Nú þegar líður að árslokum stöndum við á stórum tímamótum. Og ég er ekki bara að tala um áramótin. Við, ásamt öllum hinum vestrænu löndunum, höfum nefnilega verið að berjast gegn offitugrýlunni undanfarna áratugi en okkur hefur ekkert orðið ágengt. Þyngd okkar er enn að aukast. Lífsstílssjúkdómar eru sístækkandi ógn við heilsufar okkar og þjóðarbú. Hvað gerum við þá?
Við gætum gert það sem við höfum alltaf gert. Tekið enn dýpra í árinni, fordæmt offitu enn harðar og reynt að setja meira fjármagn í aðgerðir sem miða að þyngdartapi og þar með að hreinsa okkur af þessum syndsamlega lesti sem á að leiða okkur til glötunar á endanum. Við gætum hins vegar nýtt tækifærið og staldrað við. Skoðað hvaða aðgerðir hafa verið teknar í baráttunni gegn offitu hingað til og hverju þær hafa skilað okkur. Vegið og metið kosti og galla við að halda áfram að starfa samkvæmt þyngdarmiðaðri nálgun, þar sem kílóafjöldi er upphaf og endir alls. Kannað hvaða aðrar leiðir séu færar að bættri lýðheilsu og velferð. Þegar við prófum að horfa í gegnum eitthvað annað en sama gamla rörið sem við höfum haft fyrir sjónum okkar alla okkar ævi, sem við ólumst upp við, þá blasir skyndilega við allt annar heimur.
En hvað myndum við sjá?
Nýr heimur
Við myndum fyrst sjá að ekki hefur verið allt sem sýnist með tilliti til þess hvernig við túlkum tengsl þyngdar og heilsufars. Hingað til höfum við gert þá ályktun að þyngdin leiði beint til og orsaki þannig verra heilsufar. Það sem blasir við okkur nú er eitthvað allt annað. Við sjáum að orsakasamband þarna á milli er afar veikt ef það er þá fyrir hendi. Þess í stað áttum við okkur á því að á bak við aukna áhættu á háum blóðþrýstingi, sykursýki 2, hjarta-og kransæðasjúkdómum og fleiri kvillum sem við fylgja hækkandi þyngd eru mestmegnis eftirfarandi þættir (1):
- Erfðafræðileg tilhneiging okkar til fitusöfnunar, fitudreifingar og lífstílssjúkdóma
- Heilsuvenjur (til dæmis svefn/streitustjórnun/mataræði/hreyfing)
- Þyngdartapstilraunir/megranir
- Fitufordómar og mismunun vegna þeirra
- Jaðarsetning feits fólks
- Lakari heilbrigðisþjónusta fyrir feitt fólk vegna fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins
- Forðun á heilbrigðisþjónustu af þeim sökum
Þessari uppgötvun fylgir mikið sjokk. Höfum við þá haft rangt fyrir okkur allan tímann? Er „offita“ í sjálfri sér ekki óvinurinn sem við höfum trúað að hún sé allan þennan tíma? Allt okkar líf? Okkur er verulega brugðið því að þetta eru upplýsingar sem breyta allri okkar heimsmynd (paradigm), sem eru á skjön við allt sem við höfum heyrt, séð og lært um feitt fólk og heilsufar þeirra frá því við slitum hreinlega barnskónum. Innra með okkur brjótast flóknar og erfiðar tilfinningar og hugsanir.
Við viljum ekki trúa þessu, það er jú að mörgu leyti miklu þægilegra að halda sig við það sem við teljum okkar vita án þess að skora á það. Það eru eðlileg varnarviðbrögð hugans sem vill hafa allt eins slétt og fellt í kringum sig og hægt er. Hafa hlutina þægilega. Það er meira að segja ekki óeðlilegt að við finnum til reiði við þessar aðstæður. En þegar við rýnum í gagnreynda þekkingu á bak við þessar nýju upplýsingar þá verður ekki aftur snúið. Við sjáum að við höfum verið á einhverskonar sjálfsstýringu, með þann „sannleik“ að vopni að offita orsaki verra heilsufar, svo að við höfum ekki gripið staðfestingarskekkjuna sem hefur allt okkar líf leitt til þess að við túlkum fylgni þarna á milli sem orsakasamband. Eitthvað sem að við vitum innst inni að eru hvorki vísindaleg né siðferðislega rétt vinnubrögð.
Þetta gerir okkur forvitin. Allt í einu opnast fyrir okkur nýr og óþekktur heimur þar sem við fáum tækifæri til að endurskoða og endurmeta allt sem við töldum okkur vita um þessi tengsl. Sjálfstýringin er farin af. Við höfum nú aðrar forsendur í höndunum fyrir tengslum holdafars og heilsufars og með þær að leiðarljósi ætlum við að skoða hvað þær þýða fyrir núverandi nálgun okkar að offitufaraldrinum ógurlega.
Leiðir þyngdartap til betra heilsufars og langlífis?
Við byrjum á þeirri einföldu ályktun sem hefur verið hvað mest áberandi; ef að offita veldur verra heilsufari þá hlýtur þyngdartap að leiða til betra heilsufars. Þessu höfum við trúað alla okkar ævi, við fáum stöðugt skilaboð frá umhverfinu um að þetta sé sannleikurinn, lykillinn að góðri heilsu og langlífi. Við erum reyndar ekki ein um það. 79% Íslendinga á aldrinum 18-79 ára eru ósáttir við þyngd sína og telja sig þurfa að léttast og 50% okkar eru í megrun (2). Þetta bara hlýtur að vera rétt, þetta hlýtur að vera byggt á vísindalegum rökum! Það er of sárt að hugsa til þess hversu miklir fjármunir, tími og orka hefur farið í hinar ýmsu þyngdartapstilraunir alla okkar ævi til að þetta geti ekki verið satt!
En jú, aftur fer gagnreynd þekking með okkur á þann stað, þvert gegn okkar vilja. Við uppgötvum að allar misheppnuðu megranirnar sem við höfum farið í, hvaða nafni sem þær nú kölluðust, eru ekki okkur eða skorti á viljastyrk að kenna. Líkami okkar er beinlínis hannaður til að „springa á limminu“ og vinnur gegn okkur á lúmskan og markvissan hátt meðan á megruninni stendur. Hann panikkar nefnilega þegar hann upplifir að hann er ekki að fá þá orku sem hann þarfnast til að halda jafnvægi og hann setur því af stað allskonar ómeðvitaðar mótvægisaðgerðir sem við getum kannski barist gegn með viljastyrkinn að vopni í smá tíma. En til lengri tíma eigum við ekki sjéns. Þessi sjálfsbjargarviðleitni líkamans útskýrir tölurnar sem við höfum svo oft heyrt en neitað að trúa að eigi við um okkur; 95-98% þyngdartapstilrauna misheppnast (3, 4, 5, 6). Við náum oft að léttast til að byrja með en svo nær líkaminn í skottið á okkur, sprengir okkur á limminu og við þyngjumst aftur. Stundum höfum við þyngst aftur í upphafsþyngd okkar, stundum höfum við þyngst enn meira og endað þyngri þegar við byrjuðum. Raunar er það svo að þetta á við um allt að 2/3 þeirra sem fara í megrun (7).
Hér er það aftur sjálfsbjargarviðleitni líkamans sem ræður för. Hann komst í gegnum þessa hungursneyð og hann ætlar að brynja sig fyrir komandi hungursneyðum með því að safna á sig enn meiri fituforða. Við áttum okkur á því að þetta setur hækkandi BMI-stuðul þjóðarinnar í allt annað samhengi en við erum vön. Ef að helmingur fullorðinna Íslendinga er að reyna að léttast og allt að 2/3 þeirra enda þyngri fyrir vikið þá er kannski engin furða að við höldum áfram að þyngjast! Þessi niðurstaða okkar leiðir til blendinna tilfinninga. Annarsvegar er okkur létt. Öll sjálfsásökunin og skömmin sem við höfum fundið fyrir þegar okkur misheppnast í enn einu heilsufarsátakinu er á bak og burt. En við erum líka frústreruð og örg yfir að hafa ekki fengið réttar upplýsingar og þar með forsendur til að taka ábyrgð á heilsu okkar.
En við stöldrum aftur við. Allt þetta aðhald hlýtur að leita til betri heilsu, ekki satt? Það eru skilaboðin sem við fáum stöðugt alls staðar frá, meira að segja heilbrigðisstarfsfólki. Nei, aftur leiðir besta þekkingin sem völ er á til gagnstæðrar niðurstöðu. Raunar komumst við að því að þyngdartapstilraunir auka líkur á háþrýstingi, insúlínónæmi, fitulifur, hjarta- og kransæðasjúkdómum, krónískum bólgum í líkamanum, ákveðnum tegundum krabbameina og snemmbærum dauða (3, 8, 9, 10, 11).
Er það ekki einmitt það sem við erum að reyna að forðast með þessum tilraunum til að byrja með? Hér fara hljóð og mynd bara alls ekki saman! Svo virðist sem þessi aðferð sem við förum flest til að grennast og öðlast betri heilsu leiði til hins gagnstæða og sé drífandi kraftur í offitufaraldrinum svokallaða og tengdum heilsufarsvanda. Lausnin á vandanum bæði viðheldur honum og skapar! Hvernig getur þetta staðist? Hvernig getur það verið að við höfum vitað þetta allan tímann en samt haldið áfram á þessari skaðlegu braut? Það verður næsta verkefni fyrir okkur að skoða.
Fitufordómar og afmennskun
Í þeim tilgangi skoðum við fitufordóma, viðvarandi neikvæð viðhorf til feits fólks sem stafa af sjúklegum ótta okkar við líkamsfitu. Við köfum ofan í fræðigreinina fitufræði eða fat studies. Þetta er fræðigrein sem skoðar félagslegan veruleika feits fólks með allt öðrum og gagnrýnni augum en við erum vön. Þar gerum við ýmsar sláandi uppgötvanir.
Til dæmis að fitufordómar eru dæmi um kerfisbundna mismunun eins og rasismi, kynja- og aldursfordómar. Þetta þýðir að þessa tegund fordóma má finna í öllum kerfum og öllum lögum samfélagsins og að þeir fylgja feitum líkömum allt frá vöggu til grafar (12, 13). Að í gegnum samfélaglega orðræðu og uppeldi höfum við verið skilyrt til að líta fyrst á líkama feits fólks á undan persónu þeirra og dæma það sem latt, gráðugt og heimskt. Þetta er ómeðvitað ferli sem við lærum snemma, alveg niður í 3 ára (14). Frá barnsaldri lítum við því á feitt fólk sem siðferðislega óæðri, sem svo að það verðskuldi síður virðingu en fólk sem er ekki feitt. Í nútíma samfélagi hefur feitt fólk verið afmennskað (15,16). Umræða um að það sé kostnaðarsöm heilsufarsleg byrði á samfélaginu frá því í kringum aldamót hefur bara aukið við þessa afmennskun (17, 18)
Við uppgötvum allskonar ný hugtök tengd fordómum og jaðarsetningu eins jaðarstreitu (minority stress) og jaðartráma (oppression trauma). Við sækjum í gagnabanka sem fræðasamfélagið hefur verið að byggja undanfarinn áratug um hvernig langvarandi streita og áföll hafa áhrif á heilsufar og lífslíkur fólks (19). Og lesum okkur til um það hvernig streita leysir úr læðingi streituhormón á borð við kortisól og adrenalín og um það hvernig þessi efni brjóta niður ónæmis- og efnaskiptakerfi okkar ef þau eru í kerfinu til langs tíma eins og þegar við búum við jaðarsetningu og mismunun. Smám saman auka þessi ómeðvituðu streituviðbrögð líkamans líkur á aukinni bólgumyndun, háum blóðsykri, háum blóðþrýstingi, álagi á hjarta- og æðakerfið, langvinnum verkjum og kviðfitu (20, 21, 22). Þetta eru vel þekktar afleiðingar meðal annarra jaðarsettra hópa í samfélaginu (23, 24, 25).
Hér stöldrum við aðeins við. Allar þessar afleiðingar sem við vorum að telja upp eru taldar vera beinar afleiðingar offitu. Við höfum fengið skilaboð þess efnis alla okkar ævi. Nú blasir við okkur allt önnur mynd, sú að fitufordómar eiga stóran part í þessum afleiðingum. Hvernig má það vera? Við rifjum aftur upp hvernig umræðan einkennist af því að fylgni er túlkuð sem orsakasamband og þá smellur svarið. Bætum við dassi af fitufordómum og áðurnefndri staðfestingarskekkju þar sem við leitumst við að staðfesta og trúa því sem við teljum þegar vera rétt og það verður auðveldara að sjá hvernig við höfum komist á þennan stað.
Við höldum svo áfram rannsóknarvinnunni. Hefur verið rannsakað hvernig þessar líkamlegu afleiðingar fordóma og mismununar birtast hjá feitu fólki? Jú mikið rétt! Og tölurnar eru sláandi! Nýleg rannsókn sýndi fram á að reynsla af fitufordómum hafi forspárgildi og nái að útskýra nærri þriðjung af þróun lífstílssjúkdóma sem hafa hingað til verið útskýrðir með sjálfri líkamsfitunni (26). Fitufordómar eru þannig sjálfstæður áhættuþáttur fyrir ýmsum „lífsstíls”-sjúkdómum. Í heildina er talið að reynsla af fitufordómum auki líkur á snemmbærum dauða um 60% ein og sér (27). Fitufordómar hafa einnig neikvæð áhrif á heilsuvenjur og eru áhættuþáttur fyrir frekari þyngdaraukningu (28).
Þetta eru niðurstöður sem koma ekki á óvart miðað við fyrri uppgötvanir okkar. Fitufordómar eru bókstaflega lífshættulegir og við það bætist mismunun innan heilbrigðiskerfisins þar sem heilbrigðisstarfsfólk ver minni tíma með feitum sjúklingum, er ólíklegara til að framkvæma á þeim líkamlega skoðun og líklegra til að skella skuld alls heilsufarsvanda þeirra á þyngdina og þar með ekki veita þeim nauðsynlega heilbrigðisþjónustu (12). Sem leiðir svo til þess að feitt fólk forðast heilbrigðisþjónustu jafnvel þó hún sé þeim nauðsynleg (29,30,31), það fer frekar í megrun sem eykur þyngd þeirra enn frekar (32), sem eykur líkur á að það verði fyrir fitufordómum. Og allt eykur þetta líkur á verra heilsufari (33). Þvílíkur vítahringur sem við erum föst í!
Við áttum okkur á að núverandi nálgun að offitufaraldrinum þar sem offita er sjúkdómavædd sem orsakavaldur, á ekki við rök að styðjast og einkennist jafnframt af refsistefnu gagnvart feitu fólki. Þegar við einföldum orsakasambandið milli holdafars og verra heilsufars á þennan hátt og setjum fókusinn á holdafar fólks erum við að auka á jaðarsetningu feits fólks (17, 18). Við erum að auka við streituna, skömmina, fordómana og mismununina (33). Við erum að auka líkur á skaðlegum og endurteknum þyngdartapstilraunum (34). Við erum að gera samfélagið allt óvinveitt gagnvart stórum hópi fólks, að gefa þeim þau skilaboð að þau tilheyri ekki siðmenntuðu samfélagi og refsa þeim fyrir eitthvað sem þau bera bara enga ábyrgð á.
Þvert á móti er þessi heilsufarslegi vandi sem skapast hefur meðal feits fólks í grunninn samfélagslegur. Hann hefur orðið til vegna þeirrar útskúfun og refsistefnu sem við sem samfélag höfum viðhaft gagnvart feitu fólki í marga áratugi. Við höfum á kerfisbundinn hátt skert aðgengi og tækifæri feits fólks að námi, vinnu, heilbrigðisþjónustu og félagslífi í refsingarskyni fyrir líkama þeirra. Og við höfum gert vandann enn verri með því að gefa þessum hópi þau skilaboð að hann verði umfram allt að reyna að grennast sama hvað það kostar í því skyni að fá þetta aðgengi til baka. Þegar það var aldrei raunhæfur möguleiki til að byrja með og hafði gífurleg neikvæð áhrif á heilsu þeirra í þokkabót. Og þetta höfum við allt saman gert í nafni “umhyggju”.
Hér fallast okkur hendur. Okkur hefur, sem samfélagi, tekist að grafa okkur oní frekar djúpa holu. Með því að staldra aldrei við og endurmeta gagnreynda þekkingu með opnum hug, með því að vera föst í staðfestingarskekkjunni hefur okkur tekist að skapa samfélag þar sem feitt fólk á ekki sjéns. Og hvað við gerum við nú? Hvernig komumst við upp úr þessari holu, snúum þróuninni við?
Leiðin upp úr holunni
Við verðum bæði fegin og hissa að sjá hvað það liggur fyrir mikil gagnreynd þekking um einmitt þetta. Svarið liggur í nálgun sem er þyngdarhlutlaus, en ekki þyngdarmiðuð, eins og sú sem er ráðandi núna. Hún byggir á þeirri forsendu að við getum öll bætt heilsufar okkar óháð þyngd, svo lengi sem aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu er gott og svo lengi sem að feitt fólk verður ekki fyrir jaðarsetningu og útskúfun heldur fái leyfi og rými til að virða líkama sinn eins og hann er (3, 8, 35).
Hmmm…við fyrstu sýn virðist þetta vera frekar yfirborðskennd nálgun sem einkennist af sjálfsást og sjálfsvirðingu. Sem er gott og gilt í sjálfu sér, við eigum jú öll að hafa leyfi til elska okkur sjálf og líkama okkar. En hvað með heilsufar okkar?
Við lesum okkur lengra til og smátt saman rennur upp fyrir okkur það ljós að sjálfsást og sjálfsvirðing eru bara alls ekki yfirborðskennd fyrirbæri heldur hafa þau veruleg áhrif á andlegt, líkamlegt og félagslegt heilsufar okkar. Einstaklingar með gott sjálfstraust og jákvæða líkamsmynd eru mun líklegri til að tileinka sér góðar heilsuvenjur og koma betur fram við sjálfa sig og líkama sína.
Samanburðarrannsóknir á þyngdarhlutlausri nálgun að heilsufari og hefðbundnum þyngdarmiðuðum nálgunum undanfarna tvo áratugi sýna glögglega fram á þetta. Miðað við þyngdarmiðaðar nálganir leiðir sú þyngdarhlutlausa til meiri betrumbætingar á þáttum eins og blóðþrýstingi, blóðfitu, heilsuvenjum, sjálfsmynd og raskaðri áthegðun. Þátttakendur í þyngdarhlutlausum prógrömmum ná að viðhalda bættum heilsuvenjum og bættum heilsufarsgildum til lengri tíma og brottfall er mun minna. Það mikilvægasta er þó að þyngdarhlutlausa nálgunin leiðir ekki til neikvæðrar útkomu, ólíkt hinnar þyngdarmiðuðu sem leiðir frekar til þyngdaraukningar, verri sjálfsmyndar og óheilbrigðari matarvenja (3, 8, 35, 36). Þetta lofar góðu!
Samhliða því sjáum við að það er mikil þörf á að við sem samfélag förum í samstillt átak til að útrýma fitufordómum. Hér þurfa heilbrigðisyfirvöld að koma ákveðin að borðinu og teikna upp og framfylgja markvissum aðgerðum innan allra laga samfélagsins. Innan skólanna þarf að leggja áherslu á að fjölbreytni líkama beri að fagna en ekki lasta. Við þurfum að fara í átak til að koma í veg fyrir það einelti og ofbeldi sem feit börn verða fyrir innan skólakerfisins og hætta að setja ábyrgðina á eineltinu á herðar þeirra með því að senda þau í „lífstílsprógramm”. Við þurfum að upplýsa almenning um neikvæðar og hættulegar afleiðingar endurtekinna þyngdartapstilrauna og fitufordóma og veita fólki á sama tíma fræðslu um hvað beri raunverulega árangur þegar kemur að heilsuvenjum og heilsufarseflingu. Hér kemur heilbrigðisstarfsfólk sterkt inn. Við þurfum þannig að leggjast í mikið fræðsluátak innan heilbrigðiskerfisins og gera starfsfólki þess grein fyrir skaðanum sem núverandi nálgun veldur og veita þeim önnur verkfæri til að efla heilsufar skjólstæðinga sinna og sinna þar með lögbundnum skyldum sínum án þess að valda frekari skaða (1).
Núverandi staða tilefni til bjartsýni
Æ fleiri hafa lagt af stað í þetta líkamsvirðingarferðalag sem ég lýsi hér að ofan. Allt frá fræðafólki og heilbrigðisstarfsfólki til aktivista og einstaklinga sem þola ekki lengur við í vítahring megrunarmenningarinnar og vilja skaðaminni og gagnreyndari leið til heilsueflingar. Fræðilegur grundvöllur fyrir gagnsemi þyngdarhlutlausrar nálgunar hefur tekið stökk í vexti undanfarin ár og sérstaklega á því ári sem er að líða. Og smátt og smátt erum við farin að sjá skörð hoggin í gömlu heimsmyndina og nýja verða til.
Kerfisbundnar vitundarvakningar hafa verið farnar til að stemma stigu við þyngdarmiðuðu nálguninni, leiddar af virtu fræðafólki innan heilbrigðis- og næringargeirans, sem og aktivistum. Dæmi um slíkt er andsvar við fitufordómafullri herferð breska Krabbameinsfélagsins árið 2019 (37) og við þyngdarmiðuðum viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda víða um heim við tengslum holdafars og Covid-19 (38), en áhyggjur eru uppi um að þau hafi valdið meiri skaða en ella (39). Við erum farin að sjá skýrslur (40) og áköll (1) til yfirhalningar heilbrigðiskerfa heilu þjóðanna með það að markmiði að minnka skaða og beita gagnreyndari og þyngdarhlutlausum aðferðum. Ber þar hæst skýrsla Kvenna- og jafnréttisnefndar breska þingsins (41) sem stimplaði núverandi þyngdarmiðaða nálgun breska heilbrigðiskerfisins sem beinlínis hættulega og áréttaði að taka þyrfti upp þyngdarhlutlausa nálgun sem allra fyrst. Þetta er svipuð þróun og við höfum séð með tilliti til skaðaminnkandi nálgunar að öðrum samfélagslegum heilbrigðisvanda s.s. vímuefnanotkunar. Smám saman hriktir í undirstöðum hinnar gömlu heimsmyndar.
Hér heima erum við svo komin lengra en við gerum okkur flest grein fyrir. Þannig beitir Lýðheilsusvið Landlæknisembættisins þyngdarhlutlausum aðgerðum sbr. aðgerðaráætlun frá árinu 2013 (42):
Rannsóknir undanfarinna áratuga sýna að fitufordómar (anti-fat prejudice) og mismunun á grundvelli holdafars er algeng í vestrænum samfélögum og hafa íslenskar rannsóknir m.a. staðfesta að slík mismunun á sér stað í atvinnulífinu hér á landi. Við innleiðingu aðgerða þarf því að leggja áherslu á að þær stuðli allt í senn að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og vellíðan en verði ekki til þess að auka neikvæð viðhorf eða vanlíðan í tengslum við holdafar. Þvert á móti er mikilvægt að efla virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti í samfélaginu þar sem slæm líkamsímynd og fordómar vegna holdafars geta haft neikvæð áhrif á heilsutengda hegðun, heilbrigði og líðan. Því er ráðlagt að aðgerðir stjórnvalda felist í eflingu heilbrigðra lifnaðarhátta á breiðum samfélagslegum grundvelli án sérstakrar áherslu á offitu eða líkamsþyngd.
Í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks um offitu barna sem sýndur var nú í haust varð mikil umræða um réttmæti slíkrar umfjöllunar og mögulegs ávinning og skaða meðal almennings (43) og það er orðið alveg morgunljóst að hér á landi hefur hin nýja heimsmynd náð ágætri fótfestu. Það endurspeglaðist í orðum Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur, sviðsstjóra á lýðheilsusviði Landlæknisembættisins í Kastljósi (44) daginn eftir sýningu Kveiks þegar hún lagði áherslu á mikilvægi þess að horfa á vandann út frá heildstæðu sjónarmiði og að unnið yrði markvisst gegn fitufordómum í samfélaginu því að þeir væru í raun skaðlegri en kílóin. Þetta er jafnframt í takt við niðurstöður skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðherra í janúar 2021 um kynja- og jafnréttissjónarmið hvað varðar heilsu og heilbrigðisþjónustu (45).
Já, hjólin eru svo sannarlega farin að snúast í rétta átt. Þó er mikið verk óunnið innan heilbrigðiskerfisins og samfélagsins alls. Góðu fréttirnar eru að við höfum alla burði til að leysa það verkefni með glæsibrag. Og fyrsta skrefið í ferðalaginu fer fram innra með hverju einasta okkar. Við þurfum nefnilega öll að leggjast í sjálfsskoðun og virkilega skoða hvaðan viðhorf okkar til feits fólks koma og hvort að þau viðhorf endurspegli þau gildi sem við viljum tileinka okkur og fara eftir í daglegu lífi. Því að ekkert okkar vill valda öðrum skaða eða sársauka. Við viljum öll leiða líf okkar með kærleik og virðingu að leiðarljósi. Það er kominn tími til að sú virðing innifeli einnig líkamsvirðingu.
Höfundur félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu.
Heimildir:
- Ákall til heilbrigðisráðherra
- Sátt Íslendinga á aldrinum 18-79 ára við eigin líkamsþyngd
- Weight Science: Evaluating the Evidence for a Paradigm Shift | Nutrition Journal | Full Text
- Confronting the Failure of Behavioral and Dietary Treatments for Obesity
- The Association Between Rate of Initial Weight Loss and Long-Term Success in Obesity Treatment: Does Slow and Steady Win the Race?
- Medicare’s Search for Effective Obesity Treatments: Diets Are Not the Answer https://bit.ly/3l2Tcke
- Comparison of Weight-Loss Diets with Different Compositions of Fat, Protein, and Carbohydrates
- The Weight-Inclusive versus Weight-Normative Approach to Health: Evaluating the Evidence for Prioritizing Well-Being over Weight Loss
- Long-term Effects of Dieting: Is Weight Loss Related to Health? https://www.dishlab.org/pubs/2013%20Compass.pdf
- What’s Wrong With the ‘War on Obesity?https://journals.sagepub.com/doi/10.1177/2158244018772888
- Obesity treatment: Weight loss versus increasing fitness and physical activity for reducing health risks https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S2589004221009639?fbclid=IwAR0qTmVqLnc_q96OcxK1fV8ZIMwP7eTkFdImJYkkorUmvaNQZPXK7fxFfPw#sec3
- Obesity Stigma: Important Considerations for Public Health
- Sigrún Daníelsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson (2015). Fordómar á grundvelli holdafars í íslensku samfélagi. Reykjavík: Embætti landlæknis. https://bit.ly/38qP6gK
- Thin is good, fat is bad: How early does it begin?
- Blatant Dehumanization of People with Obesity - Kersbergen - 2019 - Obesity
- Weighing the stigma of weight: An fMRI study of neural reactivity to the pain of obese individuals
- https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0277953615302902?via%3Dihub
- https://www.nature.com/articles/ijo2015195.pdf
- https://www.ruv.is/frett/2021/01/24/afoll-og-streita-breyta-thvi-hvernig-likaminn-virkar
- Adrenocortical, autonomic, and inflammatory causes of the metabolic syndrome: nested case-control study
- The Relationship Between Psychological Risk Attributes and the Metabolic Syndrome in Healthy Women: Antecedent or Consequence?
- A Path Model of Chronic Stress, the Metabolic Syndrome, and... : Psychosomatic Medicine
- Discrimination and unfair treatment: relationship to cardiovascular reactivity among African American and European American women
- Effects of Social Stressors on Cardiovascular Reactivity in Black and White Women
- Relationships between perceived stress, coping behavior and cortisol secretion in women with high and low levels of internalized racism
- Perceived Weight Discrimination Mediates the Prospective Association Between Obesity and Physiological Dysregulation: Evidence From a Population-Based Cohort - Michael Daly, Angelina R. Sutin, Eric Robinson, 2019
- Weight Discrimination and Risk of Mortality
- Perceived Weight Discrimination and Obesity
- Weighing the care: physicians' reactions to the size of a patient
- Stigma in Practice: Barriers to Health for Fat Women
- Barriers to routine gynecological cancer screening for White and African-American obese women
- Attempting to lose weight: Specific practices among U.S. adults
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5253095/pdf/nihms-812637.pdf
- How and why weight stigma drives the obesity 'epidemic' and harms health
- (PDF) Recognizing the Fundamental Right to be Fat: A Weight-Inclusive Approach to Size Acceptance and Healing From Sizeism
- https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S2589004221009639?fbclid=IwAR0qTmVqLnc_q96OcxK1fV8ZIMwP7eTkFdImJYkkorUmvaNQZPXK7fxFfPw#sec3
- https://medium.com/@laura_86024/an-open-letter-to-cancer-research-uk-19ecaa71b263
- https://we4fatrights.eu/en/
- https://cmajnews.com/2021/06/25/covid-obesity-1095952/?utm_source=convertkit&utm_medium=email&utm_campaign=Bonus%3A+Are+Fat+Cells+Really+a+Covid+Risk+Factor%3F%20-%207192751
- http://www.bccdc.ca/pop-public-health/Documents/W2WBTechnicalReport_20130208FINAL.pdf
- https://committees.parliament.uk/committee/328/women-and-equalities-committee/news/153711/government-approach-to-negative-body-image-dangerous/
- https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit_2013/adgerdaraaetlun-til-ad-draga-ur-tidni-offitu.pdf
- https://www.visir.is/g/20212166195d/offita-og-skadaminnkun
- https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kastljos/30772/95ertg?fbclid=IwAR2p78DAF969DbgmOK73azIuBTdvOfuvKj5ugm61mdixMp8DCRpF4TDaa_I
- https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Heilsa-heilbr-kynja_FSS-leidrett.pdf