Hvaða breytingar ætli verði á framferði og viðhorfum fólks í framhaldi af COVID-19 faraldrinum? Ég hef velt þessari spurningu fyrir mér, án þess að komast að nokkurri niðurstöðu, enda kannski ekki við því að búast að heimspekingur hafi svar við svona spurningu. En þó vil ég benda á nokkur atriði, öll fremur augljós, sem ég held að við ættum að hafa í huga þegar við spáum í þessa hluti. Hið fyrsta er þetta:
Það verða engar breytingar nema við lærum eitthvað nýtt.
En svo vaknar vitaskuld önnur spurning, af öðrum toga, og hún er þessi:
Þurfum við að læra eitthvað nýtt?
Þótt fólki sé tíðrætt um margvíslegan lærdóm sem draga megi af kófinu, er ekki síður algengt að fólk segi eitthvað á þessa leið: „Við verðum að komst í gegnum þetta,“ eins og kófið sé tímabundið ástand (samt kannski lengra en upphaflega var gert ráð fyrir) og að endingu muni hlutirnir komast aftur í sama farið.
Þegar fólk segir, kannski með vonarblæ í röddinni, að við munum komast í gegnum kófið og aftur til fyrra lífs, er gert ráð fyrir að áður en faraldurinn braust út hafi þetta líf verið í þokkalegu lagi. Auðvitað hafi tilveran ekki verið fullkomin, en svona nokkuð þægileg. En það er þetta sama far – lífið sem við lifðum fyrir kófið – sem er hættan. Í þessu hvimleiða ástandi grímuskyldu, fjarlægðarreglna, fjöldatakmarkana og sóttkvía, vill gleymast að við stöndum frammi fyrir ógn sem er margfalt skæðari en veirufaraldurinn og sem engin bóluefni vinna á. Hér á ég við loftslagsbreytingarnar sem þegar eru farnar að hafa gríðarleg áhrif.
Unga fólkið og kvíðinn
Þann 29. júlí síðastliðinn skrifaði Greta Thunberg stutta færslu inn á Facebook-síðuna sína: „Í dag er þurrðar dagur jarðar, #WorldOvershootDay – dagurinn þegar auðlindir jarðar fyrir árið 2021 gengu til þurrðar.“ Nú eru rétt um þrjú ár síðan Greta tók upp á því að skrópa í skólanum á föstudögum, mótmæla fyrir framan þinghúsið í Stokkhólmi og segjast vera í loftslagsverkfalli af því að það væri ekki til neins að fara í skóla og mennta sig fyrir framtíðina ef engin væri. Það var kannski fyrst þá – og reyndar ekki þá heldur eftir að hún var búin að sitja þarna ein nokkra föstudaga í röð – sem hún fékk fólk til að horfast í augu við þá staðreynd að framtíð heillar kynslóðar er smátt og smátt að verða að ösku. Á sinn hægláta en beinskeytta máta mótmælti Greta stjórnmálum hugleysis, sérgæsku og blekkinga. Þegar hún útskýrir hvers vegna hún hafi tekið upp á þessu segir hún m.a.:
Mig langar að finna til öryggis.
Þegar ég labba heim á kvöldin.
Þegar ég sit í neðanjarðarlestinni.
Þegar ég sef á nóttunni.
En ég finn ekki til öryggis.
Hvernig get ég fundið til öryggis þegar ég veit að við stöndum frammi fyrir mestu ógn í sögu mannkyns? Þegar ég veit að ef ég bregst ekki við núna, þá verður það bráðum of seint?
Yfirleitt tengjum við líf í óöryggi við náttúruhamfarir eða stríð. Og núna, eftir að veirufaraldurinn braust út vitum við að óöryggi getur líka læðst að okkur á hljóðlátan máta í formi ósýnilegs váboða. Stokkhólmur er friðsæl borg og fjarri öllum náttúruhamförum. En stríðin eru af ýmsu tagi og náttúruhamfarir líka. Segja má að núverandi kynslóðir hafi sagt þeim komandi stríð á hendur. Hægt og bítandi er verið að éta börn og ungmenni út á gaddinn. Fólkið sem á að erfa landið erfir kannski ekki annað en slitur af landi. Og reyndar gerist þetta ekki svo hægt heldur æ skjótar. Náttúruhamfarirnar eru heldur ekki eitthvað sem ef til vill mun verða að veruleika, þær eru ekki lengur framtíðarspá. Fyrir nokkrum árum hefði fáum dottið í hug að nær allur suð-austur hluti Ástralíu gæti orðið eitt samfellt hamfarasvæði vegna skógarelda svo mánuðum skipti. Ef fram fer sem horfir verða nær öll strandsvæði heims hamfarasvæði vegna hækkandi sjávarstöðu. Mörg strandsvæði eru nú þegar hamfarasvæði. Er nema von að mörg börn, ekki bara Greta Thunberg, finni til óöryggis og kvíða.
Á meðan ungmenni um allan heim vaka um nætur af kvíða yfir framtíðinni, þá er spurning hvort við tímum að breyta einhverju. Það er spurning hvort við séum tilbúin að læra eitthvað nýtt. Eða viljum við bara komast í sama farið? Til að allt geti haldið áfram að vera eins og það var, þarf allt að breytast. Kannski ef við, kynslóð fullorðinna, lærum að hlusta og tökum alvarlega ákall barna og ungmenna um að þau fái að eiga sér framtíð, þá kannski munum við tíma að breyta því hvernig við lifum. Ætlum við að lifa fyrir framtíðina? Ætlum við að taka alvarlega að það eru börn í þessum heimi? Eða ætlum við bara að leggja traust okkar á aukaskammt af bóluefni á meðan við rorrum um í eigin stundlegu velmegun, drögum niður í gagnrýnistýrunni uns myrkur fáviskunnar leggst svo þétt yfir sjáöldrin að við getum með sanni sagt: „Ég sé svo sem engar ógnir?“
Geimskipið jörð
Árið 1966, fyrir meira en hálfri öld, skrifaði hagfræðingurinn, friðarsinninn, skólamaðurinn og heimspekingurinn Kenneth Ewart Boulding grein sem hann kallaði „Hagfræði fyrir geimskipið Jörð“ (The economics of the coming spaceship Earth). Í þessari grein gerir Boulding greinarmun á tvenns konar kerfum, opnum og lokuðum. Í opnu kerfi streyma hlutir og orka óhindrað inn í kerfið frá óskilgreindum ytri veruleika, og svo er líka eitthvert ytra svæði sem tekur endalaust við úrgangi frá kerfinu. Við eigum orðatiltækið „lengi tekur hafið við“ sem nær þessari hugsun ágætlega. Í lokuðu kerfi er ekkert slíkt inntak eða úttak, eða öllu heldur, í hvert sinn sem einhverju er hent út úr slíku kerfi, þá kemur það til baka eins og þegar maður pissar upp í vindinn. Svo segir hann:
Hin lokaða jörð framtíðarinnar krefst hagfræðilegra lögmála sem eru ólík þeim sem giltu um hina opnu jörð fortíðarinnar. Til að orða þetta á myndrænan hátt freistast ég til að kalla hagkerfi fortíðarinnar „hagkerfi kúrekans“, þar sem kúrekinn er tákn fyrir hinar óendanlegu sléttur auk þess sem hann tengist ábyrgðarleysi, arðráni, rómantík og ofbeldisfullri hegðun, sem einkennir hið opna þjóðfélag (bls. 7).
Ef okkur finnst myndlíkingin um kúreka ekki eiga við hér á Íslandi, þá getum við skipt honum út fyrir landnemann, svarta víkinginn, sem sigldi með lið sitt yfir úthafið í leit að rostungum og stórselum, af því að slíkum skepnum hafði þá þegar verið útrýmt í heimalandinu og á nærliggjandi veiðilendum. Og þegar rostungnum hafði verið útrýmt svo gersamlega við strendur Íslands að ekki eimdi eftir af honum annað en nokkur örnefni, þá var bara haldið lengra, lengra, lengra. En svo tók þetta „lengra“ enda, það var komið að endimörkum og þá beið ekkert nema hrunið (sbr. bók Bergsveins Birgissonar, Leitin að svarta víkingnum).
Andstætt hinu opna hagkerfi kúrekans stillir Boulding upp hugmyndinni um lokað hagkerfi geimskipsins. Samkvæmt þessari hugmynd er litið á jörðina sem geimskip og þar eru auðlindirnar ekki óendanlegar, hvorki sem uppsprettur gæða né sem óendanleg hlandfor sem alltaf getur tekið við meiri úrgangi. Í slíku hagkerfi „verður mannkyn að finna sér stað í hringrásarkerfi sem er fært um sífellda endursköpun efnis, þótt það komist ekki hjá því að fá orku inn í kerfið“ (bls. 8). Boulding segir síðan að munurinn á þessum tvenns konar hagkerfum verði mest áberandi í viðhorfinu til neyslu. Í hagkerfi kúrekans er litið á neyslu og framleiðslu sem eitthvað gott og árangur hagkerfisins er mældur í magni framleiðslunnar. Spurningin sem brennur á vörum forkólfa samfélagsins, hvort heldur stjórnmálamanna, atvinnurekenda eða frumkvöðla er: Hvernig getum við framleitt meira?
Í hagkerfi geimskipsins er árangur ekki mældur í framleiðslumagni. Þvert á móti er framleiðsla eitthvað sem ætti að reyna að lágmarka. Spurningin verður: Hvernig getum við framleitt minna? Í staðinn fyrir að kappkosta að auka magn framleiðslunnar er það eðli, umfang, og margbreytileiki gæðanna í kerfinu sem skiptir máli (bls. 8).
Boulding segir sumsé að jörðin sé ekki óendanlega stór, heldur í raun frekar lítil, og að mannfólkið verði að hugsa um líf sitt í samræmi við það. Þetta var byltingarkennd hugsun, en eins og títt er um slíka hugsun var hún fjarri því ný. Við finnum hana t.d. hjá Forn-Grikkjum sem litu svo á að markmið vísindanna væri að læra að þekkja eigin mörk, ekki að þenja sig án takmarkana yfir takmarkaðan heim. Og við sjáum þetta líka hófsemdarboðskap Hávamála (21):
Hjarðir þat vitu,
nær þær heim skulu,
ok ganga þá af grasi;
en ósvinnur maður
kann ævagi
síns of mál maga.
Er ekki miklu nær að fólk læri að miða langanir sínar við takmarkaða jörð, heldur en að þessi takmarkaða jörð sé sífellt pínd til að uppfylla ótakmarkaðar langanir fólks.
Jörðin er ekki óendanlega stór og við verðum að temja okkur hófsemd í umgengni við hana. Það hefur tekið okkur, þessi fullorðnu sem höfum komið okkur hvað haganlegast fyrir við kjötkatlana, meira en hálfa öld að skilja þennan boðskap sem er í raun barnslega einfaldur. Eða öllu heldur, í hálfa öld höfum við komið okkur hjá því að skilja þetta.
Nesti fyrir ferðalag
Jörðin er bara lítill hnöttur á reiki í kringum sólina. En hversu stór er hún eiginlega? Hvaða mælikvarða ættum við að nota? Við getum vissulega notað metrakerfið og sagt að ummál hennar um miðbaug sé um 40.000 km, tala sem er svo stór að hún segir flestu fólki eiginlega ekki neitt. Og þar fyrir utan er þessi stærð kannski ekki það sem mestu máli skiptir. Þegar spurt er hversu stór einhver íbúð er, þá skiptir meira máli hvað henni er ætlað að hýsa marga heldur en einber fjöldi fermetranna. Þannig er það líka með jörðina. Okkur varðar meira um hversu vel jörðin dugir, hversu gjöful hún er miðað við hvers við ætlumst til af henni, heldur en hvað ummálið um miðbaug er margir kílómetrar.
Líf okkar á jörðinni er ferðalag þar sem einn hópur ferðalanga tekur við af öðrum – nýjar kynslóðir koma í fótspor þeirra sem gengnar eru. En hversu vel dugir jörðin til að nesta okkur fyrir þetta ferðalag? Leggur hún okkur til nestis um ókomna tíð? Er neysla okkar innan þeirra marka sem jörðin getur endurskapað á hverju ári? Eða fer neyslan fram úr því sem jörðin getur skapað á hverju ári þannig að á endanum mun einhver kynslóðin sitja uppi nestislaus?
Ef við notum þennan mælikvarða til að meta stærð jarðarinnar og miðum við raunverulega neyslu mannkyns, þá kemur í ljós að jörðin er ekki einungis lítil, heldur pínulítil. Eins og Greta benti á þá tæmdum við – núverandi jarðarbúar – nestisboxið þann 29. júlí. Þessi dagsetning, sem færist til frá ári til árs kallast „earth overshoot day“ á ensku. Ég kalla hana „þurrðardag jarðar“. Þetta er dagurinn þegar árleg framleiðsla jarðarinnar gengur til þurrðar – þegar við höfum étið upp það sem þyrfti að endast út árið. Þegar kemur fram yfir þennan dag, þá byrjum við sem nú lifum að aféta komandi kynslóðir. Á undanförnum 50 árum hefur mannkyn farið frá því að lifa innan marka jarðarinnar til þess að þurfa tvær jarðir fyrir neyslu sína – frá því að tæma nestisboxið á gamlárskvöld yfir í að tæma það í lok júlí.
Á Íslandi teljum við okkur standa frekar vel í umhverfismálum. Við segjum að á Íslandi sé orkan sem við notum græn: Heitt vatn streymir upp úr jörðinni og rafmagn framleitt með gufu eða fallvatni. Hin Norðurlöndin telja sig líka í fararbroddi í umhverfismálum. En hvernig er staðan í raun? Finnar byrja að aféta komandi kynslóðir í byrjun apríl. Árið er ekki hálfnað, reyndar er einungis fjórðungur ársins liðinn. Væntanlega mundu fáir telja þetta öfundsverða stöðu. Og þó eru Finnar ekki fyrstir á Norðurlöndunum til að byrja að aféta komandi kynslóðir. Svíar byrja á því nokkrum dögum fyrr og Danir í lok mars. Norðmenn standa sig skást, byrja að aféta komandi kynslóðir 12. apríl. Það eru ekki til opinberar tölur fyrir Ísland, en þegar ég spurði sérfræðinga á Veðurstofunni út í málið urðu þeir hugsi en sögðu svo: „Ætli þurrðardagurinn fyrir Ísland sé ekki einhvern tímann í febrúar eða byrjun mars.“
Ég reiknaði út minn eigin þurrðardag og komst að því að um það bil sem skólarnir hefjast á haustin byrja ég að aféta börnin mín. Ég hef reynt að vera góður faðir og spar á gæði jarðarinnar, en hverskonar faðir er það sem afétur börnin sín?
Framtíðin
Þegar kófið lagðist yfir vorið 2020 hægðist á hagkerfum heimsins, fjölda verksmiðja var lokað og fréttir bárust af því að í Kína, þar sem veiran skaut fyrst upp kollinum, hefði mengun snarlega minnkað. Frá Punjab-héraði á Indlandi sá fólk Himalæja-fjöllin aftur eftir að þau höfðu verið falin í mengunarmistri í 30 ár.
Fólk spyr: Hvenær verður lífið aftur venjulegt? En vandinn er að til að við getum aftur lifað venjulegu lífi sem líka er gott, þarf allt að breytast. Kófið hefur kennt okkur að hnattræn truflun getur skapað breytingar, kennt okkur að það er hægt að lýsa yfir neyðarástandi og gjörbreyta daglegum lifnaðarháttum. Þegar spurt er: Hvenær verður lífið aftur venjulegt? þá spyr ég á móti: Hvernig getum við skapað nýtt „venjulegt“ sem samrýmist því að jörðin er lítil og að gæði jarðarinnar eru takmörkuð? Hvernig getum við lært að miða þarfir okkar og langanir við takmarkaða jörð, frekar en að pína þessa litlu jörð til að uppfylla óendanlegar þarfir okkar?
Hefur kófið kennt okkur að lifa vel sem manneskjur innan þeirra marka sem jörðin setur okkur? Því miður sé ég engin merki um það.
Höfundur er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.