Það veit hvert íslenskt mannsbarn að Ísland er eldfjallaeyja og kannski ekki að undra þegar við erum með eldgos í gangi nánast í bakgarðinum á höfuðborgarsvæðinu. Merkilegt nokk hefur þriðjungur þjóðarinnar þegar lagt leið sína að gosstöðvunum við Fagradalsfjall samkvæmt nýjustu talningu. En þrátt fyrir að eldurinn sé okkur hreinlega í blóð borinn er rík ástæða til að rifja upp grunnatriðin á bak við eldvirkni Íslands.
Eldstöð telst virk hafi hún gosið síðustu 12 þúsund ár. Á Íslandi eru 30 virkar eldstöðvar og 41 ef taldar eru með eldstöðvarnar sem ná út fyrir landsteinana og liggja neðansjávar, til dæmis út af Reykjanesi (sjá skýringarmynd fyrir neðan). Hvergi annars staðar á jörðinni eru jafn margar eldstöðvar saman komnar á jafn litlu svæði. Á skýringarmyndinni hér að neðan má sjá öll eldstöðvarkerfi á Íslandi merkt inn með litum og númerum.
Sumar eldstöðvar eru tiltölulega óþroskaðar og einkennast þá eingöngu af sprungusveimum (sbr. eldstöðin Fagradalsfjall, nr. 11 á myndinni hér að ofan). Meirihluti íslenskra eldstöðva eru þó svokallaðar megineldstöðvar (merktar með þríhyrningum inn á myndina), sem gjósa aftur og aftur með reglubundnu millibili. Megineldstöðvar búa yfir kvikuhólfum sem safna í sig kviku þar til þrýstingurinn verður til þess að kvikan leitar útgönguleiðar, stundum með kvikuinnskoti eins og varð í Holuhrauni árið 2014 (eldstöð nr. 21), en stundum í öskjunni sjálfri, líkt og gerðist í gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 (eldstöð nr. 34 á mynd) og stöðvaði flugumferð svo dögum skipti um allt norðurhvel jarðar.
Á Íslandi verða að meðaltali eldgos á 4-5 ára fresti en virkasta eldstöð Íslands er Grímsvatnakerfið (nr. 22 á mynd) sem gosið hefur á um það bil tíu ára fresti síðastliðin 1000 ár. Stærsta eldstöð landsins er þó Bárðarbunga (nr. 21 á mynd).
Af hverju eru eldgos svona algeng á Íslandi?
Það eru í megindráttum tvær ástæður fyrir því að Ísland er eitt eldvirkasta svæði jarðar. Annars vegar liggur landið á flekaskilum þar sem jarðflekarnir gliðna í sundur. Hér á landi markast þessi flekaskil af Atlantshafshryggnum sem þverar Atlantshafið endilangt frá norðri til suðurs og sker Ísland. Norðvesturhluti landsins, kallast Ameríkuflekinn og færist statt og stöðugt til vesturs meðan suðausturhluti landsins kallast Evrasíu flekinn og þokast austur á bóginn. Þessi gliðnun veldur því að bergkvika á greiðari aðgang upp í átt að yfirborði jarðar um sprungur sem verða til á skilunum. Þegar kvikan nær að komast alla leið upp á yfirborðið verða eldgos.
Hins vegar er Ísland staðsett beint yfir heljarinnar möttulstrók sem ýtir enn frekar undir eldvirknina. Möttulstrókar eru svokallaðir „heitir reitir“ en þar rís heitari bergkvika djúpt úr iðrum jarðar upp í átt að yfirborðinu og setur aukinn þrýsting á jarðskorpuna. Strókar þessir eru 200-300° heitari en möttulefnið umhverfis og því eðlisléttari sem veldur því að kvikan rís upp í átt að yfirborðinu. Af þessum sökum verður jarðskorpan þynnri fyrir ofan möttulstróka sem aftur gerir kvikunni auðveldara um vik að brjóta sér leið upp á yfirborðið í eldgosi.
Þetta tvennt, flekaskilin og möttulstrókurinn, er ástæðan fyrir því að landið okkar er í stöðugri mótun. Afleiðingarnar eru þó misalvarlegar. Eldgos geta verið ofsafengin og eyðileggjandi en stundum erum við heppin og fáum tiltölulega lítil gos sem gera okkur bókstaflega kleyft að sjá nýtt land verða til. En sama hvort um ræðir eru eldgos alltaf magnþrungin fyrirbæri sem sýna okkur, svo ekki verði um villst, hve lítils við megum okkar gegn kröftum náttúrunnar.
Nýtt land í mótun við Fagradalsfjall. Myndband: Arthúr Ólafsson
Hraunnördarnir
Vert er að taka fram að við hjónin erum hvorki jarðfræðingar né menntuð í eldfjallafræðum. Við erum hins vegar vandræðalega mikið áhugafólk um íslenska eldvirkni – sjálfskipaðir eldfjalla- og hraunnördar ef svo má að orði komast.
Þennan mikla áhuga nýttum við til hins ítrasta þegar við settum hraunsýninguna Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal á laggirnar, með það að markmiði að gera fræðslu um þá kynngimögnuðu krafta sem okkar magnaða eldfjallaeyja býr yfir, bæði upplýsandi, spennandi og skemmtilega. Við leitum gjarna álits og ráða hjá sérfræðingum um þessi málefni en okkar meginmarkmið er að útskýra íslenska eldvirkni á eftirminnilegan hátt og á mannamáli.
Höfundar eru stofnendur og eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal.