Fyrir tíma iðnbyltingarinnar lá hinn veraldlegi frumkraftur í jarðargróðanum, bókstaflega talað. Búsældarleg samfélög áttu allt sitt undir akurlöndum og afréttum, skóglendi og haglendi, auk þess sem sjávarakurinn gaf af sér, þegar því var að skipta, ellegar málmgrýti í jörð, mór eða kolalög, allt eftir því hvernig samfélögin voru í sveit sett; en ofgnótt eða skorti gróðalinda var svo jafnað út með viðskiptum milli byggðarlaga, einstakra héraða, furstadæma eða ríkja, allt eftir búskaparháttum.
Gróðinn, eftirtekjan, réðst í megindráttum af þrennu – af (1) skilvirkni þeirra handa sem lagðar voru að verki, af (2) skilvirkni vinnudýra og af (3) skilvirkni áhalda, búnaðar og verkfæra – sem allt í senn ákvarðaði framleiðni einstaklinganna er áttu hlut að verki, þeirra er stóðu að hinum ýmsu framleiðslueiningum og mynduðu hvert samfélag.
Framleiðni malara sem réð yfir góðri myllu til mylja kornið var augljóslega margföld á við þann sem fékk einungis malað það í höndunum, brúkandi mylnustein, eða mylnustaut og mortél, sér til hægðarauka – ekki síður en að afköst bóndans, er réð yfir góðu dráttardýri og góðum plógi, voru til muna meiri en þess sem yrkti allt eigin höndum með gamaldags arði og páli. Og hve margföld var ekki framleiðni prentarans, fyrir afköst tóla sinna og tækja, á við þann er rita mátti allt eigin hendi, með fjöðurstaf einn að vopni...
Væri framleiðnin svo slök að eftirtekjan næmi vart neinu umfram brýnustu lífsnauðsynjar var samfélagið í besta falli sjálfu sér nægt – en annars þeim mun gróðavænlegra sem framleiðni einstaklinganna var meiri, jafnvel svo að mynda mætti herragarða og bæi og borgir, líkt og krossferðariddarar allra tíma hafa ekki látið sig um muna, að leggja undir sig lönd og gæði heilu samfélaganna, í nafni drottins síns og herra – í nafni hagfræði allra tíma, frá upphafi siðmenningar.
Opinberar álögur, skattar, tollar og gjöld, voru að langmestu leyti bundnar þeim afurðum sem fóru á markað, alls óháð því í sjálfu sér hve margar hendur væru lagðar að verki, auk þess sem afgjöld af jarðeignum skiluðu konungi og hirð, kirkju og klerkum – þá nokkurn veginn í hlutfalli við framleiðni einstaklinganna sem sátu þær, burtséð frá fjölda þeirra. Almennar álögur, beinlínis leiddar af tekjum alls fjöldans – framtöldum tekjum hvers og eins, óháð framleiðni hvers og eins – komu vart til sögu að ráði fyrr en drjúgt var liðið á nýliðna öld, enda skyldi almenningur, sjálfur sauðsvartur almúginn, fá að standa sjálfum sér reikningsskil sívaxandi velferðar sinnar…
Velferðarsamfélagið og gróðavonin
Fyrir tíma velferðarsamfélaga námu opinberar álögur vart nema um tíund markaðshæfrar landsframleiðslu ríkja – þá að ótöldum hinum ýmsu óbeinu álögum, leigum og jarðargjöldum er runnu ekki síst til krúnu, kirkju og hirðarinnar. Gjaldamegin í hinu opinbera bókhaldi vógu hermálin yfirleitt langþyngst, og svo dóms- og löggæsla, menntun embættismanna og þó ekki síst uppihald krúnu og hirðar, kanselísins og klerka.
Lengi framan af iðnbyltingunni stóðu kjör láglaunafólks í besta falli í stað, oft engu betri en á kotbýlum fram í heiðanna ró, enda rann þá hagurinn af tækniframförum, og þar með hagurinn af æ aukinni framleiðni samfélaga, nær allur til sífellt vaxandi háborgarastéttar og til uppihalds æ mikilvægari stétt lágborgara, þeirra sérþjálfuðu vélfræðinga og verslunarmanna sem héldu tæknilegum jafnt sem viðskiptalegum hjólum byltingarinnar gangandi, og hélt gamli aðallinn þó löngum sínum hlut óskertum.
Það var heldur vart fyrr en í byrjun 20. aldar, í kjölfar þeirrar hugmyndafræðilegu byltingar sem þeir Marx og Engels höfðu leitt og mótað á síðhallandi öldinni þeirri nítjándu, sem samfélög taka af alvöru að huga að mennta- og heilbrigðismálum alþýðu, og þá jafnframt að svo bættum kjörum alls þorra fólks að þegnarnir sjálfir gætu risið undir sköttum, velferðinni sér til handa, þá og einnig til niðurgreiðslu almenningssamgangna, svo mikilvægt sem það var allri framleiðslu og þjónustu að fá vinnuaflið fært úr stað með sem greiðustum hætti.
Var það þá og smám saman að renna upp fyrir háborgarastéttinnni, burgeisunum, að látlaus fjárfesting auðfengins gróða af æ viðameiri og margbreytilegri iðnframleiðslu í enn gróðavænlegri framleiðslu hlyti að lokum að leiða til þrots og almennrar kreppu, fengju kjör og kaupmáttur alls þorra fólks ekki mætt framboði æ fjöldaframleiddari varningsins – eða hvaðan átti aukin eftirspurn annars að koma? Vart myndu fámennar hástéttirnar annars anna svo hröðum afskriftum nytjahluta sinna, að ávallt gætu þær áfram keypt nýtt og aftur nýtt, líkast því sem hið nýja væri ávallt um hæl orðið aflóga gamalt.
Sannarlega hrikti í stoðum hátimbraðrar byggingar auðvaldsins, slíkt sem misréttið var orðið og allt ójafnræðið. Svo æ greiðari leið sem byltingarboðskapur þeirra Marx og Engels átti sér líka orðið að hugum og hjörtum alþýðunnar, hvað þá í ljósi æ almennara læsis og öflugri upplýsingar.
Sá gullni meðalvegur var því varðaður er á 20. öldina leið, að fyrir bætt almenn kjör og aukinn kaupmátt skyldu hinir almennu launþegar jafnframt fá að bera meginþunga skattbyrðarinnar, en burgeisarnir fengju á móti frítt spil og skattfrelsi svo lengi sem þeir fjárfestu megnið af hagnaði sínum í aukinni framleiðslu, þegnum öllum til handa.
Gaf þá augaleið að þeim mun framleiðnivæddari sem framleiðsla væri – og þar með æ minna þrúguð af skattlögðu vinnuafli, velferðarþegnunum, launþegunum – þeim mun meiri var gróðavonin, vonin um að fá aukið svo tæknina að vart neinna skattlagðra handa væri þörf, jafnvel svo að skattfríðindin væru þá sem næst algjör... líkt og aðallinn hafði einmitt svo löngum notið og hvort þá ekki ungherrarnir, herragarðseigendurnir, í þá gömlu góðu daga...
Skattfrjáls framleiðnin og gróðavonin
Öll sú ofuráhersla sem lögð hefur verið á æ tæknivæddari framleiðni – í tímans rás – fyrir gríðarlegan hvata skattfríðindanna en þeim mun sífellt minni samfélagslega nauðsyn, hefur leitt af sér svo þunga skattbyrði alls þorra almennings, að nú sem 21. öldin er gengin í garð lætur nærri að hartnær helmingur alls aflafjár velferðarþegnanna renni í velferðarsjóðina. Velferðarkerfin eru því borin uppi af mannaflsfrekustu greinunum fyrst og fremst, sem sagt af öllum þorra launþega, eðli tekjuskattskerfisins samkvæmt, á meðan hinar framleiðnivæddustu tæknigreinar, þar sem mannafla einmitt nýtur minnst, sópa til sín gróða sem aldrei fyrr – slík sem ofurfríðindin eru, að vart gætir snefils hlutdeildar þeirra í rekstri velferðarsjóðanna.
Þeim mun óhugnanlegi eru umhverfisáhrifin af skefjalausri græðginni um alla jörð, svo ákaft sem gróðanum er sóað í æ tæknivæddari og þar af leiðandi skattfrírri framleiðslu, í beinu hlutfalli við æ hraðari afskriftir framleiðslunnar, svo síflellt þrúgaðri af álögum sem öll viðhaldsþjónusta er, eðli hinnar opinberu tekjuskattsinnheimtu samkvæmt.
Sóun orku og auðlinda jarðar stendur raunar í beinu hlutfalli við hinar hröðu afskriftir framleiðslunnar – sem og þá jafnframt í réttu hlutfalli við dýrleika viðhaldsþjónustunnar, svo grimmt sem hún er skattlögð, einmitt í öfugu hlutfalli við verð orkunnar og hráefnanna, svo smávægilegt sem gjaldið er fyrir öll notin af umhverfi og náttúru jarðar, hvað þá heldur fyrir öll umhverfisspjöllin, svo lítt sem opinberar álögur koma þar við sögu, hvað þá bætur fyrir skaðann.
Gildir raunar einu hvort litið er til æ framleiðnivæddari og skattfrírri tækninnar einnar og sér – og þar með til æ hraðari afskrifta og sóunar framleiðslunnar – eða til reksturs alls þess sem framleitt er og þjónustað í krafti ofurframleiðninnar – náttúran og öll afleidd orkan er svo lágt metin að segja má að okkur, velferðarþegnunum, séu þessi gæði færð á silfurfati, líkast því sem móðir jörð væri okkar ánauðugasti þræll, sem okkur bæri þar af leiðandi að slíta sem fyrst út, sem hverri annarri ambátt. Svo slegin sem við erum blindu, að við hugum jafnvel frekar að ábúð hinna best megandi eftirkomenda okkar á plánetunni Mars – sem sagt þegar allt verði um þrotið – en að okkur öllum megi vera jörðin sem lífvænlegust í bráð og lengd.
Skilvirkni orkunnar – undir orkudrifnu skattkerfi
Rafmagn hefur á síðari tímum orðið æ öflugri orkumiðill og mun vafalaust móta meginstrauma hreinna orkuferla í framtíðinni, hverjir sem annars frumaflgjafarnir nákvæmlega verða. Rafspenna felur þó ekki í sér neina slíka sjálfstæða eigind að hún verði geymd með líkum hætti og jarðefnaeldsneyti, sem er í eðli sínu þjáll forði – á sinn hátt líkt og korn – er allt að hentugleikum má afla og varðveita, flytja og dreifa, svo að framboð svari eftirspurn á sérhverjum stað og tíma. Enda myndar eldsneytið ekki orku fyrr en orku er þörf, við hvörf þess og súrefnis fyrir hvata nægilegs varma eða elds.
Umbreyting raforku í tiltækan forða, á fljótandi formi, loftkenndu eða föstu, allt að þörfum, eftir eðli orkuberans eða orkuhlöðunnar, felur ávallt í sér orkutöp og þar af leiðandi fórnarkostnað. En þeim mun hagkvæmari, handhægari, þjálli og meðfærilegri ferli og form varðveislu, dreifingar og orkuneyslu sem þróuð eru, og þeim mun lægri álögur sem þróunarvinna mun bera í tekjuskattsfríu skattkerfi, því hraðar munu hrein orka og hreinir orkuberar taka hinum koltvíildisauðgandi orkuferlum fram.
Undir orkudrifnu skattkerfi munu fjármunir sem varið er til jákvæðrar orkuþróunar nýtast til fulls en eigi líkt og nú er almennt reglan undir hinum tekjudrifnu kerfum, að renni að drjúgum hluta jafnóðum í skatthirslur hins opinbera, sem hreinar álögur á tekjur þeirra er þróunarvinnunni sinna. Umhverfis- og náttúrugjöld munu þá jafnframt hamla þróun landfrekra orkukosta og lítt náttúruvænna, en fyrir áhrif slíkrar gjaldtöku væri til að mynda stuðlað að vali á hinum ýmsu hafsvæðum með ströndum fram undir vindorkugarða fremur en á landi, að teknu tilliti til víðtækra sjónrænna áhrifa og hljóðmengunar er stafar af vindmyllum víðast hvar á landi – sama hvort valdir séu staðir í þéttri byggð, upp til sveita eða í óbyggðum.
Umhverfisálögurnar (gjöld pr. umhverfisnot) væru þá í beinu hlutfalli við neikvæð áhrif samkvæmt umhverfismati, á sinn hátt líkt og sólarorkuver, sem hver önnur orkuver, bæru þeim mun meiri eða minni náttúrugjöld eða einfaldlega lítil sem engin gjöld – allt eftir staðsetningu og áhrifum hinna ýmsu virkjana, sem og ekki síður línulagna, á umhverfi, mannlíf og náttúru. Orkugjöld (gjöld pr. orkueiningu) tækju á hinn bóginn einungis mið af framleiddri eða afhentri orku, hreinni sem óhreinni, óháð uppruna, á sinn hátt líkt og kolefnisgjöld (gjöld pr. CO2-ígildi) tækju einungis mið af losun kolefnis og kolefnisígilda (þ.e.a.s. mið af óhreinleika orkunnar), veggjöld (gjöld pr. ekinn tonn-km) mið af umferðarþunga, og auðlindagjöld (t.d. gjöld pr. afla- eða sóknareiningu) mið af takmörkunum og gróðavænleika nýtingarréttar. – Sjá nánar m.a. kaflann Frá orkusóun til orkunýtni – frá rányrkju til umhverfisverndar í 3. hluta greinarflokksins, Herragarðurinn – óðal aðals eða orkubú jarðarbúa, þar sem Ísland er tekið sem dæmi um framkvæmd orku- og auðlindadrifins skattkerfis, sbr. m.a. þessa hér endurbirtu töflu...
Hafa ber í huga að undir orkudrifnu skattkerfi dregur verulega úr þeim ofursköttum sem hið opinbera leggur annars á sjálft sig undir hefðbundnu, tekjudrifnu kerfi. Margfeldisáhrif alls þess furðulega spuna, þar sem drýgsti hluti landsframleiðslunnar hringsólar látlaust úr einum vasa hins opinbera yfir í annan (sem sagt álögur hins opinbera á sitt eigið skinn, sjálfu sér til framfærslu!) myndu dvína svo mjög, að bókfært krónutöluvirði landsframleiðslunnar myndi dragast saman um a.m.k. fjórðung – frá því að vera um 3.000 milljarðar króna í um það bil 2.250 milljarða, án þess þó að raunframleiðsla hefði að nokkru leyti verið skert né þá heldur þjónusta hins opinbera.
Tekjuskattarnir sem hið opinber nú leggur á sjálft sig myndu raunar þurrkast út í heild sinni og allur beinn og óbeinn launakostnaður þess lækka sem því næmi – líkt og raunar myndi gerast á öllum sviðum þjóðfélagsrekstrar – að alls óbreyttum heildarkaupmætti goldinna launa. Skyldi þá jafnframt hafa hugfast, að á móti hinum ýmsu orku- og náttúrunýtingargjöldum myndi góður þriðjungur kostnaðar af launum og þjónustukaupum falla niður, sem næmi e.t.v. um 50 milljarða króna ábata t.d. sjávarútvegs og stóriðju á Íslandi, þ.e.a.s sem svaraði til afnáms allra tekjuskatta í skattspori þeirra orku- og náttúrufreku atvinnugreina.
Á landsvísu… á heimsvísu…
Virkjun samrunaorku felur í sér þann mikla kost umfram alla aðra hreina orkuöflun að afar öflug orkubú, og þó þeim mun minni að fyrirferð, mætti setja niður í grennd við orkuþurfandi byggðir og iðjuver eða nánast hvarvetna þar sem verulegrar orku er þörf og umhverfi og aðstæður almennt leyfa, m.a. með tilliti til kælingar orkuvinnslunnar. Væri þá jafnframt þeim mun minni þörf á stórfelldum raflínulögnum til samtengingar svæða, sem á hinn bóginn vind- og sólarorkuframleiðsla er nær alfarið undirorpin, svo tilviljanakennd sem slík orkuframleiðsla er í flestu tilliti.
Þó að Ísland sé sá staður á jörð sem einna síst krefðist virkjunar samrunaorku, slíka gnótt sem það býr yfir af öllu hefðbundnari hreinni orku, a.m.k. mælt pr. hvert nef landsmanna, þá er landið engu að síður gott dæmi til samanburðar – til marks um ávinninginn, er hljótast myndi af svo ofurþéttri og hreinni orkuvinnslu, gagnvart umhverfi og ásýnd jarðar, sem virkjun samrunaorku fæli í sér, miðað við allt það landflæmi og hin ýmsu neikvæðu umhverfisáhrif sem flest önnur orkuöflun, hrein og óhrein, hefur í för með sér. – Sjá annars nánar um virkjun samrunaorku (fusion energy) í 2. hluta greinaflokksins, Herragarðurinn – orkan og almúginn – m.a. kaflana Eilífðarvélarnar – og kolefnisforðinn í jörð og Samrunaorka og hlutfallsleg umhverfisáhrif orkukosta.
Öll raforkuframleiðsla á Íslandi, sem er um 20 TWst á ári (20.000.000 MWst), gæti farið fram í einu 3.000 MW samrunaorkuveri (eða t.d. í þremur 1.000 MW orkuverum), álíka að afli og Ringhals kjarnorkuverið í Svíþjóð bjó yfir fyrir tveimur árum (en afl þess var minnkað úr 3.050 MW í 2.190 MW fyrir rúmu einu og hálfu ári, vegna reglugerðarbreytinga í kjölfar Fukushima hamfaranna árið 2011). Ringhals orkuverið tekur einungis til rúmlega 1 ferkílómetra lands – út við strönd Jótlandshafs, um 50 km suður af Gautaborg – álíka að umfangi og samsvarandi samrunaorkuver myndi gera – hér að ofan sýnt í samanburði við umfang Sogsvirkjana og alls orkuóðals Íslendinga... vel að merkja ekki til marks um ákjósanlega staðsetningu slíks ofurorkuvers!
Nánar tiltekið, borið saman við slíkt 3.000 MW ofurorkuver, þá er eiginlegt flatarumfang Sogsvirkjana, er byggja á nokkuð jöfnu rennsli árið um kring og krefjast því vart eiginlegra miðlunarlóna, um helmingi minna, rúmlega ½ ferkílómetri – að meðtöldu nánasta undirlendi beggja vegna Sogsins, samanlögðu röskuðu landi og manngerðu vatnslóni, mannvirkjum öllum, vegum og umbyltum árfarvegi, allt frá Ljósafossi niður fyrir munna rennslisganga neðan Kistufoss. Samanlagt uppsett afl þessara einna skilvirkustu og arðbærustu virkjana Íslendinga er þó einungis um 64 MW og árleg raforkuframleiðsla rúmlega 0,3 terawattstundir (341.000 MWst). Engu að síður er orkuuppskera af hverri flatareiningu undirlagðs áhrifasvæðis að minnsta kosti tíföld á við Fljótsdalsstöð / Kárahnjúkavirkjun.
Áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar, sem er 690 MW að afli, svarar að minnsta kosti – afar varfærnislega metið – til umfangs Þingvallavatns (sem er 84 km2), þá að meðtöldu Hálslóni og umhverfi þess og röskuðum árfarvegum Jöklu og Lagarfljóts allt niður að ósum við Héraðsflóa. Ber þá ekki síður að líta til langvarandi áhrifa á lífríki flóans og fljótanna og alls landsins um kring, sem og ekki síður til margháttaðra rúmfræðilegra og líffræðilegra áhrifa af línulögnum – sem á hinn bóginn væru miklum mun minni ef samrunaorkuver ætti í hlut. Enda væri orkuverum þá almennt valinn staður innan skamms vegar frá svæðum meginnotkunar – líkt og einmitt á við um Ringhals orkuverið í Svíþjóð – en hins vegar án minnstu slíkrar hættu af geislavirkni sem stafar af kjarnaklofningi.
Þótt öll tækniorka mannkyns væri á einn eða annan veg leidd af kjarnasamruna, væri áhætta í heild sinni af völdum geislavirkni hverfandi lítil samanborið við hættuna sem nú þegar stafar af öllum kjarnorkuverum jarðarbúa, sem eru um 500 talsins og byggja öll á afar áhættusömum kjarnaklofningi, líkt og Ringhals verið. Nemur framleiðsla þeirra í heild þó einungis um eða innan við 2% orkuþarfarinnar.
Uppskera virkjaðrar samrunaorku af hverri fatareiningu – með öðrum orðum orkuuppskera með hliðsjón af landnotkun og umfangi virkjaðs lands – myndi gróft á litið vera um þrítugföld á við góðar rennslisvirkjanir sem lítt eru háðar miðlunarlónum, svo sem Sogsvirkjanirnar, en a.m.k. tvöhundruð til þrjúhundruðföld á við landfrekar vatnsaflsvirkjanir, á borð við Þriggja gljúfra stífluna í Kína eða til að mynda Kárahnjúkavirkjun (Fljótsdalsstöð), er nýta afar umfangsmikil miðlunarlón til jöfnunar á rennsli, með feikilegum áhrifum á land og lífríki, oft með tuga metra árstíðabundnum sveiflum á vatnsborðshæð lóna og eftir því æði breytilegu flæðarmáli og flatarumfangi, auk ómældra áhrifa á land og vatnasvið langt út fyrir virkjuð svæði.
Miðað við sólríkustu og vindasömustu svæði jarðar myndu afkastamestu vindorkugarðar og sólarorkuver skila svipaðri uppskeru til jafnaðar og landfrekar vatnsaflsvirkjanir – afar gróft á litið – sem sagt um tvöhundruð til þrjúhundruðfalt minni orku af flatareiningu en samrunaorkuver, að því gefnu að litið sé til heildarumfangs orkugarðanna, að ógleymdum hinum sjónrænu áhrifum af vindorkugörðum langt út fyrir eiginleg landfræðileg mörk, auk þess ekki síður sem hljóðræn áhrif hafa að segja og áhrif á fuglalíf og fleira.
Sem næst þúsundföld myndi þó uppskera samrunaorkubúa vera á við hin landfrekustu vatnsorkuver, t.d. á borð við Blönduvirkjun eða fyrirhugaða Hvalárvirkjun, þar sem vart er við meira afli að búast til jafnaðar en um 2 til 3 wöttum af hverjum fermetra virkjaðra landsvæða, lónstæða og árfarvega, sem skilar vart 20 til 30 kílówattstunda orkuuppskeru af fermetra á ári... Væri uppskerumunur samrunaorkubúa reyndar alveg tugþúsundfaldur á við lífeldsneyti af akri, þar sem varla er að vænta meira afls til jafnaðar en sem svarar til lítils brots úr watti á fermetra, svo að jafngildir einungis um 1 til 3ja kílówattstunda orkuuppskeru af fermetra á ári! En samrunaorkuver myndu að vænta má skila áþekkri orku af hverri virkjaðri flatareiningu og hefðbundin kjarnorkuver, um 15 til 20 þúsund kílówattstundum af fermetra á ári, og þó með hverfandi litlum áhrifum á umhverfi, náttúru og byggð...
Augljóslega eru umhverfisáhrif hinna ýmsu mismunandi orkukosta afar misjöfn og skilvirkni þeirra ekki síður mjög margbreytileg, svo sem lýst er á myndrænan hátt í bjálkaritinu hér að ofan, hér endurbirt frá 2. hluta greinaflokksins, Herragarðurinn – orkan og almúginn. Dregin er upp mjög einfölduð mynd af hlutfallslegum áhrifum hinna ýmsu orkukosta á umhverfið, jafnt hvað varðar hrein og bein landnot sem óbein landnot og áhrifasvæði, jafnt hvað varðar hin ýmsu áþreifanlegu áhrif, sjónræn og hljóðræn áhrif og hin margvíslegustu lífrænu áhrif, að ekki sé talað um hinar skaðvænlegustu afleiðingar sem leiða af gróðurhúsaáhrifum, geislavirkni, sóun vatns, spillingu jarðvegs og ofnotkun næringarefna á borð við fosfór.
Í ljósi þess hve hagnýting samrunaorku á enn langt í land – og þó vissulega þeim mun skemmra sem þróunarstarfið verður fyrr leyst úr fjötrum skattaáþjánar – þá eru sólarorka og vindafl eiginlega einu virkjanakostirnir sem í allra nánustu framtíð geta á víðtækan og tiltölulega hagkvæman máta komið í stað hinna löngum nær allsráðandi koltvíildisauðgandi kosta. Þyngst mun þá væntanlega vega virkjun sólarorku er byggir á ljósspennu, ekki síst í ljósi tiltölulega góðra landfræðilegra möguleika allvíða á jörð og æ skilvirkari raforkuvinnslu, og svo hins vegar vindafl, þá sér í lagi virkjað á völdum hafsvæðum með ströndum fram, enda gætir þá yfirleitt mun síður sjónrænna og hljóðrænna áhrifa frá myllunum en á landi – og er þá engu að síður ósvarað spurningum er varða t.d. áhrif á fuglalíf og áhrif af rafsegulsviði rafmagnskapla á grunnsjávarlíf o.fl.
Vind- og sólarorka og möguleg miðlun orkunnar – að hentugleikum
Afli sólar og vinds er sannarlega afar misskipt þó að til jafnaðar skyldi það vera yfrið nóg til að seðja orkuþörf mannkyns – vegið samanlagt á hnattræna vísu, langsum og þversum yfir heimsálfur og loftslagsbelti. Hvort tveggja felur vissulega í sér fremur óáreiðanlega orku, enda háð margvíslegum sveiflum og veðurfarslegri óreiðu. Takmörkuð fylgni er því á milli mögulegs framboðs orkunnar á hverjum stað og hverjum tíma í bráð og lengd og á hinn bóginn eftirspurnar af hálfu neytenda, orkunotenda, að því þó athuguðu að orka sólar er vissulega mest að deginum þegar eftirspurn eftir orku er með meira móti á ýmsum sviðum. Fer það þó ósjaldan lítt saman að orkufrekustu byggðir og iðnaðarsvæði séu hin sólríkustu eða hin vindasömustu.
Ljósafl og varmaafl sólar er eðli máls samkvæmt mest á miðlægum breiddargráðum. Virkjanleiki orkunnar er þó almennt mestur á heittempruðum slóðum, enda gætir þar sólskins mest á jörð – og eyðimarka – vegna þess hve heittemprað loftslag er þurrt og felur því yfirleitt í sér mikla heiðríkju, andstætt við rakt og oft skýjum hulið hitabeltið, sérstaklega um miðbik þess.
Kraftar vinds eru svo þeim mun meiri sem fjær dregur frá hitabeltinu – eru allnokkrir á köflum í heittempruðu beltunum en fara annars vaxandi með svalara loftslagi og eru til jafnaðar mestir á kaldtempruðum slóðum, þá ekki síst á höfum úti og með ströndum fram, í fjallendi og á hásléttum. Dregur svo heldur úr vindstyrk á ýmsum köldustu slóðum heimskautasvæðanna.
Það er því eigi lítil umbylting orkubúskaparhátta fólgin í umskiptum frá óhreinu jarðefnaeldsneyti, er nú myndar megin afls og orku um alla jörð, til hreinnar raforku, sem grundvallarafls á flestum sviðum, að meginstofni með rætur í afar misskiptri og fremur óáreiðanlegri orku sólar og vinds – svo lengi sem virkjun samrunaorku stendur ekki til boða.
Svo handhægt sem jarðefnaeldsneyti er á ýmsan máta – sem leiðir ekki síst af því hve það er í eðli sínu þjáll forði og meðfærilegur þrátt fyrir óhreinleikann – þá hefur það aftur á móti reynst þrautin þyngri að þróa orkubera og orkuhlöður er á jafn skilvirkan máta gætu brúað bilið milli vinnslu hreinnar raforku og á hinn bóginn margvíslegrar orkunotkunar, á þann veg að vinnslan og notkunin væru óháð hvoru öðru í tíma og rúmi, allt að hentugleikum, þegar svo bæri undir.
Svo sáralítið sem sólskin og vindur enn vega við orkuframleiðslu þá hefur það dugað hingað til að jafna met framboðs og eftirspurnar með miðlun rafmagns frá jarðgas- og kolaorkuverum, auk kjarnorkuvera og vatnsaflsvirkjana, svo afar lítið sem hin síðarnefndu þó vega sem hlutfall af allri heild. Hin hefðbundnu raforkuver gegna þá þeim mun fremur hlutverki varaaflsstöðva sem nýorkan vegur þyngra. Þar af leiðir að því meiri og árstíðabundnari sem sveiflur eru á framleiðslu sólar- og vindorku, og því minna sem sólar- og vindorka ná að vega hvor aðra upp, þeim mun meira þurfa þá varaaflsstöðvar að búa yfir af tiltæku, uppsettu umframafli en ella. Þörf árstíðabundins varaafls – sem eðli máls samkvæmt væri þá að drýgstum hluta óhreint afl – fer þá allt eftir því hve lítt nýtur sólar eða vinds á hverri árstíð, og ræðst varaaflsþörfin þó ekki síður af hinum ýmsu dægursveiflum og veðurfarssveiflum til skemmri tíma litið.
Aftur á móti er sá möguleiki að rafdreifikerfi væru lögð á svo víðtækan máta milli vind- og sólarorkuvera að ekki tengdu kerfin fyrst og fremst saman nálægustu héröð og lönd heldur væru nánast heilu heimsálfurnar, loftslagsbeltin og tímabeltin meira og minna samtengd á nær órofa raforkunetum. Líkur eru þá þeim mun meiri á að í stað óhreins varafls sé hrein umframraforka ávallt fyrir hendi á einhverjum svæðum er streyma megi til hinna vanhaldnari svæða, allt eftir því hvernig vindar blása eða sólar nýtur á hverjum stað á hverjum tíma – allt eftir tímabeltum og loftslagsbeltum – og á hinn bóginn sem nemur eftirspurn eftir orkunni.
En einu gildir, uppsett afl í heild þyrfti engu að síður að nema margfaldri raunaflsþörfinnni, enda myndu öll orkubú þá í raun þjóna sem varaaflsstöðvar fyrir hvert og eitt annað, út um allar jarðir, út um allar álfur nánast hnöttinn um kring, er óumflýjanlega kallaði þá jafnframt á afar margþætt net raflínulagna, með öllum þeim margvíslegu og neikvæðu umhverfisáhrifum sem línulögnum fylgja – nema að þróun haganlegrar orkugeymslutækni tæki verulegum framförum.
En svo mannaflsfrekt sem allt þróunarstarf er – jafnt hvað varðar margháttuð fræðistörfin sem og ekki síður allrahanda tæknileg störfin, er lúta að smíði og gerð allskyns frumgerða og öflun reynsluþekkingar – þá gefur augaleið að hið opinbera er mesti dragbíturinn, hirðandi hartnær helminginn af öllu því takmarkaða fé sem veitt er til þróunarstarfsins, sama hvort runnið er úr vösum einkaaðila eða hins opinbera, sama hverjar hungurlúsirnar eru eða auðmýkjandi styrkirnir, molarnir sem falla af yfirhlöðnum borðum. Kemur þá nánast út á eitt hvort auðvaldið er, hið opinbera, auðmýktin uppmáluð, eða olígarkarnir, sem hvort eð er, leynt og ljóst, stýra stjórnvöldum um nánast alla jörð, í krafti ofurfríðinda sinna, sér og allri spillingunni í hag.
Svo grimmt bítur tekjuskattskerfið í skottið á öllu þróunarstarfi – líkt og það forsmáir hverskyns annað hug- og handarverk manna, rotnu eðli kerfisins samkvæmt – hvað þá í ljósi þess hve þróunarstarf er yfirleitt sérhæft og þar af leiðandi hátt launað og þar með þeim mun frekar sköttum þrúgað – algjörlega andstætt við allan koltvíildisauðgandi reksturinn, nánast sama af hvaða tagi er, slíkir sem eru þá þjóðfélagslegir ofurstyrkirnir, sem sagt skattfríðindin, reyndar í beinu hlutfalli við yfirgengileg spjöllin á náttúru og umhverfi jarðar. Sem og þá eðli máls samkvæmt í réttu hlutfalli við upphafningu kvótagreifanna um alla jörð, yfirstéttarinnar sem yfir auðlindunum gín, bruðlandi með gæðin, líkast því sem guðsgjöf væri, líkast því sem jarðaróðalið væri þeirra arfborin eign, slíkt sem er enn áhrifavald herragarðseigenda, ungherranna hinna nýju, nýaðalsins sem nú allflestu ræður hér á jörð.
Líkan að algjörum orkuskiptum – frá óhreinni orku til hreinnar orku
Hópur fræðimanna, sem flestir starfa við Stanford háskólann í Kaliforníu, hefur hannað líkan eða leiðarvísi að algjörum orkuskiptum frá óhreinni orku – jarðefnaeldsneyti, kjarnorku og lífeldsneyti – til hreinnar raforku. Líkanið tekur til orkuskipta í 139 ríkjum, er bera ábyrgð á um 99% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda á jörðinni. Felur það í sér rafvæðingu á nánast öllum orkusviðum, með höfuðáherslu á vind- og sólarorku sem framtíðarorkugjafa, en fyrirliggjandi, virkjað vatnsafl myndi m.a. þjóna sem ventill eða varafl til jöfnunar á sveiflum orkuframboðs og orkueftirspurnar.
Þrátt fyrir að uppsett afl sólar- og vindorkuvera hljóti að nema margfaldri þeirri raunaflsþörf sem orkuverum sé ætlað að þjóna, þá er það engu að síður svo, að nýting sjálfrar frumorkunnar, sem losuð er fyrir afl sólar eða vinds, er miklum mun betri en nýting samsvarandi orku sem losuð er við brennslu jarðefnaeldsneytis, enda glatast þá yfirleitt gríðarleg varmaorka, hvort sem farartæki eiga í hlut eða raforkuver, hvort sem knúin eru olíu, kolum eða jarðgasi, auk þess sem mikil orka fer til vinnslu eldsneytisins, hreinsunar þess, flutnings og dreifingar. Óafturkræf umhverfisáhrifin af völdum óhreinnar frumorku eru þó söm og jöfn, jafn slæm, sama hve mikil orka fer í súginn eða nýtist til eiginlegrar vinnu og allrahanda verka.
Myndirnar hér að neðan lýsa í hnotskurn hugsanlegri þróun umskipta frá óhreinni orku til hreinnar orku fram til ársins 2050 og hve draga myndi úr frumorkuþörf jarðarbúa við umskiptin. – Sjá umfjöllun í CleanTechnica í ágúst 2017, er felur jafnframt í sér vísun til meginskýrslu höfundanna, sem er fyrst og fremst byggð á verkfræðilegum forsendum: 100% Renewable Energy For 139 Nations Detailed In New Stanford Report. Slík umskipti myndu, eðli máls samkvæmt, taka mun skemmri tíma undir orkudrifnu skattkerfi en höfundar skýrslunnar gera ráð fyrir, enda gefa þeir sér afar fáar hagfræðilegar og félagsfræðilegar forsendur, hvað þá beinlínis stjórnmálafræðilegar.
Ef nánast öll orkunot væru rafvædd og öll framleiðsla raforku væri hrein, myndi munurinn á framleiddri frumorku (sem nemur nú um 160.000 TWst/ári) og raunverulegri nýttri orku, sem nemur talsvert minna (nú um stundir um 110.000 TWst/ári), minnka til mikilla muna.
Heildarorkunotkunin gæti raunar orðið mun minni en raun ber nú vitni um, í ljósi þess hve miklum mun meiri orka fer til vinnslu, hreinsunar, flutnings og dreifingar jarðefnaeldsneytis en til samsvarandi framleiðslu og miðlunar hreinnar raforku, auk þess sem gríðarlegt varmaorkutapið við brennslu eldsneytisins telur, hvað þá öll losun gróðurhúsalofttegundanna.
Skýringarmyndin hér að ofan er villandi að því leyti að raflínumasturstáknið vinstra megin við miðju, óhreinnar orku megin, ætti mun fremur að vera hægra megin, hreinnar orku megin, en mun minna slíkt tákn þá hinum megin, enda fæli algjör rafvæðing jarðarinnar á forsendum vind- og sólarorku í sér miklu umfangsmeiri raflínulagnir en núverandi raforkunotkun jarðarbúa hefur kallað á, teljandi nú einungis um fimmtung allrar orkunotkunar.
Raforkuvædd jörð á forsendum samrunaorku fyrst og fremst, fæli þó í sér mun minni þörf á raflínulögnum, enda væri orkan þá víðast hvar tiltæk tiltölulega skammt frá megin notkunarstöðum. Þörf á streymi varafls, hvað þá um langan veg, væri því mun minni eða varla nein. Veruleg samrunaorkuvæðing myndi þó að ýmsu öðru leyti leiða til nokkuð áþekkrar niðurstöðu og líkanið felur í sér en með mun minni og jákvæðari umhverfisáhrifum.
(Sjá hér skýrslu Stanford-hópsins í heild, ásamt ítarlegum skýringum (Supplemental Information: 100% Clean and Renewable Wind, Water, and Sunlight All-Sector Energy Roadmaps for 139 Countries of the World – Jacobson et al., Joule 1, 108–121)
Helstu skýringar: B.A.U. = Business-As-Usual = hefðbundin viðskipti, hefðbundið óbreytt orkuneyslumynstur. // END-USE POWER (t.v) = afhent afl til fullnaðarnota. // 100% WWS = Wind, Water, Sun = vindafl, vatnsafl, sólarafl (sbr. t.h.) // Virk aflþörf árið 2012 = "12.105 TW" (t.v.) = 12,1 TW, en að óbreyttu orkuneyslumynstri árið 2050 (t.h) = 20,6 TW, eða á hinn bóginn 11,8 TW undir 100% WWS-afli, að upprættu óhreinu eldsneyti – ath. að aukastafapunkti að enskum rithætti er hér víxlað út fyrir kommu að íslenskum hætti.
Hafa má í huga að virkt afl (power) lýsir tilteknum krafti í einni og sömu andrá, á sama augnablikinu, en orka (energy) felur á hinn bóginn í sér ígildi vinnu af völdum afls á tilteknu tímabili. Orka = Afl x tímalengd aflnýtingarinnar. Allt tiltækt afl margfaldað með lengd nýtingartíma aflsins, t.d. klukkustund, viku, mánuði eða ári, samsvarar þá nýttri heildarorku á tímabilinu. Tiltekin, nýtt heildarorka jafngildir þá þeirri samanlagðri vinnu sem innt hefur verið af hendi – t.d. vinnu af völdum virks tækniafls mannkyns í eitt ár, sem einmitt er vísað til í linuritinu.
Að uppfylltu 100% WWS-markmiðinu gerir líkanið ráð fyrir að virk aflþörf muni minnka um 23% vegna betri orkunýtingar að upprættum brunahreyflum og öðrum jarðefnakyntum búnaði, hvort sem nú gagnast farartækjum, orkuverum eða hverju sem er slíku, um 7% vegna hreinna orkuneyslumynsturs á öðrum sviðum og um 13% vegna útilokunar vinnslu, hreinsunar, flutnings og dreifingar jarðefnaeldsneytis.
Samkvæmt líkaninu myndi raunaflsþörf – sem sagt til virkrar frumorkuvinnslu, í sjálfu sér óháð uppsettu afli í heild – verða um 43% minni undir algjöru vind-, vatns- og sólarafli (100% WWS-afli) en ella, svo að næmi sem næst um 11,8 TW árið 2050 í stað um 20,6 TW að öllu óbreyttu til sama tíma. Þrátt fyrir verulega aukningu allrar tækni fram til ársins 2050, vegna síaukins fjölda jarðarbúa og aukinnar tæknivæðingar og þróunar, myndi aflþörfin sem sagt standa nánast í stað með umskiptum frá allrahanda óhreinni orku til hreinnar raforku, vegna miklu betri nýtingar frumorkunnar, þeirrar raunverulegu orku sem þarf til reksturs alls óðals jarðarbúa, jörðina um kring, heimskautanna á milli.
Þróunin myndi þó verða mun hraðari undir orkudrifnu skattkerfi, jafnvel svo að á sumum sviðum yrði mælt í áratuga skemmri ferlum – slíkur væri þá hvatinn til hagfelldari orkuneyslu, hvatinn til betri orkunýtingar og skynsamlegri náttúrunota á öllum sviðum. Hvað þá að teknu tilliti til hraðari þróunar á nýtingu samrunaorku, sem af myndi leiða, til lengri og skemmri tíma litið.
Líkan Stanford-hópsins var þá þegar farið að úreldast þegar það var sett fram á árinu 2017, enda skortir flesta efnahagslega hvata því til stuðnings. Virðist hópurinn raunar vart hafa gert ráð fyrir neinum hagrænum grundvallarbreytingum sem heitið geti – hvað þá beinlínis stjórnarfarslegum – heldur fyrst og fremst því að styrkir og skattalegar undanþágur frá lítt breyttu hagkerfi myndu stuðla að hreinni orkunotum, ásamt því vissulega að kolefnisgjöld og ígildi þeirra myndu draga úr eftirspurn eftir óhreinni orku. Margslungin neikvæð heildaráhrif WWS-afls – vindafls, vatns og sólar – á samfélag og náttúru eru því að mestu látin ótalin, á sinn hátt líkt og fórnarkostnaðurinn vegna koltvíildisauðgandi fríðindanna hefur löngum verið vantalinn, sbr. hér og í fyrri greinum margumfjallað.
Hafa skyldi þó ríkt í huga að líkanið eða leiðarvísirinn er fyrst og fremst verkfræðileg greining á möguleikum sólar- og vindorku, auk vatnsorku, sem og orku sjávarfalla og strauma og jarðhita, að svo litlu leyti sem hið síðarnefnda kemur þó til álita. Með líkaninu er því lagður góður grunnur að margvíslegri tæknilegri útfærslu, sem skyldi nýtast mun ítarlegri heildarútfærslu, umhverfislegri jafnt sem hagfræðilegri. Ótvírætt er sýnt fram á að hrein orka á sér miklu meiri möguleika en almennt hefur verið látið í veðri vaka. Greiningin er því kjörið veganesti inn í framtíðina – jafnvel inn í hina allra nánustu framtíð ef stjórnmálamenn, hagfræðingar og umhverfisfræðingar legðust á eitt með hinum framsýnustu verkfræðingum við mótun virkra stjórntækja í stað þess að vera eilíflega að lappa upp á úr sér gengin stjórnkerfi með smáskammtalækningum, löngu úreltum patentlausnum og lítilsvirðandi styrkjapólitík, vegandi vart meira í hinu stóra samhengi hlutanna en fjúkandi fis móti tröllríðandi tekjuskattspólitíkinni, engu líkara en hagfræðin sé svo bjargföst orðin að hún hljóti að verða steinrunnin um aldur og ævi.
Orkudrifið skattkerfi felur í sér slíkan hvata til nýsköpunar – ekki síst vegna afnáms skattbyrðar sköpunarstarfsins – að margvíslegar orkubúskaparlausnir tækju nánast að sjálfgefnu stórstígum framförum. Enda væri jarðefnaeldsneyti þá eigi lengur sjálfgefin, hræódýr orkulausn – líkt og nú er á flestum sviðum víðast hvar á jörð, tálmandi svo freklega öðrum lausnum – heldur þvert á móti sköttum þrúguð bráðabirgðalausn.
Lausnir kæmu þá einmitt í sjónmál, með aukinni þróun, er miðuðu að svo haganlegri varðveislu, miðlun og dreifingu hreinnar orku, að vel mætti jafna til meðfærileika jarðefnaeldsneytis, einmitt á þann veg að vinnsla orkunnar og hins vegar orkunotkunin geti verið sem óháðust hvoru öðru þegar svo ber undir, þá ekki síst á sviði samgangna og vinnuvélatækni, en jafnframt og ekki síður til jöfnunar á afar sveiflukenndri framleiðslu vind- og sólarorkuvera.
Má raunar að líkum leiða að rafeldsneyti og orkuberar á borð við vetni, í hinum ýmsu efnafræðilegu myndum, muni þá leysa jarðefnaeldsneyti hratt af hólmi, ekki síður en rafhlöður, fyrir enn frekari og hraðari þróun en hingað til, sem og þá einnig þráðlaus orkuflutningur, að muni jafnvel fara skjótt af stigi frumþróunar á hagnýtt stig (er ekki síst myndi gagnast samgöngum) – einfaldlega vegna þess hve lítt skattlagt þróunarstarfið mun nýtast mun betur og lausnirnar þar af leiðandi bera hagkvæman árangur mun fyrr en ella, hvað þá að afnumdum öllum skatt- og koltvíildisfríðindum mengunarvaldanna, umhverfissóðanna sem hafa verið allsráðandi svo alltof lengi um alla jörð.
Lausnirnar munu þá ekki einungis nýtast sólar- og vindorkubúskap til skemmri tíma litið heldur ekki síst samrunaorkuvinnslu til langrar framtíðar litið, þá er verkfræði- og vísindasamfélagið, laust undan oki skattaáþjánar, mun hafa þróað hinar hagnýtustu aðferðir til virkjunar samrunaorku sem meginafls á flestum sviðum.
Niðurlag
Hvort sem litið er til verkfræði- og vísindasamfélagsins, eða til alls þorra almennings, þá mun slíkt skattkerfi sem hér, í þessum greinaflokki, hefur verið lýst, hafa í för með sér grundvallarbreytingar á öllum þjóðhagsstærðum. Meginþungi opinberra álaga mun þá eigi lengur hvíla á herðum alls þorra velferðarþegnanna – né þá heldur á herðum hins opinbera, sem öllu jöfnu, beint og óbeint, ber nú hartnær helming þungans (svo hart sem það gengur fram í að skattleggja sjálft sig, svo ótrúlega sem það þó hljómar!) – heldur fyrst og fremst hvíla á þeim breiðu bökum, sem hvað ákafast hafa kosið að nýta sér umhverfi okkar, orku, hráefni og náttúruauðlindir jarðar, sér til hagsbóta – og hvort þá ekki öll þau koltvíildisauðgandi fríðindi sem hingað til hafa verið nær sjálfgefin þeim er hafa verið hvað frekastir til fjárins og allrar náttúruspillingarinnar.
Með slíku gjörbreyttu skattkerfi, er fyrst og fremst tæki mið af orku- og náttúrunotum, myndi beinum álögum á tekjur verða aflétt. Heildarlaunakostnaður lækkaði þá sem næmi afnámi skattanna en ráðstöfunartekjur þjóðfélagsþegnanna héldust í megindráttum óbreyttar. Það væri svo undir hverjum og einum komið hvernig tekjum væri varið – vissulega – að hve miklu leyti til kaupa á orku og tækniafli, slíkri vöru eða þjónustu er á einn eða annan veg væri bundin opinberum álögum, eða til kaupa á slíkri vöru eða þjónustu er fyrst og fremst væri háð mannafli og þá þeim mun minna háð opinberum álögum.
Gefur augaleið, eðli orku- og auðlindadrifins skattkerfis samkvæmt, að orka og allt mjög orkuháð tækniafl, sér í lagi allt það sem leitt er af bruna jarðefnaeldsneytis, myndi hækka einna mest í verði en aftur á móti myndi nánast allt hug- og handverk lækka til muna í verði, enda væri mannaflið þar að baki síst sköttum háð. En einu álögurnar sem legðust jafnt á alla framleiðslu og þjónustu, einkarekna jafnt sem opinbera – alls undantekningalaust, alls óháð öðrum sköttum og gjöldum, alls óháð tæknistigi – væri virðisaukaskattur, e.t.v. um 13%.
Eðli máls samkvæmt væri ráðstöfun tekna undir hverjum og einum komið – hvort útgjöldin rynnu til kaupa á mjög skattlagðri vöru eða þjónustu, er væri þá almennt leidd af gjaldskyldri orku- og náttúrunýtingu, eða til kaupa á lítt skattlagðri vöru og þjónustu, sem eins og gefur að skilja væri þá fyrst og fremst byggð á mannafli. Kaupmáttur væri m.ö.o. óbreyttur – til jafnaðar – og þó allt eftir skattspori einstakra viðskipta hvers og eins, hvort sporin fælu í sér miklar, miðlungs eða litlar opinberar álögur, allt eftir neyslumynstri hvers og eins.
Sama gilti raunar um allan rekstur – að því háðari sem starfsemi er orku og tækniafli, og þar með náttúruauðlindum jarðar, þeim mun þyngra myndu beinar eða óbeinar álögur hins opinbera vega (og þá sannarlega þyngst er mjög koltvíildisauðgandi rekstur á í hlut!) – andstætt við þær margvíslegu starfsgreinar er byggja á mannafli fyrst og fremst, án teljandi ágengni við náttúruna… svo sem skólastarf og allrahanda fræði, heilbrigðis- og almannaþjónusta, fjölmiðlun, kvikmyndagerð, bókaútgáfa, lögfræðiþjónusta, bókhaldsþjónusta, veitingaþjónusta, hárgreiðsla og klipping, nudd, líkamsrækt, sem og þá ekki síst allflest viðhald hluta, tækja og mannvirkja, sem sagt að því marki sem sporin marka ekki djúpt í nýtingu náttúru jarðar...
Um öll þessi efni hefur höfundur fjallað í ítarlegu máli í hinum ýmsu þáttum greinaflokksins, sem alls telur þessar fjórar greinar:
Herragarðurinn – og vér orkuaðallinn: Um megindrætti hins tekjudrifna skattkerfis, það er velferðarríkið hefur löngum átt allt sitt undir, og hins vegar um afleiðingar þess að fótunum væri bókstaflega kippt undan kerfinu. Opinberar álögur miðuðu þá þeim mun frekar að orku og auðlindum jarðar, að sjálfum rótum velferðarinnar, en að ávöxtum velferðarinnar.
Herragarðurinn – orkan og almúginn: Enn um margslungið samband orku og afkomu, orku og hagnaðar, skatta og velferðar – og um hina algjöru frumforsendu allrar skattlagningar, að af einhverju sé að taka. Eða hvort skyldi vera líklegra til að fá risið undir velferð okkar – náttúruauðlindir jarðar eða vér sjálf, sauðsvartur almúginn, krefjandist náttúruafurðanna á silfurfati eins og greifar?
Herragarðurinn – óðal aðals eða orkubú jarðarbúa?: Um tildrög þess að homo faber, hinn verktæknilegi maður, birtist á sjónarsviðinu, og hvernig afsprengi hans, hinn vísindatæknilegi maður, hefur hneppt sig æ fastar í fjötra álaga á sjálfan sig, heimtandi þeim mun frekar alls af náttúrunni, að þjónaði sér sem þræll, sama hve orka og auðlindir jarðar eru þó takmarkaðar – á nær öllum sviðum.
Herragarðurinn – orkubú jarðarbúa: Um orku og auðlindir jarðar – hve auðveldlega má ganga af drjúgum hlutum náttúrunnar dauðum, einfaldlega með óheftri sókn í auðlindirnar, fyrir mátt hinna ríkulegustu skattfríðinda, eða á hinn bóginn hve jafn auðveldlega má efla skynsamleg not af margvíslegum jarðargróðanum, einfaldlega fyrir áhrif slíkrar gjaldtöku sem heftir óskynsamleg not. Það er svo undir manninum komið, hvort hann telur mikilvægara markmið, að hefta sjálfan sig blygðunarlaust með opinberum álögum fremur en sjálf blygðunarlaus notin af öllum skammtímagróðanum…
Hvort sé sem sagt mikilvægara – í bráð og lengd – að sóa orkunni, og þar með jarðargróðanum, eða að nýta orku jarðar til hins ýtrasta og þar með ríkulega ávexti framleiðninnar, hvers og eins jarðarbúa, hvers og eins á sína vísu…
Höfundur tileinkar greinaflokkinn Gretu Thunberg, loftslagsvárfræðingi, og minningu Snorra Baldurssonar, náttúrufræðings.
Ítarefni:
- Greta Thunberg: The Disarming Case to Act Right Now on Climate Change. TEDx, 2018
- Snorri Baldursson: Állinn og náttúruvernd – harmleikur í sex þáttum. Kjarninn, 2021
Höfundur er áhugamaður um auðfræði og náttúruvernd