Má ekki bara sleppa þessu? Um verðlaunaafhendingar á skólaútskriftum

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, ​telur það óþarft að upphefja suma á kostnað annarra.

Auglýsing

Á síðustu dögum hefur sprottið upp umræða vegna verðlaunaafhendinga fyrir námsárangur á útskriftum í grunn- og framhaldsskólum hér á landi. Það sem ýtti umræðunni af stað var gagnrýni foreldra á slíkar verðlaunaafhendingar þar sem í ákveðnum tilvikum voru fleiri nemendur sem fengu verðlaun heldur en ekki, og sat því einungis minnihluti nemenda eftir án verðlauna. Þó dæmin sem komið hafa fram kunni að vera sérstök, þá eru þau ekki einsdæmi og eru margir framhaldsskólar landsins til að mynda farnir að verðlauna mjög stóra hópa útskriftarnemenda sinna. 

Og nú kunna sumir að segja; er ekki bara gott mál að verðlauna ungt fólk sem hefur staðið sig vel í námi, í því skyni að ýta undir metnað þess og veita því frekari hvatningu til að leggja sig fram í námi og því sem það kann að taka sér fyrir hendur í framtíðinni? Jú eflaust er mikið til í því. Þeir nemendur sem fá verðlaun á skólaútskriftum eru væntanlega stoltir og ánægðir með sín verðlaun, svo ekki sé talað um foreldra þeirra. En málið er ekki svo einfalt. Bandaríski félagsfræðingurinn Howard S. Becker, hefur haldið því fram að til þess að öðlast skilning á félagslegum fyrirbærum þá sé mikilvægt að skoða andstæður fyrirbærisins. Með öðrum orðum, til að skilja verðlaunaafhendingar fyrir námsárangur í skólum þá er ekki nóg að skoða einungis áhrif verðlauna á þá sem fengu verðlaun, heldur ekki síður á þá sem ekki fengu verðlaun. 

Verðlaun á vafasömum forsendum?

En byrjum á byrjuninni, fyrir hvað eru skólarnir að veita verðlaun? Í flestum tilvikum virðist vera verðlaunað fyrir námsárangur nemenda, sem nánar tiltekið er metinn í formi einkunna. Sú lenska hefur þannig viðtekist að þau börn og ungmenni sem fá hvað hæstar einkunnir fái líka sérstök verðlaun við skólaútskriftir. En þar sem nemendur standa ekki jafnfætis þegar kemur að námi þá má setja spurningarmerki við réttmæti slíkra verðlauna. 

Auglýsing
Við vitum, til að mynda, að nemendur sem glíma við einhvers konar raskanir, til dæmis vegna lesblindu eða athyglisbrests, eiga erfiðara með að ná tökum á náminu en aðrir nemendur. Við vitum einnig að nemendur sem eru bráðþroska (til að mynda þeir sem eru fæddir snemma á almanaksárinu) standa sig betur í námi en þeir sem eru seinni til að þroskast. Stelpur, sem þroskast gjarnan fyrr en strákar, standa sig oft betur í námi, og fá fleiri verðlaun í skólum en strákar. Við vitum jafnframt að nemendur sem búa að heppilegri félagsauð heima fyrir (og eiga til dæmis menntaða foreldra) standa sig betur í námi en þeir sem hafa ekki aðgang að slíkum félagsauði heima fyrir (eiga ekki menntaða foreldra) – stéttarstaða nemenda hefur því áhrif á árangur þeirra. Og svo vitum við að bóknám liggur misvel fyrir nemendum, þar sem sumir þurfa að hafa mikið fyrir því að læra og fá góðar einkunnir á meðan aðrir geta lært námsefnið án þess að þurfa að leggja sig sérstaklega mikið fram við það. 

Sumir nemendur eru því með fyrirframgefið forskot á aðra þegar kemur að námi og ná því kannski hærri einkunnum forskotsins vegna, frekar en vegna einhverra eftirsóknarverðra eiginleika sem þeir hafa tileinkað sér í sjálfu náminu. Á meðan sitja aðrir nemendur aftar í röðinni og þá mögulega vegna hindrana sem þeir fengu óverðskuldað í fangið. 

Nemendurnir sjálfir hafa litla sem enga stjórn á þeim þáttum sem taldir eru upp hér að ofan. En þrátt fyrir það þá er frammistaða þeirra að miklu leiti metin á útkomu sem byggir á ójafnri stöðu þeirra á þessum þáttum. Auðvitað hefur viðhorf, iðni og ástundun nemenda líka mikil áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Sú vinna sem nemendur leggja í námið er á ábyrgð nemendanna sjálfra, og er það væntanlega það atferli sem skólarnir vilja styrkja og verðlauna með þeim hætti sem nú er gert. 

En vandamálið er að það er næsta ómögulegt að sundurgreina að hve miklu leiti einkunnir hæstu nemendanna skýrast af utanaðkomandi forskoti þeirra á aðra nemendur, eða af natni þeirra við námið. Að sama skapi er næsta ómögulegt að sundurgreina að hve miklu leiti einkunnir þeirra nemenda sem lægri eru skýrast af utanaðkomandi hindrunum, samanborið við aðra nemendur, eða af skorti á natni þeirra við námið. 

Einkunnir eru ávöxtur erfiðisins hjá hverjum og einum. Fyrir nemanda sem hefur allt til alls er kannski ekkert gott að fá einkunn upp á 7,5, á meðan á 7,5 getur verið frábær einkunn fyrir nemanda sem glímir við einhverjar hindranir í náminu. Að mínu mati þá getur því verið vafasamt að verðlauna frammistöðu nemenda sérstaklega, út frá samanburði á einkunnum þeirra, ekki síst þegar um börn og ungmenni er að ræða.

Má ekki bara sleppa þessu?

Að þessu sögðu, mætti ekki bara láta af þessum verðlaunaafhendingum? Fyrir utan þær vafasömu forsendur sem liggja að baki slíkum verðlaunum (sem stiklað hefur verið á hér að ofan), þá eru aðrir þættir sem einnig má horfa til í þessu samhengi. Til dæmis má halda því fram að þeir nemendur sem fá hæstu einkunnirnar þurfi ekkert sérstaklega á þeirri ytri umbun að halda sem felst í bóka- og blómaviðurkenningum á tyllidögum. Því ytri umbunin sem öllu máli skiptir fyrir nemendur birtist auðvitað í formi þeirra einkunna sem þeir fá á einkunnaspjaldið sitt. Einkunnir þeirra nemenda sem hvað hæstar einkunnir hafa virka sem gjaldmiðill inn í framtíðina. Sterkar einkunnir veita þessum nemendum hvatningu og sjálfstraust, styrkja sjálfsmynd þeirra, sem og veita þeim aukið aðgengi að frekari menntun og inngöngu á vinnumarkað, umfram þá sem lægri einkunnir kunna að hafa. Umbun þeirra sem hæstar einkunnir hafa fyrir námsárangur sinn er því nóg fyrir. 

Enn fremur má nefna að þegar fleiri fá verðlaun fyrir námsárangur en færri, þá fara verðlaunin að virka öfugt á þá sem eftir sitja. Það má jafnvel líta á það sem opinbera smánun fyrir nemanda sem ekki fær verðlaun á slíkri hópverðlaunasamkomu þegar hann þarf að sitja í vitna viðurvist undir því þegar hver skólafélaginn á fætur öðrum fær viðurkenningu fyrir námsárangur, en ekki hann sjálfur. Undir slíkum kringumstæðum geta efasemdir um eigið ágæti farið að skjóta upp kollinum og haft slæm áhrif á sjálfsmynd þessa unga fólks sem eftir situr, og það á sjálfan útskriftardaginn þeirra. Hvað segir það um mig þegar flestir fá verðlaun en ekki ég? Er ég kannski eitthvað vitlaus? 

Það er merkur áfangi að útskrifast

Það er merkur áfangi fyrir alla nemendur að ná að útskrifast. Það er ekki síður frábær árangur, og kannski enn meiri árangur, fyrir nemenda sem er að kljást við athyglisbrest eða lesblindu, slæmar heimilisaðstæður nú eða einhvers konar persónuleg áföll að ná að útskrifast, þó með lága einkunn sé, en fyrir nemanda sem hefur allt til alls að útskrifast með háa einkunn. 

Helsti ávinningur náms ætti nefnilega ekki að vera einkunnaspjaldið, heldur er helsti ávinningur náms sú þekking, færni og víðsýni sem nemendur ná að tileinka sér með náminu. Þeir nemendur sem útskrifast hafa hver og einn bætt við sig þekkingu, aukið færni sína og víðsýni. Útskriftir ættu því að snúast um að fagna árangri alls fjöldans sem náði í mark, en ekki að hampa sístækkandi hópi útvalinna verðlaunahafa enn frekar á kostnað þeirra sem urðu aðeins aftar í einkunnakapphlaupinu, mögulega vegna þess að þeir þurftu að glíma við fleiri hindranir á leiðinni.

Ég efast ekki um að skólafólkið vilji öllum sínum nemendum vel, sem gerði það kannski að verkum að þessar verðlaunaafhendingar virðast hafa farið úr böndunum – þar sem sífellt fleiri nemendur eru verðlaunaðir sérstaklega. En þegar farið er að verðlauna mjög stóra hópa nemenda á skólaútskriftum – á vafasömum forsendum – þá geta slíkar fjölda verðlaunaafhendingar sent slæm skilaboð til þeirra nemenda sem eftir sitja, og jafnvel að ósekju. Því þegar við ákveðum að einhver eigi að fá verðlaun, þá erum við á sama tíma að ákveða að einhver annar eigi ekki að fá verðlaun.

Útskrift er merkisviðburður í lífi hvers einstaklings. Það er að mínu mati alger óþarfi að upphefja suma á kostnað annarra á slíkum stundum. Hvernig væri að gefa frekar öllum útskrifarnemum fallega og ilmandi rauða rós í tilefni þess góða árangurs að útskrifast úr skóla? Eða að segja eitthvað fallegt og uppbyggilegt um hvern og einn? Allir útskriftarnemendur eiga nefnilega viðurkenninguna skilið þó sigrar hvers og eins á þeirri leið hafi verið æði mismunandi.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar