu skattkerfi sem vægi hins opinbera er meira og þjóðfélagsreksturinn í heild er ofurorkudrifnari – en raunvirði og skilvirkni allrar framleiðslu og þjónustu, einkarekinnar jafnt sem opinberrar, eykst þeim mun fremur með vaxandi nýtni orkunnar og hagfelldari náttúrunotum, enda er náttúran þá ekki lengur ókeypis, né þá heldur mannaflið, hug- og handverkið, tekjusköttum þrúgað.
Þó að taflan ORKUDRIFIÐ SKATTKERFI í fyrri grein (sbr. mynd þar nr. 6) feli í sér óbreytta niðurstöðu vergrar heimsframleiðslu (GDP) frá töflunni TEKJUDRIFIÐ SKATTKERFI þar fyrir ofan (sbr. mynd þar nr. 5), þá er það einungis sett svo fram til mikillar einföldunar. Í reynd myndi orkudrifið skattkerfi fela í sér mun lægri reikningslegar niðurstöður framleiðslu og þjónustu en þar er lýst, enda myndi hið opinbera langt í frá skattleggja sjálft sig svo ákaflega undir orkudrifnu skattkerfi sem raun ber vitni undir hinu klassíska, tekjudrifna kerfi.
Það er ekki síst fyrir áhrif af þessum sköttum og gjöldum er hið opinbera leggur á sjálft sig, á sín eigin útgjöld, að verðlag er almennt þeim mun uppskrúfaðra sem hagkerfi eru þróaðri. Hið opinbera, þessi langstærsti greiðandi opinberra gjalda um flestar jarðir, a.m.k. í öllum velferðarríkjum, nærist sem sagt þeim mun fremur á eigin skinni sem velferðarbúskapurinn er þróaðri.
Með afnámi tekjuskatta hverfur þetta innistæðulausa hringsól fjárstreymis um fjárhirslur hins opinbera að miklu leyti, með þeim afleiðingum að reikningsleg landsframleiðsla lækkar að tölugildi til mikilla muna, reyndar með auknu raunvirði og meiri skilvirkni allrar framleiðslu og þjónustu, einkarekinnar jafnt sem opinberrar, undir hinu orkudrifna skattkerfi – svo sem höfundur lýsir m.a. í greininni Orkupistill handa hagfræðingum, í Kjarnanum 23. nóvember 2019. Með Ísland fyrir dæmi er þar sýnt fram á að undir orkudrifnu skattkerfi myndi 3.000 milljarða króna landsframleiðsla skreppa saman um fjórðung að tölugildi, gróft á litið, enda stæði hið opinbera þá eigi lengur í skattalegu stríði við sjálft sig né heldur væri nokkur annar rekstur þvingaður í slíka þumalskrúfu skatta sem leggjast á skatta og aftur skatta, svo sem leiðir af hinu tekjudrifna skattkerfi.
Þeim mun vanþróaðri sem hagkerfin hins vegar eru, og laun þar með lægri og skattar hlutfallslega enn lægri, því síður gætir þessara áhrifa skattaskrúfunnar – en velferðarkerfin eru þá þeim mun veikari, eðli máls samkvæmt. Með auknum gjöldum af orku- og náttúrunotum í vanþróuðum löndum og þá með samsvarandi aukinni tæknivæðingu og aukinni samneyslu, færi velferðin jafnt og þétt vaxandi, en í þróuðustu neysluríkjum myndu tiltölulega há gjöldin á hinn bóginn stemma stigu við ofgnótt neyslunnar og þar af leiðandi, með sífellt bættri nýtingu á afurðum náttúrunnar, fara lækkandi.
Forsendur velferðarbyltingarinnar
Velferðarbúskapur meðal mannkyns á rætur sínar að rekja til jarðefnaeldsneytis fyrst og fremst og gríðarlegrar sóunar á hráefnum jarðar. Fyrir tíma iðnbyltingar var ákaflega lítið til skiptanna nema á meðal fámennrar yfirstéttar sem réði yfir rentunni af gróðri jarðar. Sólarorkan var uppspretta nær alls vaxtar en vindorka og fallvatnsorka nýttust þó til að knýja hinar ýmsu myllur og vélar, reyndar fyrir frumafl sólarinnar.
Framleiðni vinnuafls – verðmætasköpun starfa í hinum ýmsu atvinnugreinum – var á flestum sviðum háð þjálfuðu handverki og afli vinnudýra, auk þess sem áorkað var með vindinum og vatnsaflinu á fáeinum sviðum. Hugverksiðja var löngum nær einvörðungu í höndum fjölmennrar prestastéttar og munka en bókhaldarar og skrifarar héldu annars fjöðurstöfum verslunarverks og stjórnsýslu gangandi, auk þess sem fáeinir menntamenn lögðu af mörkum undir handarjaðri aðalsins.
Það er fyrst með prentbyltingunni undir lok miðalda að hugverk öðlast sess sem slíkt skapandi afl að um munar, jafnvel svo að kirkjulegu valdi er ógnað og trúarbrögðum svo og siðum að hrikta tekur í stoðum ansi harkalega. Og rak þá brátt hver byltingin aðra, blæðandi prentsvertu, svita og tárum, menningarheima á milli. Vísindabylting leiðir af sér upplýsingabyltingu, bylgju þekkingarstrauma sem bornir eru uppi af sífellt þróaðra prentverki sem stuðlar að útbreiðslu tækniþekkingar er leiðir til iðnbyltingar er hraðar svo þróun prentverksins að öll önnur tæknisvið blikna. Þetta er þróun sem enn sér ekki fyrir enda á – þróun frá æ hraðvirkara pappírsprenti til æ hraðvirkara skjáprents, til æ gervigreindari hugbúnaðar og byltingarkenndari sýnar.
Samt hefur iðnbyltingin sneytt hjá svo stórum hlutum heimsbyggðarinnar að velferðarbúskaparins gætir þar vart enn. Netsamskipti eru engu að síður möguleg nær alls staðar og upplýsingar streyma óheftar um allar jarðir. Engum dylst því lengur hve orkunni er misskipt né hve afleiðingarnar af skefjalausri notkun hráefna og jarðefnaeldsneytis eru dýrkeyptar – og þó einkum þeim skaðvænlegar sem minnstrar orku neyta, svo miklum mun tryggari er lífsafkoma þeirra sem sóa henni. Ber þá sjálfur orkuaðallinn síst skarðan hlut frá borði, enda fela hin hagfræðilegu trúarbrögð í sér slík sjálfgefin fríðindi að fjöldinn allur hinna orkuríkustu skyldi hólpinn verða – svo lengi sem trúarbrögðum ekki verður bylt og kirkja orkuátrúnaðarins kollvarpast.
Eilífðarvélarnar – og kolefnisforðinn í jörð
Aflgjafar eru þeim mun sjálfbærari sem þeir útheimta minna af forgengilegri vinnu, orku, þeim til viðhalds – og endurnýjunar. Eilífðarvélar á borð við tunglið, helsta aflvaka sjávarfallanna, og sólina, sem knýr jafnframt vinda og regn og ljóstillífun, krefjast engrar utankomandi orku, ekki frekar en jörðin á sinn hátt, að því leyti að hún býr yfir innri eilífðarorku sem leiðir af sér allrahanda varmavirkni og jarðhræringar og ummyndanir jarðskorpunnar.
Það eru vissulega samverkandi eilífðarkraftar þessara hnatta þriggja – sólar og jarðar fyrst og fremst og þó einnig tunglsins – sem stuðlað hafa hver og einn á sinn hátt að tuga og hundraða milljóna ára ferlum gríðarlegrar bindingar orkuríkra kolefna í jörð, þó að mjög misjafnlega hafi kraftanna gætt.
Menn hafa samt sýnt fram á með kröftum sínum að þetta eru í rauninni mjög auðlosanlegar birgðir og alls ekki svo gríðarlegar, þannig séð, hvað þá heldur að þær hlytu að vera bundnar þarna til eilífðarnóns. Hafa menn beinlínis sannað óumdeilanlega, einkum og sér í lagi fyrir gríðarlegan hvata hinna skattalegu fríðinda, að einungis á einum mannsaldri má hæglega klára drýgsta hluta þess sem nú eftir leifir af nýtanlegum kolefnisforða, og aðgengilegasta hlutann reyndar á fáeinum áratugum – og þá auðga jafnframt svo lofthjúp jarðar af koltvíildi að ógni ekki einungis lífsskilyrðum heilu kynslóða manna til langrar framtíðar litið heldur einnig afkomu heilu lífríkjanna á jörð.
Lánist mönnum hins vegar að beisla afl og sjálft gangverk eilífðarvélanna án mikillar fyrirhafnar, án mjög forgengilegrar vinnu og mikils landrýmis, þá uppskera þeir þeim mun varanlegra afl og því lægri raunafskriftir sem minni krafta er þörf til viðhalds aflstöðvunum.
Virkjun kjarnasamruna kann þó með tíð og tíma að skapa slíkt afl og gnægtir hreinnar orku að vart verði mikilla annarra eilífðarkrafta þörf. Ekki fremur en að meira landrýmis muni þá verða þörf undir hverja orkustöð en krafist er nú undir kolaorkuver samsvarandi að afli. Aftur á móti er þéttleiki samrunaorkunnar, orkunnar sem losnar við samruna þungavatnseinda (sem eru efnasamband tvívetnis og súrefnis) og þrívetniseinda, margmilljónfaldur á við kolabruna. Landnot og náttúruspjöll af völdum hráefnisöflunar eru því hverfandi samanborið við kolanámið, hvað þá að líkur séu á þurrð hráefna til myndunar á vetnissamsætum fyrr en að liðnum svo mörgum milljónum eða milljörðum ára að raunar má jafna til heillar eilífðar.
Það er á hinn bóginn ægi dýrt umbreytingarferlið frá hráefnum til samruna, áður en samrunaorku verður umbreytt í rafmagn eða á annað meðfærilegt orkuform, svo vanþróað er ferlið enn. Hefur fjármagnsskortur hamlað þróuninni um langa hríð, enda rennur drýgsti hluti fjárveitinga jafnharðan til baka í fjárhirslur fjárveitingavaldsins. Svo þungir eru tekjuskattarnir, refsivöndurinn sem allar þær greinar mega við una er sinna ofurnákvæmum fræðum og frumgerðasmíði – hinu dýrasta hugverki og handverki – nema að þær séu vaxnar af svo gildum meiði auðlindagróðagreinanna að njóti hins besta atlætis til mótvægis. En þess er þá og sjaldnast langt að bíða að fjáraustur til smíði frumgerða skili sér í þeim mun skattfrírri afurðum og ofurgróða og ómældum koltvíildisauðgandi fríðindum.
Skattarnir, framleiðnin, varanleikinn, aðalsfríðindin og koltvíildisauðgun jarðar
Framleiðni í mjög orkuháðum greinum er gríðarleg – og í afleiddum greinum – enda liggja þar flestar rætur efnahagslegrar hagsældar og þar af leiðandi velferðarbúskaparins jafnframt. Fyrir hvern tug, hvert hundrað eða þúsund handa sem verkferli kröfðust í hinum ýmsu afkastagreinum fyrir áratugum og öldum er nú vart þörf nema fáeinna á fjölmörgum sviðum og á sumum varla nokkurra handa vant – og þó þeim mun fleiri fingra á lyklaborði sem sjálfvirkni er meiri og handarverkin vélmenna.
Öll skilvirkni er hins vegar þeim mun dýrkeyptari sem hráefnum og framleiðsluorku hefur verið sóað hraðar á kostnað viðhalds og varanleika hlutanna, enda vex viðhaldskostnaður í beinu hlutfalli við vægi vinnuaflsskatta í tekjudrifnu skattkerfi – og þá jafnframt í réttu hlutfalli við skattfríðindin sem eru leidd af orku- og hráefnasóuninni, orkuaðlinum til hagsbóta og allri hirðinni. Ending hlutanna, sem ræðst ekki síst af reglulegu viðhaldi, hefur því verið þeim mun slakari sem orkufríðindin eru meiri og koltvíildisauðgunin skefjalausari.
Orkudrifið skattkerfi hvetur aftur á móti til jafnvægis milli framleiðni og endingar og felur raunar í sér hvata til sparnaðar á báða bóga. Það stuðlar annars vegar að sjálfbærum jafnt sem arðbærum náttúrunotum – enda leiða orku- og náttúrugjöld til minni orkunota og betri nýtingar auðlinda – og hins vegar að þeim mun betra viðhaldi hlutanna sem skattar á tekjur eru lægri, sem er einmitt frumforsenda varanleika og hægari afskrifta. Og þeim mun vandaðra sem viðhaldið er og varanleikinn meiri, þá minnkar þörfin á nýrri fjármunamyndun, sem aftur leiðir af sér minni þörf á fé til fjárfestinga, og þar með til lækkunar á vöxtum.
Fyrir hvern þann tíma sem hlutur eða afurð endist eða nýtist betur – afskrifast hægar – þá varðveitist innbyggð, hlutbundin orkan (embodied energy) lengur – og fjármagnið – sem upphaflega var varið til framleiðslunnar, auk þess ekki síður sem lægri vaxtabyrði nemur. Það viðhald varanleikans sem orkudrifið skattkerfi felur í sér, leiðir því til þeim mun minni orkunota og betri auðlindanýtingar sem notagildið varðveitist lengur, auk ómælds rekstrarorkusparnaðarins sem orku- og náttúrugjöld leiða jafnframt til á öllum sviðum.
Afnám tekjuskatta mun hafa lítil áhrif til lækkunar á markaðsvirði olíu, kola og jarðgass, enda er framleiðni á flestum vinnslusviðum jarðefnaeldsneytis með mesta móti og drifkraftar skattalegs hagræðis því eigi litlir, en á hinn bóginn munu verðhækkunaráhrif hárra kolefnisgjalda veikja svo samkeppnishæfni skaðvænlegrar orku að endurnýjanlegir orkugjafar munu öðlast æ meira vægi á flestum sviðum.
Mun þá einmitt koma í ljós að það eru fyrst og fremst háir tekjuskattar sem um langa hríð hafa hamlað þróun og nýsköpun á flestum sviðum hreinnar orku og beinlínis staðið í vegi fyrir jákvæðri orkuþróun í heiminum. Svo algjörra yfirburða hefur óhrein orka notið á forsendum langvarandi skattalegra fríðinda, raunar svo að ofgnótt fríðindanna hefur verið alveg í réttu hlutfalli við skaðræðið sem af þeim hefur leitt.
Hvers megnug er þá sólarorkan, sjávarorkan, vindorkan, fallvatnsorkan, varminn í jörð og lífræn orkan – samanborið við aðalsfríðindin og koltvíildisauðgun jarðar?
Fallvatnsvirkjanir hafa verið helstu aflgjafar hreinnar raforku um aldarskeið. Hefðbundið lífrænt eldsneyti, svo sem eldiviður, mór og tað, hefur annars talið drýgsta hluta endurnýjanlegrar orku um þúsaldaskeið (að svo litlu leyti sem hefur þó endurnýjast), auk þess sem í síauknum mæli í seinni tíð eldsneyti með rætur í lífmassa af ræktarlandi hefur talið.
Nemur hlutur fallvatnsorku nú rétt um 2,7% af um 160 þúsund terawattstunda frumorkunotum jarðarbúa en hlutfallið var um 1,8% fyrir 50 árum og um 0,3% fyrir öld þegar frumorkunot í heild sinni voru um tífalt minni. Lífræn orka telur hins vegar um sjö hundraðshluta, svo sem áður hefur verið getið, en hlutur hennar nam um 10% orkunotanna um síðustu aldamót, um 50% árið 1900 og um 98% við upphaf iðnbyltingar undir lok 18. aldar þegar frumorkunot jarðarbúa námu um 5 til 6 þúsund TWst.
Hlutur vind- og sólarorku hefur farið ört vaxandi á síðustu árum og telur þó einungis um einn af hundraði frumorkunotanna, frá því að vera vart teljandi um síðustu aldamót. Framleiðslukostnaður rafmagns frá sólaraflstöðvum hefur fallið mjög hratt á síðustu árum, svo að sífellt hefur nálgast kostnað við orkuframleiðslu vindaflstöðva, sem jafnframt hefur lækkað verulega. Um þessar mundir má gera ráð fyrir að vegið heimsmeðaltal framleiðslukostnaðar raforku frá nýjustu vindorkuverum á landi og sólarorkuverum er byggja á ljósspennu (photovoltaic PV, en ekki á varmageislun, Concentrating solar power CSP) sé orðið nokkuð áþekkt, á bilinu 4 til 5 dollarasent, og þá jafnframt að meðaltalið sé orðið nokkuð svipað eða lægra en samsvarandi vegið kostnaðarverð orku frá nýjum vatnsaflsvirkjunum. (Línurit hér að neðan – sjá nánar, á bls. 18: The International Renewable Energy Agency IRENA: Transforming the energy system 2019)
Vegið meðaltal og þróun kostnaðar við endurnýjanlega raforkuvinnslu – í dollurum talið á framleidda kílówattstund. Línuritið er byggt á kostnaðargögnum fyrsta framleiðsluárs allra helstu nýrra raforkubúa í heiminum á árunum 2010 og 2018 – þá að meðtöldum fjármagnskostnaði en án opinberra gjalda og án dreifingarkostnaðar. Stærð depla lýsir uppsettu afli hvers orkubús og staða hvers depils á grafi framleiðslukostnaði bús. Strikin sýna þróun vegins meðalkostnaðar (levelized cost of energy, LCOE) frá 2010 til 2018, lækkandi á öllum orkusviðum nema á sviði jarðvarma og vatnsorku. Til samanburðar lýsir skyggði borðinn þvert yfir grafið samsvarandi kostnaðarbili raforku frá hefðbundnum orkuverum jarðefnaeldsneytis – fyrst og fremst jarðgass og kola – frá lægsta verði (um 0,05$) til hæsta verðs (um 0,17$) á kílówattstund.
Þrátt fyrir hverfandi lítið kolefnisspor af völdum fallvatnsorku og vind- og sólarorku, samanborið við jarðefnaeldsneyti, og þeim mun léttari spora af völdum lífrænnar orku sem kolefnishringrás ræktunar og orkuneyslu kann að vera í jafnvægi, þá er heildarvægi þessara orkugjafa margvísleg takmörk sett, einfaldlega vegna þess hve virkjun og hagnýting þeirra er yfirleitt náttúrufrek og oft háð þröngum landfræðilegum kostum. Hreinn virkjanakostnaður segir því sjaldnast nema hálfa sögu, sama hvort hefðbundin gjöld og dreifingarkostnaður væru meðtalin, enda eru margslungin áhrif á samfélag og náttúru yfirleitt að mestu látin ótalin, á sinn hátt líkt og fórnarkostnaðurinn vegna koltvíildisauðgandi fríðindanna er yfirleitt vantalinn.
Það vatnsafl sem nú þegar hefur verið virkjað í heiminum nálgast sífellt lækkandi þolmörk nýtanlegrar fallvatnsorku, ekki síst af völdum síaukinna krafna um náttúruvernd. Svo eftirsótt er víðfeðm, óspillt náttúra einfaldlega orðin, hvað sem líður fræðilegum jafnt sem tæknilegum virkjanleika. Og jafnvel þó að menn hættu að neyta landbúnaðarafurða en legðu allt ræktanlegt land á jörðinni undir lífræna eldsneytisframleiðslu þá myndi uppskeran vart mæta nema hluta heildarorkuþarfar tæknivædds mannkyns, hvað sem menn kynnu svo að vilja eta í staðinn. Svo afar hæg er náttúruleg nýting sólarorkunnar, frumaflsins að baki ræktunarferlunum, þrátt fyrir allrahanda véltækni, áveitur og áburðargjöf manna.
Líftæknileg ræktun örþörunga (microalgae biotechnology) kann vissulega að skila margtugfaldri uppskeru á flatareiningu á við venjulega vinnslu lífeldsneytis, án þess þó að keppi endilega við hefðbundinn landbúnað um ræktarland – né þá heldur um fosfór og vatn, svo fremi að ræktunin byggi á hringrásarvinnslu og endurnýtingu skólps og næringarefna. Ella kann keppni um fosfór, sem myndar eina helstu stoð nútímaræktunar um alla jörð – auk vatnsins – ekki einungis að harðna enn frekar og verðið á fosfór að stíga enn hraðar en það gerir nú þegar, m.a. vegna vegna framleiðslu venjulegs lífeldsneytis, heldur myndi hinn aðgengilegi hluti heimsforðans jafnvel klárast fyrr en nú stefnir í með forða jarðefnaeldsneytis.
Endurvinnsla myndi aftur á móti seinka þrotaferlinu og ekki síður hamla æ vaxandi ofauðgun hafa og vatna af völdum ofgnóttar og úrgangs næringarefna. Örþörungar er nærðust á áburðarleifum, skólpi og búfjárúrgangi, auk gróðurhúsalofttegunda frá búskap og iðnaði, gætu jafnvel jafnað svo metin að vinnsla orku og næringarefna úr blómanum beinlínis lengdi endingartíma fosfórsforðans. Langur vegur rannsókna og þróunar lægi þó slíku endurvinnsluferli til grundvallar – og þó þeim mun skemmri sem þróunarstarfið væri fyrr leyst úr fjötrum skattaáþjánar. Slík endurvinnsla næmi samt einungis litlu broti af orkuþörf jarðarbúa en bætti þeim mun fremur nýtingu næringarefna.
Vinnsla jarðvarma lýtur í raun eðli námavinnslu – á sinn hátt líkt og vinnsla jarðefnaeldsneytis og frumvinnsla fosfórs úr bergi – og þá því frekar sem orkunámið er öflugra, mælt á hverja flatareiningu virkjaðs svæðis, svo hægt endurnýjast varminn í jörð. Svo slök er jafnframt nýting virkjaðs jarðvarma við raforkuvinnslu að drýgsti hluti varmans hverfur yfirleitt óbeislaður út í andrúmsloftið. Hætta á hliðarverkunum á borð við skjálftavirkni og breytingar á grunnvatnsstöðu af völdum varmanáms og dælingar er líka þeim mun meiri sem orkuvinnsla er öflugri og langvinnari, auk áhættunnar sem bundin er náttúrulegum jarðhræringum á mjög heitum svæðum. Þá valda víðtækar jarðvarmavirkjanir verulegum sjónrænum áhrifum og margvíslegu raski á náttúrunni, ekki síður en hinir ýmsu aðrir virkjanakostir.
Andstætt við jarðvarma þá endurnýjast aflið sem fólgið er í sjávarföllum og straumum afar hratt, sem leiðir aðallega af nær eilífum snúningi jarðar um sjálfa sig og gagnverkandi kröftum tungls og sólar á jörð. Fræðilega séð væri gerlegt að afla verulegrar sjávarorku víðsvegar með ströndum álfa og eyja heims en hins vegar eru flestar tæknilegar lausnir og hugmyndalegar útfærslur afar vanþróaðar, enda telur virkjað sjávarafl einungis örlítið brot af allri heild.
Þó að þvera megi orkumikla firði og flóa og raða rafhverflum í garðana, hvað sem líður náttúrulegri ásýnd, eða sökkva sæmyllum á kaf í straumþung sund og straumþungar rastir eða á hinn bóginn fleyta megi rafhverflum út á kvikustu höf í öldukeflum eða virkja lóðréttan hitamun sjávar, þá eru flestar þessara orkubúskaparlausna ekki einungis flóknar og dýrar í framkvæmd og ekki síður langsóttar, heldur eru áhrifin á sjávarlífríki og náttúru alls ókönnuð.
Svo dreifð sem sjávarorkan er í flestu tilliti þá er hún þó einmitt þéttust þar sem straumþunga mest gætir eða ölduhæðar eða mikils hitamunar og eru skilyrðin því sannarlega ekki síður ákjósanleg búskaparsvæði sjávarlífvera af ótalmörgu tagi, svo sem veiðimönnum hefur verið ljóst um aldir. Hefur það jafnframt verið rökstutt með sjávarlífsrannsóknum að óvíðar en einmitt í hafinu muni skilningarvit og skynsvið smásæustu jafnt sem hinna stærstu lífvera vera með jafn fjölbreyttum hætti og ólíkum okkar. Áhrif af viðvarandi véltækni, titringi og skrúfuniði, eða af rafsegulsviði frá rafölum og köplum, kunna því að vera svo margvísleg og lítt fyrirsjáanleg sem aftur á móti hættan af snúningi skrúfhverfla er þeim mun augljósari sem snúningshraði þeirra er meiri, á sinn hátt líkt og váin sem fuglum stafar af snúningi vindmylluspaða.
Samrunaorka og hlutfallsleg umhverfisáhrif orkukosta
Þegar á allt er litið eru sólarorka og vindafl þeir kostir sem nú vega einna þyngst á sviði nýorku, sem leiðir beint af ört lækkandi framleiðslukostnaði og hreinleika orkunnar – samanborið við jarðefnaeldsneyti og hin ýmsu önnur orkusvið. Þetta eru jafnframt þeir kostir endurnýjanlegrar orku sem mestar líkur eru á í nálægri framtíð að megi þróa hratt og að ýmsu leyti á víðtækan máta – svo fremi að umhverfi og ásýnd jarðar verði ekki fórnað á altari hreinleikans, svo öfugsnúið sem það væri.
Á hinn bóginn, ef efnahagslegir hvatar væru fyrir hendi, en ekki bara styrktarkerfi undir miskunn komin og náð misviturra pólitíkusa, undir hæli orkuaðalsins, þá væri virkjun samrunaorku löngu komin af stigi frumþróunar og harðvítugrar baráttu um athygli og áhrifavald. Það mun taka tímann sinn að snúa þróuninni svo við, að jafnræðis verði gætt, að hjól tímans muni þá fremur snúast réttsælis en ranghælis. Þeim mun léttar mun þá orka sólar og vinds vega sem þróun samrunaorku verður hraðari, fyrirhyggjusömum stjórnvitringum og umhverfisfræðingum til íhugunar, hvernig orka framsýnna athafnamanna verði best virkjuð í bráð og lengd.
Bjálkaritið sýnir hrátt jafnaðarmat á hlutfallslegum umhverfisáhrifum mismunandi orkukosta. Matið er engan veginn algilt, enda geta áhrif hinna ýmsu einstöku kosta, frá einum stað til annars, verið afar margbreytileg. Vægi þeirra er jafnframt háð afar ólíkum áhrifagildum hinna ýmsu annmarka, takmarkana og þolmarka, á ýmsan máta huglægum eða hlutlægum, líffræðilegum eða landfræðilegum, allt eftir grófasta mati. Hér er tekið fremur takmarkað mið af venjulegu mati á fjármagns- og rekstrarkostnaði, en þeim mun fremur litið til áhrifa á samfélag og náttúru, til umhverfisþáttanna, sem í flestum greinum njóta almennt afar lítils vægis við hefðbundna virðisreikninga. En því frekar myndi slíkt mat – umhverfismat – hafa áhrif á umhverfis- og náttúrugjöld.
Virkjun kjarnasamruna er enn á stigi flókinna fræða og frumgerða – á sinn hátt líkt og virkjun sólarorku og jafnvel vindafls var um langa hríð áður en raðsmíði og loks fjölsmíði tók við af rándýrri og sköttum þrúgaðri sérsmíði aflbúnaðarins. Svo bundin er öll samrunaþróun á klafa náðarsamlegra fjárveitinga og harðvítugrar skattlagningar að keppni við koltvíildisauðgandi ægivald orkuaðalsins hefur verið nánast vonlaus hingað til. Einungis væri oki tekjudrifins skattkerfis aflétt, þá fæli ekkert orkusvið í sér meiri möguleika með tilliti til landnota og umhverfisverndar, jafnt í líffræðilegum skilningi sem sjónrænum og hljóðrænum, ekki síður en í fjárhagslegu tilliti – þegar á allt væri litið og til enda reiknað, að afloknu frumþróunarstigi.
Þótt öll tækniorka mannkyns væri á einn eða annan veg leidd af kjarnasamruna, væri áhætta í heild sinni af völdum geislavirkni hverfandi samanborið við hættuna sem nú þegar stafar af öllum kjarnorkuverum jarðarbúa, sem eru um 500 talsins og byggja öll á kjarnaklofningi, en framleiðsla þeirra nemur þó einungis um eða innan við 2% frumorkunnar.
Drjúgur hluti úrgangsins af völdum kjarnaklofningsins mun verða geislavirkur um svo langa framtíð að nánast má jafna til eilífðar, en hins vegar er helmingunartími þess sáralitla úrgangs er til fellur við kjarnasamruna einungis um 12 ár, sem felur í sér nær algjört niðurbrot geislavirkni á rúmum mannsaldri – myndi mestallur úrgangurinn þó vera endurnýttur. Þar sem kjarnasamruni verður einungis knúinn fram fyrir nákvæma stýringu er stjórnlaus keðjuverkun jafnframt útilokuð, andstætt því sem getur gerst við kjarnaklofning, líkt og m.a. sannaðist í kjarnorkuslysunum í Tsjernobyl og Fukushima.
Aðrir kostir, svo sem vatnsafl, háð umfangsmiklum miðlunarlónum, jafnt sem lítt háð miklum lónum, eða jarðvarmi, sér í lagi til raforkuvinnslu, eru ýmist háðir miklum annmörkum út frá sjónarmiðum náttúruverndar eða verulegum landfræðilegum takmörkunum, svo sem hér hefur verið lýst. Hvorir tveggja kostanna jaðra raunar við ýtrustu þolmörk víðast hvar á jörð og vega því eigi þungt í heildrænnni framtíðarlausn orkubúskapar á hnattræna vísu. Ekki frekar en víðtæk virkjun sjávarorku, sér í lagi að teknu tilliti til hinnar miklu líffræðilegu óvissu, hvað þá heldur umfangsmikil vinnsla lífeldsneytis, hvort sem væri af akri eða á líftæknilegan máta, svo augljósir sem annmarkarnir eru, svo sem hér hefur verið vegið og metið á ýmsa lund, og sama þó líftæknileg endurvinnsla ætti í hlut, svo smá sem hún væri í sniðum þegar á allt væri litið.
Þangað til virkjun samrunaorku fer að skila hagnýtum árangri, og þá ábata í víðtækum skilningi, þá er fátt annað líklegra til næstu framtíðar litið en að orka sólar, og þar með jafnframt afleidd orka vinds, muni knýja megnið af tækni manna – og þar með velferðarbúskapinn – svo fremi að afar hamlandi viðhorf orkuaðalsins fái ekki spillt enn frekar framvindunni, svo sem þungbær raun ber vitni um og eyddur jarðargróði.
Skattborgararnir, skattlendurnar og ofurgróðinn
Það skattkerfi sem er ríkjandi á jörðinni hefur gengið sér til húðar. Svo samofin sem saga þess er velferðarhugmyndum 20. aldar, þá er þó svo komið að almanna- og velferðarþjónusta ber langþyngsta skatta samanborið við öll önnur svið. Nánast sama hvert tæknisviðið á hinn bóginn er, þá er það borið uppi af orku og auðlindum, fyrir takmarkalítil afnot af öllum þeim jarðnesku gæðum sem einmitt síst lúta skattheimtu hins opinbera.
Drjúgur hluti útgjalda hins opinbera í þróuðum ríkjum heims rennur jafnharðan til baka í hinar sömu opinberu fjárhirslur sem skatttekjur af opinberum starfsmönnum, almannatryggingaþegum og sístækkandi hópum starfsmanna verktaka er með einum eða öðrum hætti vinna á vegum hins opinbera, auk þess sem tryggingagjöld, virðisaukaskattur og skattar af hreinum rekstrartekjum telja.
Líkt á raunar við um flesta almanna- og velferðarþjónustu sem borgararnir greiða hálfopinberum aðilum og einkaaðilum fyrir – svo fremi að afnot af tækni og orku vegi eigi þungt. Nánast sama hver upplýsingin er, sama hvort fjölmiðlar eiga í hlut, bókaútgáfa, fræðsla hvers kyns eða listir, sama hvort um þjónustu sérfræðilækna ræði eða sjúkraþjálfara eða svo margvíslega aðra þjónustu til viðhalds og viðgangs velferðinni, allt frá þjónustu lögfræðinga og presta til pípulagningarmanna og bifvélavirkja, þá rennur um þriðjungur til helmingur alls veltufár í fjárhirslur hins opinbera, að stærstum hluta sem tekjuskattur starfsmanna og tryggingagjöld, auk þess sem skattur af hreinum hagnaði og virðisauka telur á ýmsum sviðum.
Gildir einu þó að hið opinbera greiði persónuafslátt til mótvægis álögunum, sér í lagi hinum lægst launuðu í sárabætur – og flestum mannaflsfrekum rekstri til styrktar – laun eru þá einfaldlega lægri sem þeim smáskammtalækningum nemur. Af því leiðir eðlilega að álagðir tekjuskattar í heild vega þeim mun þyngra sem afslátturinn er meiri. Öll skattberandi framleiðsla og þjónusta verður þar af leiðandi dýrkeyptari sem álögunum nemur, og þá einmitt hinum lægst launuðu enn þyngri í skauti – einmitt þeim sem velferðarkerfið skyldi þó ekki síst hlúa að, væri kerfið sjálfu sér samkvæmt.
Þeim mun vanþróaðri sem ríki aftur á móti eru, þá gætir skattanna minna og velferðarkerfanna, enda af litlu að taka. Fyrir offramboð láglaunavinnu og hræódýrrar orku og auðlindavinnslu eru fjöldaframleiddar afurðir seldar velferðarríkjunum í miklu magni í skiptum fyrir þeim mun miklu færri einingar hátækni og sérfræðiþjónustu sem þær eru dýrkeyptari, einmitt fyrir sköttum þrúgað hug- og handverkið, ofurnákvæmt sérfræðiverkið.
Fyrir svo lítið hlutfall af landsframleiðslu að telur oft vart nema um tíunda til tuttugasta hluta, skipta velmegunarríkin á dýrseldri ofurtækni sinni og þjónustu fyrir megnið af þeim almenna tæknivarningi, húsbúnaði, vefnaðarvöru, skófatnaði og leikföngum sem þegnar þeirra þarfnast.
Hlutur framleiðsluríkja í virðiskeðjunni myndar þó sjaldnast nema örfáa hlekki í öllu heildarsamhenginu, oft um miðbik keðjunnar, enda eru það oftast nær velferðarríkin sjálf sem stýra hönnun og hönnunarferlum, markaðsgreiningu og markaðssetningu – og hafa hönd í bagga með öflun aðfanga, orku og hráefna – auk þess að sjálfsögðu að það eru þau sem annast margháttaða dreifingu og sölu framleiðslunnar. Stjórna þau þá jafnframt, eftir því sem við á, frekari úrvinnslu eða samsetningu í einu landinu eða öðru, í einni heimsálfunni eða annarri, fari varningur ekki beint í umsýslu eða milliliðalaust á neytendamarkað í neysluríkinu.
Svo dýrt er allt viðskiptaferlið, og ekki síst ofurskattlagt á öllum stigum virðiskeðjunnar velferðarinnar megin, allt frá upphafi markaðsgreiningar og hönnunar, til enda á neytendamarkaði, að samanlagður virðisaukinn kann að vera fimm- til tífaldur á við frumvirði framleiðslunnar. Kann heildarvirði viðskiptanna þá að svara til um helmings landsframleiðslu neysluríkjanna þegar upp er staðið, sama þótt drjúgur hluti varningsins hafi vart breytt um áþreifanlega mynd frá því um hann var búið í framleiðslulandinu.
Skyldi þá hafa ríkt í huga að hið opinbera veltir drýgstum skerfi allrar landsframleiðslu velferðarríkisins, svo drjúgt vegur samneyslan. Svo drjúgur sem skerfurinn er, þá ræðir þar þó ekki síst um sýndartekjur – og sýndarútgjöld – svo mjög sem hið opinbera nærist á eigin skinni, heimtandi skatta á skatta ofan af sinni eigin velferðarþjónstu, á velferðarþjónustu ofan. Það er því ekki allt sem sýnist þegar fjármálaráherrar neysluríkjanna leggja fram fjárlög sín – enda er þá mestallri tækni undan skotið, nær öllu raunverulegu umhverfismati, nær öllum arði af orku og auðlindum – tekjuhliðar megin. Hvað þá að þyki taka því að nefna öll koltvíildisauðgandi fríðindin.
Árleg koltvíildislosun jarðarbúa frá 1750 til 2019. Hlutur Norðurameríkumanna og Evrópubúa nemur nú um þriðjungi losunar – þá að ótöldum þeim drjúga hluta losunar annarra jarðarbúa sem til fellur vegna framleiðslu í þágu hinna fyrrnefndu, sem telja þó einungis um sjötta part mannkyns. Hlutur þeirra í reynd kann því að nema um helmingi allrar losunar.
Arðurinn af heimsviðskiptunum fellur nær allur neysluríkjunum í skaut. Framleiðsluríkin sitja á hinn bóginn uppi með æ stærri skerf af koltvíildisauðgun jarðarinnar, fyrir svo hræódýra framleiðslu, fyrir svo lág laun og lága skatta, fyrir svo lágt metna orku og lítils metin hráefni – fyrir umhverfi sem er ekki metið til auðs – að vér orkuaðallinn eigum fullt í fangi með að skattleggja okkur ekki út af markaðnum. Það er þó einmitt gjaldið sem skattlendur jarðarinnar fá að greiða – arðurinn sem okkur fellur í skaut, til vaxtar og viðgangs velmegun okkar.
Vatnaskil
Hve langt verður gengið á rétt stærsta hluta jarðarbúa, fyrir velferð og velmegan einungis lítils minnihluta? Virðist þá raunar einu gilda hvort um ræði útdeilingu bóluefna eða tilkall til auðlinda jarðar, sama hve afleiðingar mismununarinnar kunni að vera ógnvænlegar – til langrar framtíðar litið jafnt sem til skemmri tíma.
Hve illa fáum við ekki gengið um auðlindirnar? Hve illa fáum við ekki ávaxtað arðinn, forsmáð uppskeruna? Hve langt fáum við ekki gengið með kröfum okkar um æ ferskari þjónustu og nýstárlegri hluti okkur til handa, og þó krafist þess sífellt að almúgi jarðar, og þá fyrst og fremst almúginn einn, baki brotnu, súpi seyðið af slæmri umgengninni og arfaslæmri nýtingu orkunnar og auðlindanna? Og svo vel sem vér orkuaðallinn fáum varið okkur sjálf og hirð okkar, og umboðsmenn okkar út um allar jarðir, fyrir mengun, plágum og óáran, þá einmitt þyngjast frekar byrðar þeirra sem hlotnast að axla þær.
Svar aðalritara Sameinuðu þjóðanna er ótvírætt, sbr. hér tilvísað framarlega í grein: Okkur gefast nú óvænt en mikilvæg tækifæri til að ráðast gegn loftslagsbreytingum, að hlúa að umhverfinu, að endurnýja hagkerfi og að hugsa framtíðina upp á nýtt – með endurreisn að loknum heimsfaraldri. Færa verður skattbyrðina frá tekjum yfir á kolefni, frá skattgreiðendum til þeirra sem menga, segir hann jafnframt, án þess þó að hann hætti sér mikið lengra út í þá sálma, enda væri aðalritarinn þá kominn út á afar hála braut, hann sér þess vel meðvitandi að einungis eitt atkvæði Öryggisráðsins þarf til þess að kippa undan honum fótunum. Svo máttugt er neitunarvaldið, sama hvað atkvæði annarra ríkja heims annars telja...
- COVID og loftslagið hafa leitt okkur að vatnaskilum. Okkur er ófært að hverfa aftur til þess hversdagsleika sem fól í sér ójöfnuð og veikleika. Þess í stað ber okkur að feta öruggari og sjálfbærari braut. Þetta er margslungin þolraun í stefnumótun og brýn siðferðileg prófraun. Ákvarðanir sem teknar eru í dag munu varða veginn næstu áratugi. Okkur ber að líta á endurreisn eftir faraldurinn og aðgerðir í loftslagsmálum sem tvær hliðar á sama pening.
Svo mörg eru þau orð, sannarlega í tíma töluð, lokaorðin í grein aðalritarans um Brýnasta erindi heimsins. Í lokahluta þessara þessara greinaskrifa, Herragarðurinn – óðal aðals eða orkubú jarðarbúa?, verður fjallað enn frekar um skilvirkni orkunnar og möguleika samrunaorku, sólarorku og vindafls, þar á meðal um líkan eða leiðarvísi að algjörum orkuskiptum frá óhreinni orku – jarðefnaeldsneyti, kjarnorku og lífeldsneyti – til hreinnar raforku, sem hópur fræðimanna, er flestir starfa við Stanford háskólann í Kaliforníu, hefur unnið.
Með orkudrifnu skattkerfi má greiða þróuninni veg, svo að um munar. Um mögulega útfærslu á slíkri skattheimtuleið – m.a. með Ísland fyrir dæmi – má lesa nánar í grein höfundar, Orkupakki handa unglingum, frá því haustið 2019.