Er nýsköpun ekki lengur töff?

Á sama tíma og áhugi stjórnmálamanna á nýsköpun hefur aukist virðist hugtakið vera á undanhaldi í almennri umræðu. Hvað veldur því?

Auglýsing

Nýsköpun er gild­is­hlaðið orð. Því fylgja ýmis jákvæð hug­hrif, líkt og þró­un, fram­farir og tækni. Það kemur því kannski ekki á óvart að það sé vin­sælt á meðal stjórn­mála­manna. Þeir virð­ast einnig flestir sam­mála um að styðja við nýsköpun og virð­ast hafa gert það ágæt­lega á síð­ustu árum hér­lend­is, ef miðað er við önnur Evr­ópu­lönd.

Hins vegar eru vís­bend­ingar uppi um að hug­takið sé á und­an­haldi í almennri umræðu, bæði hér­lendis og á alþjóða­vísu. Gæti verið að áhugi almenn­ings á nýsköpun sé að dvína?

Flokk­arnir sam­mála

Að Flokki fólks­ins und­an­skildum má nálg­ast stefnu­skrá allra stjórn­mála­flokka sem sitja á þingi á net­inu. Í öllum þeirra má finna kafla um nýsköp­un, en þar virð­ast flokk­arnir vera nokkurn veg­inn sam­mála um leiðir til að hlúa að vexti henn­ar.

Í stefnu­skrá Sjálf­stæð­is­flokks­ins segir að mik­il­vægt sé að stjórn­völd skapi umhverfi sem hvetji til nýsköp­unar á öllum sviðum sam­fé­lags­ins, auk þess sem hvatt er til meiri teng­ingar háskóla við frum­kvöðla- og nýsköp­un­ar­starf. Þessar áherslur eru einnig að finna nán­ast orð­rétt í stefnu­skrá VG.

Auglýsing

Í stefnu­skrám Við­reisnar og Fram­sókn­ar­flokks­ins eru svo skattaí­viln­anir útli­staðar sér­stak­lega sem leiðir til að stuðla að auk­inni nýsköp­un, auk ann­arra aðgerða, líkt og auk­inna end­ur­greiðslna til fyr­ir­tækja í rann­sókn­ar- og þró­un­ar­starfi. Píratar nefna einnig að nýskrán­ingar fyr­ir­tækja ættu að vera gerðar ein­faldar og ódýr­ar.

Sam­fylk­ingin og Mið­flokk­ur­inn kalla svo eftir mark­vissum stuðn­ingi við þær atvinnu­greinar þar sem helstu tæki­færin liggja fyrir íslenskan efna­hag í sínum stefnu­skrám. Sam­kvæmt Sam­fylk­ing­unni ætti að ýta undir vöxt háfram­leiðni­greina sem byggj­ast á hug­viti, sköp­un­ar­gáfu, tækni og verk­kunn­áttu, en Mið­flokk­ur­inn nefnir sér­stak­lega tækni- og orku­geir­ann í þessu til­liti.

Þótt blæ­brigða­munur sé á stefn­unum er því ljóst út frá stefnu­skrám þeirra að mik­ill sam­hljómur ríki um mála­flokk­inn. Það vilja allir tala vel um nýsköp­un.

Flestar rík­is­stjórnir hafa stutt við nýsköpun

Ef miðað er við önnur Evr­ópu­lönd hefur Ísland einnig staðið sig til­tölu­lega vel þegar kemur að stuðn­ingi hins opin­bera við nýsköp­un. Sam­kvæmt tölum frá Eurostat hafa opin­ber útgjöld til rann­sóknar og þró­unar hér­lendis oft­ast verið nokkuð yfir með­al­tali Norð­ur­land­anna og aðild­ar­ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins á síð­ustu árum, ef tekið er til­lit til lands­fram­leiðslu .

Útgjöld ríkj­anna til rann­sókn­ar-og þró­un­ar­starfs á árunum 2004-2019 má sjá á mynd hér að neð­an, en sam­kvæmt henni nam fram­lag Íslands tæpu pró­senti flest árin. Sam­svar­andi fram­lag á hinum Norð­ur­lönd­unum hefur numið 0,8 til 0,9 pró­sent­um, en með­al­tal innan ESB er nær 0,7 pró­sent­um.

Mynd: Kjarninn. Heimild: Eurostat

Mikla breyt­ingu mátti hins vegar sjá á árunum 2014, 2015 og 2016, þegar fjár­laga­frum­vörp voru í höndum rík­is­stjórnar Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar, með Bjarna Bene­dikts­son sem fjár­mála­ráð­herra og Ragn­heiði Elínu Árna­dóttur sem iðn­að­ar­ráð­herra. Á þessum þremur árum lækk­uðu fram­lög íslenska rík­is­ins til rann­sóknar og þró­unar um helm­ing og voru þau undir með­al­tali ESB-­ríkja og hinna Norð­ur­land­anna.

Aukn­ing á síð­ustu árum

Á árunum 2017, 2018 og 2019 jókst hins vegar fram­lag hins opin­bera til rann­sóknar og þró­unar til muna á ný og náði aftur tæpu pró­senti af lands­fram­leiðslu. Ein­ungis rík­is­stjórnir Nor­egs og Þýska­lands vörðu hærra hlut­falli af lands­fram­leiðslu í Evr­ópu á þeim tíma.

Til við­bótar við bein útgjöld úr opin­berum sjóðum hefur rík­is­stjórnin einnig eflt nýsköpun með skattaí­viln­unum á síð­ustu árum. Sam­kvæmt nýlegri grein­ingu hjá OECD hafa slíkar íviln­anir auk­ist meira hér­lendis en í flestum öðrum þró­uðum ríkjum . Þró­un­ina má sjá á mynd hér að neð­an, en þar sést að Ísland er komið langt fram úr með­al­tali hinna Norð­ur­land­anna í mála­flokk­in­um. Sam­tökin bentu einnig á að yfir­gnæf­andi meiri­hluti slíkra íviln­ana færu til lít­illa og með­al­stórra fyr­ir­tækja.

Mynd: Kjarninn. Heimild: OECD

Öfug þróun hjá almenn­ingi

Á meðan áhugi stjórn­mála­manna á nýsköpun og stuðn­ingur þeirra við mála­flokk­inn hefur auk­ist má þó greina öfuga þróun í almennri umræðu. Sam­kvæmt Tíma­rit.is hefur dregið úr birt­ingu orðs­ins „ný­sköp­un“ á allra síð­ustu árum, eftir að það hafði birtst æ oftar á prenti á síð­ustu fjórum ára­tug­um.

Þró­un­ina má sjá á mynd­inni hér að neð­an, en sam­kvæmt henni náði fjöldi skipta sem orðið var birt í íslenskum blöðum og tíma­ritum hámarki árið 2014. Síðan þá hefur fjöld­inn minnkað með hverju árinu sem líður og mæld­ist hann í fyrra jafn­mik­ill og hann var fyrir fjár­mála­hrunið árið 2007.

Mynd: Kjarninn. Heimild: Tímarit.is

Hér er gott að nefna að mæl­ingar Tíma­rit.is eru ekki full­komn­ar, til að mynda geti mæl­ingar fyrir síð­ustu árin verið óná­kvæmar þar sem tveggja til fjög­urra ára töf gæti verið á birt­ingu blaða á síð­unni. Auk þess hefur útgáfa prent­aðra miðla einnig minnkað á síð­ustu árum, á meðan vef­miðlar hafa tekið sér stærra pláss í umræð­unni.

Þessi þróun er hins vegar í ágætu sam­ræmi við minni notkun þess­ara orða á heims­vísu. Sam­kvæmt heima­síð­unni Google Trends eru vin­sældir leit­ar­orð­anna „innovation“ og „res­e­arch and develop­ment“ einnig minni en þau voru, en áhug­inn virð­ist hafa minnkað mest á fyrstu árunum eftir alda­mót­in.

Hvað veldur þessu?

Hægt er að setja minnk­andi áhuga almenn­ings á nýsköpun í sam­hengi við minni fram­leiðni­vöxt á síð­ustu árum. Frá alda­mótum hefur sá vöxtur um það bil helm­ing­ast í Banda­ríkj­un­um, úr 3 pró­sentum á ári að með­al­tali niður í 1,5 pró­sent. Þró­unin hefur verið svipuð hér á landi, þar sem vöxtur lands­fram­leiðslu á hverja vinnu­stund hefur minnkað úr 10 pró­sentum á árunum 2004-2008 niður í 5 pró­sent á síð­ustu fimm árum.

Til lengri tíma byggir vöxtur fram­leiðni á nýsköp­un. Minni fram­leiðni­vöxtur er því merki um að nýsköp­unin sé ekki að skila sér inn í hag­kerfið með jafn skil­virkum hætti og áður. Í stjórn­enda­könnun PwC árið 2019 sagð­ist meiri­hluti stjórn­enda eiga erfitt með að koma með nýj­ungar sem auka skil­virkni fyr­ir­tækja þeirra .

Með minnk­andi fram­leiðni­vexti hefur almenn­ingur fundið minna fyrir jákvæðum áhrifum nýsköp­unar á líf þeirra og störf og er því ekki óeðli­legt að jákvæðu hug­hrifin sem fylgja orð­inu hafi tekið að dvína. Í stað þess að tengja nýsköpun við þróun og fram­farir gæti verið að almenn­ingur tengi orðið frekar við áhættu eða upp­stokkun á núver­andi kerfi.

Í einni rann­sókn á meðal háskóla­mennt­aðra starfs­manna í Banda­ríkj­unum og Kana­da, tveimur löndum sem skora hátt í alþjóð­legum sam­an­burði í mála­flokkn­um, sögð­ust aðeins 14 til 28 pró­sent þeirra hafa mik­inn metnað fyrir nýsköp­un.

Óvíst er hvort fram­leiðni­vöxt­ur­inn muni taka við sér á næst­unni en vonir standa til að svo verði, þar sem vinnu­venjur hafa breyst í kjöl­far far­ald­urs­ins. Aukin heima­vinna gæti ýtt undir almenna tækni­þekk­ingu, en með henni væri auð­veld­ara að full­nýta alla þá nýsköpun sem hefur átt sér stað í staf­rænum lausnum á síð­ustu árum.

Ef það ger­ist mætti búast við að orðið nýsköpun verði aftur tengt við fram­farir og nýja tíma. Þangað til er hins vegar lík­legt að það verði fyrst og fremst notað á meðal stjórn­mála­manna.

Þessi pist­ill birt­ist fyrst í vor­hefti Vís­bend­ing­ar, sem lesa má með því að smella hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigrún Sif Jóelsdóttir og Grant Wyeth
Hæstiréttur leiðir dómstóla á hættulega braut í málum barna
Kjarninn 28. september 2021
Þorkell Helgason
Kosningakerfið þarf að bæta
Kjarninn 28. september 2021
Seðlabankinn stendur við Kalkofnsveg sem kenndur er við kalkofn sem þar var í notkun á síðari hluta 19. aldar.
Varaseðlabankastjórar gerast ritstjórar
Kalkofninn er nýr vettvangur fyrir greinar um verkefni og verksvið Seðlabanka Íslands sem finna má á vef bankans. Kalkofninum er ætlað að höfða til almennings, atvinnulífs, fjölmiðla og fræðasamfélags.
Kjarninn 28. september 2021
Árni Páll Árnason.
Árni Páll skipaður í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA
Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar hefur gengt starfi varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES undanfarið. Hann hefur nú verið skipaður í stjórn ESA.
Kjarninn 28. september 2021
Þau fimm sem duttu inn á þing sem jöfnunarmenn síðdegis á sunnudag verða að óbreyttu þingmenn.
Listar yfir nýkjörna þingmenn sendir á yfirkjörstjórnir
Þeir fimm frambjóðendur sem duttu skyndilega inn á þing sem jöfnunarmenn eftir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi á sunnudag munu verða þingmenn á næsta kjörtímabili, nema Alþingi ákveði annað.
Kjarninn 28. september 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 9. þáttur: „Íkarus virti ekki viðvörunarorðin og hélt af stað“
Kjarninn 28. september 2021
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutaði úr Matvælasjóði í liðinni viku.
Síldarvinnslan og félag í meirihlutaeigu Samherja fengu milljónir úr Matvælasjóði
Vel á sjötta hundrað milljóna var úthlutað úr Matvælasjóði fyrr í mánuðinum. Stór fyrirtæki í sjávarútvegi á borð við Síldarvinnsluna og Útgerðarfélag Reykjavíkur á meðal styrkþega.
Kjarninn 28. september 2021
Þórður Snær Júlíusson
Ný valdahlutföll og fleiri möguleikar leiða af sér öðruvísi ríkisstjórn
Kjarninn 28. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari