Í dag komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra, hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt þegar hún ákvað að reyna að hafa áhrif á lögreglurannsókn sem snéri að henni og aðstoðarmönnum hennar. Lögreglustjórinn hafði áður lýst því fyrir umboðsmanni að Hanna Birna hafði hamast á honum, með símtölum, fundarboðum og hótunum. Erfitt er að draga aðra ályktun en að tilefnið hefði verið að koma í veg fyrir að málið yrði fullrannsakað og myndi leiða til ákæru.
Hanna Birna lét ekki þar við sitja. Eftir að Stefán hafði upplýst umboðsmann um það sem hún hafði gert krafðist Hanna Birna, eða lögmaður á hennar vegum, skýringa á því sem hann greindi honum frá. Hanna Birna lét það ekki nægja að hella sér yfir Stefán vegna rannsóknarinnar, heldur hélt áfram að hamast í honum vegna þess að hann svaraði spurningum umboðsmanns Alþingis eftir bestu samvisku, líkt og lög gera ráð fyrir.
Eftir að Hanna Birna sagði af sér ráðherradómi virðist hún hafa gefist upp gagnvart því að reyna að klóra sig út úr því pólitíska sjálfskaparvíti sem hún var búin að skapa sér með síendurteknum lygum um eðli samskipta sinna við Stefán og viðurkenndi í bréfi sem sent var 8. janúar að hún hefði ekki átt að eiga í neinum samskiptum við hann. Hún hefur í kjölfarið beðið Stefán afsökunar á framgöngu sinni.
Dylgjur og dómar án réttarhalda?
Hanna Birna þarf að biðja ansi marga til viðbótar afsökunar. Einn þeirra er Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Á meðan að á athugun umboðsmanns stóð reyndi hún ítrekað að hafa áhrif á hana.
Eftir að umboðsmaður birti bréf sem hann hafði sent Hönnu Birnu opinberlega sendi hún frá sér yfirlýsingu. Þar sagði meðal annars: „Ég undrast þessi vinnubrögð umboðsmanns, ætla ekki að reyna að útskýra þau eða hafa á þeim aðra opinbera skoðun en þá að vera bæði hugsi og sorgmædd yfir því á hvaða stað ýmsar stofnanir landsins eru og hvernig þær geta ólíkt lýðræðislega kjörnum fulltrúum eða dómstólum sett fram eigin dylgjur og dóma án rökstuðnings eða réttarhalda. Ég tel einnig að öll atburðarásin í kringum þetta mál, sem manna á meðal er kallað lekamálið, hefði miklu frekar átt að gefa umboðsmanni tilefni til vangaveltna um stöðu og sjálfstæði lýðræðislega kjörinna einstaklinga gegn einstaka stofnunum í stjórnkerfinu – heldur en því að gera samskipti sem báðir aðilar hafa sagt fullkomlega eðlileg tortryggileg með einhliða skoðun“.
Þessi yfirlýsing eldist ekki vel í ljósi þess að síðan hún var send þá hefur Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu sem starfaði að öllu leyti í hennar umboði og á hennar ábyrgð, játað að hafa lekið minnisblaðinu um Tony Omos og verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir. Hún eldist heldur ekki vel í ljósi niðurstöðu umboðsmanns sem kunngjörð var í dag, enda hefur Hanna Birna nú viðurkennt að samskipti hennar við Stefán hafi verið galin.
Að reyna að láta reka blaðamenn
Hanna Birna mætti líka biðja blaðamennina sem hún reyndi að fá rekna af DV fyrir að segja sannar og nauðsynlegar fréttir af lekamálinu afsökunar. Hún mætti biðja þingmennina sem hún ákvað að skamma fyrir að spyrja út í málið á Alþingi afsökunar. Hún mætti biðja fjölmiðlamennina sem hún laug ítrekað að um eðli samskipta sinna við Stefán Eiríksson afsökunar.
Og hún ætti að biðja íslenskan almenning afsökunar. Afsökunar á því að hafa ítrekað reynt, með miklum þunga, að koma í veg fyrir að lekamálið yrði upplýst og að stofnanir ríkinsins ynnu vinnuna sína.
Snýst ekkert um pólitík
Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar virtust margir stjórnarþingmenn sem í nefndinni sitja ekki hafa mikinn áhuga á niðurstöðu umboðsmanns, heldur því hvernig athugun hans fór fram. Þessi afstaða kom skýrast fram hjá Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Hann fetti fingur út í að gögn hefðu verið birt á meðan að athugun hafi staðið yfir og að umboðsmaður hafi þar með verið að reka málið í fjölmiðlum. Líkt og umboðsmaður benti á í svari sínu við spurningum Karls þá er birting slíkra gagna undirorpin upplýsingaskyldu stjórnvalda. Almenningur og fjölmiðlar eiga beinlínis rétt á aðgangi að þeim samkvæmt upplýsingalögum.
Og umboðsmaður starfar í samræmi við lög. Hann má ekki víkja frá þeim lögum þótt andlag rannsóknar hans sé ráðherra. Ef vilji er til að breyta lögum þá er þingmaðurinn Karl Garðarsson, sem vinnur við að setja lög, í kjöraðstæðum til að gera það.
Og umboðsmaður starfar í samræmi við lög. Hann má ekki víkja frá þeim lögum þótt andlag rannsóknar hans sé ráðherra. Ef vilji er til að breyta lögum þá er þingmaðurinn Karl Garðarsson, sem vinnur við að setja lög, í kjöraðstæðum til að gera það. Hann, og ýmsir nefndarfélagar hans, virðast hins vegar hafa meiri áhyggjur af því hvernig upplýsingar um rannsókn birtast en af niðurstöðu rannsóknarinnar sjálfrar. Sú sýnir nefnilega að ráðherra í ríkisstjórn sem flokkur hans leiðir hefur sýnt af sér fordæmalausa valdníðslu.
Hönnu Birnu var tíðrætt um það undanfarna mánuði að lekamálið væri „ljótur pólitískur leikur“. Þar gaf hún í skyn að umfjöllunum, rannsókn á og eftirfylgni með lekamálinu og skítahalanum sem því fylgdi væru runnin undan rifjum einhverra óskilgreindra pólitískra andstæðinga. En fólk verður að fara að átta sig á því að þetta mál snýst ekki um vinstri eða hægri. Það snýst ekki um pólitík. Það snýst um misbeitingu á valdi. Allir þeir sem ætla að stilla málinu upp öðruvísi eru á villigötum.
Gerendur, ekki fórnarlömb
Í dag eru 14 mánuðir liðnir frá því að lekinn á minnisblaðinu um Tony Omos átti sér stað. Frá þeim tíma hefur fólk í valdastöðum, og aðstoðarmenn á þeirra ábyrgð, logið alveg ævintýralega mikið af þjóðinni sem það sækir umboð sitt til. Ótrúlegum tíma, orku, athygli og fjármunum hefur verið eytt í að staðfesta þessar lygar og koma upp um þá valdníðslu sem fólkið hefur reynt að beita til að fela slóð sína. Á því ber enginn ábyrgð nema Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum aðstoðarmenn hennar og aðrir valdamenn sem í krafti stöðu sinna hafa reynt að koma í veg fyrir að lekamálið og eftirköst þess yrðu að fullu upplýst.
Það verður að vera alveg skýrt í huga allra að Hanna Birna, fyrrum aðstoðarmenn hennar og allir þingmennirnir sem hafa fundið að umfjöllun um málið, frekar en því sem þetta fólk hefur gert, eru ekki fórnarlömb. Þau eru gerendur. Þau hafa reynt að nota vald sitt til að þagga niður í fjölmiðum. Til að hindra rannsóknir á lögbrotum. Til að koma í veg fyrir að umboðsmaður Alþingis sinni starfi sínu. Og þeim hefur mistekist.
Með lekamálinu hefur orðið viðsnúningur. Valdafólk sem sögulega hefur talið það vöggugjöf að geta barið niður aðhald fjölmiðla, eftirlitsstofnanir og framfylgd laga þegar það sjálft á í hlut hefur tapað.
Allir aðrir hafa unnið.