Því miður, góðir landsmenn, þá verða þeir verst settu í okkar samfélagi enn og aftur að herða sultarólina í boði ríkisstjórnarinnar. Þeirra tími kom ekki á árinu 2022. Af 3% hækkun í sumar og 6% hækkun frá ríkisstjórninni nú um áramótin í almannatryggingakerfinu má þakka fyrir að 2–3% skili sér í vasa þeirra verst settu, en 6–7% renna í gegnumstreymiskerfi almannatrygginganna beint aftur í ríkissjóð og kjaragliðnunin eykst. Jú, þau hækka stolt greiðslurnar, en á þann veg að eftir skatta og skerðingar og keðjuverkandi skerðingar skila þær nær engu í vasa þeirra verst settu.
Hvað segir þetta okkur? Jú, að ríkisstjórnin er vísvitandi og viljandi enn og aftur að reyna að villa um fyrir eldri borgurum og veiku fólki sem fast er í bútasaumuðum skerðingarvef almannatrygginga og kjaragliðnunar undanfarinna ára. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að nær allar hækkanir í almannatryggingakerfinu renni í gegnum vasa þeirra verst settu og aftur í ríkissjóð er að hætta að skatta fátækt, hvað þá sárafátækt.
Á sama tíma borga þeir sem njóta arðgreiðslna upp á milljarða króna bara 22% skatt, engar skerðingar hjá þeim eins og hjá þeim verst settu í almannatryggingakerfinu. Staðreyndin er sú að 100.000 kr. í lífeyrissjóði, umfram 25.000 krónur frítekjumark, skilar sér í mesta lagi sem 25.000 krónur í vasa þeirra. Á sama tíma er fjármagnseigandi með arðgreiðslur að halda eftir 78.000 krónum af hverjum 100.000 krónum sínum. Þarna munar 53.000 krónum þeim ríka í hag. Þetta er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi og eignaupptaka á lífeyrissjóðum þeirra sem fastir eru í bútasaumuðum vef almannatrygginga.
Flokkur fólksins var á móti því að tilgreind séreign upp á 3,5% yrði hluti af lífeyriskerfinu og þar með hluti af skerðingarvef almannatrygginga. Við vildum að hún yrði séreign launamannsins og ekki skert og hann gæti ávaxtað hana þar sem honum þóknaðist.
Þeir ríku að verða ríkari og þeir fátæku verða fátækari í boði ríkisstjórnarinnar. En á sama tíma erum við með fólk sem þarf að hýrast í bílum sínum eða í hjólhýsum í Laugardalnum. Fyrir kosningar fyrir ekki svo löngu síðan lofaði fjármálaráðherra því hreint út að hann myndi leiðrétta skerðingar eldri borgara frá 2009. Hefur verið staðið við það? Nei. Ef við horfum til ellilífeyrisþega er lægsti ellilífeyrir 286.619 kr. fyrir skatt, heimilisuppbót 72.427 kr. og orlofs- og jólabónus 104.929 krónur fyrir skerðingar.
Af hverju í ósköpunum erum við með orlof og jólabónus inni á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins og segjum ekki frá því að hann er ekki fyrir alla? Það er stór hópur sem fær ekki krónu í jólabónus vegna þess að þeir borguðu í lög þvingaðan og eignavarinn lífeyrissjóð. Ekki bara refsað einu sinni fyrir að borga í lífeyrissjóð, heldur margföld refsing og keðjuverkandi skerðingar sem skila engu í vasa fólksins.
Um jólin eru glæpasögur vinsælar en ein glæpasaga, þ.e. glæpasagan endalausa, hefur ekki enn verið skrifuð að fullu, því það er enn verið að skrifa hana. Upphaf hennar var við staðgreiðslu launa árið 1988 en þá voru lífeyrislaun Tryggingastofnunar ríkisins skattlaus og afgangur af persónuafslætti upp í lífeyrissjóðslaun.
Þá fljótlega hófst fjárhagslegt ofbeldi gagnvart þeim sem höfðu safnað í lög þvingaðan eignarupptökuvarinn lífeyrissjóð. Láglaunafólk með 400.000 kr. á mánuði við starfslok mátti þakka fyrir að fá rétt rúmar 200.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóði.
Þetta þótti síðar meir hinn versti glæpur og það varð að refsa þessu fólki með skerðingu á lífeyri frá TR. Glæpurinn var sá að fara að lögum og borga í lífeyrissjóð og því ætti þetta aldraða fólk ekki rétt á fullum lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins . En auðvitað varð einnig að refsa þessu fólki margfalt og upp reikna greiðslu þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins með vísitölu brellum en ekki launavísitölu eins og lög mæla fyrir.
Með því var hægt að hafa af þeim að núvirði um og yfir 100.000 kr. á mánuði eftir skatta. En auðvitað varð að sýna þeim smávægð og greiða öldruðu fólki, sem hafði byggt upp okkar ríka land, smáumbun í formi jólabónuss og orlofs.
En þeim sem höfðu brotið svo gróflega af sér að fara að lögum og borga í lífeyrissjóð varð að refsa, fyrir þann glæp og því varð að skerða orlofið og jólabónusinn gróflega og af stórum hópi varð að taka hann allan því að það hafði safnað allt of miklu í lífeyrissjóð. Svo var auðvitað útvalið aldrað fólk í opinberum störfum sem fékk sín laun að fullu greidd við starfslok og það óskert til dauðadags.
Aldrað fólk fékk ekki krónu frá þessari ríkisstjórn í Covid. Aldrað fólk fær ekki krónu skatta- og skerðingarlaust fyrir jólin, aldrað fólk framdi þann glæp að vera ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna í ósköpunum greiðum við ekki þeim konum, því þetta eru aðallega konur, sem hafa eingöngu ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins 60.000 kr. skatta- og skerðingarlausan jólabónus?
Kostnaður við húsnæði er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldna á Íslandi og margar búa við óviðunandi, þröngar, heilsuspillandi aðstæður, húsnæðisskort og jafnvel í ósamþykktu húsnæði. Við þessu þarf að bregðast strax.
Barnafjölskyldur og einstæðir öryrkjar á Íslandi eru sérstaklega viðkvæmir fyrir fátækt og félagslegri einangrun og þá einnig fjölskyldur með fötluð börn, fjölskyldur þar sem annað foreldrið er á örorkubótum og hitt á lágmarkslaunum og þá einnig börn í fjölskyldum sem búa við mjög erfiðar félagslegar aðstæður.
Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að 360 millj. kr. yrði varið til þess að hjálpa 6.000 eldri borgurum svo þeir fengju nú 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust núna um jólin. Þetta er lægri upphæð en er verið að hækka til Ríkisútvarpsins og er sennilega nálægt því að vera helmingi lægri upphæð heldur en það sem er lagt til að borga til svokallaðra frjálsra fjölmiðla..
Við vorum búin að skera niður tillöguna um eldra borgara niður í 2.000, sem hefði gert 120 milljónir, en það var ekki hægt að samþykkja það. Síðan fundust allt í einu 100 milljónir sem er hægt að setja í sjónvarpsstöð úti á landi sem útgerðarmenn eiga sem vaða í peningum og vita ekki aura sinna tal. Svo fundust 150 milljónir í skúffu til Kvikmyndasjóðs Á sama tíma eru einstaklingar með 240.000 kr. útborgað að flýja húsnæði sitt sem þeir hafa ekki efni á að leigja lengur og eru komnir í hjólhýsagarð í Laugardalnum.
Það er ekki nóg að viðkomandi sé refsað fyrir það að eiga ekki fjármuni til að standa undir leiguhúsnæðinu heldur á að refsa líka fyrir það að hún fari í hjólhýsagarð í Laugardalnum því þá fær hún ekki húsnæðisuppbót. Það þarf tvöfalda refsingu fyrir það að reyna að bjarga sér.
Heimilin
Í verðbólgunni sem nú geisar hefur ríkisstjórnin tekið sér stöðu gegn heimilunum í landinu, gegn almenningi, en með fjármálakerfinu og róið á gamalkunn mið með fjármálafyrirtækjunum og hjálpað þeim að græða sem aldrei fyrr.
Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í baráttu við verðbólguna einkennast af því að hún lætur eins og hún sé algerlega valdalaus í málinu, að Seðlabankinn sé bara að sinna skyldum sínum við heimilin með því að hækka stýrivexti og verja þau þannig fyrir verðbólgunni. Þessar aðgerðir gegn verðbólgunni eru miklu verri en verðbólgan sjálf. Það er staðreynd að vextir á Íslandi hafa hækkað um 340% á einu ári og 633% frá því að þau voru lægst í maí 2021.
Til vitnis um fáránleikann má vitna í könnun ASÍ og Íslandsbanka frá því í júní, en þá höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 82.000 kr. á mánuði. Þá hefur greiðslubyrði af 40 milljónir kr. óverðtryggðu láni hækkað um 100.000 kr. á mánuði úr 200.000 í 300.000 kr. á mánuði og þá er eftir síðasta hækkun Seðlabankans upp á um 30.000 kr. í viðbót.
Í öðru lagi er það staðreynd að vaxtahækkanir bitna verst á þeim sem skulda og hafa minnst milli handanna. Í þriðja lagi alveg á hreinu að vaxtalækkanir skila sér beint í leiguverð og bitna verst á þeim þjóðfélagshópum sem verst standa, og þar með öryrkjum og öldruðum. Sjálfstæðisflokkurinn talar um skattalækkanir en á sama tíma er verið að skatta og skerða tap á sparnaðarreikningum í bankakerfinu á meðan þeir sem njóta arðgreiðslna borga bara 22% skatt og borga ekki 1 kr. í útsvar.
Vinstri græn taka þátt í þessari mismunun og eru varla græn þegar þau samþykkja að mengunarkvóti gangi kaupum og sölum þannig að skráð er á okkur kjarnorkumengun og kolabrennsla. Hvað er þá annað til ráða en að kalla bara á Framsókn, því að þeir samþykkja þetta allt saman og meira til?
Börn
20. nóvember er mannréttindadagur barna og það eru 32 ár síðan barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Vegna barnasáttmálans hafa orðið víðtækar breytingar á viðhorfum til barna og farið að líta á börn sem fullgilda einstaklinga með full réttindi sem ber að virða og vernda með öllum tiltækum leiðum.
Á Íslandi eru 10.000 börn sem lifa í eða við fátækt, jafnvel fjöldi þeirra í sárafátækt. Þetta er ríkisstjórninni til háborinnar skammar og einnig það að láta þetta viðgangast svo áratugum skiptir. Við erum einnig með þúsundir barna á biðlista eftir lífsnauðsynlegri þjónustu í heilbrigðiskerfinu, látum þau grotna niður á biðlistum árum saman þannig að þau flosna upp úr skólakerfi og í mörgum tilfellum fara á örorku, festast í fátækt þar og í félagslegu kerfi sveitarfélaganna.
Fátækar barnafjölskyldna á Íslandi lenda í félagslegri einangrun og þar standa einstæðir foreldrar verst og þá einnig fjölskyldur með lágar tekjur. Fjölskyldur með fötluð börn eru með þeim verst settu og þá einnig oft félagslega einangraðar á örorkubótum og búa þar af leiðandi við mjög erfiðar félagslegar aðstæður.
Börn í fátækt eru mun líklegri til að búa áfram í fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fá á engan hátt sömu tækifæri og önnur börn. Ójöfnuður fátæktar er að flytjast á milli kynslóða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Að láta barn að alast upp við sárafátækt er skýlaust brot á mannréttindum þess og getur skaðað það fyrir lífstíð. Stjórnvöldum hvers tíma ber að koma í veg fyrir fátækt barna og fjölskyldna þeirra. Mannréttindi barna á alltaf að vera í fyrirrúmi og eitt barn í fátækt er einu barni of mikið.
Heilbrigðiskerfið
Heilbrigðiskerfið er komið að þolmörkum. Fregnir af fólki sem sent er heim þótt það sé fót- eða handleggsbrotið og látið þjást þar í hljóði og dæmum um það virðist frekar vera að fjölga en hitt. Það er einn hvað að heilbrigðiskerfi sem ekki ræður við að sinna beinbrotum. Að sendir brotið fólk heim til sín vegna þess að ekki er hægt að sinna því er fáránlegt og ríkisstjórninni til háborinnar skammar.
Það er ekki nema von að geðheilbrigðismál séu í algjöru lamasessi þegar sárin sem þó blasa við eru meðhöndluð með þessum hætti og þá lengjast og lengjast biðlistar eftir aðgerðum og hafa í sumum tilfellum meira en tvöfaldast í boði ríkisstjórnarinnar.
Enn er ósamið við sjúkraþjálfara og sérgreinalækna og kostnaði vegna þessa velt yfir á veikt og slasað fólk. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga eru líka verulegt áhyggjuefni en það er ekkert skrýtið miðað við álagið og lýsingarnar á starfsaðstöðu þeirra að þeir gefist upp. Fólkið lætur ekki bjóða sér hvað sem er út í hið óendanlega.
Að lokum
Að óttast lífið og tilveruna á ekki að líðast í okkar samfélagi. Að kvíða fyrir því að eiga ekki fyrir mat handa sér og börnum sínum er ömurlegt og á ekki að líðast í okkar ríka samfélagi. Þá eiga börn ekki heldur að óttast að mæta í skóla eða frístundir vegna fátæktar.
Okkur ber skylda til að koma öllum þessum málum í lag og það strax og því hefur Flokkur fólksins lagt fram frumvarp á Alþingi að enginn fái minna en 400.000 krónur á mánuði skatta og skerðinga laust og þegar það nær í gegn þá vonandi eigum við öll góðar stundir og gleðilegt nýtt ár.
Höfundur er þingflokksformaður og varaformaður Flokks fólksins.