Jörð í kófi

Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki, spyr hvort kófið hafi kennt okkur að lifa vel sem manneskjur innan þeirra marka sem jörðin setur okkur. „Því miður sé ég engin merki um það,“ segir hann.

Auglýsing

Hvaða breyt­ingar ætli verði á fram­ferði og við­horfum fólks í fram­haldi af COVID-19 far­aldr­in­um? Ég hef velt þess­ari spurn­ingu fyrir mér, án þess að kom­ast að nokk­urri nið­ur­stöðu, enda kannski ekki við því að búast að heim­spek­ingur hafi svar við svona spurn­ingu. En þó vil ég benda á nokkur atriði, öll fremur aug­ljós, sem ég held að við ættum að hafa í huga þegar við spáum í þessa hluti. Hið fyrsta er þetta:

Það verða engar breyt­ingar nema við lærum eitt­hvað nýtt.

En svo vaknar vita­skuld önnur spurn­ing, af öðrum toga, og hún er þessi:

Þurfum við að læra eitt­hvað nýtt?

Þótt fólki sé tíð­rætt um marg­vís­legan lær­dóm sem draga megi af kóf­inu, er ekki síður algengt að fólk segi eitt­hvað á þessa leið: „Við verðum að komst í gegnum þetta,“ eins og kófið sé tíma­bundið ástand (samt kannski lengra en upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir) og að end­ingu muni hlut­irnir kom­ast aftur í sama far­ið.

Auglýsing

Þegar fólk seg­ir, kannski með von­ar­blæ í rödd­inni, að við munum kom­ast í gegnum kófið og aftur til fyrra lífs, er gert ráð fyrir að áður en far­ald­ur­inn braust út hafi þetta líf verið í þokka­legu lagi. Auð­vitað hafi til­veran ekki verið full­kom­in, en svona nokkuð þægi­leg. En það er þetta sama far – lífið sem við lifðum fyrir kófið – sem er hætt­an. Í þessu hvim­leiða ástandi grímu­skyldu, fjar­lægð­ar­reglna, fjölda­tak­mark­ana og sótt­kvía, vill gleym­ast að við stönd­um frammi fyrir ógn sem er marg­falt skæð­ari en veiru­far­ald­ur­inn og sem engin bólu­efni vinna á. Hér á ég við lofts­lags­breyt­ing­arnar sem þegar eru farnar að hafa gríð­ar­leg áhrif.

Unga fólkið og kvíð­inn

Þann 29. júlí síð­ast­lið­inn skrif­aði Greta Thun­berg stutta færslu inn á Face­book-­síð­una sína: „Í dag er þurrðar dagur jarð­ar, #WorldOvers­hoot­Day – dag­ur­inn þegar auð­lindir jarðar fyrir árið 2021 gengu til þurrð­ar.“ Nú eru rétt um þrjú ár síðan Greta tók upp á því að skrópa í skól­anum á föstu­dög­um, mót­mæla fyrir framan þing­húsið í Stokk­hólmi og segj­ast vera í lofts­lags­verk­falli af því að það væri ekki til neins að fara í skóla og mennta sig fyrir fram­tíð­ina ef engin væri. Það var kannski fyrst þá – og reyndar ekki þá heldur eftir að hún var búin að sitja þarna ein nokkra föstu­daga í röð – sem hún fékk fólk til að horfast í augu við þá stað­reynd að fram­tíð heillar kyn­slóðar er smátt og smátt að verða að ösku. Á sinn hæg­láta en bein­skeytta máta mót­mælti Greta stjórn­málum hug­leys­is, sér­gæsku og blekk­inga. Þegar hún útskýrir hvers vegna hún hafi tekið upp á þessu segir hún m.a.:

Mig langar að finna til örygg­is.

Þegar ég labba heim á kvöld­in.

Þegar ég sit í neð­an­jarð­ar­lest­inni.

Þegar ég sef á nótt­unni.

En ég finn ekki til örygg­is.

Hvernig get ég fundið til öryggis þegar ég veit að við stöndum frammi fyrir mestu ógn í sögu mann­kyns? Þegar ég veit að ef ég bregst ekki við núna, þá verður það bráðum of seint?

Yfir­leitt tengjum við líf í óör­yggi við nátt­úru­ham­farir eða stríð. Og núna, eftir að veiru­far­ald­ur­inn braust út vitum við að óör­yggi getur líka læðst að okkur á hljóð­látan máta í formi ósýni­legs váboða. Stokk­hólmur er frið­sæl borg og fjarri öllum nátt­úru­ham­för­um. En stríðin eru af ýmsu tagi og nátt­úru­ham­farir líka. Segja má að núver­andi kyn­slóðir hafi sagt þeim kom­andi stríð á hend­ur. Hægt og bít­andi er verið að éta börn og ung­menni út á gadd­inn. Fólkið sem á að erfa landið erfir kannski ekki annað en slitur af landi. Og reyndar ger­ist þetta ekki svo hægt heldur æ skjót­ar. Nátt­úru­ham­far­irnar eru heldur ekki eitt­hvað sem ef til vill mun verða að veru­leika, þær eru ekki lengur fram­tíð­ar­spá. Fyrir nokkrum árum hefði fáum dottið í hug að nær allur suð-austur hluti Ástr­alíu gæti orðið eitt sam­fellt ham­fara­svæði vegna skóg­ar­elda svo mán­uðum skipti. Ef fram fer sem horfir verða nær öll strand­­svæði heims ham­fara­svæði vegna hækk­andi sjáv­ar­stöðu. Mörg strand­svæði eru nú þegar ham­fara­svæði. Er nema von að mörg börn, ekki bara Greta Thun­berg, finni til óör­yggis og kvíða.

Á meðan ung­menni um allan heim vaka um nætur af kvíða yfir fram­tíð­inni, þá er spurn­ing hvort við tímum að breyta ein­hverju. Það er spurn­ing hvort við séum til­búin að læra eitt­hvað nýtt. Eða viljum við bara kom­ast í sama far­ið? Til að allt geti haldið áfram að vera eins og það var, þarf allt að breyt­ast. Kannski ef við, kyn­slóð full­orð­inna, lærum að hlusta og tökum alvar­lega ákall barna og ung­menna um að þau fái að eiga sér fram­tíð, þá kannski munum við tíma að breyta því hvernig við lif­um. Ætlum við að lifa fyrir fram­tíð­ina? Ætlum við að taka alvar­lega að það eru börn í þessum heimi? Eða ætlum við bara að leggja traust okkar á auka­skammt af bólu­efni á meðan við rorrum um í eigin stund­legu vel­meg­un, drögum niður í gagn­rýn­is­týrunni uns myrkur fávisk­unnar leggst svo þétt yfir sjá­öldrin að við getum með sanni sagt: „Ég sé svo sem engar ógn­ir?“

Geim­skipið jörð

Árið 1966, fyrir meira en hálfri öld, skrif­aði hag­fræð­ing­ur­inn, frið­ar­sinn­inn, skóla­­mað­ur­inn og heim­spek­ing­­ur­inn Kenn­eth Ewart Bould­ing grein sem hann kall­aði „Hag­fræði fyrir geim­skipið Jörð“ (The economics of the com­ing spaces­hip Eart­h). Í þess­ari grein gerir Bould­ing grein­ar­mun á tvenns konar kerf­um, opnum og lok­uð­um. Í opnu kerfi streyma hlutir og orka óhindrað inn í kerfið frá óskil­greindum ytri veru­leika, og svo er líka eitt­hvert ytra svæði sem tekur enda­laust við úrgangi frá kerf­inu. Við eigum orða­til­tækið „lengi tekur hafið við“ sem nær þess­ari hugsun ágæt­lega. Í lok­uðu kerfi er ekk­ert slíkt inn­tak eða úttak, eða öllu held­ur, í hvert sinn sem ein­hverju er hent út úr slíku kerfi, þá kemur það til baka eins og þegar maður pissar upp í vind­inn. Svo segir hann:

Hin lok­aða jörð fram­tíð­ar­innar krefst hag­fræði­legra lög­mála sem eru ólík þeim sem giltu um hina opnu jörð for­tíð­ar­inn­ar. Til að orða þetta á mynd­rænan hátt freist­ast ég til að kalla hag­kerfi for­tíð­ar­innar „hag­kerfi kúrek­ans“, þar sem kúrek­inn er tákn fyrir hinar óend­an­legu sléttur auk þess sem hann teng­ist ábyrgð­ar­leysi, arðráni, róm­an­tík og ofbeld­is­fullri hegð­un, sem ein­kennir hið opna þjóð­fé­lag (bls. 7).

Ef okkur finnst mynd­lík­ingin um kúreka ekki eiga við hér á Íslandi, þá getum við skipt honum út fyrir land­nem­ann, svarta vík­ing­inn, sem sigldi með lið sitt yfir úthafið í leit að rost­ungum og stór­sel­um, af því að slíkum skepnum hafði þá þegar verið útrýmt í heima­land­inu og á nær­liggj­andi veiði­lend­um. Og þegar rost­ungnum hafði verið útrýmt svo ger­sam­lega við strendur Íslands að ekki eimdi eftir af honum annað en nokkur örnefni, þá var bara haldið lengra, lengra, lengra. En svo tók þetta „lengra“ enda, það var komið að endi­mörkum og þá beið ekk­ert nema hrunið (sbr. bók Berg­sveins Birg­is­son­ar, Leitin að svarta vík­ingn­um).

And­stætt hinu opna hag­kerfi kúrek­ans stillir Bould­ing upp hug­mynd­inni um lokað hag­kerfi geim­skips­ins. Sam­kvæmt þess­ari hug­mynd er litið á jörð­ina sem geim­skip og þar eru auð­lind­irnar ekki óend­an­leg­ar, hvorki sem upp­sprettur gæða né sem óend­an­leg hland­for sem alltaf getur tekið við meiri úrgangi. Í slíku hag­kerfi „verður mann­kyn að finna sér stað í hringrás­ar­kerfi sem er fært um sífellda end­ur­sköpun efn­is, þótt það kom­ist ekki hjá því að fá orku inn í kerf­ið“ (bls. 8). Bould­ing segir síðan að mun­ur­inn á þessum tvenns konar hag­kerfum verði mest áber­andi í við­horf­inu til neyslu. Í hag­kerfi kúrek­ans er litið á neyslu og fram­leiðslu sem eitt­hvað gott og árangur hag­­kerf­is­ins er mældur í magni fram­leiðsl­unn­ar. Spurn­ingin sem brennur á vörum for­kólfa sam­­fé­lags­­ins, hvort heldur stjórn­mála­manna, atvinnu­rek­enda eða frum­kvöðla er: Hvernig getum við fram­leitt meira?

Í hag­kerfi geim­skips­ins er árangur ekki mældur í fram­leiðslu­magni. Þvert á móti er fram­leiðsla eitt­hvað sem ætti að reyna að lág­marka. Spurn­ingin verð­ur: Hvernig getum við fram­leitt minna? Í stað­inn fyrir að kapp­kosta að auka magn fram­leiðsl­unnar er það eðli, umfang, og marg­breyti­leiki gæð­anna í kerf­inu sem skiptir máli (bls. 8).

Bould­ing segir sumsé að jörðin sé ekki óend­an­lega stór, heldur í raun frekar lít­il, og að mann­­fólkið verði að hugsa um líf sitt í sam­ræmi við það. Þetta var bylt­ing­ar­kennd hugs­un, en eins og títt er um slíka hugsun var hún fjarri því ný. Við finnum hana t.d. hjá Forn-Grikkjum sem litu svo á að mark­mið vís­ind­anna væri að læra að þekkja eigin mörk, ekki að þenja sig án tak­mark­ana yfir tak­mark­aðan heim. Og við sjáum þetta líka hóf­semd­ar­boð­skap Háva­mála (21):

Hjarðir þat vitu,

nær þær heim skulu,

ok ganga þá af grasi;

en ósvinnur maður

kann ævagi

síns of mál maga.

Er ekki miklu nær að fólk læri að miða lang­anir sínar við tak­mark­aða jörð, heldur en að þessi tak­mark­aða jörð sé sífellt pínd til að upp­fylla ótak­mark­aðar lang­anir fólks.

Jörðin er ekki óend­an­lega stór og við verðum að temja okkur hóf­semd í umgengni við hana. Það hefur tekið okk­ur, þessi full­orðnu sem höfum komið okkur hvað hag­an­leg­ast fyrir við kjöt­katl­ana, meira en hálfa öld að skilja þennan boð­­skap sem er í raun barns­lega ein­fald­ur. Eða öllu held­ur, í hálfa öld höfum við komið okkur hjá því að skilja þetta.

Nesti fyrir ferða­lag

Jörðin er bara lít­ill hnöttur á reiki í kringum sól­­ina. En hversu stór er hún eig­in­lega? Hvaða mæli­kvarða ættum við að nota? Við getum vissu­lega notað metra­kerfið og sagt að ummál hennar um mið­baug sé um 40.000 km, tala sem er svo stór að hún segir flestu fólki eig­in­­lega ekki neitt. Og þar fyrir utan er þessi stærð kannski ekki það sem mestu máli skipt­ir. Þegar spurt er hversu stór ein­hver íbúð er, þá skiptir meira máli hvað henni er ætlað að hýsa marga heldur en ein­ber fjöldi fer­­metr­anna. Þannig er það líka með jörð­ina. Okkur varðar meira um hversu vel jörðin dugir, hversu gjöful hún er miðað við hvers við ætl­umst til af henni, heldur en hvað ummálið um mið­baug er margir kíló­metr­ar.

Líf okkar á jörð­inni er ferða­lag þar sem einn hópur ferða­langa tekur við af öðrum – nýjar kyn­slóð­ir koma í fót­spor þeirra sem gengnar eru. En hversu vel dugir jörðin til að nesta okkur fyrir þetta ferða­lag? Leggur hún okkur til nestis um ókomna tíð? Er neysla okkar innan þeirra marka sem jörðin getur end­ur­skapað á hverju ári? Eða fer neyslan fram úr því sem jörðin getur skapað á hverju ári þannig að á end­anum mun ein­hver kyn­slóðin sitja uppi nest­is­laus?

Ef við notum þennan mæli­kvarða til að meta stærð jarð­ar­innar og mið­um við raun­veru­lega neyslu mann­kyns, þá kemur í ljós að jörðin er ekki ein­ung­is lít­il, heldur pínu­lít­il. Eins og Greta benti á þá tæmdum við – núver­andi jarð­ar­búar – nest­is­­boxið þann 29. júlí. Þessi dag­setn­ing, sem fær­ist til frá ári til árs kall­ast „earth overs­hoot day“ á ensku. Ég kalla hana „þurrð­ar­dag jarð­ar“. Þetta er dag­ur­inn þegar árleg fram­leiðsla jarð­ar­innar gengur til þurrðar – þegar við höfum étið upp það sem þyrfti að end­ast út árið. Þegar kemur fram yfir þennan dag, þá byrjum við sem nú lifum að aféta kom­andi kyn­slóð­ir. Á und­an­­­förnum 50 árum hefur mann­kyn farið frá því að lifa innan marka jarð­ar­­innar til þess að þurfa tvær jarðir fyrir neyslu sína – frá því að tæma nest­is­boxið á gamlárs­kvöld yfir í að tæma það í lok júlí.

Mynd: Aðsend

Á Íslandi teljum við okkur standa frekar vel í umhverf­is­mál­um. Við segjum að á Íslandi sé orkan sem við notum græn: Heitt vatn streymir upp úr jörð­inni og raf­magn fram­leitt með gufu eða fall­vatni. Hin Norð­ur­löndin telja sig líka í far­ar­broddi í umhverf­is­mál­um. En hvernig er staðan í raun? Finnar byrja að aféta kom­andi kyn­slóðir í byrjun apr­íl. Árið er ekki hálfn­að, reyndar er ein­ungis fjórð­ungur árs­ins lið­inn. Vænt­an­­lega mundu fáir telja þetta öfunds­verða stöðu. Og þó eru Finnar ekki fyrstir á Norð­ur­lönd­unum til að byrja að aféta kom­andi kyn­slóð­ir. Svíar byrja á því nokkrum dögum fyrr og Danir í lok mars. Norð­­menn standa sig skást, byrja að aféta kom­andi kyn­­slóðir 12. apr­íl. Það eru ekki til opin­berar tölur fyrir Ísland, en þegar ég spurði sér­fræð­inga á Veð­ur­stof­unni út í málið urðu þeir hugsi en sögðu svo: „Ætli þurrð­ar­dag­ur­inn fyrir Ísland sé ekki ein­hvern tím­ann í febr­úar eða byrjun mar­s.“

Mynd: Aðsend

Ég reikn­aði út minn eigin þurrð­ar­dag og komst að því að um það bil sem skól­arnir hefj­ast á haustin byrja ég að aféta börnin mín. Ég hef reynt að vera góður faðir og spar á gæði jarð­ar­inn­ar, en hvers­konar faðir er það sem afétur börnin sín?

Fram­tíðin

Þegar kófið lagð­ist yfir vorið 2020 hægð­ist á hag­kerfum heims­ins, fjölda verk­smiðja var lokað og fréttir bár­ust af því að í Kína, þar sem veiran skaut fyrst upp koll­in­um, hefði mengun snar­lega minnk­að. Frá Punja­b-hér­aði á Ind­landi sá fólk Hima­læj­a-­fjöllin aftur eftir að þau höfðu verið falin í meng­un­ar­mistri í 30 ár.

Fólk spyr: Hvenær verður lífið aftur venju­legt? En vand­inn er að til að við getum aftur lifað venju­legu lífi sem líka er gott, þarf allt að breyt­ast. Kófið hefur kennt okkur að hnatt­ræn truflun getur skapað breyt­ing­ar, kennt okkur að það er hægt að lýsa yfir neyð­ar­á­standi og gjör­breyta dag­legum lifn­að­ar­hátt­um. Þegar spurt er: Hvenær verður lífið aftur venju­legt? þá spyr ég á móti: Hvernig getum við skapað nýtt „venju­legt“ sem sam­rým­ist því að jörðin er lítil og að gæði jarð­ar­innar eru tak­mörk­uð? Hvernig getum við lært að miða þarfir okkar og lang­anir við tak­mark­aða jörð, frekar en að pína þessa litlu jörð til að upp­fylla óend­an­legar þarfir okk­ar?

Hefur kófið kennt okkur að lifa vel sem mann­eskjur innan þeirra marka sem jörðin setur okk­ur? Því miður sé ég engin merki um það.

Höf­undur er pró­fessor í heim­speki við Mennta­vís­inda­svið Háskóla Íslands.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar