Eftirfarandi mál voru á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag: Utanríkisráðherra – staðfesting loftferðasamnings milli Íslands og Rúanda.
Þetta er brot úr dagskrá ríkisstjórnarinnar sem hélt reglubundinn fund sinn á þriðjudag. Á fundinum voru að venju fleiri mál á dagskrá. Ráðherrarnir ræddu meðal annars álag á heilbrigðiskerfið, frumvarp til sóttvarnalaga og hækkun íbúðaverðs í alþjóðlegum samanburði svo nokkur dæmi séu tekin. Allt mál sem varða þjóðarhag og við er að búast að ríkisstjórnin þurfi að ræða.
Samband Íslands og Rúanda er hins vegar fáséð á borði hennar, hafi það yfir höfuð nokkru sinni fyrr ratað þangað.
Og forvitni blaðakonu var vakin. „Hvað er þarna á ferð?“ spurði hún í tölvupósti til Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, eftir að hafa komist að því að loftferðasamningar fela í sér heimildir til flugferða milli ríkja sem þá gera með sér – í þessu tilfelli þá milli Íslands og Rúanda, lítils ríkis við miðbaug í Austur-Afríku.
„Á vef Stjórnarráðsins er yfirlit yfir loftferðasamninga og samkomulög sem Ísland hefur gert við önnur ríki,“ svaraði upplýsingafulltrúinn örstuttu síðar. „Rúanda er eitt þeirra ríkja sem gerður hefur verið samningur við og ég myndi ætla (en þarf að kanna betur) að þarna sé einfaldlega um uppfærslu á gildandi samningi að ræða og það hafi verið kynnt í ríkisstjórn í morgun.“
Þess var ekki lengi að bíða að Sveinn aflaði upplýsinganna og í ljós kom að ágiskun hans hafði verið rétt: Verið var að fullgilda loftferðasamninginn við Rúanda sem gerður var árið 2018.
„Og er slíkt alltaf gert með því að kynna málið fyrst í ríkisstjórn?“ spurði þá blaðakona.
„Já, þjóðréttarsamningar sem fara til forseta (og loftferðasamningar eru þar á meðal) fara alltaf fyrst í umfjöllun hjá ríkisstjórninni,“ svaraði Sveinn um hæl.
Það er nefnilega það.
En þá var komið að spurningunni sem brann mest á blaðakonu Kjarnans, ástæðunni fyrir því að samband Íslands og Rúanda skapaði ákveðin hugrenningartengsl. „Ég er alveg sannfærð um að mörgum hafi brugðið í brún að sjá þetta á dagskrá ríkisstjórnarinnar í ljósi umræðu um flóttamenn hér á landi upp á síðkastið,” skrifaði hún til útskýringar á áhuga sínum á loftferðasamningi. „Getur þú staðfest að þessi fullgilding samningsins nú sé tilviljun og tengist ekki hælisleitenda- og flóttamannamálum á nokkurn hátt?”
Nokkrum mínútum síðar er svarið frá Sveini komið í hús: „Já, ég get staðfest að þetta er tilviljun og tengist ekki málefnum flóttamanna eða hælisleitenda. Áritaður samningur hefur verið fyrir hendi frá 2018 og fullgildingin hefur því litla þýðingu í praxís.“
Þar með er það komið á hreint.
En hvað varð til þess að framkalla þessi skýru hugrenningatengsl?
Þrennt kemur til.
Útvistun verndarkerfis
Bresk og dönsk stjórnvöld vilja senda flóttafólk til Rúanda og hafa gert samkomulag við þarlend yfirvöld. Í Rúanda myndu hælisleitendur bíða úrlausnar sinna mála, hversu löng sem sú bið yrði. Einhverjir gætu vissulega að endingu fengið hæli í Danmörku eða Bretlandi og ekki er svo loku fyrir það skotið að fólkið gæti sest að í Rúanda, að sögn stjórnvalda. Þau bresku hafa meira að segja hvatt fólk sem ætlar sér að leita skjóls í Bretlandi til að sækja frekar um hæli í Rúanda og „byggja upp líf sitt“ þar. Gerður er hins vegar greinarmunur á fólki eftir því hvaðan það kemur. Ekki stendur til, svo dæmi sé tekið, að senda flóttamenn frá Úkraínu til Afríku.
Þessi útvistun á hluta verndarkerfis tveggja vestrænna ríkja hefur verið fordæmd af ýmsum, m.a. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem eðli málsins samkvæmt fylgist betur en flestir með málefnum fólks á flótta. Stofnunin „leggst eindregið“ gegn fyrirkomulaginu og minnir á að Danmörk og Bretland hafi alþjóðlegum skuldbindingum að gegna er komi að fólki í viðkvæmri stöðu. „Fólk sem er að flýja stríð, átök og ofsóknir á skilið samúð. Það á ekki að fara með það eins og vörur, flytja það til útlanda til úrvinnslu.“
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig gagnrýnt þessar fyrirætlanir og segir þær grafa undan alþjóðlega verndarkerfinu. Enginn hælisleitandi hefur enn verið sendur frá Danmörku til Rúanda. Bretar voru við það að ræsa fyrstu flugvélina til að flytja fólk yfir hafið er málinu var skotið til dómstóla.
Hin umdeildu útlendingalög
Í annan stað hafa málefni flóttafólks verið til mikillar umræðu hér á landi undanfarið. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur í því samhengi sagt að móttökukerfi okkar fyrir flóttafólk sé of opið, ástandið sé „stjórnlaust“ og að nauðsynlegt sé að koma hér upp lokuðum búðum fyrir hælisleitendur sem synjað er um hæli. Þá segist honum hugnast vel að koma á fót móttökubúðum fyrir flóttafólk þótt hann vilji meina að slíkar búðir yrðu ekki eiginlegar flóttamannabúðir.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ósammála því að ástandið sé stjórnlaust. Vissulega ríki fordæmalaust ástand á heimsvísu og fólki á flótta fjölgi af þeim sökum. „Og það er ekki nema eðlilegt að við Íslendingar finnum fyrir þeim aðstæðum,“ sagði Katrín á Alþingi á dögunum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður VG og félagsmálaráðherra, hefur tekið undir með Katrínu og segir ekki standa til að koma upp lokuðum flóttamannabúðum á Íslandi. „Nei, það stendur ekki til, er ekki á dagskránni að gera það og ég lít nú svona á að umræða sem komið hefur fram undanfarna daga, meðal annars hjá dómsmálaráðherra og einhverjum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þetta eru auðvitað bara pólitískar skoðanir þeirra og þeim er auðvitað algjörlega frjálst að hafa þær. En þetta er ekki stefna mín sem ráðherra sem fer með þjónustu við flóttafólk og þetta er ekki stefna ríkisstjórnarinnar.“
Drög dómsmálaráðherra að frumvarpi til nýrra útlendingalaga komu til meðferðar hjá ríkisstjórnarflokkunum í haust og hefur verið afgreitt af bæði VG og Framsókn. Samkvæmt fréttum gærdagsins hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hins vegar ekki enn afgreitt það. Drátturinn skýrist af því að gera þarf „ákveðnar lagfæringar“ sem eru að sögn þingflokksformannsins taldar nauðsynlegar „með hliðsjón af þeim aðstæðum sem hafa skapast á undanförnum vikum“.
Hið meinta öryggi Rúanda
Í þriðja og síðasta lagi þarf að nefna að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú formaður Miðflokksins, vill að íslensk stjórnvöld íhugi þann möguleika að vísa hælisleitendum sem synjað er um alþjóðlega vernd á Íslandi til Rúanda. Hann fór nú í október á haustþing Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldið var í Rúanda og kynnti sér í leiðinni, að því er fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins, aðstæður flóttafólks í landinu.
Boris Johnson var forsætisráðherra er bresk stjórnvöld gerðu samkomulag við Rúanda um að taka við hælisleitendum. Hann sagði áformin til fyrirmyndar og að Rúanda væri „eitt öruggasta ríki heims“ sem væri þekkt á heimsvísu fyrir að „taka vel á móti og aðlaga hælisleitendur“ að rúönsku samfélagi.
Þetta var hins vegar ekki kórrétt fullyrðing hjá Johnson. Rúanda hefur vissulega rétt úr kútnum efnahagslega á síðustu árum í kjölfar þjóðarmorðanna árið 1994. Og það hefur tekið við miklum fjölda fólks á flótta. Pólitískur stöðugleiki virðist ennfremur ríkja þar, að minnsta kosti miðað við mörg nágrannalönd. En þegar betur er að gáð, að mati bandarísku mannréttindasamtakanna Freedom House, kemur í ljós að andstaða við ríkjandi stjórnvöld er kerfisbundið bæld niður og heft með eftirliti, hótunum, pyntingum og meintum aftökum. Rúanda getur að mati samtakanna ekki talist „frjálst“ í orðsins fyllstu merkingu.
Á síðustu árum hafa stjórnmálamenn, blaðamenn og aðgerðasinnar verið drepnir eða horfið sporlaust. Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, hefur komist að því að stjórnvöld í Rúanda hafa sótt stjórnarandstæðinga og blaðamenn til saka fyrir að viðra skoðanir sínar og gagnrýna forsetann Paul Kagame og ríkisstjórn hans.
Mannréttindavaktin hefur einnig bent á að þrátt fyrir að hinsegin fólk eigi að njóta sömu mannréttinda og aðrir sé það ekki þannig í reynd. Hinsegin fólk segist verða fyrir ofsóknum og fordómum og sem dæmi þá var hópur þeirra handtekinn á götum úti árið 2021. Sum voru beitt ofbeldi í varðhaldinu.
Litla landið sem opnar landamærin
Rúanda er fallegt land rétt við miðbaug og því í miðju hitabeltinu með allri þeirri litskrúðugu og fjölbreyttu náttúru sem því fylgir. Þótt það sé almennt sagt öruggt fyrir ferðamenn og glæpatíðni lág hafa átök og órói í nágrannaríkjunum Búrúndí og Austur-Kongó haft tilhneigingu til að flæða annað slagið yfir landamærin.
Á sama tíma og vestræn ríki eru mörg hver að herða stefnu í útlendingamálum hefur litla landið í hitabeltinu opnað sín landamæri – gegn greiðslu, eðlilega. Stjórnvöld þar vilja með þessu sanna sig á alþjóða vettvangi. Vilja bjóða það sem þau telja lausn á „flóttamannakrísunni“ – „mjög flóknu vandamáli ríkja alls staðar í heiminum“ líkt og Kagame, forseti til að verða þrjátíu ára, hefur sagt.
En vill flóttafólk setjast að í Rúanda?
Ekki er það að minnsta kosti meginreglan samkvæmt því sem rakið er í nýlegri fréttaskýringu New York Times. „Ég á mér þann draum að komast til Evrópuríkis,“ segir Abubakar Ishaq, 35 ára gamall karlmaður frá Darfúr-héraði í Súdan. „Ég get ekki einfaldlega gefið hann upp á bátinn.“
Ishaq hafði flúið heimalandið og var kominn til Líbíu þaðan sem hann ætlaði yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í leit að betra lífi. Í Líbíu var honum hins vegar komið fyrir í lokuðum flóttamannabúðum og þaðan sendur, samkvæmt samkomulagi líbískra og rúanskra stjórnvalda, til Rúanda.
Flutningur hælisleitenda líkist aðferðum nýlenduherraþjóðanna sem fluttu fólk gegn vilja sínum þangað sem það þótti koma að mestu gagni. Það var gert í efnahagslegum og pólitískum tilgangi og þannig er það einnig nú, hefur New York Times eftir Parvati Nair, prófessor í menningar- og farandsfræðum við Queen Mary-háskóla í London. „Hið ósagða í þessu máli varðar kynþætti og heimsveldi sem vilja meiri völd.“
Mannréttindi
Þegar til stóð að fljúga fyrstu vélinni með hælisleitendum frá Bretlandseyjum til Rúanda í sumar reyndu nokkrir þeirra að svipta sig lífi. Er fólkið var komið um borð í vélina öskraði það og grátbað um að fá að vera um kyrrt í Bretlandi. Rétt fyrir flugtak greip mannréttindadómstóll Evrópu inn í og kyrrsetti vélina.
Stefna bæði danskra og breskra stjórnvalda er enn sú að senda fólk sem leitar skjóls til Rúanda.
Og til stendur að endurskoða íslensku útlendingalöggjöfina. Skal þá hafa hugföst einkunnarorð Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna: Að leita hælis undan ofsóknum, stríði og öðrum hörmungum eru grundvallar mannréttindi.