Fátæku fólki er markvisst haldið utan við þátttöku innan borgarsamfélagsins. Skilaboð borgaryfirvalda um að enginn verði skilinn eftir í kjölfar efnahagslegra afleiðinga kórónuveirunnar og að borgin sé fyrir okkur öll hafa engu breytt í þeim efnum.
Veruleiki þeirra sem klífa hindranir í leit að öruggu húsnæði mætti líkja við það að spila Tetris-leik í kapp við tímann, í leikjatölvu sem er að verða rafmagnslaus. Þú hefur engan áhuga á að spila leikinn en verður að klára borðið í von um að komast í öruggt skjól en enginn vill gefa þér hleðslu. Ef þú hrópar á hjálp, verður þú vinsamlegast að bíða því þú ert númer 524 í röðinni.
524 er fjöldi þeirra sem bíða eftir því að komast í almennt félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Slíkt húsnæði er ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki geta séð sér fyrir húsnæði vegna félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna. Á bak við þann fjölda umsókna eru fjölskyldur og börn eða nánar tiltekið 109 barnafjölskyldur, þar af 87 einhleypir foreldrar.
Íbúar væru ekki skildir eftir á biðlistum ef borgin væri raunverulega hönnuð fyrir okkur öll. Meðan á biðinni stendur, greiða leigjendur allt of hátt hlutfall tekna sinna í leigu. Þegar helmingur ráðstöfunartekna, jafnvel yfir 70% fer í öflun húsnæðis, þá er lítið eftir til að gera það sem telst eðlilegt sem lifandi mannvera. Biðin eftir húsnæði á viðráðanlegu verði leiðir til tíðra flutninga, að þurfa að búa inni á öðrum og ótryggra húsnæðisaðstæðna.
Óleyfisíbúðir á landinu öllu voru áætlaðar 1.500 - 2.000 í upphafi þessa árs. Íbúafjöldi þeirra var metinn 5.000 til 7.000 einstaklingar á landinu öllu. Hér er um að ræða húsnæði sem er skipulagt undir atvinnustarfsemi en er nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga. Þar af var áætlað að 3.500 - 4.000 manns á höfuðborgarsvæðinu byggju við slíkar aðstæður.
Skortur á leiguhúsnæði og há leiga voru talin veigamesta skýringin á því. Um þetta var fjallað í niðurstöðum vinnuhóps um umbætur á húsnæðismarkaði sem skilaði skýrslu um óleyfisbúsetu og fjöldaskráningar í íbúðarhúsnæði. Vandinn við búsetu í ósamþykktu húsnæði er margvís, t.a.m. er ekki hægt að fá húsnæðisbætur og endurspeglar þetta flækjustigið og úrræðaleysið sem leigjendur búa við.
Búseta í ósamþykktu húsnæði er afleiðing þeirrar óréttlátu samfélagsgerðar sem við búum við. Þar er ekki litið á húsnæði sem heimili fólks, sem mannréttindi sem við eigum öll rétt á. Litið er á húsnæðisuppbyggingu sem gróðatækifæri, fasteignir fyrir fjármagnseigendur til að græða á. Þegar húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir því að einungis 25% nýrra íbúða verði byggðar utan hagnaðarsjónarmiða er stefnan sjálf ekki byggð á félagslegum forsendum. Í slíku kerfi eru alltaf ákveðnir hópar skildir eftir.
Grundvallarbreytinga á húsnæðiskerfinu og uppbyggingu þess er þörf, þar sem byrjað er á því að vinna út frá þörfum hinna verst settu. Í slíkri borg væri heimilislausu fólki boðið upp á skjól allan sólarhringinn, ekki einungis frá fimm á síðdegi til tíu næsta morguns. Við hefðum öll aðgengi að húsnæði sem hentaði þörfum okkar. Í borg sem er fyrir okkur öll væru biðlistar Reykjavíkurborgar eftir húsnæði ekki að telja samtals 870 umsóknir. Hér er um að ræða umsóknir eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði sem eru 524, 136 umsóknir eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, 72 umsóknir eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 138 umsóknir fyrir þjónustuíbúðir aldraðra.
Hlutirnir ganga áfram eins og vel smurð vél fyrir suma í samfélaginu. Laun okkar borgarfulltrúa hækka sjálfkrafa tvisvar sinnum á ári út frá hækkun launavísitölunnar á meðan grunnupphæð fjárhagsaðstoðar er 212.694 kr. á mánuði fyrir skatt. Ef borgin á að vera fyrir okkur öll, þá myndu tekjurnar duga til þess að fólk gæti borðað alla daga mánaðarins, á öllum matmálstímum. Aðstöðumunurinn á milli okkar sem taka ákvarðanir fyrir þau tekjulægstu í borginni er gríðarlegur. Ofan á grunnlaun borgarfulltrúa sem eru 873.758 leggjast síðan aukagreiðslur sem nefnast álagsgreiðslur.
Álag og streita fylgir því að eiga ekki fyrir reikningum. Innheimta með tilheyrandi kostnaði er sú refsing sem mætir fátæku fólki fyrir aðstæður sem það ræður alls ekki við. Af öllum útgefnum reikningum vegna grunnskólamáltíða hjá Reykjavíkurborg fóru að meðaltali 4,2% þeirra í milliinnheimtu Momentum skólaárið 2020-2021 og 1,5% höfðu ekki verið greiddir í nóvember 2021. Þó svo að ekki sé lokað á skólamáltíðir vegna vanskila, þá eiga slíkir reikningar alls ekki heima í innheimtu. Skólar eru ekki staðir til að ala upp kostnaðarvitund í svöngum börnum.
Gjaldtaka á ekki að eiga sér stað fyrir skólamáltíðir barna. Brauðmolar til fátæks fólks einkennir afstöðu borgaryfirvalda í þessum málum, það er aldrei fullt efnahagslegt réttlæti. Fyrr á þessu kjörtímabili var samþykkt að foreldrar sem eru með tekjur fjárhagsaðstoðar þyrftu ekki að greiða skólamáltíðir og síðdegishressingu barna sinna, fyrir dvöl barna í leikskóla eða á frístundaheimili. Það er ekki nóg. Samkvæmt skýrslu Barnaheilla eiga 12,7% barna á Íslandi á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun.
Við eigum ekki að rukka börn fyrir þjónustu á vegum borgarinnar. Við eigum ekki að eltast við ógreidda reikninga fyrir matarþjónustu innan skólanna. Við sem störfum með hagsmuni borgarbúa og borgarinnar að leiðarljósi eigum að setja orkuna í það að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur. Slíkt kæmi ekki til nema með lögum frá Alþingi en Reykjavíkurborg á að leita til hinna sveitarfélaganna, með það að markmiði að koma slíkri skattlagningu á. Fjármagnstekjur bera ekki útsvar ólíkt launatekjum og því um mikið réttlætismál að ræða. Fjármagnseigendur sem hafa tekjur sínar eingöngu eða að stærstum hluta af fjármagni eiga að greiða til sveitarfélagsins.
Ríkt fólk á ekki að fá að fara um samfélagið okkar og nýta allt sem það hefur upp á að bjóða án þess að greiða fyrir það. Hér er um að ræða bókasöfn, göngu- og hjólastíga, sundlaugar, leik- og grunnskóla, sorphirðu, listasöfn og svo miklu, miklu fleira sem ég er viss um að fjármagnseigendur nýti til jafns á við aðra útsvarsgreiðandi íbúa.
Auka gjaldtaka á sér síðan stað fyrir þau sem passa ekki inn í ákveðna fyrirfram mótaða staðla. Borgarbúar sem treysta á akstursþjónustu fatlaðs fólks eiga ekki kost á því að greiða fyrir afsláttarkort að undanskyldum nemendum í framhaldsnámi. Kostnaðurinn hleypur því á tugum þúsunda á ári og getur farið vel yfir 100 þúsund kr. á ári. Til samanburðar má nefna að almennt árskort í strætó kostar 80.000 krónur. Fyrirkomulag varðandi akstursþjónustu fyrir fatlað fólk er þannig að greitt er fyrir hverja ferð 245 kr. Ef viðkomandi fer tvær ferðir, fimm daga vikunnar, allar vikur ársins þá er samgöngukostnaðurinn 127.400 kr. á ári. Það er áætlað að það myndi kosta borgina 16. m.kr. árlega að bjóða notendum akstursþjónustunnar upp á árskort á því verði sem á við um árskort öryrkja í Strætó bs. (24.000 kr.). Borgin er svo sannarlega ekki hugsuð út frá þörfum okkar allra.
Börn þurfa nú að greiða hærra ársgjald í strætó, þar sem kortið fyrir 12- 17 ára hækkar úr 25.000 krónum í 40.000. Það er oft talað um að börnin séu framtíðin og að við þurfum að auka veg almenningssamgangna fyrir betri loftgæði í þeirri framtíð. Hækkanir ganga þvert gegn þeim markmiðum og bitna verst á þeim sem eru í erfiðri fjárhagslegri stöðu.
Strætó bs. er opinbert þjónustufyrirtæki í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og miðað við það er margt öfugsnúið í þeirri starfsemi. Fyrr á árinu vöktu sósíalistar athygli á því að grunnlaun hjá vagnstjórum Kynnisferða sem aka fyrir Strætó bs. eru 360.898 kr. Grunnlaun hjá vagnstjórum sem eru ráðnir beint inn í gegnum Strætó bs. og eru hjá Sameyki eru 398.424 kr. Þetta eru afleiðingar útvistunar og hér má sjá skaðsemi hennar. Fólk sem sinnir sömu vinnu fær ekki greidd sömu laun fyrir sömu störf og þarf að vinna lengur fyrir minna kaup. Ábyrgðin er sveitarfélaga. Stætó bs. skuldar því vagnstjórum tæpar 40 þúsund kr. á mánuði, samtals um 450 þúsund á ári.
Stjórnvöld eru oft ekki sammála um hver skuli greiða fyrir það sem íbúar eiga rétt á. Dæmi um slíkt eru samningar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi bera ríki og hlutaðeigandi sveitarfélag sameiginlega ábyrgð á því að fjármagna slíkt. Fjöldi samþykktra umsókna á bið á árinu 2021 eru 34 talsins í Reykjavík. Enginn á að þurfa að bíða eftir samningnum sem viðkomandi á rétt á. Útrýmum bið eftir réttindum og þjónustu og tryggjum að borgin sé raunverulega fyrir okkur öll.
Höfundur er oddviti Sósíalistaflokks Íslands í borgarstjórn Reykjavíkur.