Árið 2021 voru liðin 100 ár frá samþykkt fyrstu löggjafar um skipulagsmál á Íslandi, laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Í tilefni þessara tímamóta fékk Skipulagsstofnun fólk úr ólíkum áttum til liðs við sig til að deila hugmyndum sínum um byggð og skipulag í pistlum sem birst hafa á Kjarnanum og á vefmiðlum Skipulagsstofnunar yfir afmælisárið. Þar hafa verið viðraðar margar snarpar hugleiðingar. Þeirra á meðal í grein Andra Snæs Magnasonar, Hver er hugmyndin?.
Þar spyr Andri Snær hvort skýr hugmyndafræði sé horfin úr borgarskipulagi okkar tíma. Hann veltir upp dæmum um skort á fagurfræði, staðarvitund og heildarhugsun í skipulagsákvörðunum nýliðinna ára. Hugsun sem hafi verið til staðar í skipulagi áður, bæði í elstu hlutum Reykjavíkur, eins og í Gamla Vesturbænum norðan Hringbrautar og líka miklu síðar þegar Árbæjarhverfið var hannað og byggt upp á 7. áratugnum. Heildstæð og góð hverfi, með tiltekinn brag, þar sem gert er ráð fyrir lífi, starfi, tómstundum og þörfum fólks á öllum aldri.
Eins og Andri Snær dregur fram, þá liggur galdur þessara hverfa ekki síst í heildstæðri og skýrri skipulagslegri hugmyndafræði og ákveðnum aga, skilningi, virðingu og þrautseigju við að standa með þeirri hugmynd í áranna rás. En hann bendir líka á að þróun síðustu áratuga, með bílmiðuðum ákvörðunum um staðsetningu verslunar og þjónustu á jaðri hverfanna og á stundum hófstilltum kröfum til arkitektúrs og borgarhönnunar, hafi höggvið skörð í gæði hverfanna og þar með lífsgæði íbúanna.
Þessi greining er réttmæt, þótt vissulega sé líka mjög margt í skipulagsgerð okkar tíma gert af alúð, metnaði, færni og þekkingu. En hefur þessi þróun orðið vegna þess að okkur skorti hugmyndafræði í skipulagsmálum, eða er skýringanna að leita í öðru?
Hugmyndafræði skipulagsmála
Seinnihluti 20. aldar einkenndist af átökum ólíkra strauma í skipulagsmálum. Þar vék smám saman fyrir annarri nálgun hugmyndafræði sem hafði verið ráðandi við uppbyggingu borga um miðbik 20. aldar um allan hinn vestræna heim og víðar. Þetta var móderníska skipulagið með áherslu sína á mikla innviðauppbyggingu fyrir einkabílinn, dreifða byggð og hverfi aðgreind eftir tegund húsnæðis og starfsemi. Sú hugmyndafræði sem hefur smám saman tekið yfir sem ráðandi skóli í skipulagsgerð, borgarhönnun og samgönguverkfræði er stundum kennd við endurreisn borga (urban renaissance) en hefur fleiri yfirskriftir tengdar borgarhönnun (urban design) og úrbanisma.
Þessar nýju hugmyndir fagheims skipulagsmála endurspeglast orðið í opinberri stefnu stjórnvalda, bæði erlendis og hérlendis. Má í því sambandi nefna New Urban Agenda og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og New European Bauhaus átak Evrópusambandsins úti í hinum stóra heimi. Og hér uppi á Íslandi landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og mörg aðal- og deiliskipulög, bæði á höfuðborgarsvæðinu og út um landið.
Þetta eru kenningar sem leggja áherslu á mannvænt, lifandi og fjölbreytt umhverfi og samfélag í borg og bæ og fjölbreytta ferðamáta. Þetta eru um leið kenningar sem eru vel til þess fallnar að vinna gagn í loftslagstilliti, með því að takmarka það land sem tekið er undir byggð, bæta rekstrarskilyrði þjónustu nærri heimilum með þéttri, blandaðri byggð og með því að útfæra bæjarrými og götur þannig að öðrum ferðamátum en einkabílnum sé gefinn viðeigandi gaumur. Vel hönnuð bæjarrými og viðeigandi þéttleiki og blöndun byggðar styttir vegalengdir í daglegu lífi og gefur kost á að auka hlutdeild göngu, hjólreiða og almenningssamgangna, en það eru þeir ferðamátar sem skila fljótt samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, taka minna landrými og gefa þann bónus að ýta undir heilnæma hreyfingu í daglegu lífi.
Af þessum meiði eru skipulagshugmyndir um svokallaðar 15 eða 20 mínútna borgir, bæi og hverfi sem ryðja sér til rúms um allan heim þessi árin. Þær fela í sér að innan hverfa sé fjölbreytt úrval íbúðarhúsnæðis fyrir ólíka hópa, að umhverfi sé mótað út frá mannlegum mælikvarða og að íbúar þurfi ekki að ferðast lengra frá heimili sínu en sem nemur stuttri ferð gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum til að sinna helstu póstum daglegs lífs – matvöruverslun, skóla, heilsugæslu, líkamsrækt, vinnu og svo framvegis.
Reyndar er svo rétt, ekki síst vegna 100 ára afmælis skipulagslöggjafarinnar, að halda til að haga að ýmsar áherslur fyrstu skipulagslaganna frá 1921 eru enn í fullu gildi sem leiðarljós fyrir skipulagsgerð á okkar tímum. Það eru áherslur eins og að skipulag taki „tillit til atvinnu bæjarbúa, heilbrigðis- og þrifnaðarnauðsynja, greiðrar umferðar, brunahættu og fegurðar bæjarins“. Einnig að gætt sé sérstaklega að því „að opinberum og öðrum helstu byggingum sje smekklega skipað“, götur hafðar með hæfilegum halla og hæfilegt bil haft milli húsa með tilliti til sólarhæðar á „aðalsólarhlið húsa“.
Hvernig birtast þessar hugmyndir okkur í daglegu lífi?
Þær birtast okkar í fjölbreytni í hverfinu okkar, þar sem fólk af ólíkum meiði getur allt átt sinn samastað og hægt er að flytja sig til innan hverfis, þegar húsnæðisþarfir breytast.
Þær birtast okkur í fallegum og vönduðum byggingum sem sóma sér vel í umhverfi sínu og halda vel utan um íbúa og starfsemi.
Þær birtast okkur í sköpunarkrafti og gleði – málverki á húsgafli, götumarkaði á sumardegi.
Þær birtast okkur í heilnæmu umhverfi, hreinu lofti og góðri hljóðvist.
Þær birtast okkur í væntumþykju fólks um sitt nánasta umhverfi.
Þær birtast okkur í skjóli og sólríkum útisvæðum.
Þær birtast okkar í samspili bygginga og bæjarrýma sem þróast í tímans rás og þar sem ólík tímabil bygginga og byggingarstíla fléttast saman.
Þær birtast okkur í götunni þar sem bílaumferð er hæg og nóg pláss fyrir gangandi og hjólandi.
Þær birtast okkur í götum og hverfum þar sem fólk er á ferli.
Þær birtast okkur í verslunum og annarri nærþjónustu sem er í göngu- eða hjólafæri.
Þær birtast okkur í því að við veljum að ganga á milli staða, heilsumst og tökum fólk tali.
Þær birtast okkur í góðum almenningssamgöngum sem gera okkur kleift að sleppa því að fara allar lengri ferðir á einkabíl.
Þær birtast okkur í byggingum sem standa um langan aldur og geta tekist á við og aðlagast breyttum hlutverkum í áranna rás.
Þær birtast okkur í gróðri og fuglalífi sem færa okkur skynjun á náttúru og árstíðum inn í borg og bæ.
Þær birtast okkur í görðum, húshliðum og gluggum að götu sem vekja áhuga okkar og eftirtekt og skapa tilfinningu fyrir lífi og nánd.
Þær birtast okkur í vönduðum bæjarrýmum, hvort heldur eru götur, smágarðar, torg eða almenningsgarðar þar sem fólk er í fyrirrúmi og ungir og aldnir geta notið sín sumar og vetur.
Þær birtast okkur í náttúrunni sem umlykur og vefst inn í byggðina eða er við sjóndeildarhring við götuendann – ströndinni, ánni, skóginum, heiðinni, fjöllunum.
Hvernig tryggjum við vandað skipulag?
Hugmyndafræðina skortir sem sagt ekki, en þrátt fyrir það sjáum við dæmi um tilviljanakenndar skipulagsákvarðanir og metnaðarlausar byggingar og umhverfismótun sem þjónar fremur skammtíma- og einkahagsmunum en hagsmunum samfélagsins til lengri tíma. Og þá er rétt að spyrja, hvað er til ráða? Eins og svo oft í skipulagsmálum, er ekki einfalt og einhlítt svar við því. Ábyrgðin liggur víða. Hún liggur hjá sveitarstjórnum sem halda á skipulagskeflinu og bera ábyrgð á að skipulag sé hugsað til langs tíma og útfært með almannahag að leiðarljósi. Hún liggur hjá uppbyggingaraðilum sem ber að fylgja lögum og reglum og stefnu stjórnvalda en hafa líka siðferðilega skyldu til að vanda til verka. Hún liggur hjá fjármögnunaraðilum sem lána til og kosta uppbyggingu húsnæðis og innviða. Hún liggur hjá borgurunum, að kynna sér mál og gera kröfur til stjórnvalda og uppbyggingaraðila um gæði. Hún liggur hjá löggjafanum, að setja skýrar kröfur til skipulagsgerðar og umhverfismótunar í lögum. Hún liggur hjá stjórnvöldum á landsvísu, að fylgja lögum eftir með skýrum reglum, metnaðarfullri stefnu og fræðslu og hvatningu til framúrskarandi byggðar- og umhverfismótunar. Og hún liggur hjá fagfólkinu, hönnuðunum, að láta til sín taka og sýna hvað í þeim býr. Ábyrgðin er okkar allra. Og ávinningurinn er okkar allra.
Höfundur er forstjóri Skipulagsstofnunar.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.