Samantekt
Stór sementsframleiðandi (Heidelberg Cement Pozzolanic Materials ehf) hefur áhuga á að flytja miljónir tonna af svonefndu “possólan”-efni í framleiðslu sína erlendis. Ýmsir hafa áhyggjur af löngum flutningi efnisins frá námu til Þorlákshafnar. Hér er sennilega um misskilning að ræða. Einfaldast er að possólanefnið verði hreinsað, þurrkað og malað í rétta kornastærð til notkunar til sementsíblöndunar nærri tökustað. Þá má geyma efnið og flytja í geymum líkt og sement. Flutningur þess gæti þá farið fram með þrýstilofti í lokuðum flutningskerfum líkt og innflutt sement.
Nú er líklegt að margir spyrji: hvað er possólanefni ? Þar sem efni með possólan-eiginleika munu leika verulegt hlutverk í framtíðinni sem íblöndunarefni í sement eða jafnvel koma í stað hefðbundins Portlandsements, er ástæða til þess að útskýra þetta hlutverk nánar. Efni með þessa svonefndu possólan-eiginleika eru kalsíumsiliköt, sem hafa reynst vel sem viðbótarbindiefni ásamt Portlandsementi í steinsteypu. Possólanefnin eru bæði til sem jarðefni (t.d. gosefni) en einnig hafa ýmis úrgangsefni frá orku- eða iðnferlum þessa eiginleika. Possólanefnin auka vatnsþéttleika og endingu steinsteypunnar og eru því mest notuð í steypu, þar sem þessara eiginleika steypunnar er þörfþ T.d. vinna þau gegn alkalíþenslu. Þá hafa þessi efni á síðari tímum öðlast mikla þýðingu vegna áhrifa þeirra, til þess að minnka koldíoxíð-útstreymi frá steinsteypugerð. Hingað til hefur viðeigandi iðnaðarúrgangur aðallega verið nýttur sem possólanísk íblöndunarefni í sement, en þar sem aðgerðir gegn loftslagshlýnun draga úr magninu sem til fellur í orku- og iðnferlum, beinist athyglin nú í auknum mæli að notkun náttúrupossólana. Þar á meðal eru ýmis gosefni og er það skýringin á hugmyndum um útflutning gosefna frá landinu. Possólanefni eiga sér jafnlanga sögu og steinsteypan. Þau eru fyrst nefnd fyrir um 2000 árum við byggingu steyptra mannvirkja í Rómaveldi og nefnd eftir Pozzuoli, þorpi við Napolíflóann. Athygli steypusérfræðinga hefur undanfarið beinst að óvenjulangri endingu mannvirkja frá þessum tíma. Það þykir einmitt styðja við kenningar um jákvæð áhrif possólana á endingu steypu.
Rannsóknir á náttúrupossólönum hér á landi hófust hjá Atvinnudeild Háskóla Íslands eftir heimsstyrjöldina síðari. Frumkvöðull þess var Haraldur Ásgeirsson verkfræðingur, sem síðar varð framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Þessar rannsóknir skiluðu árangri og birtust greinar um þær í erlendum fræðiritum. Voru þær eitt stærsta verkefni stofnunarinnar á síðari hluta tuttugustu aldarinnar.
En nú er skarð fyrir skildi, með niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar hafa opinberar steinsteypurannsóknir lagst niður. Þróunin á nýtingu gosefna sem framtíðar bindiefni í steinsteypu gætu haft mikla þýðingu hér á landi, sérstaklega ef þróun á geopolymer- eða jarðfjölliðunar-steypu verður árangursrík. Hún gæti jafnvel opnað möguleika á því að sementsframleiðsla, sem byggð er eingöngu á notkun þeirra, hefjist á Íslandi.
Uppruni possólanefnanna
Það er ekki fyrr en um síðastliðin aldamót, að sú staðreynd varð ljós, að við framleiðslu sements myndaðist eitt mesta útstreymi koldíoxíðs í iðnferlum á jörðinni. Sem varanleg lausn á þessum vanda til langframa hefur verið nefnd aukin notkun jarðefna með svonefnda possólaniska eiginleika. Til þess að gera sér betri grein fyrir vandanum er rétt að skoða feril og sögu sementsframleiðslunnar.
Sement er bindiefni, sem notað er, til þess að líma saman steinefni, möl og sand við gerð steinsteypu. Aðal grunnhráefnið í sement er kalksteinn, sem finnst víða í miklu magni og samanstendur af þremur frumefnum, kalsíum, kolefni og súrefni. Sameind kalksteinsins er þá rituð Ca (CO3) og efnafræðiheitið er kalsíumkarbónat. Sé kalksteinninn hitaður upp í nokkur hundrað gráður klofnar hann niður í tvö efnasambönd, kalk eða kalsíumoxíð (CaO) annars vegar og koldíoxíð (CO2) hins vegar. Hin eiginlega saga sementsins hefst á öldunum kring um Kristsburð eða 300 árum f.K. til 476 e.K. Heimildir tveggja vísindamanna á fyrstu öld e.K. gefa góðar upplýsingar um þróunina á notkun sements í Rómarveldi á þessum tíma.
Annar þessara vísindamanna var Gaius Plinus Secundus eða Plinus eldri, sem var rómverskur náttúrufræðingur og embættismaður. Hinn vísindamaðurinn var Markús Vítrúvíus Pollíó, rómverskur arkitekt og verkfræðingur, sem skrifaði 10 bækur um byggingarlist (De architectura libri decem), sem er eina varðveitta ritverk sinnar tegundar úr fornöld. Rómverjar uppgötvuðu þá staðreynd, að ef þeir blönduðu kísilsýruríkum efnum í kalkmúrinn, varð hann sterkari og harðnaði jafnvel undir vatni. Þetta var mjög mikilvægt, þar sem kalkmúrinn harðnaði eingöngu í lofti. En rómverska herveldið á þessum tíma var farið að byggja vatnamannvirki, sérstaklega hafnarmannvirki, fyrir flota sinn. Kísilsýrurík efni voru bæði brenndur leir og gosaska. Var íblöndunarefnið þá nefnt possólanefni eftir þorpi nálægt Napólí á Ítalíu . Þannig er talið að fyrsta uppgötvun eins konar steinsteypu hafi orðið til þegar kalkgrauti var smurt á vota leirveggi úr gosefnaleir í nánd við bæinn Pozzouli við Napoliflóa, sennilega um 200 árum fyrir Kristsburð.
Þannig blanda var notuð í mörg mikilvægustu mannvirki Rómverja svo sem rómversku böðin, Coliseum og Pantheum í Róm og Pont du Gard vatnsleiðsluna í Suður Frakklandi. Vítrúvíus talaði um 2 hluta possólanefna á móti 1 hluta af kalki í bindiefnið. Dýrafita, mjólk og blóð var notað í múrinn sem hjálparefni, þau juku þjálni og þéttleika. Og þessi mannvirki standa enn í dag. Bæði Rómverjar og Grikkir til forna gerðu sér ljósa þýðingu þess að nota fínmalaða gosösku saman við kalk og sand til að gera múrblöndur. Grikkir notuðu gosösku frá eyjunni Thera (nú Santorin). Possólanefnið sem Rómverjar notuðu var rauð gosaska frá eldfjallinu Vesuvius, sem fyrirfinnst víða við Napólíflóann og besta efnið er einmitt að finna í nágrenni bæjarins Puzzuoli.
Rómverjar báru þekkinguna með sér út í fjarlæga hluta heimsveldisins og múrverk, sem fundist hefur t.d. í Englandi hefur reynst standa jafnfætis því besta á Ítalíu. Mulinn tígulsteinn var venjulega notaður á þessum stöðum en á fáeinum svæðum var þó gosaska notuð t.d. við Rín í Þýskalandi (Trass). Eftir fimmtándu öld fara gæði múrblandnanna batnandi og rómverska blandan hélt lengi yfirburðum sínum, sem eina nothæfa efnið í mannvirki undir vatni.. Þegar við nálgumst nútímann hefst mikilvægasta framþróunin í sementsgerð skömmu fyrir upphaf 19. aldar með gerð Portlandsements. Það var Englendingurinn John Smeaton (1724 – 1792) sem var sporgöngumaður þess að rannsaka samsetningu og brennslu þess sements, sem átti eftir að verða undanfari nútíma sementsgerðar Sá sem fékk svo heiðurinn af því að finna upp Portlandsementið og fá einkaleyfi fyrir því, var Joseph Aspdin. Hann var múrari og fæddist í Leeds (1779–1855). Var nafnið kennt við mjög hart og endingarmikið steinefni, sem fannst á Portland-eyju nærri Dorset Englandi.
Rannsóknir á possólanefnum á Íslandi
Notkun sements og steinsteypu hér á landi hefst ekki fyrr en í byrjun tuttugustu aldar. Sementið var innflutt frá ýmsum Evrópulöndum. Umræða um notkun possólanefna í steinsteypu hér á landi var þá ekki þekkt og hefst ekki fyrr en eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Enginn íslenskur tækni- eða vísindamaður íslenskur hafði fram til þess tíma numið steinsteypufræði sérstaklega, ef frá er talinn íslenskættaður vísindamaður í Saskatchewan í Kanada, Þorvaldur Þorvaldsson að nafni, sem var þekktur fyrir rannsóknir á endingu steinsteypu.
Sá vísindamaður íslenskur, sem átti frumkvæði að og kom af stað athugunum á notkun náttúrupossólana í steinsteypu á Íslandi var Haraldur Ásgeirsson verkfræðingur, sem var um langt árabil framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Haraldur fór til náms í efnaverkfræði til Bandaríkjanna í miðri heimsstyrjöldinni 1941 og nam næstu fjögur árin efnaverkfræði við háskólann í Illinois (University of Illinois). Við skólann var þekkt rannsóknadeild fyrir rannsóknir á eiginleikum sements og steypu. Þá þegar var farið að stunda rannsóknir á því hvernig minnka má orkunotkun við framleiðslu sements. Haraldur vann fyrstu árin við athuganir á notkun raforku við framleiðslu álsements, sementstegund sem framleiða mátti við lægra hitastig en þær 1.450°C, sem þurfti við framleiðslu Portlandsements. Meistaragráðu lauk hann svo árið 1945 með tilraunum á lækkun bræðslumarks sementsgjalls með íblöndun bræðslumarkslækkandi efna (flux-efni) við brennslu sementsins. Að loknu námi fór Haraldur í margar heimsóknir í framleiðslufyrirtæki sements í Bandaríkjunum og kynnti sér framleiðslu og framleiðsluferla hinna ýmsu sementstegunda.
Áður en lengra er haldið er rétt að skýra nokkuð efnaferla við gerð sements og í framhaldinu hvernig possólanefnin tengjast þeim.
Helstu efni og aðferðir
Eins og fram kemur hér á undan var brennt kalk (CaO) undanfari bindiefnisins sements, sem hlaut nafn sitt á blómaskeiði byggingarlistar Rómaveldis kring um Kristsburð. Voru mannvirki úr steinsteypu í Rómaveldi nefnd opus caementicium. Með áfamhaldandi brennslu fínmalaðs kalks og íblöndun silisíum (ísl.:kísil) ríkra jarðefna (t.d. ýmis konar leirefna) upp að bræðslumarki blöndunnar fékkst bindiefni, sem gat bundið möl og sand í steinsteypu. Leirsambönd við sementsgerðina eru álsiliköt (sambönd áls og kísilsýru). Við brennslu á blöndu kalks og sílikata í sementsofnum við allt að 1450°C hita myndast bindiefnasambönd sementsins.
Það efnasamband sementsins, sem gefur mestan styrk er kalsíumsilikat með háu innihaldi af kalsíum (kalsíumtrisilikat). Við gerð steinsteypu er sementið blandað vatni. Við það byrjar sementið smám saman að harðna. Efnaferlið byggist á sambandi kalsíumsilikats við vatn og nefnt vatnað (hydrated) kalsíumsilikat. Hörðnun sementsins byggist á kristöllun þessa efnasambands. Samskonar jarðefnasamband er ekki þekkt í nátúrunni, en kristalbygging þess líkist jarðefninu tobermorit. Við vötnun sementsins myndast einnig visst magn af vötnuðu kalki (kalsíumhydroxíð). Það hefur enga bindieiginleika og gefur steypunni engan styrk.
Possólanar er alþjóðlegt orð líkt og sement og hefur ekki verið þýtt á íslensku. Possólanar eru venjulega skilgreindir sem efni sem ein sér hafa ekki sementsbindandi eiginleika en með kalsíumhydroxíði (t.d. er myndast við vötnun hreins Portlandsements) mynda þeir svipuð efnasambönd og sement. Possólanefni eru venjulega notuð sem íblöndun eða viðauki í samsett eða blönduð sement (cement extender) eða beint í steinsteypublöndur. Er það gert til þess að auka langtíma styrk steypunnar, þéttleika og fleiri eiginleika hennar svo sem vörn gegn alkalíþenslu. Possólönum má skipta í tvo aðalflokka náttúru- possólana og gerfi- eða iðnaðarpossólana. Náttúru- possólanar eru oftast einhvers konar eldfjallaaska en þeir geta líka innihaldið viss jarðefni svo sem kísilþörunga (t.d. kísilgúr). Gerfi- eða iðnaðarpossólanar eru aftur á móti efni, sem orðið hafa til við ýmis konar brennslu eða meðhöndlun jarðefna eða eldsneytis svo og úrgangur frá iðnferlum.
Notkun possólana í sement og steinsteypu hefur vaxið mjög á síðustu tímum og ekki síst á síðustu áratugum þar sem notkun þeirra dregur mjög úr myndun gróðurhúsalofttegunda. Possólanefnin koma þá í stað sementsgjallsins í sementinu en gjallbrennslan hefur mikla CO2 myndun í för með sér. Algengt er að allt að 40% sementsgjallsins sé skipt út fyrir possólanefni við sementsmölun eða álíka magn þeirra komi í stað sements við steinsteypugerð. Við nútíma steypugerð, með nákvæmri hönnun steypublanda og þeim hjálparefnum (t.d. þjálniefnum) sem notuð eru, hefur tekist að nýta hátt hlutfall possólanefna án þess að byrjunarstyrkur bindiefnablöndunnar lækki að ráði. Við íblöndun possólefna ásamt sementi í steinsteypu verður til útskipting á kalsíumhydroxíði og álsilikötum frá possólanefnunum og það myndast viðbótarbindiefni. Er það kalsíumsiliköt, þar sem ál er komið að hluta í stað silisíums (ísl. kísill) í silikötunum. Kalsíumhydroxíði sem hefur ekki bindieiginleika og er veikur hlekkur í hörðnun steypunnar, er þannig skipt út fyrir kalsíumsilikathydröt og álsilikathydröt, sem dreifa sér inn í holrými steypunnar, styrkja hana og þétta. Á þessu byggist að styrkur og þéttleiki sementsmúrsins vex við íblöndun possólanefna.
Aftur heim til Íslands
Hverfum aftur til þess að Haraldur Ásgeirsson kemur heim frá námi. Hann fær þá stöðu við Atvinnudeild Háskóla Íslands (AHÍ), sem þar hafði verið stofnuð, til þess að styðja við atvinnu- og iðnaðarstarfsemi í landinu. Hóf hann þar störf við nýbyrjaðar byggingaefnarannsóknir. Þar á meðal var nýting léttra gosefna eins og vikurs og perlusteins en einnig þátttaka í undirbúningi á íslenskri sementsframleiðslu og staðsetningu hennar. Það er í kring um stríðslok 1945, sem Haraldur hefur rannsóknastörf sín hjá Atvinnudeildinni. Þar er um sama leyti að hefjast jarðræðirannsóknir og rannsóknir á íslenskum jarðefnum, einkum gosefnum. Var Tómas Tryggvason þar fremstur í flokki jarðfræðinga. Hófu þeir Haraldur samvinnu um að finna heppileg gosefni fyrir t.d. léttsteypur svo og hráefni fyrir sementsgerð. Leit að hráefnum í sement reyndist ekki auðveld, en lauk með heppilegum fundi á kalkríkum skeljasandi á sjávarbotni nærri Akranesi og nothæfu silisíumríku viðbótarefni, líparíti úr námu í botni Hvalfjarðar. Sementsverksmiðja ríkisins (SR) hóf svo starfsemi árið 1958.
Rannsóknirnar á gosefnum Íslands leiddu svo í ljós að mörg þeirra höfðu mikla og góða possólaneiginleika. Það vakti áhuga Haraldar að skoða þessa eiginleika nánar og kom hann upp rannsóknaaðstöðu hjá AHÍ, til þess að mæla staðlaða eiginleika innflutts sements, en einnig þessa sérstöku eiginleika gosefnanna. Ástæður þessa áhuga voru aðallega tvær, annars vegar sú þekking og reynsla á auknum gæðum steypu með íblöndun possólanefna, en einnig nýleg vitneskja um skaðleg áhrif alkalímálma í sementi á endingu steinsteypu. Um 1940 birti sementsérfræðingur í Bandaríkjunum, Thomas E. Stanton að nafni, grein um að of hátt magn alkalímálma í steypu gæti valdið hættulegri þenslu steypu í vatnamannvirkum. Haraldur hafði kynnt sér þessar rannsóknir með íslenskar aðstæður í huga. Hjá byggigarrannsóknum AHÍ hóf hann brátt staðlaðar tilraunir á áhrifum fínmalaðra gosefna, sem væru líkleg til að hafa possóneiginleika. Prófað var t.d. móberg, vikur og gjall og sýndu allar tegundirnar góða possólaneiginleika.
Eftir að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins (Rb.) hóf starfsemi árið1965 var svo rannsóknunum haldið áfram. Sérstaklega var þeim beint að possólanáhrifun þessara efna gegn hættu á alkalíþenslu í íslenskri steypu. Var þá haft í huga áform á þessum tíma um að reisa virkjanir og önnur vatnamannvirki t.d. hafnarmannvirki. Um þetta leiti tengist svo Rb. alþjóðlegum rannsóknum á vörnum gegn alkalíþenslu í steinsteypu og voru rannsóknir á possólanefnum á þeim vettvangi helst stundaðar hér á landi. Þar sem svo íslenska sementið reyndist hafa hátt magn alkalísalta og framkvæmdir á byggingu virkjana- og hafnamannvirkja stóð fyrir dyrum, var þegar ráðist í breytingar á íslenska sementinu með íblöndun fínmalaðs líparíts og síðar ryki frá Járnblendiverksmiðjunni (Elkem) á Grundatanga. Áður hafði verið hafin í SR framleiðsla possólansements með 30% íblöndun fínmalaðs líparíts og móbergs. Það sement hafði langan hörðnunartíma og var aðallega notað árið 1965 í stóra tilraun í kafla af steypu Reykjanesbrautar en ekki eru heimildir um árangur tilraunarinnar.
Eftir 1972 er farið að blanda allt sement framleitt í SR með 5-10% fínmöluðu líparíti og brátt var hafin framleiðsla á svokölluðu Sigöldusementi með 25% íblöndun líparíts. Það sement var notað með góðum árangri og endingu steypunnar t.d. í Sigölduvirkjun, Sultartangavirkjun og ýmis hafnarmannvirki. Við possólanrannsóknirnar hjá Rb. hafði komið í ljós, að mjög fínkorna úrgangsefni, sem myndaðist við framleiðslu Járnblendiverksmiðjunnar, hafði óvenju sterk possólanáhrif. Var rykið nefnt kísilryk og hófst 7.5% íblöndun á því í allt sement, sem framleitt var í SR frá árinu 1979. Þetta hafði þau áhrif, að alkalískemmdir fundust ekki í húsum byggðum eftir það. Þegar Blönduvirkjun var byggð kom í ljós hættuleg alkalívirkni steypuefnanna, sem þar átti að nota. Áframhaldandi rannsóknir hjá Rb. leiddu til þróunar nýrrar sementsblöndu með mjög sterkum áhrifum gegn alkalíþenslu. Hófst þá framleiðsla á nýrri sementstegund með íblöndun á 10% kísilryki og 25% líparíti. Hún var svo síðar notuð í steypuframkvæmdir við Blönduvirkjun og víðar og nefnd Blöndusement. Öll þessi rannsókna- og þróunarvinna var framkvæmd hjá Rb. Hversu snemma þessi þróun var á alþjóða mælikvarða má greina af því, að sement með kísilryksíblöndun hafði ekki verið sett áður á markað í heiminum fyrir 1979 og svo mun einnig hafa verið um Blöndusementið. Þá þótti það einnig nýlunda að framleiða þríþátta sement þ.e. með íblöndun tveggja possólanefna (ternary blend). Reynsla síðari ára hefur svo sýnt kosti þessara sementsblandna.
Nýjar rannsóknir á steinsteypu Rómverja
Á síðari hluta tuttugustu aldarinnar beindust rannsóknir steypusérfræðinga mjög að endingu steinsteypunnar og steypuskemmdum í mannvirkjum. Inn í umræður um það svið blönduðust ýmsar vangaveltur um reynslu fyrri tíma af endingu steinsteyptra bygginga og þá sérstaklega endingu margra fornra mannvirkja t.d. frá tíma Rómverja, sem enn eftir 2000 ár eru í merkilega góðu ástandi. Þetta þótti ekki hljóma vel í samanburðinum við væntanlega endingu nútíma steypu, sem metin var 50-100 ár. Við Berkleyháskólann í Kaliforníu er mjög fullkomin aðstaða til rannsókna á efnasamsetningu steinsteypu. Þaðan fór rannsóknateymi til að skoða og rannsaka sjávarmannvirki frá tímanum um Kristburð við Napólíflóann. Einn af meðlimum teymisins, dr. Marie D. Jackson, hefur síðan unnið að rannsóknum á þessari fornu steinsteypu svo og greiningu á hvernig hún er öðruvísi samsett en nútíma steinsteypa.
Mismunurinn virðist liggja í mismunandi samsetningu bindimassans og kristöllun hans. Marie Jackson hefur nú líka fundið að bindiefnið í rómversku steypunni hefur öðru vísi efnasamsetningu en nútíma steypa. Þar hefur hluti af álatómum sementsins komist inn í kristalgerð rómversku steypunnar. Í stað hluta silisíum atómanna hafa komið álatóm og myndað nýja kristalgerð svonefnt áltobermorit. Ekki er algengt að jarðefni, sem innihalda ál-tobermorít finnist í náttúrunni. Þar má þó til greina, að 12 árum eftir gosið í Surtsey hafði áltobermorít kristallast í basalthnullungurm (basaltic tephra) þar. Marie Jackson hefur áhuga á að skýra þessa myndun áltobermoritsins með framtíðarþróun betri steinsteypu í huga og hefur hún tekið þátt í jarðfræðirannsóknum í Surtsey með það í huga. Þessi staðreynd gæti haft áhrif á þýðingu possólefna fyrir steypuiðnaðinn. En þar kemur fleira til.
Áhrif possólanefna á magn gróðurhúsalofttegunda
Á síðustu áratugum hefur umræðan um sementsframleiðsluna mjög snúist um mikil áhrif hennar á myndun gróðurhúsalofttegunda. Orsökin er aðallega myndun koldíoxíðs við brennslu kalks. Það hafði þær afleiðingar að sementsframleiðendur hófu athuganir á því hvort hægt væri að framleiða sement með minna magn af brenndu sementsgjalli sem er jú mjög kalkríkt. Þá var fyrsta og hagkvæmasta aðferðin að drýgja sementið með óbrenndum efnum. Possólansement með mismunandi hárri íblöndun óbrenndra possólanefna hefur lengi verið þekkt markaðsvara. En possólansement með háu innihaldi possólansefna harðnar verulega hægar en venjulegt Portlandsement. Því hefur possólansement ekki verið talið æskilegt til notkunar í venjulega húsbyggingasteypu og fremur notað í sérsteypur, þar sem lengri ending og vatnsþéttleiki er meginatriði.
Helsta ráðið við að flýta herslu sementsins hefur verið að mala possólanefnin fínna, en til þess þarf oft að auka og bæta mölunarútbúnað sementsframleiðslunnar. Það kostar verulega fjárfestingu. Það vandamál leystist að hluta, þegar í ljós kom, að ýmis fínkorna úrgangsefni frá iðn- eða orkuframleiðslu fundust, sem höfðu góða possólaneiginleika. Má þar t.d. nefna flugösku, ryk sem safnast í ryksíur við brennslu kola, einnig kísilryk sem myndast á sama hátt við framleiðslu kísiljárns. Var í mörgum sementsverksmiðjum í Evrópu hafin íblöndun þessara iðnaðarpossólana í venjulegt Portlandsement upp úr síðustu aldamótum og náðist íblöndun allt að 20% af sementsþyngdinni án þess að hörðnunarhraðinn lækkaði verulega.
Þarna hafði íslenska sementsframleiðslan náð góðu forskoti hvað varðaði notkun possólanefna, sérstaklega eftir að hafin var íblöndun kísilryks í allt sement frá SR eftir árið 1979. Hér á landi var þetta mikilvægt, ef hafður er í huga ótti byggingariðnaðarins við lækkaðan hörðnunarhraða sementsins. Upptaka á um 20% íblöndun flugösku í sement nágrannalandanna auðveldaði t.d. að íslensk sementsframleiðsla var lögð niður árið 2012. En nýjar áskoranir voru að koma í ljós þ.e. loftslagsvandinn. Vegna hans varð augljóst að aukin íblöndun possólanefna í sement væri æskileg. Possólanisk úrgangsefni svo sem flugaska, kísilryk og gjall frá stálframleiðslu hafa til þessa verið fyrir hendi í ríkum mæli og nýting þeirra kostað lítið fyrir sementsiðnaðinn. Sementsframleiðendur sjá aftur á móti nú fram á, að öflun þessara úrgangsefna verði erfiðari í framtíðinni og verð á þeim hækki, einmitt vegna aðgerða gegn loftlsagsbreytingum. Þess vegna hefur áhugi þeirra beinst aftur í meira mæli að náttúrulegum possólanefnum eins og gosefnum. Þessa er þegar farið að gæta, má þar benda á fyrirhugaðan útflutning á efnum með possólaneiginleika héðan til Evrópu.
Haraldur Ásgeirsson og íslenskar rannsóknir á steinsteypu
Þess er vert að minnast, að frumkvöðull þeirra miklu rannsókna og tilrauna með notkun íslenskra gosefna sem possólaníblöndun í sement og steypu var, Haraldur Ásgeirsson, var á undan sinni samtíð. Haraldur nýtti menntun sína vel, og af þekkingu og víðsýni gerði hann þessar rannsóknir að höfuðverkefni steinsteypudeildar Rb og Steinsteypunefndar. Fengu rannsóknirnar talsverða umfjöllun í erlendum fræðiritum. Þessar rannsóknir héldu svo áfram hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en áframhald þeirra er nú í mikilli óvissu eftir að sú stofnun var niður lögð og ekki er vitað um framtíð íslenskra steypurannsókna. Er það raunalegur endir á jafn viðamikilli og árangursríkri rannsóknastarfsemi og þar var um að ræða.
Geopolymer- eða jarðfjölliðunar- sement nýtt framtíðarbindiefni fyrir steinsteypu?
Miðað við áhuga erlendra sementsframleiðenda á íslenskum náttúrupossólönum er sennilegt að rannsóknir og þróun þeirra flytjist burt frá Íslandi í framtíðinni. En auk þess að nota þau sem íblöndunarefni í Portlandsement eru nú komnar fram þróunarhugmyndir um að possólanefnin taki alveg yfir hlutverk Portlandgjallsins í sementinu. Þessar hugmyndir byggjast á aðferð, þar sem úr upplausn fínmalaðra possólanefna í sterkum lút (kalíum- eða natríum- hydroxíð) eingöngu, er framleitt bindiefni.
Notað er efnaferli fjölliðunar, sem þekkt er úr framleiðslu plastefna. Má þannig framleiða bindiefni með álíka eiginleikum og getu gagnvart steinsteypugerð og hefðbundið Portlandsement. Hefur þetta fjölliðunarferli verið nefnt ólífræn fjölliðun til aðgreiningar frá hinni hefðbundnu lífrænu fjölliðun við framleiðslu plasts. Lífræn fjölliðun byggist á sameindatengingu kolefnisatóma. Ólífræn fjölliðun í þessu tilfelli byggist á sameindatengingu silisíums, áls og súerfnis. Plastefna- fjölliðun gengur undir alþjóðanafni „polymer“ en ólífræn fjölliðun, í þessu tilfelli jarðefnafjölliðun er á erlendum málum nefnd „geopolymer“. Er þá talað um „geopolymer cement“ og „geopolymer concrete“ eða jarðfjölliðunar-sement og steypu.
Efnafræðilegur munur á hefðbundnu Portlandsementi og jarðfjölliðunar-sementi er að við hörðnun Portlandsements myndast kristallað efni eins og áður kom fram með kristöllum líkum og eru í náttúrulega jarðefninu tobermorit. Jarðfjölliðunar-sement harðnar aftur á móti á líkan hátt og plastefni við sterk sameindatengsl grunnefnanna. Þróun jarðfjölliðunar-sements eða jarðfjölliðunar-steypu hefur enn ekki haslað sér völl í verulegum mæli innan steinsteypuiðnaðarins. Er það helst í Ástralíu. En með tilliti til þess magns, sem finnst hér á landi af possólanefnum, gæti verið um mikla framtíðarmöguleika að ræða, ef jarðfjölliðunar-steypa nær álíka þróunarstigi og notkun og hefðbundin Portlandsementssteypa.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála hjá Sementsverksmiðju ríkisins.
Heimildir:
- https://kjarninn.is/frettir/thyskur-sementsrisi-faer-49-thusund-fermetra-undir-starfsemi-i-thorlakshofn/
- Sementsiðnaður á Íslandi í 50 ár, Verkfræðingafélag Íslands 2008
- Glampar af gengnum vegi. Rit gefið út af börnum Haraldar Ásgeirssonar 2020
- https://sites.google.com/view/islenskt-possolansement/heim
- https://sites.google.com/view/wwwsteinsteypais/heim
- https://sites.google.com/view/rtta-sement-ternary-cement-t/heim
- Í ljósi vísindanna. Verkfræðingafélag Íslands 2005