Við, neytendur Íslands, borgum rúmlega níu milljörðum krónum meira á ári fyrir mjólkurvörurnar okkar á ári en við þurfum að gera. Í stað þess að borga 6,5 milljarða króna fyrir innflutta mjólk, að teknu tilliti til flutningsgjalda, þá borgum við 15,5 milljarða króna á ári fyrir íslenska mjólk. Átta milljarðar króna af þessari viðbótargreiðslu er tilkomin vegna þess að íslenska mjólkin er einfaldlega miklu dýrari í framleiðslu í því kerfi sem við erum með en í þeim löndum sem við gætum flutt hana inn frá. Auk þess framleiðir mjólkurframleiðslukerfi Íslands meiri mjólk fyrir innanlandsmarkað en við þurfum. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostar neytendur og ríkið því milljarð króna til viðbótar á ári.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans, sem laumað var hljóðlega í umferð í haftalosunarvikunni. Skýrslan er einn skýrasti vitnisburður um hversu fjandsamlegt neytendum mjólkurframleiðslukerfið er sem birtur hefur verið.
Samtals greiðir hver Íslendingur, en við erum um 329 þúsund talsins, 27.347 krónur á ári til viðbótar við það sem hann greiðir fyrir mjólk út í búð, fyrir að hún komi ekki úr útlenskum kúm.
Þarf að lækka tolla strax
Skýrsluhöfundar leggja til að tafarlaust verði farið í að lækka suma tolla og afleggja aðra til að gera öðrum mjólkurframleiðsluríkjum kleift að flytja hingað mjólkurvörur, svo hið niðurlægjandi og óþolandi okur á neytendum hætti.
Í fréttum RÚV í gær sagði Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra að stjórnvöld væru að leita leiða til að lækka tolla og auka innflutning á matvælum. Evrópusambandið hafi hins vegar þrívegis frestað fundi til að ræða gagnkvæma samninga um lægri tolla.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur hins vegar fram að það sé lítil ágóðavon í því að framleiða íslenskra mjólkurvörur til útflutnings. Þar segir orðrétt: „Lækkun innflutningstolla er meira hagsmunamál fyrir Íslendinga en hagur þeirra af lækkun tolla annarra landa á íslenskum vörum, vegna þess að ágóðavon landsmanna af útflutningi á mjólkurvörum er mjög óviss. Því er ekki hægt að réttlæta langa töf á lækkun tolla hingað til lands með því að ekki hafi samist um lækkun tolla á flutning íslenskra mjólkurvara til annarra landa.“
Með öðrum orðum þá skiptir engu máli hvort önnur lönd lækki tolla á íslenskar vörur og ástæða Sigurðar Inga því fyrirsláttur. Hann á að lækka tolla núna, ef hann ber hagsmuni neytenda fyrir brjósti.
Í skýrslunni eru lagðar til aðrar leiðir til að styðja við dreifða búsetu en að niðurgreiða mjólkurframleiðslu. Það væri til dæmis hægt að greiða styrki sem miðaðir yrðu við fjölda nautgripa eða heyfeng, að ákveðnu marki, eða hreina búsetustyrki. Það greiðslumarkskerfi sem nú er í gildi verði hins vegar aflagt.
Til einföldunar þá er kvótakerfi fyrir mjólk á Íslandi. Mikil samþjöppun hefur orðið í greininni og þeir sem framleiða mjólk hafa margir hverjir skuldsett sig mjög til að kaupa meiri mjólkurkvóta. Skýrsluhöfundar segja að stór hluti af þeim stuðningi sem ríkið veitir til mjólkurframleiðslu renni nú þegar til fjármálastofnana, sem lánað hafa til kaupa á kvóta, eða til þeirra sem áður stunduðu búskap og hafa selt kvótann sinn. Kvótagreifarnir eru því víðar en í sjávarútvegi.
Lög sem eru fjandsamleg neytendum
Einhverjir gætu auðvitað réttlætt þennan mikla samfélagslega kostnað sem við greiðum fyrir mjólkurframleiðslukerfið ef við fengum eitthvað stórkostlegt í staðinn. En það erum við neytendur ekki að fá. Við fáum ekki mjólkurvöru af hærri gæðum en önnur lönd. Þess í stað fáum við fákeppni, einokun, misnotkun á markaðsráðandi stöðu gímalda á markaði og skert vöruframboð.
Staðan í íslenskum mjólkuriðnaði í dag er þannig að Mjólkursamsalan (MS) og Kaupfélag Skagfirðinga, sem á hlut í MS, kaupa nánast alla mjólk sem bændur á Íslandi selja. Þau framleiða síðan vörur úr þeirra mjólk og eru saman í algjörri einokunarstöðu á íslenskum markaði. Ef aðrir aðilar reyna að komast inn á hann þá reyna fyrirtækin að bregða fyrir þá fæti, til dæmis með því að selja þeim hrámjólk á miklu hærra verði en framleiðslufyrirtækjum innan samstæðunnar.
Nú eða gera eins og MS gerði þegar litla frumkvöðlafyrirtækið Arna, sem framleiðir mjólkurvörur fyrir þá sem eru með laktósaóþol og er staðsett í hinum atvinnuvegasvelta norðvesturhluta landsins. Jón Von Tetzchner, sem ákvað að fjárfesta í Örnu, lýsti þeim aðförum í nýlegu viðtali við Kjarnann. Þar sagði hann: Þegar Arna var að undirbúa sinn aðgang að markaðnum þá þurfti fyrirtækið að hafa samband við MS til að kaupa hrámjólk frá þeim, grunnvöruna sem þeir þurfa. Mér finnst það verðlag sem sett er á hana er út í hött. Arna þarf nánast að borga það sama fyrir vöruna og er sett á hana út í búð. Það er augljóslega mjög erfið staða. Þar að auki svaraði MS áður en Arna fór á markað með því að setja laktósafríar vörur á markað. Af hverju var ekki hægt að hleypa litlu fyrirtæki inn á markaðinn? Af hverju þurfti einokunarrisinn allt í einu að fara að bjóða upp á sambærilega vöru og það? Það er ekki þannig að Arna sé að ógna MS og varan er fyrir sérstakan hóp.“
Íslensk mjólk er góð, en ekki svona góð
Það má ekki vanmeta völdin sem MS og Kaupfélag Skagfirðinga eru með í íslensku samfélagi. Kaupfélagið er eitt stærsta fyrirtæki landsins í landbúnaði og sjávarútvegi, veltir tugum milljarða króna á ári og hefur hagnast um 8,6 milljarða króna á síðustu fjórum árum.
MS ræður því nánast hvaða markaðshlutdeild fyrirtækið er með á markaði með mjólkurvörur og hefur oft legið undir ámæli um að misbeita þeirri stöðu mjög illa til að hrista af sér samkeppni. MS er líka einn stærsti auglýsandi landsins og hefur því í hendi sér að umbuna eða refsa fjölmiðlum fyrir hvernig er fjallað um fyrirtækið í þeim, kjósi það svo.
Þessi staða er ekki einhver tilviljun. Þvert á móti hefur lögum verið breytt til að styrkja þessa gríðarlegu sterku stöðu sem þessir tveir aðilar, MS og Kaupfélag Skagfirðinga, eru með á íslenskum mjólkurmarkaði. Árið 2004 lagði Guðni Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, fram breytingartillögu við búvörulög sem lögfesti verðsamráð í mjólkurgeiranum og gerði fyrirtækin sem starfa í honum undanþegin samkeppniseftirliti.
Eftir að Guðni hætti í stjórnmálum nokkrum árum síðar var hann ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, sem eru í eigu MS, Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Allar afurðastöðvar sem taka við mjólk frá framleiðendum eru aðilar að samtökunum.
Ein helsta niðurstaða skýrslu Hagfræðistofnunar er sú að breytingarnar hans Guðna um opinbert heildsöluverð á mjólk verði aflagt og að undanþágur mjólkurvinnslufyrirtækja frá samkeppnislögum verði felldar úr gildi.
Þessar breytingar, ásamt afnámi og lækkun tolla á mjólkurvörur, munu gjörbylta mjólkurframleiðslukerfinu á Íslandi neytendum í hag. Og losa um þá ótrúlegu einokun sem MS og fylgihnettir þess fyrirtækis hefur haft á íslenskum neytendamarkaði síðastliðna mannsævi eða svo.
Þetta yrði gríðarlega mikið framfaraskref fyrir íslenska þjóð ef ráðist yrði fumlaust í þær tillögur sem gerðar eru í skýrslunni. Svo ekki sé talað um hversu hagkvæmt það væri fyrir okkur öll að borga ekki níu milljarða króna á ári fyrir kerfi sem gagnast fyrst og síðast sjálfu sér. Íslenska mjólkin er góð, en hún er ekki svo góð að fórnarkostnaðurinn fyrir einokunarstöðu hennar sé þess virði.