Allt frá því að Sólveig Anna Jónsdóttir bauð sig fram og sigraði í formannskjöri verkalýðsfélagsins Eflingar hefur hún mátt fyrir sitja undir svo ótrúlegum óhróðri og ærumeiðingum að annað eins hefur varla sést hérlendis í áratugi.
Á henni hafa dunið svívirðilegar ásakanir um alls konar glæpi sem hún á að hafa framið gegn starfsfólki á skrifstofunni sem er eign Eflingarfélaga. Fremst í flokki óhróðursmeistaranna voru fyrrverandi stjórnendur sem áttu greiðan aðgang að fjölmiðlum og hafa notfært sér óspart frá því skömmu eftir að hún tók við embætti. Í byrjun október 2018 þegar Sólveig hafði verið innan við hálft ár í starfi var blásið af fullum krafti í herlúðrana með langri „fréttaskýringu“ í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: „Óvinveitt yfirtaka á Eflingu? - Starfsmenn til áratuga sendir í veikindaleyfi - Vildu ekki greiða út háar fúlgur úr sjóðum Eflingar án stjórnarsamþykktar - Formaður og framkvæmdastjóri létu nýlega til skarar skríða.“
Á forsíðu blaðsins mátti lesa að Sólveig væri „sögð stjórna með ofríki og hótunum“ ásamt því að fara ólöglega með fjármuni félagsins. Þótt nafnlausum ásökunum væri svarað var búið að leggja línurnar og eftirleikurinn auðveldur; orðin festast og orðin meiða. Jarðvegurinn fyrir áframhaldandi óhróður hefur verið plægður. Fyrrverandi stjórnendur njóta liðsinnis Láru V. Júlíusdóttur sem ítrekað lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að réttindi hefðu verið brotin á þeim og að mál yrðu höfðuð gegn félaginu og formanninum Sólveigu. Það má velta fyrir sér hversu siðlegt það er að lögmaður sæki að fólki í fjölmiðlum vitandi vits að ekki sé grundvöllur til málshöfðunar – enda hefur mál ekki verið höfðað – en það verður ekki umfjöllunarefnið hér, heldur skýrslugerð og fréttaflutningur sem núverandi framkvæmdastjóri og formaður félagsins standa fyrir þar sem mjög gróflega er vegið að æru Sólveigar Önnu.
Formanns- og stjórnarkosningar verða í Eflingu 9.-15. febrúar og er Sólveig Anna í framboði. Daginn sem frestur til að skila framboðsgögnum til félagsins rann út fengu fjölmiðlar sendar upplýsingar um að kostnaður „vegna starfsmannamála í stjórnartíð Sólveigar Önnu“ hafi verið nálægt 130 milljónum króna. Einn stjórnarmaður – sem einnig er í framboði til formennsku í félaginu – hafði beðið um og fengið úttekt á þessum kostnaði. Óskum annarra stjórnarmanna sem ítrekað hafa beðið um að fá gögnin í hendur var synjað þar til síðla dags 4.febrúar.
Sólveig Anna og nánasti samstarfsmaður hennar hafa ekki fengið að sjá þessi gögn og voru ekki beðin um skýringar við vinnslu þeirra, en gera má ráð fyrir að inni í þessum tölum séu m.a. laun á uppsagnarfresti formannsins sem lét af störfum þegar Sólveig tók við, auk annarra stjórnenda sem hurfu frá störfum fyrir félagið af ýmsum orsökum, stundum í kjölfar langra veikindaleyfa. Í samhengi við rekstur félagsins er upphæðin smámunir en sé eitthvað athugavert við greiðslurnar er Sólveigu gert ómögulegt að skýra þær eða verja sig á neinn hátt því hún fær ekki sjá gögnin sem fjölmiðlar og einn stjórnarmaður hefur undir höndum. Svo mikið kapp er lagt á að mála hana og störf hennar sem dekkstum litum að lágmarks siðferðileg réttindi til andmæla eru ekki virt.
Það er auðvitað ómögulegt að verjast illa skilgreindum og nafnlausum ásökunum, þau sem setja þær fram vita það og nýta sér. T.d. má velta fyrir sér hvort trúnaðarmaður starfsfólks á skrifstofu Eflingar gerist sek um að misnota vernd sem trúnaðarmenn njóta með því að setja fram ásakanir um að Sólveig stundi kjarasamningsbrot, ógnarstjórn og að hún sé með „aftökulista“ og að koma þessum ásökunum í dreifingu en neita að standa fyrir máli sínu með dæmum eða rökum. Ein alvarlegasta aðförin að mannorði hennar og persónu kemur þó fram í vinnslu og birtingu upplýsinga úr skýrslu sem stjórnendur félagsins fólu sálfræðistofunni Lífi og sál að gera á vinnustaðamenningu á skrifstofu félagsins og Efling kynnti fyrir fjölmiðlum 3. febrúar.
Vinna við úttektina mun hafa hafist í nóvember. Þegar Sólveig fékk fregnir af því seint í desember að Líf og sál spyrði starfsfólk skrifstofu ýmissa spurninga um hana, persónuleika hennar og starfshætti, sendi hún póst til þess starfsmanns sem bar ábyrgð á úttektinni með afriti til formanns og gerði athugasemd við að hún væri viðfangsefni könnunar án þess að hafa fengið um það tilkynningu né tækifæri til að tjá sig um sína reynslu. Svar starfsmannsins var að ekki væri spurt út í einstaka starfsmenn, Sólveig væri ekki viðfangsefni og ekki boðið í viðtal þar sem hún starfaði ekki á skrifstofunni. Snemma dags 3. febrúar kemur Efling hins vegar efni um skýrsluna til fjölmiðla þar greinilegt er að Sólveig og samstarfsmaður hennar eru aðalumfjöllunarefni.
Framkvæmdastjóri Eflingar sagðist í viðtali sama dag og skýrslan var birt völdum aðilum „aldrei hafa séð vinnustaðagreiningu þar sem tekin eru viðtöl við fólk sem ekki starfi á þeim vinnustað sem greiningin snýr að.“ Í frétt Stundarinnar sama dag segir hins vegar að skýrslan byggi „á viðtölum sem tekin voru við núverandi og einhverja fyrrverandi starfsmenn á skrifstofu Eflingar. Viðtölin fóru fram í nóvember, desember og janúar og sumir fengu fleiri en eitt viðtal hjá skýrsluhöfundum til að lýsa aðstæðum á vinnustaðnum.“
Kjarninn greinir frá því að í fréttatilkynningu frá Eflingu segi „meðal annars frá því að sálfræðingar á vegum Lífs og sálar telji „töluvert áhyggjuefni hve starfsmönnum var tíðrætt um kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti af hálfu framkvæmdarstjóra [svo], að því er virðist í skjóli formanns“. Í frétt Vísis er sagt að starfsfólki hafi orðið tíðrætt um „kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti“ samstarfsmanns hennar, að kvartað hafi verið yfir honum til Sólveigar en hún „brugðist illa og óljóst við kvörtunum.“ Allir helstu fréttamiðlar landsins voru allan þann dag og hafa síðan verið að fjalla um þau tvö sem ofbeldisfólk og er engu til sparað, sbr. feitletruð millifyrirsögn í frétt á vef Ríkisútvarpsins „Áreitni, ofbeldi og einelti í skjóli formanns“
Enn hefur Sólveig Anna ekki fengið að sjá skýrsluna né það efni sem sent var fjölmiðlum. Henni var ekki gerð grein fyrir að til stæði að gera opinberar niðurstöður skýrslu þar sem hún væri til rannsóknar og hefur algjörlega verið svipt tækifærum til að bregðast við mjög alvarlegum og nafnlausum ásökunum. Um siðferðisvitund þeirra sem þannig fara fram þarf ekki að fjölyrða.
Framkoma Eflingar er auðvitað forkastanleg en alls ekki síður sálfræðistofunnar Lífs og sálar sem gerir úttektina án þess að leita á nokkurn hátt eftir áliti þeirra sem eru til umfjöllunar, afla gagna sem hefðu getað varpað ljósi á sögu og stöðu mála né yfirhöfuð tilkynna þeim að þau séu viðfangsefni úttektarinnar. Þá hefði Lífi og sál mátt vera ljóst að niðurstöður úttektarinnar gætu verið til þess fallnar að hafa áhrif á úrslit kosninga í einu stærsta verkalýðsfélagi landsins, sem hlýtur að gera auknar kröfur til vandaðra og siðlegra vinnubragða. Spyrja má hvort skeytingarleysi um þessa þætti, hvort sem það stafar af ásetningi eða einfeldni, feli í sér brot á siðareglum sálfræðinga.
Sólveig Anna þarf að búa við endalausan straum af nafnlausum árásum og aðdróttunum um glæpsamlega hegðun, almenna mannvonsku og persónuleikabresti; hinnar sönnu sakir hennar eru þó þær einar að hafa tekið að sér að veita kjarabaráttu láglaunafólks forystu og vera öflugur talsmaður þeirra sem lifa frá einni launagreiðslu til annarrar. Þau sem verkalýðshreyfingin hafði ekki ávarpað í áratugi - og voru aldrei annað en lágar tölur í excel-skjali sérfræðinganna sem semja hverjir við aðra - hafa í sínu farsæla samstarfi við Sólveigu ekki aðeins fengið raunverulegar og miklar kjarabætur heldur rödd sem heyrðist og skilaði hagsmunamálum stritandi almennings inn í umræðuna. Ásamt gleðinni yfir sigrum sem unnust í verkföllum og við samningaborð, og von um áframhaldandi baráttu og sigra, og jafnvel á endanum virðingu. Þetta félagsfólk Eflingar í láglaunastörfum – raunverulegir eigendur skrifstofunnar – er einskis spurt um reynslu sína af samstarfi við Sólveigu.
Sú hneykslun sem krafan um virðingu fyrir láglaunafólki sannarlega vekur er áhugaverð. Það er líka áhugavert en þó fyrst og fremst óhugnanlegt að sjá þá óbeisluðu heift sem frá upphafi hefur verið beint að konunni sem tók að sér að rjúfa þögnina um óbærileg kjör láglaunafólks á Íslandi. Það er greinilega til mikils að vinna fyrir þau sem hagnast á hinni grimmilegu aðför að mannorði og starfsheiðri Sólveigar Önnu að losna við hana úr forystusæti í samninganefndum láglaunafólks. Með síendurteknum árásum vonast andstæðingar hennar til að beygja hana í duftið og þagga niður í öflugasta talsmanni þeirra sem búa við kröppustu kjörin. Það mun þeim ekki takast.
Höfundur er með meistarapróf í stjórnsýslu menningarminja frá University of York og er systir Sólveigar Önnu Jónsdóttur.