Auglýsing

Á síðasta ári var mikil talað um að nota þær aðstæður sem skapast hafi vegna kórónuveirufaraldursins til að skapa einhverskonar endurbætt samfélag. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali skömmu eftir að faraldurinn skall á að við ættum að reyna „að koma út úr þessu saman með Ísland í uppfærslu 2.0.“ 

Hann endurtók þetta svo í eldhúsdagsumræðum í október í fyrra og sagði að það þyrfti að lita á stöðuna „sem tækifæri til að uppfæra Íslands. Tæknivæddara, skilvirkara, grænna, sanngjarnara og kraftmeira samfélag. Það verður Ísland, uppfærsla 2.0.“

Bjarni útskýrði þetta í viðtali við Kjarnann þannig að hann sæi mörg tækifæri til hagræðingar í opinbera geiranum, að þeim verkum í einkageiranum sem gengu ekki upp yrði hætt og að eggjunum í körfunni yrði fjölgað. Til viðbótar hefur Bjarni beitt sér mjög fyrir aukinni stafrænni opinberri þjónustu, með eftirtektarverðum árangri. 

Ef þessi sýn er mátuð við helsta kosningamál Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2016, sem voru að standa gegn kerfisbreytingum og nýrri stjórnarskrá, er ljóst að Bjarni er alls ekki þeirrar skoðunar að hér sé þörf á nýju stýrikerfi, heldur uppfærslu á kerfum samfélagsgerðarinnar og efnahagslífsins sem flokkur hans hefur meira og minna smíðað í gegnum áratugina. 

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn talar um stöðugleika þá er það nákvæmlega þetta sem hann á við, að kerfin hans verði látin í friði. 

Það sem er að

En hvaða kerfi eru þetta? 

Í fyrsta lagi er um að ræða sjávarútvegskerfið. Allar kannanir, um árabil, sýna að um það ríkir mikið ósætti. Á meðan hefur púkinn spikfitnað á fjósbitanum og notað þann ævintýralega auð sem þjóðarauðlindin hefur fært honum til að herða ítök sín á öðrum sviðum samfélagsins. Til er orðin ofurstétt, valdaelíta sem þrífst á gráa svæðinu milli atvinnulífs og stjórnmála og hefur sankað að sér völdum og áhrifum sem færa má góð rök fyrir að séu lýðræðislega hættuleg. Kerfin verja tilvist þessarar ofurstéttar. 

Auglýsing
Vel borgaðir og áhrifarikir hagsmunaverðir benda ítrekað á að kerfið sé sjálfbært, það sé hið eina í heiminum sem sé ekki niðurgreitt með ríkisstyrkjum og að það skipti svo miklu máli efnahagslega fyrir þjóðarbúið að ekki megi hrófla við neinu.

Ef farið er í gegnum þessi rök þá má benda á að Hafrannsóknarstofnun leggur nú til að næstum 20 prósent samdrátt á veiðum á þorski á tveimur fiskveiðiárum meðal annars vegna þess að „stofnstærðin hefur verið ofmetin á undanförnum árum.“ Það var engin loðna veidd hér 2019 og 2020 og við tökum virkan þátt í að veiða miklu meira af makríl en ráðgjöf mælir með. Eitthvað virðist hafa farið verulega úrskeiðis í sjálfbærniverndinni. 

Það að halda því fram að kerfi þar sem aflaheimildir eru gefnar í upphafi án endurgjalds njóti ekki neinna ríkisstyrkja er svo einfaldlega hlægilegt. Miðað við síðustu gerðu viðskipti með kvóta þá er virði aflaheimildana 1.200 milljarðar króna

Þeir sem selja sig út úr þessu kerfi fara þaðan með ótrúlegar fjárhæðir. Það sást til að mynda nýverið þegar undir 30 prósent hlutur í Síldarvinnslunni var seldur á næstum 30 milljarða króna. Ofan á þetta hefur þessi hópur í næstum aldarfjórðung getað veðsett þessa þjóðareign í bönkum til að fá hundruð milljarða króna í lán til að kaupa upp samkeppnisaðila og breiða úr sér inn í aðra geira.

Fiskur verður enn veiddur og unninn og því hæfileikaríka fólki sem starfar innan sjávarútvegs mun áfram geta unnið að framþróun, virðisaukningu og annarri sókn fyrir sjávarfang með tilheyrandi verðmætasköpun fyrir efnahagskerfið í heild þrátt fyrir að eigandi auðlindarinnar fái réttlátari rentu fyrir afnot af henni. Mikilvægi greinarinnar fyrir þjóðarbúið verður því enn óbreytt, og geta hennar til fjárfestingar líka, þótt handfylli manna og afkomendur þeirra taki ekki til sín tugi milljarða króna til að breiða úr sér annars staðar, og utan sjávarútvegsgeirans.

Það sem er hægt að gera

Það er hægt að ná sátt í þessum málaflokki með ýmsum hætti. Til að byrja með má tryggja að aflaheimildir verði afturkallaðar á ákveðnu tímabili og þeim endurúthlutað gegn gjaldi. Samhliða væri hægt að skerpa verulega á regluverki þannig að fólk sem sannarlega er tengt sé skilgreint þannig í lögum. Ekkert af þessu var gert á yfirstandandi kjörtímabili þrátt fyrir vilyrði þar um.

Næst væri hægt að skikka öll sjávarútvegsfyrirtæki sem halda á t.d. meira en fimm prósent afla á skráðan hlutabréfamarkað þannig að lífeyrissjóðir, í eigu almennings, geta komið að eignarhaldi þeirra. 

Til að koma í veg fyrir þá gölnu auðsöfnun sem fylgir útgöngu manna sem hafa komist yfir kvóta væri svo hægt að leggja á sérstakan, og helst háan, útgönguskatt á viðskipti með félög sem halda á aflaheimildum. 

Ný framfærslukerfi

Í öðru lagi er um að ræða kerfin sem halda fólki í fátækrargildrum. Það þarf að færa skattbyrði frá þeim sem sligast undan henni, og í meira mæli yfir til þeirra sem geta borið hana.

Til að mæta því fordæmalausa atvinnuleysi sem við stöndum frammi fyrir, langvinni jaðarsetningu erlendra ríkisborgara, öryrkja, hluta lífeyrisþegar og annarra lágtekjuhópa og þeim áskorunum sem fylgja sjálfvirknivæðingu fjórðu iðnbyltingarinnar, þarf að laga flókin og óréttlát framfærslukerfi. 

Ísland er ríkt land með mikið af náttúruauðlindum og ógrynni möguleika. Það þarf að fara að líta á ofangreint fólk, sem eru tugþúsundir manns, sem tækifæri, ekki byrði. 

Það þarf einfaldlega að skilgreina fólk sem innviði og fjárfesta verulega í að gefa því betri tækifæri til að lukkast í lífinu, jafnvel þótt það sé með aðeins öðruvísi áferð, áhugasvið og takt en þeir sem stjórna flestu í þessu landi. Á sama hátt og það er talið skila sér margfalt til baka til lengri tíma að leggja vegi, grafa göng, byggja brýr og draga ljósleiðara inn á hvert heimili þá mun frekari fjárfesting í fólki gera slíkt hið sama. 

Það þarf að einfalda framfærslukerfi, afnema skerðingar, hækka grunnframfærslu og innleiða frekari hvata til virkni. Þetta má kallast hvað sem er. Borgaralaun. Útgreiðanlegur persónuafsláttur. Íslandskaup. Það skiptir ekki máli. Lykilatriðið er að vinda ofan af kerfum sem festa fólk í fátækt, sviptir það tækifærum og er með innbyggða neikvæða hvata sem letja fólk til virkni. 

Markmið fram yfir leiðir

Í þriðja lagi er um að ræða breytingar á stjórnarskrá. Í dag er við lýði einhvers konar gaslýsing um að algjör þverpólitísk samstaða þurfi að ríkja til að hægt sé að breyta stjórnarskrá. Samkvæmt því hefur hver og einn neitunarvald yfir þeim. Út úr því kófi verðum við að komast.

Það er meirihluti hjá þjóðinni og á meðal kjörinna fulltrúa fyrir því að ráðast í nauðsynlegar breytingar á því plaggi sem myndar undirstöðuna í íslenskri samfélagsgerð. Þessir hópar verða að hætta að takast á innbyrðis um leiðir og koma sér saman um sameiginleg markmið. 

Þau gætu verið eftirfarandi: 

Að í stjórnarskrá verði sett auðlindaákvæði sem segir til um að íslensk þjóð eigi auðlindir landsins og að þeim sé einungis úthlutað til notenda tímabundið gegn réttu gjaldi. 

Að í stjórnarskrá sé kveðið á um að öll atkvæði í þingkosningum gildi jafnt og að landið verði eitt kjördæmi.

Að í stjórnarskrá sé ákvæði sem heimili lýðræðislega kjörnum fulltrúum okkar að framselja vald til að geta tekið fullan þátt í alþjóðasamstarfi, sé fyrir því meirihluti.

Auglýsing
Að í stjórnarskrá sé ákvæði um umhverfisvernd.

Að breytingar á stjórnarskrá séu samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu og að ákveðið hátt hlutfall þjóðarinnar geti skotið málum í þjóðaratkvæði að fyrirfram skilgreindum forsendum uppfylltum. 

Þetta eru stóru markmiðin. Miklu fleiri eru hlynntir því að þau verði grundvöllur að stjórnarskrárbreytingum en þeir sem vilja engar breytingar. Það þarf að hætta að láta kreddur ráða för í málinu og finna brúklega lausn sem skilar árangri innan ásættanlegs tíma. Annars vinna þeir sem vilja engar breytingar áfram alla slagi, og beita sérkennilega neitunarvaldinu sem breytingaþyrst fólk færir þeim, þrátt fyrir að einungis rétt um þriðjungur þjóðarinnar styðji þá flokka.

Eignabóla er ekki það sama og efnahagsframfarir

Í fjórða lagi þarf að marka einhverja skýra stefnu um hvernig umgjörð fjármálakerfisins hérlendis á að vera. Borin von virðist að erlendir bankar kaupi í íslenskum. 

Síðast tók fimm ár að breyta einkavæddu fjármálakerfi í vítísvél. Næsta, og mikilvægasta, skrefið í sölu á Íslandsbanka verður tekið eftir komandi kosningar. Hvert það verður ræðst af því hverjir stýra landinu. Afar mikilvægt er að það skref verði stigið á þjóðhagslegum forsendum, ekki forsendum fjármagnseigenda og fjármálakerfisstarfsmanna í leit að frekari þóknanatekjum.

Það á ekki að koma neinum á óvart að mikil þátttaka hafi verið í nýafstöðnu hlutafjárútboði Íslandsbanka. Hlutabréfin voru hræódýr og verðlögð langt undir eigin fé bankans, aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins hafa ýtt sparnaði út af innlánsreikningum og yfir í áhættusamari ávöxtun og ódýrir peningar flæða um hinn vestræna heim vegna hamlausrar peningaprentunar. Það má þó ekki rugla saman eignabólu og efnahagsframförum. 

Enn standa eftir sömu áhyggjur og upphaflega þegar ráðist var í sölu á banka að kröfu eins stjórnarflokks. Um þær má lesa hér.

Lyftið lokinu

Samhliða þarf að gera upp þá endurútdeilingu gæða sem átti sér stað eftir síðasta efnahagsáfall, og hefur að uppistöðu farið fram á bakvið luktar dyr. Sú endurútdeiling myndar nefnilega grunninn að stöðu þeirra sem ráða mestu í íslensku atvinnulífi í dag. Þeir fengu margir hverjir aðgengi að tækifærum og brunaútsölum á eignum í gegnum kunningsskap eða hagsmunagæslu sem öðrum stóð ekki til boða. 

Það þarf að skipa rannsóknarnefnd Alþingis sem fær það hlutverk að lyfta lokinu af starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands (um 500 milljarða króna eignir sem voru seldar eða þeim ráðstafað), Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands (yfir 200 milljarðar króna sem ferjaðir voru til landsins með afslætti), starfsemi Lindarhvols (sem kom um 460 milljarða króna virði af stöðugleikaframlögum í verð á skömmum tima) og starfsemi slitastjórna föllnu bankanna (sem seldu ógrynni eigna til hinna og þessa en hafa ekki talið sig þurfa með nokkrum hætti að gera grein fyrir þeirri ráðstöfun gagnvart öðrum en kröfuhöfum þrátt fyrir að þær hafi leitt af sér miklar samfélagslegar afleiðingar). 

Slíkt rannsóknarskýrsla á endurútdeilingu gæðanna gæti farið langt með að græða það svöðusár vantrausts sem er til staðar í íslensku samfélagi vegna eftirmála bankahrunsins. Kannski yrði niðurstaðan sú að allt var gert með réttum hætti. Og því ættu allir sem að málunum komu að fagna. Kannski yrði niðurstaðan önnur. Og þá þarf að takast á við hana. 

Ekki festast í kreddum

Í fimmta lagi þarf að móta skýra stefnu varðandi heilbrigðismál á Íslandi til framtíðar. Þessi málaflokkur var sá sem flestir kjósendur töldu þann mikilvægasta fyrir kosningarnar 2016 og 2017. Birtingarmynd þess var meðal annars stærsta undirskriftasöfnun í sögu landsins, þar sem 85 þúsund manns kröfðust endurreisnar heilbrigðiskerfisins. Nú, fimm árum síðar, er staðan sú að neyðarástand ríkir á mörgum deildum Landspítalans, meðal annars bráðamóttöku, vegna álags og manneklu. Geðheilbrigðismál eru enn í ógöngum og biðlistar eftir viðunandi þjónustu innan þess málaflokks eru með öllu óboðlegir í samfélagi sem kennir sig við velferð.

Flest hjúkrunarheimili glíma við mikinn rekstrarvanda og pláss á þeim eru ekki nægilega mörg, með tilheyrandi viðbótarálag á spítalann sem verður þá að halda inni öldruðum sjúklingum l lengri tíma en nauðsynlegt þykir. 

Ofan á allt þetta er íslenska þjóðin að eldast hratt og á næstu þremur áratugum mun þeim landsmönnum sem eru yfir 65 ára gamlir fara úr því að vera sjöundi hver íbúi landsins í að vera fjórði hver. 

Auglýsing
Hingað til hefur verið brugðist við þessu ástandi með plástrun og umræðan snýst aðallega um hvaða rekstrarform eigi að vera á heilbrigðisþjónustu, ekki hvernig fjármunir nýtist best til að veita sem mesta og áhrifaríkasta þjónustu. Kreddur eru allsráðandi. 

Það ættu að vera mikil tækifæri fyrir hugaða stjórnmálamenn að móta skýra stefnu í heilbrigðismálum og leggja hana fram sem valkost við þær kreddur. 

Einfaldara Ísland

Í sjötta lagi þarf að einfalda stjórnsýslu. Fækka þarf sveitarfélögum hratt til að þau ráði við að sinna þeirri þjónustu sem þeim er falið og samhliða á að færa meiri þjónustu í nærsamfélagið. 

Það þarf að auka skilvirkni opinberrar þjónustu. Það felur einfaldlega í sér að þeir fjármunir sem við setjum í hana séu betur nýttir. Að minna sé sóað í óþarfa og meira sé nýtt í að bæta þjónustu við íbúa landsins, hvort sem um sé að ræða úr hendi ríkis eða sveitarfélaga. 

Í þessu getur falist frekari sameining stofnana, skilvirkari þjónustusamningar, skynsamlegri innkaup og aukið rafrænt þjónustuframboð.

Þetta skilar einfaldara og skilvirkara Íslandi.

Það þarf nýtt stýrikerfi

Í fyrra var greint frá því að iPhone 5, snjallsími sem kom á markað árið 2013, myndi ekki lengur ráða við nýjar uppfærslur. Framfarir í tækni og auknar kröfur neytenda gerðu það að verkum að það þarf nýrri útgáfu af símanum til þess.

Á sama hátt þarf ný stýrikerfi í íslenskt samfélag. Það sem er til staðar er úrelt og þjónar ekki þörfum þorra þjóðarinnar. 

Það sem stendur í vegi fyrir þessu er sundurlyndi þeirra stjórnmálamanna sem þó vilja þessar breytingar. Þeir eru flestir miklir eftirbátar varðmanna gildandi kerfis þegar kemur að stjórnmálalegri kænsku. Árangur í stjórnmálum ræðst nefnilega ekki af því hversu margir segjast vera fylgjandi stefnumálum í skoðanakönnunum. Þá væri íslenskt samfélag allt öðruvísi en raun ber vitni. Þeir sem hafa náð mestum árangri í stjórnmálum á Íslandi á undanförnum árum eru stjórnmálamenn sem ná að halda völdum þrátt fyrir sífellt minna fylgi og miklar persónulegar óvinsældir. Að vera fulltrúar mikils minnihluta þjóðarinnar en leggja samt sem áður nær allar línur um innan hvaða marka hún eigi að lifa og starfa. Í nafni stöðugleika. 

Það vita líka stjórnmálaleiðtogar eins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Í aðdraganda kosninga árið 2016 útilokaði hún stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn á nákvæmlega þessum forsendum. Í samtali við Kjarnann sagði hún: „Hann stimplaði sig frá samstarfi við stjórnarandstöðuna þegar hann lýsti því yfir að hann muni berjast gegn öllum kerfisbreytingum.“ Ári síðar hafði henni snúist hugur. Og síðan hefur engu kerfi verið breytt. Í nafni stöðugleika.

Þess vegna byggjum við enn á kerfum sem leiða af sér sífellt meiri misskiptingu auðs, tækifæra, lífsgæða og valds. Kerfa sem eru að stóru leyti ástæðan fyrir tortryggninni og sundurlyndinu sem er í íslensku samfélagi. Kórónuveirufaraldurinn hefur ýkt þessa misskiptingu til muna, enda sumir sem hagnast verulega á honum og eignabólunni sem hann skapaði, á meðan að tug þúsundir manna munu dragast enn frekar aftur úr í lífsgæðakapphlaupinu. Í nafni stöðugleika.

Það er hægt að kjósa um þessi kerfi í haust. Áhugavert verður að sjá hvort hinir eilífu taparar íslensku stjórnmála, sem annað hvort ná aldrei inn í ríkisstjórnir eða fara þangað á forsendum þeirra sem hafa alltaf ráðið, takist loks að finna leið til þess að komast til valda án þess að gefa eftir öll sín helstu grundvallarmál.

Og að loksins takist að innleiða íslenskt stýrikerfi sem virkar fyrir meirihluta almennings, en ekki aðallega fyrir þrönga sérhagsmunahópa. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari