Það er blússandi verðbólga í kjölfar heimsfaraldurs. Hún stafar EKKI af atburðum hérna heima nema að litlu leyti. Það er blússandi verðbólga út um allan heim og því verður að takast á við hana út frá þeim forsendum.
Sú leið sem alltaf hefur verið farin til að slá á þenslu er að hækka meginvexti Seðlabankans og svo á einnig við nú. Skoðum aðeins hvernig það virkar og spyrjum okkur nokkurra grundvallarspurninga eins og t.d.:
- Ef verðbólgan er fyrst og fremst vegna utanaðkomandi áhrifa, hvernig eiga þá hærri álögur á heimili og fyrirtæki landsins að slá á hana?
- Stærstu útgjaldaliðir flestra heimila eru #1 húsnæðiskostnaður og #2 matarkostnaður. Hverjum hjálpar það ef BÁÐIR þessir liðir hækka vegna utanaðkomandi verðbólgu?
- Af hverju er Seðlabankinn að standa að stórfelldri eignatilfærslu frá fólki til banka?
- Koma þessar hækkanir samfélaginu á einhvern hátt til góða?
- Hvaða lausnir eru í boði fyrir heimili og fyrirtæki?
Hér á eftir verður fjallað um hverja þessara spurninga fyrir sig.
1. Ef verðbólgan er fyrst og fremst vegna utanaðkomandi áhrifa, hvernig eiga þá hærri álögur á heimili og fyrirtæki landsins að slá á hana?
Það eina sem hærri vextir gera er að auka á erfiðleika heimila og fyrirtækja sem eru nægir fyrir, m.a. vegna heimsfaraldurs og afleiðinga hans.
Ástandið er erfitt víða um heim vegna Covid og rof hefur komið í framleiðslu- og flutningslínur heimsins, hina svokölluðu virðiskeðju. Hrávöruverð, orka, umbúðir og flutningskostnaður hefur hækkað gríðarlega sem þrýstir upp vöruverði á nauðsynjavörum.
Hærri álögur á íslensk heimili mun ekki hafa nein áhrif á þessa þróun. Núna ætti þvert á móti að koma íslenskum heimilum í skjól fyrir afleiðingum þessara verðhækkana og sjá til þess að þau skaðist ekki meira af Covid faraldrinum en þegar er orðið, þar sem margir hafa orðið fyrir tekjumissi og standa illa undir auknum álögum vegna vaxtahækkana sem vafasamt er að beri tilætlaðan árangur.
2. Stærstu útgjaldaliðir flestra heimila eru #1 húsnæðiskostnaður og #2 matarkostnaður. Hverjum hjálpar það ef BÁÐIR þessir liðir hækka vegna utanaðkomandi verðbólgu?
Hjá sumum fjölskyldum er mánaðarlegur húsnæðiskostnaður, hvort sem það eru afborganir lána eða leiga, allt að 60% af ráðstöfunartekjum. Oft er þetta staðan hjá fjölskyldum sem eru tekjulágar fyrir og hafa lítið borð fyrir báru. Hvert einasta prósentustig til hækkunar húsnæðiskostnaðar getur skilið á milli feigs og ófeigs, sérstaklega hjá tekjulágum fjölskyldum, með hvort þær nái að halda húsnæði sínu eða ekki. Auk þess er ljóst að launahækkanir næstu kjarasamninga þurfa að vera mun hærri en hægt er að gera sér vonir um til að þær geti staðið undir þeim hækkunum sem þegar orðnar, hvað þá þeim sem eiga eftir að bætast við.
Hvað varðar húsnæðiskostnað þá er neytandinn algjörlega valdalaus, hann getur ekki breytt „hegðun sinni“, hann annað hvort stendur undir þessum hækkunum – eða ekki.
Í hnotskurn er vöruverð samsett úr mörgum litlum einingum sem neytendur geta haft ákveðna stjórn á með því að minnka einhverja neyslu til að lækka kostnað, á meðan húsnæðiskostnaður er „einn stór massi“ sem hækkar allur í einu án þess að neytandinn geti nokkra björg sér veitt eða haft nokkur áhrif þar á.
Af tvennu illu, væri því betra að vöruverð hækkaði en húsnæðiskostnaður og því algjörlega glórulaust að hækka hann til að ná niður hækkunum á hveiti, bensíni og ávöxtum.
Það má þannig gera ráð fyrir að „þenslan“ (ef þessi verðbólga stafar yfirleitt af þenslu) hjaðni af sjálfu sér þegar vöruverð hækkar. Það er því algjör óþarfi að bæta gráu ofan á svart með því að auka á erfiðleika fólks með því að hækka húsnæðiskostnað þess og, í einhverjum tilfellum, ógna húsnæðisöryggi þess og jafnvel valda heimilismissi.
Svipuð lögmál eiga við um fyrirtæki og aðföng þeirra og verði vaxtahækkunum stillt í hóf, þá minnkar það líka þann kostnað sem þau annars þyrftu að velta út í verð á vöru eða þjónustu.
3. Af hverju er Seðlabankinn að standa að stórfelldri eignatilfærslu frá fólki til banka?
Það er vægast sagt vafasamt að vaxtahækkanir hafi tilætluð áhrif til að slá á verðbólgu. Það á ekki síst við í samfélagi þar sem næstum helmingur húsnæðislána eru verðtryggð, hvað þá þegar hlutfall þeirra var hærra. Á bak við þessa staðreynd er hagfræðikenning sem ekki verður nánar farið út í hér en við erum þó loksins með seðlabankastjóra sem virðist skilja þetta samhengi, sem er gríðarleg framför frá því sem var.
En engu að síður er Seðlabankinn að þumbast við og hækka vexti af því að „þannig hefur þetta alltaf verið gert“ og það gerir hann á sama tíma og viðbrögð flestra annarra seðlabanka í heiminum er að halda aftur af vaxtahækkunum í svona ástandi.
Af hverju er Seðlabankinn að standa með þessum hætti að stórfelldri eignatilfærslu frá fólkinu til bankanna og hvaða áhrif hefur þessi eignatilfærsla á samfélagið?
4. Koma þessar hækkanir samfélaginu á einhvern hátt til góða?
Svarið við því er einfalt; NEI og ekki nóg með það, það eru allar líkur á því að það skaðist verulega af þessu.
„Við“ erum samfélagið, heimilin og fyrirtækin í landinu. Auknar og íþyngjandi álögur á þau sem skila sér ekki til baka út í samfélagið heldur stöðvast bara í yfirfullum uppistöðulónum bankanna, geta aðeins haft neikvæð áhrif.
„Við“ munum flest hafa minna á milli handanna og sumir munu ekki geta staðið undir skuldbindingum sínum. Það fólk mun þurfa á aðstoð að halda frá samfélagi sem mun þá standa verr að vígi en áður.
Líkurnar á því að vaxtahækkanir Seðlabankans sem bankarnir geta skýlt vaxtahækkunum sínum á bak við, nái tilætluðum árangri, eru hins vegar hverfandi eins og áður hefur verið lýst.
En „við“ sem byggjum þetta samfélag fáum kannski að gleðjast með hluthöfum bankanna þegar þeir leysa út hagnaðinn sinn eftir nokkra mánuði. Kannski má líta á þá „samgleði“ sem einhverskonar ávinning – sumir virðast a.m.k. gera það.
5. Hvaða lausnir eru í boði fyrir heimili og fyrirtæki?
Það er ljóst að bankarnir munu græða stórkostlega á þessum vaxtahækkunum. Enn og aftur, eins og alltaf áður, þá munu þeir bíða með gapandi ginin og taka við því sem heimilin hafa lagt mikið á sig til að afla, og svo til að bæta gráu ofan á svart, er heimilunum boðið upp á þá „hjálp“ að afhenda þeim sparifé sitt að auki.
Eina „lausnin“ sem heimilunum er boðið upp á til að standa undir þessum hækkunum lána sem Seðlabankinn er að færa bönkunum á silfurfati, er að nota séreignasparnaðinn sinn til að greiða niður skuldir og létta á greiðslubyrði. Það að þessi leið sé í boði sem „lausn“ sýnir betur en flest annað hversu skakkt kerfið er. Þarna er verið að færa séreignarsparnað einstaklinga, sem á að létta þeim lífið á efri árum, beint í vasa bankanna.
Þetta er ótrúlega skammsýn hugsun. Að því sögðu er ekki furða að fólk nýti sér hana, margir eiga ekki annarra kosta völ, en að þessa „lausn“ þurfi til svo fólk geti staðið undir skuldbindingum sínum, sýnir svo ekki er um villst að þetta kerfi stendur ekki undir sér og hlýtur að riða til falls áður en langt um líður, en þá verða bankarnir löngu búnir að hala inn sinn góða feng, og aðrir sem munu sitja uppi með skaðann.
Auk þess er vert að hafa í huga að í öðrum siðmenntuðum löndum getur fólk gert hvort tveggja, greitt af húsnæði sínu OG safnað til efri áranna.
Hvað varðar fyrirtækin ætti öllum að vera ljóst að bankarnir eru farnir að renna hýrum augum til þeirra sem verst hafa orðið úti vegna heimsfaraldursins og standa í vonlausri stöðu gagnvart þeim þar sem kostnaður hleðst upp á meðan innkoma er lítil sem engin. Er nokkur ástæða til að ætla að þeir hagi sér eitthvað öðruvísi en í eftirmálum hrunsins 2008 þar sem vænlegustu fyrirtækin voru yfirtekin á hrakvirði og komið í hendur vildarvina fyrir slikk eða seld með ómældum hagnaði, rétt eins og gert var við heimilin.
Þetta er ekkert annað en hrein og klár eignatilfærsla frá heimilum og fyrirtækjum til bankanna.
Aftur er heimilum og fyrirtækjum fórnað fyrir bankana
Hér á landi eru þrír bankar sem hafa samanlagt hagnast um a.m.k. 960 milljarða frá hruni. Til að setja þessa upphæð í samhengi þá samsvarar hún því að hvert einasta mannsbarn í 360.000 manna þjóðfélagi, hafi lagt 2,5 milljónir til HAGNAÐAR bankanna.
Bankar selja „afurð“ í formi lána. Eins og ársreikningar þeirra sýna fram á, þá eru þeir að hagnast gríðarlega á þessari afurð sinni sem hlýtur að þýða að álagning á henni sé nógu mikil og einnig er auðvelt að færa rök fyrir því að hún sé allt of há.
Af hverju ætti fyrirtæki í þessari stöðu að hækka álagningu á þessari „vöru“ til viðskiptavina sinna? Hvernig getur það réttlætt þá hækkun?
Af hverju eiga bankarnir að hagnast á verðbólgu, á kostnað heimila og fyrirtækja, til þess eins að geta greitt hluthöfum sínum arð?
Og hvernig í ósköpunum getur Seðlabankinn réttlætt í nafni þess að „ná niður verðbólgu“ að auka erfiðleika heimila og fyrirtækja til mikilla muna með því að beina fjármunum þeirra í þegar yfirfullar hirslur bankanna?
Af hverju er verið að færa eignir fólksins til bankanna?
Það má jafnframt minna á þá staðreynd að bankarnir skulda heimilum landsins enn þá töluverðar vaxtalækkanir. Þar hefur munað allt að 250% á því sem vextir bankanna hafa verið og því sem þeir hefðu átt að vera ef vaxtalækkanir Seðlabankans skiluðu sér jafn vel til neytenda og hækkanir. Um það er fjallað hér og hér.
Bankarnir eru í raun baggi á samfélaginu, blóðsugur sem engu eira og gefa ekkert til baka. Við verðum að fara að horfa á hlutina í samhengi og hætta að skríða fyrir þeim, því þeir eiga ekki neitt inni hjá íslensku þjóðfélagi, sem þeir hafa mergsogið svo árum skiptir.
Eru allir í sama báti í miðju kreppuástandi hjá þjóðinni?
Á meðan að kreppuástandið ríkir hjá þjóðinni voru arðgreiðslur og uppkaup eigin bréfa til hluthafa skráðra fyrirtækja yfir 80 milljarðar 2021 og stefna í að vera 200 milljarðar 2022 og þar eru bankarnir lang frekastir til fjársins.
Er til of mikils ætlast að hluthafar skráðra fyrirtækja og stjórnendur þeirra taki minnsta tillit til aðstæðna í samfélaginu eða sjá þeir bara tækifærin til að græða í því ástandi sem nú er, alveg sama hvað?
Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og talsmenn sérhagsmuna eru síðan sammála um að kjarasamningsbundnar launahækkanir séu helsta ógnin við stöðugleika.
Hvernig hægt að er snúa hlutunum svona algjörlega á hvolf, er ofar okkar skilningi.
Stjórnmálamenn, ekki síst þeir sem sitja í ríkisstjórn og mynda meirihlutann á Alþingi, VERÐA að fara að vakna og standa með fólki framar fjármagni.
Það er komið nóg!
Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!
Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.