Stjórnvöld hafa stundum sætt gagnrýni á undanförnum árum fyrir það hvernig þau kjósa að setja fram upplýsingar um samsetningu bílaflotans á Íslandi til almennings. Í grein sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ritaði í Fréttablaðið í fyrra um árangur stjórnvalda í orkuskiptunum sagði að „nýorkubílar“ hefðu verið 45 prósent allra bíla sem skráðir voru á götuna á Íslandi árið 2020.
Náttúruverndarsamtök Ísland fundu að þessari orðnotkun ráðherra og bentu á að stór hluti þeirra bíla sem falla í flokk „nýorkubíla“ eru tengiltvinnbílar, sem brenna jarðefnaeldsneyti. „Nýorkubílarnir“ ganga því ekki bara fyrir nýorku – rafmagninu – nema að hluta og stundum afar litlum hluta, ef eigendur bílanna nýta ekki rafhleðslumöguleika þeirra.
„Hið rétta er að 76% nýseldra bíla ganga fyrir mengandi eldsneyti, þar af 28% að hluta,“ sagði í ályktun Náttúruverndarsamtakanna síðasta sumar.
Ekki er að sjá að stjórnmálamenn hafi tekið þessa gagnrýni úr ranni Náttúruverndarsamtaka Íslands á framsetningu forsætisráðherra eða aðra sambærilega mikið til sín. Hið þveröfuga virðist fremur raunin, en á síðustu dögum hafa tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar rætt um rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla sem „umhverfisvæna“.
Í síðustu viku var birt á vef Alþingis skriflegt svar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar þingmanns Samfylkingarinnar, en fyrirspurnin laut að því hvað stjórnvöld ætluðu að gera til þess að fækka bílum á Íslandi. Þar er farið yfir aðgerðir stjórnvalda til að breyta ferðavenjum og fækka bílum sem brenna jarðefnaeldsneyti eftir að sala þeirra verður bönnuð, eins og stefnt er að árið 2030.
Í svarinu voru „nýorkubílar“ skyndilega orðnir annað og meira en bara bílar sem keyra á raforku að einhverju leyti. Þeir voru orðnir hvorki meira né minna en „umhverfisvænir fólksbílar“ í textanum sem ráðuneyti umhverfismála lét frá sér í nafni ráðherra málaflokksins.
„Um nokkurt skeið hefur hlutdeild umhverfisvænna fólksbíla verið yfir 50%, en á árinu 2021 fór hlutfallið í 58%. Þegar litið er til fyrstu tveggja mánaða þessa árs má sjá að hlutfallið hefur enn aukist og er rúm 70%. Þar af er hlutdeild rafmagnsbíla um 40% og tengiltvinnbíla um 30%,“ sagði í skriflegu svari ráðherrans, sem mætti svo í fjölmiðlaviðtöl í vikunni og talaði þar um „vistvæna“ bíla.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra féll ofan í sömu gryfju og ráðherra umhverfismála er hann kynnti fjárlagafrumvarpið í upphafi vikunnar. Einna veigamestu breytingarnar í tekjusókn ríkisins á milli ára lúta að því að ná í fleiri krónur í vasa þeirra sem aka um án þess að kaupa bensín og talaði Bjarni í því samhengi um að fólk þyrfti að búa sig undir aukna gjaldtöku á „umhverfisvænum bílum“ og átti þar við rafbíla.
Allir bílar eru slæmir fyrir umhverfið
Notkun tungumálsins skiptir máli, ekki síst í skilaboðum sem stjórnmálamenn bera á borð til almennings. Það er því þarft að minna á að það eru ekki til neinir umhverfisvænir bílar. Bílar eru skaðlegir fyrir umhverfið, óháð orkugjafa, vegna þeirra umhverfisáhrifa sem verða til við framleiðslu þeirra, notkun og förgun.
Það eru þó vissulega til bílar sem hafa minni umhverfisáhrif en aðrir og losa ekki sjálfir gróðurhúsalofttegundir með beinum hætti. En þar með er bara hálf sagan sögð. Rakel Guðmundsdóttir ritaði fréttaskýringu í Kjarnann síðasta sumar sem byggði á meistararitgerð hennar í umhverfisstjórnmálum, þar sem hún rakti vandamálin við það að treysta á rafbíla sem lausn loftslagsvandans.
„Bílar, sama hvaða orku þeir ganga fyrir, hafa slæm áhrif á umhverfi, land, loftslag og heilsu fólks. Bílar treysta á kolefnisfreka innviði svo sem vegi, bílastæði og mannvirki, svo ekki sé talað um framleiðsluna á bílunum sjálfum. Þrátt fyrir að engin bein losun stafi af rafbílum, þá ýta þeir undir losun og umhverfisáhrif annars staðar í samfélaginu. Rafbílar eru vissulega mikilvægir en hættan er sú að stjórnvöld líti framhjá ávinningnum sem á sér stað við breytingar á ferðavenjum og neysluhegðun,“ skrifaði Rakel.
Hún benti einnig á að fjöldi rannsókna hefði sýnt að til að draga jafn stórlega úr losun og nauðsynlegt væri þyrftu ákveðnar kerfisbreytingar að eiga sér stað. Draga þyrfti úr bæði bílaeign- og notkun, þétta byggð, minnka ferðaþörf, breyta viðhorfi til einkabílsins og ríkjandi bílamenningar, auk þess sem almenningssamgöngur og virkir ferðamátar þyrftu að verða megin ferðamáti fólks.
„Þessar breytingar þurfa að eiga sér stað samhliða nauðsynlegum orkuskiptum í samgöngum. Takmörkuð áhersla virðist vera lögð á þessa þætti í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum,“ skrifaði Rakel.
Hænuskref tekin í að breyta ferðavenjum
Þetta má til sanns vegar færa. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt ofuráherslu og hátt í 30 milljarða króna í það að niðurgreiða kaup á nýjum rafbílum og tengiltvinnbílum með skattaafsláttum á meðan að takmarkaður þungi hefur til þessa verið settur í aðgerðir til þess að breyta ferðavenjum.
Ísland er fámennt og strjálbýlt land. Í slíku landi verður einkabíllinn álitlegur kostur þegar kemur að samgöngum og því vissulega til bóta að þeir bílar sem óhjákvæmilega þurfa að vera til staðar séu rafdrifnir fremur en olíudrifnir. Vegasamgöngur voru jú 31 prósent allrar losunar á beina ábyrgð Íslands í fyrra.
En hversu margir þurfa bílarnir sem aka um göturnar á degi hverjum að vera? Tækifærin til þess að fækka þeim, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, eru æpandi. Um 65 prósent landsmanna búa á sama borgarsvæðinu og það ætti að vera hægt að svala daglegri ferðaþörf miklu stærri hluta fólksins í borginni, til og frá skólum og vinnu, með öðrum hætti en að yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa aki flestra sinna ferða.
Þegar kemur að raunverulegum aðgerðum til að breyta ferðavenjum fólks og bjóða upp á aðra valkosti en einkabílinn tala stjórnvöld miklu meira en þau framkvæma. Langstærsta einstaka aðgerðin sem á möguleika á því að breyta ferðavenjum stórra hópa landsmanna er lagning Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu.
Nýlega bárust fyrirsjáanlegar fregnir af því að tímalína þess verkefnis hefði verið færð lengra fram í tímann, en það virðist ekki valda ráðherrum ríkisstjórnarinnar teljandi áhyggjum, eða kalla á frekari fjárframlög svo hægt sé að auka núverandi þjónustu Strætó á höfuðborgarsvæðinu þar til sérrými undir Borgarlínu verður tilbúið.
Bílarnir sem hrannast inn á göturnar með ríflegum ívilnunum ríkisins eru jú, „umhverfisvænir“.