Hjá sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og Rannsóknum og greiningu hefur verið markvisst fylgst með líðan ungmenna á tímum COVID-19. Við birtum nýverið grein í Lancet Psychiatry sem byggði á svörum allra 13-18 ára ungmenna á landsvísu.(1) Niðurstöðurnar staðfestu grun margra um að vanlíðan hjá ungmennum hefur aukist, þá sérstaklega meðal stúlkna.
Í framhaldinu af þessum niðurstöðum köfuðum við dýpra í hvað það er við faraldurinn sem hefur mest áhrif á líðan 16-17 ára ungmenna.(2) Niðurstöðurnar benda til þess að margir samverkandi þættir tengdir COVID-19 hafi haft slæm áhrif á líðan bæði drengja og stúlkna. Margt af því tengist samkomutakmörkunum, en þar má einna helst nefna breytingar á daglegri rútínu og skólastarfi, að hitta ekki vini í eigin persónu og að eyða löngum stundum heima fyrir. Það er hins vegar athyglisvert að það eru ekki einungis samkomutakmarkanir sem hafa slæm áhrif á líðan. Áhyggjur af því að fólk smitist af veirunni og að veikjast sjálf voru einnig meðal helstu þátta sem höfðu slæm áhrif á líðan ungmenna.
Í ljósi þessara niðurstaða fögnum við yfirlýsingum stjórnvalda um að stefnt sé að því varanlegri samkomutakmarkanir miði að því að ungmenni geti haldið sem mest í daglega rútínu sem stuðlar að heilsu og vellíðan eins og að mæta í skóla og eiga í félagslegum samskiptum sem og stunda íþróttir og tómstundastarf. En nú þegar skólastarf er að hefjast og veiran herjar á samfélagið í stærstu COVID-19 bylgjunni til þessa virðist þó óhjákvæmilegt að það verði takmarkanir á skólastarfi þegar nemendur og starfsfólk verða settir í sóttkví. Hvað getum við gert þá til að stuðla að vellíðan ungmenna?
Þar sem við þurfum að læra að lifa með veirunni, þá er tímabært að rannsaka leiðir til að stuðla að vellíðan ungmenna undir hvers konar takmörkunum sem kunna að verða innleiddar. Sumir af þessum þáttum sem ungmenni bentu helst á í tengslum við andlega vanlíðan er hægt að vinna með óháð gildandi takmörkunum. Það er til að mynda hægt að hvetja til og aðstoða ungmenni við að halda svipaðri daglegri rútínu (t.d. vakna á svipuðum tíma, að tannbursta sig og klæða sig, vera með ákveðið námssvæði, viðhalda reglulegum matmálstímum) hvort sem þau eru í staðnámi eða tímabundnu fjarnámi. Við spurðum einnig ungmenni hvort að einhverjar breytingar í hegðun þeirra hafði átt sér stað með tilkomu faraldursins og könnuðum svo hvort að þessar hegðunarbreytingar tengdust vanlíðan. Þar nefndu ungmenni helst minni félagsleg samskipti í netheimum, til dæmis minni tími í nettölvuleikjum með öðrum, minni samskipti við fjölskyldu í gegnum snjalltæki og aukningu í óvirkri samfélagsmiðlanotkun (þ.e. að vera áhorfandi frekar en að taka virkan þátt í miðlinum). Annar mögulegur vettvangur sem er óháður samkomutakmörkunum líðandi stundar til þess að bæta líðan ungmenna er að hvetja til og virkja ungmennin okkar til félagslegra samskipta í netheimum.
Við spurðum ungmenni einnig hvort það væri eitthvað tengt faraldrinum sem hefði haft góð áhrif á andlega líðan. Þá nefndu ungmenni einna helst þætti eins og meiri tími fyrir svefn og að vera með fjölskyldunni, til að slaka á og að sinna áhugamálum og minni streita vegna náms. Vissulega er það streituvaldandi fyrir fjölskyldur að vera í sóttkví en það geta verið jákvæðar hliðar einnig sem hægt er að leggja áherslu á meðan á því stendur.
Það er augljóst að við þurfum að við verðum að halda áfram að vera á varðbergi varðandi líðan ungmenna í faraldrinum og finna sem bestar leiðir til að lifa með veirunni sem stuðla að vellíðun þeirra. Við í LIFECOURSE rannsóknarteyminu viljum sérstaklega þakka öllum ungmennum og fjölskyldum þeirra sem tóku sér tíma til að taka þátt í rannsókninni. Við viljum einnig vekja athygli á því að við munum halda áfram að meta líðan ungmenna og næsta fyrirlögn spurningalista er nú í haust. Við hvetjum því öll ungmenni fædd 2004 og fjölskyldur þeirra til að kynna sér rannsóknina á lifecourse.is og taka þátt.
Um höfunda: Þórhildur Halldórsdóttir, PhD í klínískri barnasálfræði, lektor við Háskólann í Reykjavík, (thorhildurh@ru.is) og Ingibjörg Eva Þórisdóttir, PhD í sálfræði, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, (ingaeva@planetyouth.org).
Um rannsóknina: + LIFECOURSE rannsóknin er langtímarannsókn sem hlaut styrk frá evrópska rannsóknaráðinu, undir forystu Ingu Dóru Sigfúsdóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, Columbia Háskóla í New York og Karolinska Háskóla í Stokkhólmi. Núverandi framhaldsrannsókn hefur hlotið styrk frá Rannís og er leidd af Þórhildi Halldórsdóttur, lektor við HR ásamt Ingu Dóru Sigfúsdóttur, prófessor við HR.
Heimildir
(1) Thorisdottir et al. (2021). Depressive symptoms, mental wellbeing, and substance use among adolescents before and during the COVID-19 pandemic in Iceland: a longitudinal, population-based study. Lancet Psychiatry, 8(8): 663-672. https://doi.org/10.1016/S2215-0366(21)00156-5
(2) Halldorsdottir et al. (2021). Adolescent well-being amid the COVID-19 pandemic: Are girls struggling more than boys? JCPP Advances. https://doi.org/10.1002/jcv2.12027