New York Times greindi frá því í lok síðustu viku að Barack Obama Bandaríkjaforseti ætli sér að frelsa nokkra tugi alríkisfanga sem afplána langa dóma fyrir ofbeldislaus fíkniefnabrot. Með þessari aðgerð mun Obama náða fleiri í einum vetfangi en nokkur forseti hefur gert í áratugi.
Náðun fanganna er ekki síður táknræn viðurkenning bandarískra yfirvalda á því að hörð refsistefna þeirra og hið drakóníska „fíkniefnastríð“ hafi ekki virkað. Þvert á móti hafi stjórnmálamönnum, sem komist hafi til valda með því að vera harðir gagnvart glæpum (lesist dæma fleiri í fangelsi og halda þeim þar í lengri tíma), mistekist. Stefna þeirra hafi skilað verra samfélagi og fleiri vandamálum en hún hafi nokkru sinni leyst. Og það sem meira er, það virðist vera að myndast þverpólitísk sátt í landi hinna frjálsu um að stríðsrekstur hins opinbera gegn verst settu þegnum sínum sé dæmalaust rugl sem þurfi að vinda ofan af.
Frá því að Richard Nixon hóf „fíkniefnastríðið“ árið 1971 hafa Bandaríkín eytt um einni trilljón dala, um 130 þúsund milljörðum íslenskra króna, af skattfé í það. Peningarnir hafa meðal annars farið í aukna löggæslu, fleiri fangelsi og fjölgun dómara. Um 50 milljónir hafa verið handteknir í „stríðinu“ og föngum hefur fjölgað úr því að vera undir hálfri milljón í að vera um 2,3 milljón. Flestir þeirra eru svartir eða af spænskum uppruna, nánast allir eru karlmenn og langflestir þeirra sitja í fangelsum vegna fíkniefnabrota. Notkun á fíkniefnum í Bandaríkjunum hefur á sama tíma ekkert dregist saman.
Refsigleði eykst en vandinn stækkar bara og stækkar
Þótt stríðsrekstur Bandaríkjanna gagnvart þegnum sínum sem lent hafa á glapstigu lífsins sé öfgakenndur þá er sú stefna sem við rekum hérlendis angi af sömu illa ígrunduðu refsistefnu.
Kjarninn gerði röð frétta um fangelsismál í nóvember 2014. Við gerð þeirra fékk hann aðgang að miklu magni af tölfræði hjá Fangelsismálastofnun. Á meðal þess sem fram kom var að 30 prósent þeirra sem sátu inni (42 af 139) í íslenskum fangelsum í nóvember 2014 sátu inni fyrir fíkniefnabrot. Það voru nánast jafn margir og sátu inni fyrir kynferðisbrot (25) og ofbeldisbrot (22) til samans. Þegar horft var til allra fanga í afplánun, líka þeirra sem voru að afplána utan fangelsa, voru 55 að afplána dóm vegna fíkniefnabrota.
Afbrotum á Íslandi hefur fækkað á undanförnum árum samkvæmt tölfræði embættis Ríkislögreglustjóra. Ofbeldisbrotum fækkaði um ellefu prósent á árunum 2008 til 2013, brotum gegn valdstjórninni fækkaði um 34 prósent á sama tímabili og auðgunarbrot voru tæplega helmingi færri í fyrra en þau voru árið 2009. En fíkniefnabrotum hefur fjölgað mikið þrátt fyrir harða refsistefnu. Frá árinu 2011 hefur þeim fjölgað um 34 prósent. Langflest brotin eru vegna vörslu og meðferðar á fíkniefnum. Ekki vegna framleiðslu, sölu eða innflutnings á fíkniefnum heldur vörslu. Af öllum skráðum fíkniefnabrotum eru 80 prósent vegna vörslu og meðferðar. Þeim hefur fjölgað um 60 prósent frá árinu 2011.
Um helmingur þeirra fanga sem sitja í fangelsi hafa setið þar áður. Í nóvember í fyrra biðu alls 475 manns eftir að hefja afplánun og sá sem beðið hafði lengst hafði beðið í fimm ár. Ástæðan er einföld, öll fangelsi eru yfirfull, dómar eru að lengjast og málaflokkurinn hefur setið á hakanum árum saman.
Í úttekt Kjarnans í fyrra kom líka í ljós að meðallengd fangelsisdóma þeirra sem afplánuðu fyrir fíkniefnadóma var fimm ár og átta mánuðir. Kostnaður við hvern fanga sem situr í íslenskum fangelsum er á bilinu sjö til átta milljónir króna á ári að meðaltali.
Allt í allt kostar það því íslenska skattgreiðendur rúmlega 400 milljónir króna á ári að halda þeim sem dæmdir voru í fangelsi fyrir fíkniefnabrot þar. Þá eru ótaldir þeir sem annað hvort frömdu ofbeldisbrot undir áhrifum fíkniefna eða sitja inni vegna auðgunarbrota sem þeir frömdu til að fjármagna neyslu sína.
Veikt fólk illa haldið af fíkn
Þann 22. júní síðastliðinn svaraði Ólöf Nordal innanríkisráðherra fyrirspurn á Alþingi um afplánun fanga í fangelsi. Í svari hennar kom fram að tæplega 60 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum eigi við vímuefnavanda að etja. Þar sagði einnig að rúmlega 70 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum eiga sér sögu um slíkan vanda. Svarið byggir á óbirtri rannsókn sérfræðinga.
Þetta er sláandi tölfræði sem þarf að endurtaka: sjö af hverjum tíu sem sitja í íslenskum fangelsum hafa átt við fíknivanda að stríða!
Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ásókn flestra í fíkniefni sé til þess að sleppa frá einhverjum raunveruleika sem viðkomandi vill ekki lifa í. Flótti frá ástandi eða aðstæðum. Þess vegna er fíkníefnasýki heilbrigðis- og félagslegt vandamál, ekki glæpur, og þarf að nálgast sem slíkt.
Í aðsendri grein eftir Ingvar Smára Birgisson sem Kjarninn birti í síðustu viku var fjallað um þau neikvæðu áhrif sem svartur markaður með fíkniefni, þar sem neytandinn veit í raun aldrei hvers hann er að neyta, hefur. Hægt yrði að koma í veg fyrir dauða fjölmargra ef sala á fíkniefnum yrði ýtt upp á yfirborðið og regluvædd.
Með refsistefnu sinni velur íslenska ríkið líka að færa ömurlegum glæpamönnum, sem eyðileggja líf fjölmargra ungmenna á hverju ári með ofbeldi, nauðgunum og almennu niðurbroti, marga milljarða króna (Seðlabanki Íslands áætlar að velta ólöglegrar starfsemi á borð við fíkniefnasölu, smygl, vændi og heimabrugg sé um 6,6 milljarðar króna á ári).
Ómannúðleg nálgun sem mun eldast hræðilega
Samandregið þá er staðan þessi: Nánast allir fangarnir okkar eru fíkniefnaneytendur. Flest dauðsföll sem verða vegna fíkniefnaneyslu verða vegna þess að neytendurnir vita ekki hver styrkleiki efna sem þeir neyta er. Hörð refsistefna í fíkniefnamálum gerir það að verkum að til er milljarða króna undirheimahagkerfi og í skjóli þess blómstra verstu hliðar mannlegs samfélags. Það kostar íslenska ríkið hundruði milljóna króna á ári að fangelsa fíkniefnaneytendur. Og fíkniefnaneysla er samt að aukast.
Samt breytum við ekki um kúrs. Samt höldum við áfram að fangelsa lasið fólk og valdeflum glæpamenn sem vinna samfélaginu okkar skaða með því að gera starfsemi þeirra fáránlega arðbæra. Ef brotabrot þeirra peninga sem fara í kaup á fíkniefnum og í fangelsun á sjúklingum myndu fara í að bæta félagslegar aðstæður þeirra eða í úrræði til að hjálpa þeim úr fíkn sinni þá væri hægt að gera samfélagið miklu, miklu, miklu betra. Og við ættum fullt af peningum afgangs sem mætti nota í miklu uppbyggilegri hluti en að enda í vasa glæpamanna.
Fyrir nokkrum áratugum þótti í fínu lagi að loka þá sem glímdu við geðsjúkdóma inni á stofnunum, dæla þá fulla af lyfjum og gera allskyns ómannúðlegar tilraunir á þeim. Stóri tilgangurinn var sá að rest samfélagsins þyrfti ekki að sjá þá. Að fela hina óþægilegu. Nú lítum við aftur til þess tíma með réttmætri skömm. Allar líkur eru á því að það sama verði upp á teningnum eftir nokkra áratugi þegar litið verður til þeirrar glórulausu refsistefnu sem við höfum rekið af festu gagnvart fárveikum fíkniefnasjúklingum.